Halla
Höfundur: Jón Trausti
6. kafli

Höllu tókst snilldarlega að leyna því fyrir heimilisfólkinu, sem skeð var. Prestinum veitti það léttara; hann var meira einangraður og umgekkst lítið bæði heimamenn og utanbæjarmenn. Honum voru ævintýri af þessu tagi ekki heldur eins ný og henni. Auk þess þekktu hann fáir, en hana hugðust fleiri þekkja.

Hún var þó ekki söm og áður. Hún var hljóðari og gekk meira í þönkum, sneiddi fremur hjá glaum og glensi annarra heimamanna; og þegar hún hló, var hláturinn ekki eins skær og hjartanlegur eins og hann hafði áður verið.

Henni hafði alltaf verið lítið um það gefið, þegar hinar stúlkurnar gáfu henni glósur um stöðu hennar á heimilinu, eða ertu hana með prestinum. Nú var henni þvílíkt spaug alveg óþolandi, þótt hún neyddist til að láta lítið á því bera.

Breytingin, sem á henni var orðin, var því ekki svo mikil á yfirborðinu, að neinn renndi grun í það, hvað í efni væri. Þeir voru meira að segja til, sem þótti þessi litla breyting, sem sjáanleg var, fara henni afbragðsvel, gera hana hæglátari, alvarlegri og kvenlegri.

Halla reyndi meðal annars að dylja sig með því að sökkva sér enn þá meira niður í dagleg störf sín. Hún lét aldrei hjá líða frá morgni til kvölds að hafa jafnan eitthvað fyrir stafni, og þegar hitt fólkið naut frítímanna með því að hvíla sig, skemmta sér eða gaspra saman í baðstofunni, sat Halla að jafnaði með einhverja vinnu milli handanna og virtist vera með allan hugann við hana, svo að hún hefði litla sinnu á því, sem fram færi í kringum hana. Það var þá um leið afsökun gegn hinu fólkinu og áminning um, að því bæri að trufla hana sem minnst. Og verk vantaði Höllu aldrei.

En þó voru augu til á heimilinu, sem Halla fann, að erfitt var að villa sjónir.

Það voru augu húsmóðurinnar, gömlu prestsekkjunnar. Henni duldist það ekki, að Halla bjó yfir einhverju. Hún horfði oft á hana, spyrjandi og rannsakandi, og Halla vissi af því, þótt hún þyrði ekki að líta upp; henni fannst þessi gráu, stingandi hvössu augu gömlu konunnar borast í gegnum sig. Og þegar hún fann, að hún var undir rannsókninni, þá gat hún ekki varist því, að blóðið hlypi fram í kinnarnar á henni.

En gamla konan sagði aldrei neitt.

Þegar Halla var að vinna eitthvað með henni, þá var sem hún stæði á glóðum. Hún var hrædd um, að hún færi að spyrja sig, spyrja sig óþægilegum spurningum, sem það kynni að vefjast fyrir sér að svara. En gamla konan spurði aldrei neins.

En þó breytingin, sem orðin var á Höllu, sýndist lítil, var hún í raun og veru mikil. Hún þekkti ekki sjálfa sig sem sömu manneskju. Rósemi hennar var farin, sálarjafnvægi hennar var raskað. Von og kvíði, ást og ótti háðu þar stöðugt stríð, gerðu hana viðutan á daginn og hindruðu næturværð hennar.

Hún fann, að hún hafði misst fótfestu og dróst viljalaust og hjálparlaust að þessum manni, sem hún unni hugástum, unni eins og lífinu í sínu eigin hjarta, en sem hún þekkti alls ekkert og vissi alls ekkert, hvernig ástatt var fyrir. Hún fann, að hún gat ekki rifið sig út úr þessu ævintýri, gat ekki slitið sig af honum, þótt hún beitti sínu ýtrasta megni. Vilji hennar var bundinn af vilja hans, og hver sem tilgangur hans var, varð hann að ráða. Hún gat ekki annað en varpað allri sinni áhyggju upp á hann. Hann varð að ábyrgjast, hvað á eftir færi. Og hún treysti honum, því hún elskaði hann.

En svo komu efasemdirnar, pínandi sárar.

Var þetta traust á honum ekki oftraust? Var hann fær um að taka á sig þessa ábyrgð? Var hann fær um að leiða þetta vandamál til lykta á hamingjusamlegan hátt? Og hvernig þá? Með því að giftast henni? Hún brosti efablandin. Svo fagur draumur gat varla rætst.

