Einræður Starkaðar

eftir Einar Benediktsson


I

— — —
Mig dreymir um eina alveldissál,
um anda, sem gjörir steina að brauði.
Minn hlátur er sorg. Við skrum og við skál
í skotsilfri bruðla ég hjarta míns auði.
Mungátin sjálf, hún ber moldarkeim.
Var mælt hér eitt orð, sem ei fyrr var kunnað?
— Ég leita mig dauðan um lifenda heim
að ljósi þess hvarms, sem ég get unnað


Þitt hjarta bar frið. Það var heilög örk.
Þín hönd var svöl, og mín kné sig beygja.
Fótsár af ævinnar eyðimörk
einn unaðsblett fann ég — til þess að deyja.
Volduga, mjúkhenta líkn míns lífs,
hve ljúft var í skaut þitt ennið að hneigja.
Mín sál á ei málið, — en varir míns vífs,
vilja þær orð mér til frelsis segja?


Ég batt þér minn fegursta söngvasveig,
en samt var það dýrast, sem aldrei var talað.
Ég drakk hjá þér heimsins himnesku veig, —
en hugar míns þorsta varð aldrei svalað.
Með jarðarbarnsins harma ég hneig
að hjarta þínu og lét mig dreyma.
Mín ófædda von, sem þú unnir var feig.
Hvar á okkar skammlífa sæla heima?


Hvíti faðmur, — var hjarta mitt kalt?
Því hljóðnaði ástanna nafn mér á vörum?
— Dýpi míns brjósts veit ég aldrei allt;
efi og þótti býr í þess svörum.
Drottning míns anda, dís við mitt borð,
— dauðaþögull ég tæmdi þess skálar.
Á jörð eða himinn þá hvorugt eitt orð,
sem hæfir þrá og tryggð minnar sálar?


II


Á hjartað sitt eiginn áfellisrétt,
er andinn bær að rengja sig sjálfan?
Nei. Lífið á vé. Þar skal leita að frétt.
Ljósmynd vors hugar þarf skuggann hálfan.
Með efa og grun er stofnað vort stríð.
Í stundlegri trú er þess sigur og friður.
Sjálfdæmi á engin ævi né tíð.
Í eilífð sín leikslok á maður og siður.


Skálin er véfrétt. Vínið á svar
frá veröld, sem falin er bak við orðin.
Andinn er logi eða skar,
eins og skipuð og reidd eru borðin.
Snauður og auðugur eiga þar jafnt, —
því aldrei tæmist himneski forðinn.
— Hve stundin er hröð og heimslífið skammt,
himinninn mikill — og lítil storðin!


En örlætið glatar frændsemd og fylgd.
Fagna skal hóglega kynni og vinum.
Svo stopult er margt í venzlum og vild,
— vinnirðu einn, þá týnirðu hinum.
Hugsirðu djúpt, sé mund þín mild
og mælist þér bezt, verða aðrir hljóðir. —
Öfund og bróðerni eru skyld;
— ótti er virðingar faðir og móðir.


Ég kættist með fáum og mærði menn,
sem múgadómi sig trauðla háðu, —
leiður við einmæli allra senn;
oft átti mitt lof sá, er fæstir dáðu.
Ég mat ekki ljóðglapans lága hnjóð,
sem laklega hermdi, hvað aðrir kváðu,
— né þrælafylgið við fjöldans slóð
í forgönguspor, sem þeir níðandi kváðu.


En fullið er tæmt, — heyrið feigðarsvan.
Fastar og nær koma vængjablökin.
Ástin er dauð. Sjáum man eftir man
á moldarsvæflunum hallast á bökin.
Synduga hönd, — þú varst sigrandi sterk,
en sóaðir kröftum á smáu tökin; —
að skiljast við ævinnar æðsta verk
í annars hönd, það er dauðasökin.


III


Ljóst var af morgni og lifnað í grein.
Frá langri nótt gekk ég mannauð stræti.
Við torgið ég sá einn tötrasvein.
Ég tók upp verð, — hann brá að sér fæti.
Landhlaupi var hann og lá upp við stein.
Hann leit á mig snöggt. — Ég ber það í minni.
Einn geisli brauzt fram, og gullið skein,
gnótt í hans hönd en aska í minni.


Það smáa er stórt í harmanna heim, —
höpp og slys bera dularlíki, —
og aldrei er sama sinnið hjá tveim,
þótt sama glysi þeir báðir flíki. —
En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.


Eitt bros — getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúizt við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leynist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.


Ein hreyfing, eitt orð, — og á örskots stund
örlaga vorra grunn vér leggjum
á óvæntum, hverfulum farandfund,
við flím og kerskni, hjá hlustandi veggjum.
Hvað vitum vér menn? Eitt vermandi ljóð,
ein veig ber vort líf undir tæmdum dreggjum.
— Hvað vill sá sem ræður?
— — —
— — — Voldug og hljóð
reis verkmanna sól yfir múranna eggjum.


IV


Eyði og tómt er í afgrunns hyl,
þótt allt dragi þangað hinn rammi taumur.
Að ósi þar falla öll uppsprettu skil,
— en alltef er tíminn jafn snauður og naumur.
Hver ævi og saga, hvert alda bil
fer eina samleið sem hrapandi straumur.
— Eilífðin sjálf, hún er alein til.
Vor eiginn tími er villa og draumur.


Í hallarglaum var mitt hjarta fátt.
Hreysið kaus ég með rjáfrið lága.
Geðið ber ugg, þegar gengi er hátt.
Gleðin er heilust og dýpst við það smáa.
Með jarðneska kraftsins veig á vör —
úr visnandi hömdum ég skálinni fleygði.
Ég heyrði ljóð, — mitt líf var á för.
Ljósið handan við daginn ég eygði. — —


Enn brá ég upp kraftsins blikandi veig.
Þar böðust um lífið elli og galdur.
Ein hönd batt mér iðgrænan höfuðsveig;
í himni var svartur dánarfaldur.
— Skálin bar áratug í teyg.
Tæmd í dregg bar hún heilan aldur
— og dag af lífi hver dropi sem hneig.
Dauðinn sat hjá mér, blakkur og kaldur.


Í vitrun ég sá allt hið vélandi ráð —
með viljann, sem hikar, ef skín hans stjarna,
með gleði, sem andast, ef óskinni er náð,
með augun á hisminu, blind á hvern kjarna.
— Er ævistund hver ekki harmaspil
í heimi, þar guð lætur tímann líða?
Á nokkur sá himinn hamingju til,
sem hrærir brjóstin í vonum og kvíða?


— — —


Dagur míns heims varð helsvört nótt. —
Hann hvarf eins og stjarnan í morgunbjarma.
Guðsdyrnar opnuðust hart og hljótt.
Hirðsveinar konungsins réttu út arma.
Fjördrykkinn eilífðar fast ég drakk;
þá féll mín ásýnd á jörð eins og gríma.
Heiðingjasálin steypti stakk. —
Ég steig fyrir dómara allra tíma.