Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins/Lögréttuþáttur

Grágás: Lagasafn íslenska þjóðveldisins (1992)
Höfundur: óþekktur
Lögréttuþáttur

Lögréttu skulum vér og eiga og hafa hér hvert sumar á alþingi, og skal hún sitja í þeim stað ávallt sem lengi hefir verið. Þar skulu pallar þrír vera umbhverfis lögréttuna, svo víðir að rúmlega megi sitja á hverjum þeirra fernar tylftir manna. Það eru tólf menn úr fjórðungi hverjum er lögréttusetu eigu, og lögsögumaður umfram, svo að þar skulu ráða lögum og lofum. Þeir skulu allir sitja á miðpalli, og þar eigu biskupar vorir rúm.

Þeir menn tólf eigu lögréttusetu úr Norðlendingafjórðungi er fara með goðorð þau tólf er þar voru þá höfð er þeir áttu þing fjögur, en goðar þrír í hverju þingi. En í öllum fjórðungum öðrum þá eigu menn þeir níu lögréttusetu úr fjórðungi hverjum, er fara með goðorð full og forn, þau er þá voru þrjú í vorþingi hverju, er þing voru þrjú í fjórðungi hverjum, þeirra þriggja, enda skulu þeir allir hafa með sér mann einn úr þingi hverju hinu forna, svo að þó eignist tólf menn lögréttusetu úr fjórðungi hverjum. En forn goðorð Norðlendinga öll eru fjórðungi skerð að alþingisnefnu við full goðorð önnur öll á landi hér.

Það er og um þá menn alla er svo eigu lögréttusetu sem nú var tínt, að þeirra hver á að skipa tveim mönnum í lögréttu til umráða með sér, öðrum fyrir sér en öðrum á bak sér, og sínum þingmönnum. Þá verða pallar skipaðir til fulls, og fernar tylftir manna á hverjum palli.

Engir menn skulu sitja fyrir innan palla þá er lögrétta er rudd, nema þeir er mál eigust við, en sitja ávallt þess á milli, og á lögsögumaður að skipa rúm það. Út frá pöllum á alþýða að sitja. Þeim einum mönnum er rétt að standa upp að lögréttu, þá er þar skal kæra lög eða lof, er um mál manna skulu mæla, og þeim öðrum er ystir eru þeirra er þar eru komnir. Útlagur er hver þrem mörkum er eigi gerir svo, og á sá sök er vill. En ef menn troðast svo mjög að lögréttu fyrir öndkost, eða gera þar hrang það eða háreysti að fyrir því afglapast mál manna, og varðar það fjörbaugsgarð sem öll þingsafglöpun.

Ef þeir menn koma til lögréttu er þar eigu setur, en aðrir hafa sest í rúm þeirra, þá skulu þeir beiða sér rúma, og er hinum vítislaust ef þeir ganga þá í brott. En ef þeir híra við þá er rúms er beitt, og varðar það þriggja marka útlegð. Þá skal eigandi beiða setu sinnar með votta, og varðar það fjörbaugsgarð ef þá er varnað. Það eru allt stefnusakir, og skal kveðja níu heimilisbúa þess er sóttur er til fjörbaugssaka en fimm til útlegðar.

Það er og að lögrétta skal út fara drottinsdaga báða í þingi og þinglausnadag og ávallt þess í milli, er lögsögumaður vill eða meiri hlutur manna, og í hvert sinn er menn vilja ryðja lögréttu. Þar skulu menn rétta lög sín og gera nýmæli ef vilja. Þar skal beiða mönnum sýknuleyfa allra og sáttaleyfa þeirra allra er einkalofs skal að beiða og margra lofa annarra, svo sem tínt er í lögum. Það skal allt metast svo í lögréttu sem lofað sé, er engi maður neitir sá er lögréttusetu á, enda veri engi lýriti fyrir utan lögréttu. Hver maður þeirra er lögréttusetu á skal gera annaðtveggja um leyfi hvert, að játa eða níta. Útlagur er hann ella þrem mörkum. Ef menn biðja lofa í lögréttu, svo að þeir menn eru ógerla þar komnir eða á brott gengnir, er lögréttusetu eigu, en þó eru fernar tylftir manna eða fleiri, þá má lögsögumaður skipa því liði í rúm þeirra manna er setur eigu til fulls, og útlagast hver er synjar þess. Nú verður miðpallur alskipaður. Þá skal lögsögumaður nefna sér votta „í það vætti,“ skal hann kveða, „að þessir sitja allir í lögréttu að mínu ráði, og réttir til þess að fylla lög og lof. Nefni eg þetta vætti að lögum hveim er njóta þarf.“ Enda skulu þá verða lof öll jafnföst þar, sem goðar sæti sjálfir, og fyrir þeim einum skulu hinir upp rísa er áður sátu.

