Halla/12
Það var komið fram á túnaslátt, þegar presturinn kom aftur að sunnan með konu sína. Og þá var það eitt af því fyrsta, sem fyrir lá, að koma þeim Höllu og Ólafi í hjónaband.
Það barst allt jafnsnemma út um sveitina, að presturinn væri kominn heim og kona hans með honum og að næsta sunnudag ætti að lýsa með Ólafi og Höllu. Það var því ekki hætt við messufalli sunnudaginn þann.
Það var þó ekki svo næsta mikið vegna lýsinganna, að menn hópuðust til kirkjunnar, og heldur ekki til að sjá prestinn heimkominn úr langferð sinni eða heyra til hans; því fyrir þessu hvoru tveggja hefði giftingin vel getað dregist svo mánuðum skipti.
Nei, nú var það vegna prestskonunnar, að menn sóttu kirkjuna. Nú var fólkið álíka sólgið í að sjá hana eins og það hafði verið í að sjá prestinn sjálfan fyrir tæpu ári síðan. Þess vegna var kirkjan óvanalega vel sótt þrjá sunnudaga í röð.
Prestinum hafði gengið ferðin vel.
Hann hafði að vísu kviðið fyrir því á allri suðurleiðinni að koma suður, eins og hann ætti þar von á einhverjum óþægindum. Honum var eins og eitthvað fylgdist stöðugt með honum, sem gerði hann kvíðandi og órólegan.
Það var sem hann væri hræddur um, að sér skytist yfir að geta dulið þessa óró, þegar suður kæmi og hann ætti að standa fyrir ströngu tilliti vandamanna sinna og velgerðamanna og gera grein fyrir orðum sínum og gjörðum og ef til vill leyndustu hugsunum í fjarverunni. Hver veit nema þessi veiklun hans leiddi til grunsemdar, sem honum kæmi óþægilega.
En þessi fundur varð ekki umflúinn, hvað feginn sem hann hefði kosið, að svo gæti orðið.
Það var því ekki annað að gera en herða upp hugann og reyna að yfirvinna alla veilni, en vera annars við öllu búinn, sem mæta kynni.
En þetta fór allt á annan veg, þegar suður kom. Þeir, sem hann hafði kviðið fyrir að hitta, tóku honum eins og langþráðum ástvini. Þar gætti engrar tortryggni, engra nærgöngulla rannsókna, hvorki með orðum né augnaráði, einskis nema fagnaðarins yfir að sjá hann aftur.
Þetta hafði unnist við fjarlægðina. Það ámælisverða í fari hans hafði fallið í fyrnsku, en vonin um framtíð hans og heiður þann og gleði, sem af honum stafaði, hafði styrkst ótrúlega mikið í fjarveru hans sjálfs og unnið yfirhönd yfir öllu öðru.
Jafnvel tengdamóðir hans var talsvert öðruvísi en hann hafði átt von á henni. Nú var hún stimamjúk og gerði sér far um að gera honum allt til geðs, og var óþreytandi í því að tala um, hvað hann hefði breytst til hins betra í þessari löngu fjarveru sinni, hvað hann væri stillilegri og embættismannslegri og hraustlegri og karlmannlegri í öllu yfirbragði.
En mest fagnaði þó Elín hans yfir því að sjá hann aftur. Hún var líka dálítið breytt. Hún var holdugri og hraustlegri í útliti heldur en þegar hann hafði kvatt hana, sem ef til vill hefir stafað af meiri heimavist og hollara og rólegra lífi, og hún var orðin talsvert fullorðinslegri.
Og þegar hún heyrði, hve vandamenni hennar tóku honum vel og voru ánægð með hann eins og hann var nú, þá hvarf algerlega úr svip hennar þetta vantraust, þessi leiði efi og vonleysi, sem hann hafði mest af öllu kviðið fyrir.
Barnið þeirra hafði stálpast vel. Nú var það farið að ganga um allt, úti og inni, og orðið töluvert talandi, svo það gat heilsað upp á pabba sinn með nafni.
