eftir Stefán frá Hvítadal

Heyr mitt ljúfasta lag,
þennan lífsglaða eld,
um hinn dýrlega dag
og hið draumfagra kveld.
            Rauðu skarlati skrýðzt
            hefur skógarins flos.
            Varir deyjandi dags
            sveipa dýrlingabros.


Eg var fölur og fár,
eg var fallinn í döf.
Eg var sjúkur og sár,
og eg sá aðeins gröf.
            Hvar er forynjan Feigð
            með sitt fláráða spil?
            Hér kom gleðinnar guð,
            og það glaðnaði til.


Læddist forynjan frá
með sinn ferlega her.
Hún var grimmeyg og grá,
og hún glotti við mér.
            Eg er frelsaður, Feigð,
            eg hef faðmað og kysst.
            Undir septembersól
            brosti sumarið fyrst.


Ó, þú brostir svo blítt,
og eg brosti með þér.
Eitthvað himneskt og hlýtt
kom við hjartað í mér.
            Gegnum skínandi skrúð
            inn í skóginn mig bar.
            Þangað kóngsdóttir kom,
            og hún kyssti mig þar.


Eg á gæfunnar gull,
eg á gleðinnar brag.
Tæmi fagnaðarfull.
Eg gat flogið í dag.
            Eg á sumar og sól,
            eg á sælunnar brunn
            og hin barnsglöðu bros
            og hinn blóðheita munn.


Þennan hamingjuhag
gaf mér heit þitt og koss,
þennan dýrlega dag, —
þú, mitt dýrasta hnoss.
            Þetta lífsglaða ljóð
            hefur lifað það eitt,
            að þú, kóngsdóttir, komst
            og þú kysstir mig heitt.


Lífs míns draumur er dýr,
þessi dagur hann ól.
Mér finnst heimurinn hýr
eins og hádegissól.
            Eg er syngjandi sæll
            eins og sjö vetra barn.
            Spinn þú, ástin mín, ein
            lífs míns örlagagarn.