Það er og að það skulu lög vera á landi hér sem á skrám standa. En ef skrár skilur á, og skal það hafa er stendur á skrám þeim er biskupar eigu. Nú skilur enn þeirra skrár á, þá skal sú hafa sitt mál er lengra segir þeim orðum er máli skipta með mönnum. En ef þær segja jafnlangt, og þó sitt hvor, þá skal sú hafa sitt mál er í Skálaholti er. Það skal allt hafa er finnst á skrá þeirri er Hafliði lét gera nema þokað sé síðan, en það eitt af annarra lögmanna fyrirsögn er eigi mæli því í gegn, og hafa það allt er hisug leifir eða glöggra er.

Nú þræta menn um lögmál, og má þá ryðja lögréttu til ef eigi skera skrár úr. En svo skal að því fara, að beiða með votta goða alla að Lögbergi, og lögsögumann, að þeir gangi í lögréttu og í setur sínar að greiða lögmál þetta svo sem héðan frá skal vera. „Beiði eg lögbeiðing,“ skal sá kveða er reyna vill. Ef nokkurir þeir menn er setur eigu gera eigi ganga í rúm sín er þeir vitu að lögréttu skal ryðja, og varðar það fjörbaugsgarð sem önnur þingsafglöpun, enda er rétt að telja goðann þá hvern útlagan þrem mörkum og úr goðorði sínu. Það varðar og allt slíkt hið sama þeim mönnum öllum er lögréttusetu eigu að gegna að lögréttu, þeirri sem þá skylda lög til.

Á lengur er goðar koma í setur sínar, þá skal hver þeirra skipa manni á pall fyrir sig en öðrum manni á hinn ysta pall á bak sér til umráða. Síðan skulu þeir menn, er þar eigust mál við, tína lögmál það er þá skilur á og segja til þess hvað í deilir með þeim. Þá eigu menn síðan að meta mál þeirra til þess er þeir hafa ráðinn hug sinn um það mál, og spyrja síðan alla lögréttumenn, þá er á miðpalli sitja, að skýra það hvað hver þeirra vill lög um það mál. Síðan skal hver goði segja hvað lögin mun kalla og með hvorum hverfa að því máli, og skal afl ráða, en ef þeir eru jafnmargir lögréttumenn hvorirtveggju, er sitt kalla lög hvorir vera, þá skulu þeir hafa sitt mál er lögsögumaður er í liði með. En ef aðrir eru fleiri, þá skulu þeir ráða, og skulu hvorirtveggju vinna véfangseið að sínu máli og fela undir eið sinn að þeir hyggja það vera lög um það mál sem þeir fylgja að, og kveða á af hví það sé lög.

Nú er nokkur lögréttumaður svo sjúkur eða sár að sá má eigi úti vera. Þá skulu þeir hvorirtveggju sækja orð hans til búðar og segja hvað í deilir með þeim, en hann skal eið vinna slíkan sem aðrir og kveða á það með hvorum hann vill hverfa. En ef þá er lögréttumaður nokkur ómáli eða óviti eða andaður, er þessa máls þarf, og skal sá maður í stað hans er dómnefnu átti upp að taka ef hans væri þá við misst.

