Drykkjuspil eða Hýr gleður hug minn er gamalt vikivakakvæði og mögulegt danskvæði eftir séra Ólaf Jónsson (um 1560-1627) frá Söndum í Dýrafirði. Íslenskt þjóðlag hefur varðveist við kvæðið og er það að finna í Íslenskum þjóðlögum Bjarna Þorsteinssonar og á vefslóð Ísmúss.


HÝR GLEÐUR hug minn
hásumartíð;
skæran lofi skaparann sinn
öll skepnan blíð;
skín yfir oss hans miskunnin;
hýr gleður hug minn.


1. Gleður mig enn sá góði bjór,
guði sé þökk og lof;
þó mín sé drykkjan megn og stór
og mjög við of,
mun þó ei reiðast drottinn vór.
Hýr gleður hug minn.


2. Mjög leikur nú við manninn ört
hið mæta drottins lán
en þó með því illt sé gjört
og aukin smán,
af því magnast syndin svört.
Hýr gleður hug minn.


3. Vond ofdrykkjan veldur oft,
að vináttan forgár öll,
sundurþykkja er senn á lop
og sárleg föll;
sumum fer það heldur gróft.
Hýr gleður hug minn.


4. En þegar dánumenn drekka vel,
sem drjúgum oft hefir skeð,
þá vex af ölinu vináttuþel
og virðing með
veizlu góða ég svoddan tel.
Hýr gleður hug minn.


5. Gott er að drekka það góða öl,
gleður það mannsins líf,
meðan að enginn bruggar böl
né byrjar kíf
og bróðurleg elska ei líður kvöl.
Hýr gleður hug minn.


6. Getir þú einnig grundað,
að gá um þitt vit og starf,
svo hæfur sértu í hverjum stað
sem helst við þarf,
háð mun þá enginn draga þér að.
Hýr gleður hug minn.


7. Vorri náttúru vér skulum þó
vægja mest sem má
því skynsemin verður skilningssljó,
og skeikar þá,
ef skortur er henni á hvíld og ró.
Hýr gleður hug minn.


8. Hver og ein skepnan hefur á vakt,
hlýðin lifa sem ber;
en mátans höfum minnsta akt
vér mennirner;
mest hefur guð þó til vor lagt.
Hýr gleður hug minn.


9. Maður góður, minnzt ávallt,
mátinn bestur er;
með gætni þigg þú guðs lán allt,
og gá að þér,
því gegndarlausum er hjólið valt.
Hýr gleður hug minn.


10. Vort er vitið vissulega dýrt,
vin minn, gá þar að;
lifnaði mínum ég lítt fæ stýrt,
ef læt ég það,
löngum þó það verði rýrt.
Hýr gleður hug minn.


11. Ljót ofdrykkjan löngum plagar
að leiða eptir sig illt;
hætt freistingin hjartað nagar,
ef hug fær spillt;
harla margur yfir því klagar.
Hýr gleður hug minn.


12. Þessi synd og saurugt grey
mig sigrar á margan veg;
veit ég henni að verjast ei,
þótt vildi ég
það við ég læra fyr en ég dey.
Hýr gleður hug minn.


13. Þennan dikt fyrir Drykkjuspil
drótt til gamans ég kveð;
settum mönnum ég syng hann til
og siðugum með,
í selskap þeim ég drekka vil.
Hýr gleður hug minn.


14. Get ég ei annað gjald á borð
gefið, þeim veita mér,
en lífleg kvæði og lagleg orð,
sem ljúfum ber,
ef líka þau manni og hringaskorð.
Hýr gleður hug minn.


Hýr gleður hug minn
hásumartíð;
skæran lofi skaparann sinn
öll skepnan blíð;
skín yfir oss hans miskunnin;
hýr gleður hug minn.