Gamli sáttmáli
Gissurarsáttmáli (sem var kallaður Gamli sáttmáli eftir endurskoðun 1306) var gerður milli Íslendinga og Hákonar gamla Noregskonungs (og Magnúsar lagabætis) og staðfestur á Alþingi 1262/1264. Með gamla sáttmála varð Ísland hluti af konungdæmi Noregskonunga. Árið áður höfðu Grænlendingar gengið Noregskonungi á hönd. Elsta útgáfa textans er í handriti frá 16. öld.

Í nafni föður ok sonar ok heilags anda var þetta játað ok samþykt af öllum almúga á Íslandi á Alþingi með lófataki:

Vér bjóðum virðuligum herra Hákoni konúngi hinum kórónaða vora þjónustu undir þá grein laganna, sem samþykt er milli konúngdómsins ok þegnanna, er landit byggja — Í fyrstu grein, at vèr viljum gjalda konúngi skatt ok þingfararkaup, sem lögbók váttar, ok alla þegnskyldu, svo framt sem haldit er við oss þat móti var játað skattinum: — Í fyrstu, at utanstefníngar skyldum vèr engar hafa, utan þeir menn, sem dæmdir verða af vorum mönnum á alþíngi burt af landinu. — Item, at íslenzkir sè lögmenn og sýslumenn hér á landinu, af þeirra ætt, sem at fornu hafa goðorðin upp gefit. — Item at sex hafskip gángi til landsins á hverju ári forfallalaust. — Erfðir skulu upp gefast fyrir íslenzkum mönnum í Noregi, hversu lengi sem staðit hafa, þegar er rèttir arfar koma til, eðr þeirra umboðsmaðr. — Landaurar skulu ok upp gefast. — Item skulu slíkan rètt íslenzkir menn hafa í Noregi, sem þeir hafa beztan haft. — Item at konúngr láti oss ná friði ok íslenzkum lögum, eptir því sem lögbók vor váttar, ok hann hefir boðið í sínum brèfum, sem guð gefr honum framast vit til. — Item jall viljum vèr hafa yfir oss meðan hann heldr trúnað við yðr en frið við oss.

Halda skulum vèr ok vorir arfar allan trúnað við yðr meðan þèr ok yðrir arfar haldit trúnað við oss ok þessa sáttargjörðir fyrskrifaðar, en lausir ef rofin verðr af yðvarri álfu at beztu manna yfirsýn.