Brennu-Njáls saga
95. kafli

Maður er nefndur Flosi. Hann var sonur Þórðar Freysgoða, Össurarsonar, Ásbjarnarsonar, Heyjangurs-Bjarnarsonar, Helgasonar, Bjarnarsonar bunu. Móðir Flosa var Ingunn dóttir Þóris af Espihóli, Hámundarsonar heljarskinns, Hjörssonar, Hálfssonar konungs er réð fyrir Hálfsrekkum, Hjörleifssonar hins kvensama. Móðir Þóris var Ingunn dóttir Helga hins magra er nam Eyjafjörð. Flosi átti Steinvöru dóttur Halls af Síðu. Hún var laungetin og hét Salvör móðir hennar, dóttir Herjólfs hins hvíta.

Flosi bjó að Svínafelli og var höfðingi mikill. Hann var mikill vexti og styrkur, manna kappsamastur.

Bróðir hans hét Starkaður. Hann var eigi sammæðra við Flosa. Móðir Starkaðar var Þraslaug dóttir Þorsteins tittlings Geirleifssonar en móðir Þraslaugar var Unnur dóttir Eyvindar karfa landnámamanns og systir Móðólfs hins spaka. Bræður Flosa voru þeir Þorgeir og Steinn, Kolbeinn og Egill.

Hildigunnur hét dóttir Starkaðar bróður Flosa. Hún var skörungur mikill og kvenna fríðust sýnum. Hún var svo hög að fár konur voru jafn hagar. Hún var allra kvenna grimmust og skaphörðust en drengur góður þar sem vel skyldi vera.