Nú lýsa lögréttumenn hug sinn, og verða þeir tólf eða fleiri er lið hafa minna, þá skulu þeir er færri eru saman vinna eiða að sínu máli. Þá verða hinir er lið hafa meira og skyldir að vinna eiða að sínu máli svo að þeir sveri manni fleiri, eða tveim hið fæsta ef lögsögumaður er í hinni minni sveit. En ef þeir metast eiða við í hinu meira liði, og skulu þeir hluta með sér, nema þeir vili allir sverja. Nú verða þeir færri saman en tólf, er lið hafa minna. Þá eru þeir þegar af sínu máli, og eru engir menn úr hinu meira liði þá skyldir að vinna eiða að móti eiðum þeirra er færri eru saman en tólf.

Ef þeir eru nokkurir lögréttumenn er með hvorungi látast vera munu, eða varna þeir annarra skila um þau mál, og varðar það allt slíkt sem áður var tínt, og á sá þeirra sakir þær er þar eigust mál við, er heldur vill sækja til fullra laga. En ef hvorgi vill sækja, þá á sök þá hvor er vill, enda skal lögsögumaður skipa rúm þeirra manna er þar gera lögskil fyrir sig og taka mann úr vorþingi því er glöpin kemur, ef það má, enda varðar þá hverjum fjörbaugsgarð er synjar þess. En ef lögsögumaður kann þar eigi menn fyrir í þá sveit, þá skal hann beiða samþingisgoða þess er skila varnar að þeir fái honum mann í stað, svo að þá megi í því fylla lögréttu, og varðar þá slíkt þeim er þess synjar sem hinum er glöp gerði. Nú vill engi samþingisgoðanna skil gera. Þá skal beiða manna í annað þing, og í hið þriðja ef eigi fæst áður, enda eigu þá jafnmikið þeirra orð að standast sem annarra lögréttumanna.

Það er og að einhver maður skal tína við votta lögmál það er afl fæst til, en allir skulu samkvæði gjalda á. Síðan skal upp segja að Lögbergi.

Það er og skylt þeim mönnum öllum er lögréttusetu eigu að fylla uppsögu ávallt er lögsögumaður vill lög upp segja, hvort sem það er að Lögbergi eða í lögréttu, og þótt í kirkju sé ef veður er ósvást úti. En ef nokkurir lögréttumenn hafa eigi tóm til þess, þá skulu þeir menn tveir heyra á uppsögu fyrir hvern þeirra, er til þess eru teknir af þeim að sitja á pöllum í lögréttu. Nú er að hvorugi gaumur gefinn, þá megu ekki standast þeirra lögréttumanna orð, er svo skipa, á sama sumri, þar er um það lögmál er þrætt er þá var upp sagt, enda varðar þriggja marka útlegð, og eigu aðrir lögréttumenn sök þá, og skal stefna að Lögbergi og kveðja til heimilisbúa fimm þess er sóttur er.

En lögsögumaður á að skipa Lögberg, og útlagast þeir þrem mörkum er að ólofi hans sitja þar. Nú bjóða menn þau óskil lögsögumanni að láta hann eigi ná setu sinni eða þá menn er hann hefir einnefnda til þess að sitja að Lögbergi með sér, og varðar það fjörbaugsgarð, og skal það sækja sem aðra þingsafglöpun.

Þess er lögsögumaður skyldur að segja öllum þeim er hann spyrja hér lögmál, bæði hér og heima, en er-at hann framar skyldur sakráða við menn. Hann skal og upp segja þingsköp hvert sumar og aðra þáttu alla, svo að þeir verði upp sagðir á þrem sumrum hverjum, ef meiri hlutur manna vill hlýtt hafa. Föstudag hinn fyrra í þingi skal þingsköp ávallt upp segja ef menn hafa tóm til að hlýða.

Það varðar allt þriggja marka útlegð lögsögumanni ef hann leysir eigi af hendi þau skil öll er hann er skyldur til að nauðsynjalausu, og á sá maður þá útlegð hálfa er sækir, en hálfa dómendur. En ef lögsögumaður gerir þau ófjöt nokkur er meiri hlutur manna vill kalla þingsafglöpun, og varðar honum það fjörbaugsgarð. Það er og að á því einu vorþingi á hann útlegðir er hann heyr sjálfur.