Síra Halldóri fannst hann verða annar maður við þessar mótttökur. Nú fann hann til þess í fyrsta sinni, að hann var heimilisfaðir og að forlögin höfðu gefið honum gjafir, sem hann aldrei fyrr en nú hafði fengið að sjá til fulls.
Og nú fann hann betur en nokkurn tíma áður, að í raun og veru átti hann ekkert af þessum gæðum skilið. Þau voru varla lengur hans. Hann var þeirra óverðugur. Þess vegna gat þessi ylur, sem af þeim lagði, aldrei vermt hann upp allan. Innst inni var jafnan eitthvað fyrir, kalt og hart, sem veitti honum mótstöðu. Það var endurminningin um ævintýri hans um veturinn heima á prestssetri sínu.
Og þegar best var látið að honum, brást það ekki, að mynd Höllu gægðist fram í huga hans. Hann gat ekki að því gert. Hún kom óboðin og þrátt fyrir mótspyrnu hans, eins og hún hafði gert stundum áður í fyrsta þætti sögu þeirra.
En nú var hún skýrari en þá. Hún birtist með alls konar svipbrigðum, brosandi eða grátandi, laðandi eða ásakandi, eins og hann hafði kynnst henni.
Þess vegna voru honum blíðuatlot konu sinnar og barns allt annað en kærkomin, og þótt hann yrði að taka þeim vel, þá lá við, að hann styndi þungan, og aldrei gat hann leitað eftir þeim að fyrra bragði.
En honum tókst meistaralega að dylja þennan fáleik sinn, svo Elín yrði einskis vör, og svo komst það upp í vana eins og margt annað. Og hann fann það, að sér mundi takast að búa friðsamlega saman við hana, þótt hann ynni henni ekki lengur - ef ekkert nýtt og óvænt bæri að höndum.
Þegar þau lögðu af stað, var greiddur út dálítill heimanmundur af foreldrum hennar, og þau skildu öll með hinu besta vinfengi. Hún tók sér að vísu skilnaðinn dálítið nærri í fyrstu, en það var ekki nema rétt í bráðina. Hún hafði lengi búist við honum, og þess vegna var hann minna sár en ella, og svo gaf ferðalífið henni nóg annað til að hugsa um daglega. - -
Þegar heim á prestssetrið var komið, fór fjarri því, að á því bæri, að hin unga prestskona yndi þar illa lífinu.
Hún var miklu upplitsdjarfari og frjálsmannlegri en hann hafði nokkurn tíma gert sér von um, og hann gat ekki séð á henni leiðindi eða óyndi. Hún kvartaði ekkert um torfbæinn, gekk um hann inn og fram og virtist sætta sig við hann furðanlega.
Þarna var henni allt nýtt, og hún virtist hafa gaman af að gegna sjálf húsfreyjuskyldum sínum og setja sig sjálf inn í sem flest af því, sem heimilishaldinu við kom. Hún lærði að mjólka kýrnar, lærði að skammta og lærði að segja fyrir verkum, og komst í stuttu máli upp á allt, sem húsmóðir á sveitaheimili þarf að kunna, og það ótrúlega fljótt.
Hún var laus við allan tepruskap og umgekkst vinnufólkið eins og jafningja sína og vann því fljótt hylli þess.
Það kom raunar oft fyrir, að henni fórst eitthvað ófimlega, en þá voru ótal hendur á lofti til að bæta úr því, og enginn hló meira að mistökunum en hún sjálf.
Þannig hafði hún skemmtun og afþreyingu frá morgni til kvölds, gekk þreytt til hvíldar og svaf vel á hverri nóttu - þótt í moldarbæ væri.
