Brennu-Njáls saga
98. kafli


Maður hét Lýtingur. Hann bjó á Sámsstöðum. Hann átti þá konu er Steinvör hét. Hún var Sigfúsdóttir, systir Þráins. Lýtingur var mikill maður vexti og styrkur og auðigur að fé, illur viðureignar.

Það var einu hverju sinni að Lýtingur hafði boð inni á Sámsstöðum. Hann hafði þangað boðið Höskuldi Hvítanesgoða og Sigfússonum. Þeir komu þar allir. Þar var og Grani Gunnarsson og Gunnar Lambason og Lambi Sigurðarson.

Höskuldur Njálsson átti bú í Holti og móðir hans og reið hann jafnan til bús síns frá Bergþórshvoli og lá leið hans um garð á Sámsstöðum. Höskuldur átti son er Ámundi hét. Hann hafði blindur verið borinn. Hann var þó mikill vexti og öflugur.

Lýtingur átti bræður tvo. Hét annar Hallsteinn en annar Hallgrímur. Þeir voru hinir mestu óeirðarmenn og voru þeir jafnan með Lýtingi bróður sínum því að aðrir menn komu ekki skapi við þá.

Lýtingur var úti löngum um daginn en stundum gekk hann inn. Hann gekk til sætis síns. Þá kom kona inn er úti hafði verið.

Hún mælti: „Of fjarri voruð þér úti að sjá er oflátinn reið um garð.“

„Hver ofláti var sá,“ segir Lýtingur, „er þú segir frá?“

„Höskuldur Njálsson reið hér um garð,“ segir hún.

Lýtingur mælti: „Oft ríður hann hér um garð og er mér eigi skapraunarlaust og býðst eg til þess Höskuldur mágur að fara með þér ef þú vilt hefna föður þíns og drepa Höskuld Njálsson.“

„Það vil eg eigi,“ segir Höskuldur, „og launa eg þá verr en vera skyldi Njáli fóstra mínum og þrífst þú aldrei fyrir heimboð“ og spratt upp undan borðinu og lét taka hesta sína og reið heim.

Lýtingur mælti þá til Grana Gunnarssonar: „Þú varst hjá er Þráinn var veginn og mun þér það minnisamt og svo þú Gunnar Lambason og þú Lambi Sigurðarson. Vil eg nú að vér ráðum að Höskuldi Njálssyni og drepum hann í kveld er hann ríður heim.“

„Nei,“ segir Grani, „ekki mun eg fara að Njálssonum og rjúfa sætt þá er góðir menn gerðu.“

Slíkum orðum mælti hver þeirra og svo Sigfússynir og tóku það ráð allir að ríða í braut.

Þá mælti Lýtingur er þeir voru í brautu: „Það vita allir menn að eg hefi við engum bótum tekið eftir Þráin mág minn. Skal eg og aldrei una því að engi komi mannhefnd eftir hann.“

Síðan kvaddi hann til ferðar með sér bræður sína tvo og húskarla þrjá. Þeir fóru á leið fyrir Höskuld og sátu fyrir honum norður frá garði í gróf nokkurri og biðu þar til þess er var miður aftan. Þá reið Höskuldur að þeim. Þeir spretta þá upp allir með vopnum og sækja að honum. Höskuldur varðist svo vel að þeir fá lengi eigi sóttan hann. En þar kom um síðir að hann særði Lýting á hendi en drap heimamenn hans tvo og féll síðan. Þeir særðu Höskuld sextán sárum en eigi hjuggu þeir höfuð af honum. Þeir fóru í skógana fyrir austan Rangá og fálu sig þar.

Þetta kveld hið sama hafði smalamaður Hróðnýjar fundið Höskuld dauðan og fór heim og sagði Hróðnýju víg sonar síns.

Hún mælti: „Ekki mun hann dauður vera eða var af höfuðið?“

„Eigi var það,“ segir hann.

„Vita mun eg ef eg sé,“ segir hún, „og tak þú hest minn og akfæri.“

Hann gerði svo og bjó um með öllu og síðan fóru þau þangað sem Höskuldur lá.

Hún leit á sárin og mælti: „Svo er sem mig varði að hann mundi ekki dauður með öllu og mun Njáll græða stærri sár.“

Síðan tóku þau og lögðu hann í vagarnar og óku til Bergþórshvols og báru þar inn í sauðahús og láta hann sitja upp við vegginn. Síðan gengu þau heim bæði og drápu á dyr og gekk húskarl einn til dyra. Hún snarar þegar inn hjá honum og fer þar til er hún kemur að hvílu Njáls. Hún spurði hvort Njáll vekti. Hann kveðst sofið hafa þar til „en nú er eg vaknaður. Eða hví ert þú hér komin svo snemma?“

Hróðný mælti: „Statt þú upp úr binginum frá elju minni og gakk út með mér og svo hún og synir þínir.“

Þau stóðu upp og gengu út.

Skarphéðinn mælti: „Tökum vér vopn vor og höfum með oss.“

Njáll lagði ekki til þess og hljópu þeir inn og gengu útvopnaðir. Fer Hróðný fyrir til þess er þau koma að sauðahúsinu.

Hún gengur inn og bað þau ganga eftir.

Hún vatt upp skriðljósi og mælti: „Hér er nú, Njáll, Höskuldur son þinn og hefir fengið á sér sár mörg og mun hann nú þurfa lækningar.“

Njáll mælti: „Dauðamörk sé eg á honum en engi lífsmörk eða hví hefir þú eigi veitt honum nábjargir er opnar eru nasarnar?“

„Það ætlaði eg Skarphéðni,“ segir hún.

Skarphéðinn gekk að og veitti honum nábjargir.

Skarphéðinn mælti þá við föður sinn: „Hver segir þú að hann hafi vegið?“

Njáll svarar: „Lýtingur af Sámsstöðum mun hafa vegið hann og bræður hans.“

Hróðný mælti: „Þér fel eg á hendi Skarphéðinn að hefna bróður þíns og vænti eg að þér muni vel fara þó að hann sé eigi skilgetinn og þú munir mest eftir ganga.“

Bergþóra mælti: „Undarlega er yður farið er þér vegið víg þau er yður rekur lítið til en meltið slíkt og sjóðið fyrir yður svo að ekki verður af og mun hér koma skjótt Höskuldur Hvítanesgoði og biðja yður sætta og munuð þér veita honum það og er nú til að ráða ef þér viljið.“

Skarphéðinn mælti: „Eggjar móðir vor oss nú lögeggjan.“

Síðan hljópu þeir út allir. Hróðný gekk með Njáli og var þar um nóttina.