Og því þá ekki? Hann hafði sagt, að hann elskaði hana. Hann hafði margsagt það, og með ákefð og tilfinningu. Og því þá ekki að giftast henni? Voru eldri bönd á honum, sem hann gat ekki af sér brotið? Það fór hrollur um hana við þá hugsun.

Nei, nei, hún mátti ekki byggja neinar vonir á svo sælum draumi. Hún var óverðug til að verða konan hans, óverðug til að taka við prestskonustöðunni og fylgja svo miklum og góðum manni gegnum allt lífið. Ef hann krefðist þess af henni, þá var það annað mál; en hún mátti ekki krefjast þess af honum.

En ef hann giftist henni ekki. Hvað þá?

Nei, hún mátti ekki hugsa til þess. Henni fannst það mundi gera sig örvita að sjá hann taka sér aðra konu. Nú vissi hún að, hann elskaði sig - og hann hlaut að halda áfram að elska hana. - Engin önnur gat orðið ástar hans aðnjótandi. Engin önnur mátti njóta hennar.

En hún efaðist heldur ekki um, að hann mundi reynast sér vel. Hann átti ekkert vantraust af henni skilið.

Og hvíldi þá ekki ábyrgð á henni líka? Hún var ekkert barn lengur, heldur fullorðin stúlka, sem átti að kunna fótum sínum forráð.

Hún hafði látið sér einkar annt um hann, allt frá því hann kom. Hún hafði hreina samvisku um, að það var aðeins af skyldurækni. En ef til vill hafði hann misskilið það.

Hún hafði tekið eftir eirðarleysi hans og hugarstríði og fundið hjá sér hluttekningu. Hafði hann orðið þeirrar tilfinningar var? Ef svo var, þá var það ekki með hennar vilja.

Hann hafði eitt kvöld - kvöldið áður en hann játaði henni ást sína - verið henni óþarflega nærgöngull. Því hafði hún þá ekki brugðist reið við? Því hafði hún ekki sýnt honum kulda og fyrirlitningu daginn eftir, svo hann aldrei framar leyfði sér annað eins?

Og svo kvöldið, sem fundum þeirra bar saman fyrir alvöru. Hafði hún þá ekki beinlínis verið á njósnum um, hvernig honum liði, og hvað hann hefðist að? Hafði hún ekki beinlínis lokkað hann, með því að ganga fram á hlaðið í tunglskininu og láta hann sjá, að hún væri þar ein? Og hafði hún ekki eins og stefnt honum á þennan afvikna stað, með því að fara einmitt þangað?

Og því hafði hún ekki hlaupið frá honum, hrundið honum frá sér, varið sig, hljóðað, æpt á hjálp, gert gauragang - ?

Nei, - öll þessi smáatvik höfðu gengið eins og þau væru lögð niður fyrirfram. Það gekk allt sem eftir órjúfanlegu boðorði. Hún gat ekki annað.

Það var sem rödd innra hjá henni segði henni að ganga hvert spor þannig og ekki öðruvísi, gera þetta og ekki annað. Hún vissi, að það var sinn eigin veikleiki og breyskleiki; hún átti að stjórna sjálfri sér. En það mátti einu gilda, hvað það var. Það var hennar sök, sem hún átti að taka afleiðingunum af. Hún var heldur ekki ábyrgðarlaus.

Nú hugsaði hún líka út í það, að það var eins og ótal smáatvik hefðu aðvarað hana. Hún mundi vel eftir augum húsmóðurinnar, þegar hún hafði spurt hana, hvort presturinn væri giftur. Í því tilliti hafði falist óbein bending um, að það væri mál, sem henni kæmi ekki við.

Hún mundi eftir draumnum, sem hana hafði dreymt seinustu nóttina á undan þessum atburði. Nú skildi hún, hverju fóstra sín hafði búið yfir.

Hún mundi líka eftir því, sem henni hafði dottið í hug, þegar hún leit inn á skemmugólfið, þar sem hún hafði legið, þegar hún meiddi sig. Hún mundi vel, hvað þessi gleymdi atburður hafði þá staðið sér skýr fyrir hugskotssjónum, eins og hrópandi aðvörun um, að hún væri í hættu stödd.

Því lengur sem Halla velti þessu öllu fyrir sér, því meiri varð grunur hennar eða beygur fyrir því, að þetta ævintýr leiddi til einhvers óláns.

Stundum gripu ásakanirnar, kvíðinn og allar þessar ömurlegu hugsanir hana slíkum afltökum, að hún varð klökk og gat varla tára bundist.