Það átti líka við hina barnalegu hégómadýrkun hennar, sem enn þá eldi eftir af, að geta gengið betur búin en aðrir, mega sitja í prestskonusætinu um messuna, geta skipað öðrum fyrir verkum, þurfa ekki að gera annað en það, sem henni sjálfri sýndist, og mega taka rausnarlega og alúðlega á móti gestum. Það var því fjarri því, að húsfreyjustaðan væri henni til byrði fyrst framan af, heldur miklu fremur leikur.
Stöku sinnum skrapp hún fram í stofuna til þess að leggja hendurnar upp um hálsinn á manninum sínum.
Prestinum þótti vænt um að sjá konuna sína glaða og hraustlega, en annars gaf hann sig lítið að henni. Hann eyddi mestum hluta tímans í stofunni, þar sem svo margar leynilegar minningar voru við tengdar, og þar sem hann gat notið þeirra upp aftur í huganum, og því lét hann sem minnst trufla sig frá sínum „andlegu hugleiðingum“.
Ræðurnar, sem hann flutti eftir heimkonu sína, voru hvorki betri né verri en þær, sem hann hafði áður flutt. Hann varði minnstum tíma vikunnar til að hugsa um þær, þótt hann væri lengst af einn og gæfi sig lítið að öðrum mönnum.
Embættisframkoma hans var sami andlausi nauðungarleikurinn sem hún hafði verið um veturinn, og útlit var fyrir, að hún mundi framvegis verða svo, hvenær sem á þyrfti að halda.
Fyrst eftir heimkomu sína kveið hann fyrir að gera skylduverk sín í kirkjunni, en sá kvíði rénaði strax eftir fyrstu messuna, og úr því varð hann meira og meira kaldur fyrir öllu, og jafnframt stöðugt öruggari um, að sér mundi ekki fipast í hlutverki sínu.
Það var aðeins eitt, sem hann kveið enn þá fyrir, og það var að gefa þau saman Höllu og Ólaf. En sú stund færðist nú óðum nær.
Það var eftir messu sama sunnudaginn og þriðju lýsingunni var lýst, að þau Halla og Ólafur voru gefin saman.
Kirkjufólkið beið því flest til þess að vera við hjónavígsluna. Og það hafði verið með flesta móti við kirkjuna þann dag.
Hjónavígslurnar þóttu þar, eins og víðar, einna skemmtilegastar af þessum hégómlegu sýningum, sem kirkjan hefir ráð á að bjóða mönnum til, og þess vegna vantaði sjaldan kirkjugesti við það tækifæri.
Þau Ólafur og Halla höfðu komið sér saman um að hafa sem minnst umsvif og sama sem alls enga brúðkaupsveislu. Halla hafði stungið upp á því, og Ólafur fundið það hollast fyrir spesíuforðann.
Halla hefði helst af öllu kosið, að giftingin hefði farið sem hljóðlegast fram, að engar lýsingar hefðu átt sér stað og kirkjan hefði alls eigi verið notuð til hjónavígslunnar. En þess var enginn kostur; þau lög, sem heimila þetta hvort tveggja nú, voru ekki til þá.
Það var því óumflýjanlegt ofanálag á aðrar raunir hennar að heyra þessari ógeðfelldu hjónabandsfyrirætlun lýst sunnudag eftir sunnudag frá stólnum fyrir öllum söfnuðinum, og það af honum. Og svo að lokum að láta marga tugi karla og kvenna horfa á sig gráðugum forvitnisaugum, meðan hún steig hin þyngstu spor, sem hún gat ímyndað sér, að fyrir nokkurn kvenmann gæti komið að stíga - horfa á sig, glápa á sig, og ef til vill gleðjast yfir því í illgirni sinni, hvernig hún leit út eða hvernig hún bar sig.
Hún kveið því fyrir hjónavígslunni, eins og hún ætti að ganga til opinberrar háðungar fyrir yfirsjónir sínar. Grimmilegri refsingu gat hún varla hugsað sér.
Prestskonan unga hafði aldrei fyrr séð giftingu í sveit og hlakkaði til þess eins og einhverra hátíðlegra og sjaldgæfra fyrirbrigða.
Hún lét sér einkar annt um brúðina og leitaðist við að kynnast henni og gera henni alla hluti til þægðar. Hún bauð að lána henni faldbúning, sem hún átti, eða þó að minnsta kosti fallega silkisvuntu. Hún bauð henni að búa sig inni í herberginu sínu í baðstofunni, og bauðst til að hjálpa henni þar. Hún bauð henni meira að segja að hafa veisluna þar heima á prestssetrinu og nota stofuna handa þessum fáu boðsgestum, og hún mætti fá þá aðstoð hjá heimilisfólkinu, sem hún vildi eða þyrfti með.
Og hún varð alveg forviða, þegar Halla þverneitaði að þiggja nokkuð af þessu.
Höllu var mikill ami að þessum nærgöngulu boðum prestskonunnar. Hún sá að vísu, að hún gerði þetta allt í besta tilgangi, en af þessari konu gat hún síst af öllu nokkuð þegið.
En hún átti bágt með að dylja geðshræringar sínar, þegar hún neitaði. Það var eina huggunin, að samfundir þeirra áttu ekki lengi að standa yfir; eftir þennan dag mundu þær sjaldan sjást og aldrei talast við; það var hún viss um.
En hún gat ekki neitað því með sjálfri sér, að þessa manneskju hataði hún umfram allar aðrar, þótt hún hefði ekkert til þess unnið.
Hún kom að mestu leyti svo búin að heiman sem hún ætlaði að vera fyrir altarinu. Það sem á vantaði, gerði hún í skemmunni frammi á hlaðinu, sem áður er um getið. Henni fannst hún fullvel til þess fallin. Og þaðan gekk hún í kirkjuna.
Það var talsvert stungið saman nefjum um það í kirkjunni, að Halla væri dauf í bragði. Menn lögðu það út á ýmsa vegu, en enginn á þann rétta.
Þeir, sem voru henni miður góðgjarnir, sögðu, að nú væri einn bannsettur dynturinn í henni; svona væri lundin hennar.
Aðrir sögðu, að svona væru allar konur á giftingardegi sínum; þær væru alvarlegar, eða jafnvel útgrátnar, án þess nokkur vissi til, að þeim bæri nokkur hlutur til ama; það væri ekki annað en meðfætt kjarkleysi, sem ævinlega kæmi í ljós, þegar á ætti að herða.
En þeir, sem skarpskyggnastir voru og dýpst lögðust, gátu þess til með miklum íbyggnissvip, að Halla mundi nú farin að sjá eftir því að hafa tekið Ólafi, þótt of seint væri aftur að snúa, og af því stafaði hljóðleiki hennar.
Með eitthvað af þessu létu flestir sér lynda.
Eitt einasta orð, sem benti í áttina til hinna réttu orsaka, mundi hafa svipt skýlunni frá allra augum. En það orð var ekki talað, ef til vill ekki einu sinni hugsað.
Það var sem hulin völd héldu verndarhendi sinni yfir þessu leyndarmáli. Það átti að vera geymt og innsiglað. Það, sem Halla gerði upp við hverinn um nóttina, var of heilagt og háleitt til þess, að því skyldi kasta út meðal fjöldans til að láta hann misskilja það og afskræma.
Presturinn var óvanalega fölur og óstyrkur, þegar hann byrjaði hjónavígsluna. En einmitt það fór honum vel. Föla andlitið var enn þá hvítara og unglingslegra við svarta hempuna, og augun voru stór og skær. Flestir höfðu því augun miklu meira á honum en brúðhjónunum, sem sneru bakinu fram til safnaðarins, eftir að þau voru komin fyrir altarið, og konan hans, sem sat í prestskonusætinu, - þar sem snjókerlingarnar höfðu setið um veturinn - horfði stöðugt á hann. Hún var óvanalega ástfangin af honum eins og hann „tók sig nú út“, og mjög upp með sér af því, að þetta væri maðurinn sinn.
Hann notaði tímann til að stilla sig og sækja í sig veðrið, meðan verið var að kyrja fyrri hjónavígslusálminn.
Hann leit um alla kirkjuna, framan í hvert andlit, inn í hvers manns augu, en hvergi var neitt athugavert að sjá. Alls staðar var hátíðleiki og helgifriður. Þeir, sem ekki sungu með, héldu niðri í sér andanum og hlustuðu.
Hann leit líka framan í konuna sína. Hann sá, að hún horfði stöðugt á hann frá prestskonusætinu með ánægju og trausti í svipnum. - Hvergi var neitt að óttast.
Þessi ótti bjó aðeins í honum sjálfum. Hann var ekki annað en heimska. Það var vel fyrir öllu séð, og hann gat öruggur og ókvíðinn haldið áfram hlutverki sínu og leikið síðasta þáttinn til enda. Það voru litlar líkur til, að neitt það gæti komið fyrir, sem raskað gæti jafnvægi hans og fipað hann.
Það voru aðeins fjögur augu til í kirkjunni, sem ekki var hollt að horfast á við á þessari stundu. En af þeim stafaði engin hætta. Tvö þeirra áttu heima í sísyfjuðu andliti og voru byrgð undir síðum augnalokum. Hin tvö voru byrgð í bládröfnóttum vasaklút og flóðu í tárum.
Og ef eitthvert auga væri til enn þá,sem sæi allt eins og það væri, þá var hann sannfærður um, að það hefði þegar fyrir löngu vegið og metið allar ástæður og liti nú til sín í meðaumkun. -
Hjónavígsluræðan var óvanalega hjartnæm, og menn heyrðu rödd prestsins skjálfa við og við og sáu hann þráþurrka af sér svitann. En lengra komst það ekki.
En söfnuðurinn fékk enn þá einu sinni þann sannleika staðfestan, hvílíkur ágætisræðumaður presturinn sinn væri, - þegar hann tæki á því.
Það leyndi sér ekki á útliti Höllu, þegar hún gekk við hlið Ólafs fram kirkjugólfið, að hún hafði grátið inni við altarið. Hvarmarnir voru ofur lítið þrútnir, og tárin tindruðu í augnahárunum.
En enginn tók til þess. Það var engin nýlunda að sjá brúði gráta á giftingardegi sínum. Sumum féll auk þess heldur illa, ef hún gerði það ekki, þótti það bera vott um kaldsinni og ókvenlegt tilfinningaleysi. Tárin voru dýrustu perlurnar í skarti brúðarinnar; hjá þeim fölnaði allt annað, sem hún bar.
En að baki þessara tára í hvörmum Höllu og dýpra inni í augunum, glitraði eitthvað, sem enginn tók eftir og enginn átti von á, en sem mörgum hefði orðið starsýnt á, hefðu þeir séð það - eitthvað, sem gægðist fram, hvasst og biturt eins og hnífsoddur.
Það var hatrið - hatrið til alls þess, sem hafði neytt hana til þess að ganga þessi óljúfu spor, hatrið, sem enn þá var ungt og varla henni meðvitandi, en átti fyrir sér að vaxa og þroskast.
Þannig skildu þau, Halla og presturinn, til þess hvort fyrir sig að eyða ævi sinni í bannfæringu ástarvana hjónabands.
Þau gengu hvort sinn ákveðna veg.
Hún til kvenlegrar stórmennsku í þrautum og mannraunum, fátækt og fyrirlitningu, - sem er hlutskipti svo margra alþýðumanna á Íslandi.
Hann til kennimannlegrar lítilmennsku, - til yfirskins og augnaþjónustu, bæði upp á við og niður á við í embættisstarfi sínu - til lífs, sem var stöðugt leit eftir nautnum og munaði, til að reyna að fylla upp hið innra tóm, og jafnframt stöðug undanbrögð, stöðugur flótti undan ábyrgð og óþægindum.