Ef hún þá var stödd hjá öðrum mönnum, herti hún sig upp, svo tárin komust aldrei lengra en fram í augun. En ef hún var ein, þar sem hún var viss um, að enginn heyrði sig eða sæi, gaf hún eftir fyrir tilfinningum sínum og grét eins og lítið barn.

En Halla hafði sterka forlagatrú, og allar íhuganir hennar enduðu að lokum með þeirri ályktun, að allt, sem skeði, væri eilífur og óbreytilegur vilji forsjónarinnar. Sköp hennar og allra manna voru í guðdómlegum höndum, og allt var fyrirfram ákveðið, bæði það blíða og stríða, - einnig þetta ævintýr hennar.

Hún fann stjórn og handleiðslu í öllum þessum smáatvikum, sem leiddu hvert af öðru og voru ofin saman. Hann, sem öllu stýrði, hlaut að hafa einhvern tilgang með því; einhvern góðan tilgang; en hans vegir voru órannsakanlegir.

Það var synd að reyna að rannsaka þá, synd að reyna að leita frétta af framtíðinni. Það var vantraust á hans guðdómlega vísdómsráði og föðurlegu forsjá.

Og hún beygði höfuðið eins og gott barn fyrir þessu valdi og sagði í auðmýkt: Verði þinn vilji! -

Og þegar Halla hafði grátið út eða hugsað sig þreytta tók hún aftur til vinnu sinnar, með endurfætt bros á vörunum, - sæl í trú sinni og sæl í ást sinni.

Umgengni þeirra Höllu og prestsins hafði líka tekið breytingum. Nú skildu þau hvort annað. Nú vissu þau hvort um sig, hvað hinu bjó í brjósti. Að vísu fór því fjarri, að þau þekktu enn þá hvort annað til hlítar; en þó svo mikið, að öll feimni var framvegis ónauðsynleg, og allt of mikil hæverska þeirra á milli hlaut að skiljast sem hlægileg uppgerð.

Auðvitað gerðu þau sér allt far um að umgangast jafnókunnuglega og áður, þegar aðrir sáu til. Hvorugu fipaðist þar í hlutverki sínu.

Það var aðeins í einrúmi, sem óhætt var að létta af sér grímunni, þegar áreiðanlegt var, að enginn sæi til þeirra. Og augnablikin, sem þau voru tvö ein, voru ekki færri nú en áður.

Halla stundaði verk sín með sömu alúð og nákvæmni og áður. Hún gekk álíka oft um stofuna, þegar hann var þar inni, eins og hún hafði áður gert.

En einu var þó við bætt, sem til umbóta horfði, þótt lítið væri; hún hafði oft gleymt að láta stofuhurðina aftur á eftir sér, þegar hún gekk þangað inn; en þegar hún stóð opin, mátti sjá úr bæjardyrunum og göngunum inn um alla stofuna. Nú gleymdi hún þessu aldrei.

Hún hafði líka fundið það algerlega óhæfilegt, að hægt væri að glápa af hlaðinu inn til prestsins, þegar hann sæti þar við vinnu sína; þess vegna fékk hún húsmóður sína til að leggja til hvít léreftstjöld, sem hengja mætti fyrir gluggana að innanverðu á kvöldin, þegar hann væri búinn að kveikja; gamla prestsekkjan lét þetta fúslega í té; en heimamönnum þótti þetta undarleg nýbreytni; þar höfðu fáir séð gluggatjöld áður. -

Það var líka erindisleysa ein fyrir þá, sem forvitnir voru, að laumast inn í stigaganginn bak við stofuna og gægjast þaðan inn um rifurnar. Halla hafði byrgt þær trúlega, allar saman. En það var auðvitað gert til að útiloka súginn!

En innan þessara þéttuðu veggja fóru hinar smáu, daglegu ástarjátningar fram. Ástarjátningar, sem voru að mestu fólgnar í blíðum, ástríkum tillitum, sem sögðu meira en mörg orð.

Þegar þannig var um búið, var óhætt fyrir þau að brosa hvort við öðru, eins og þær verur einar geta brosað, sem lifa í sælli samhygð.

Já, það var meira að segja óhætt fyrir Höllu að ganga alveg til prestsins, ef hann var önnum kafinn við eitthvað og leit ekki undireins upp, og vekja hann af hugsunum sínum með því að leggja handlegginn ofur blítt um hálsinn á honum og láta brennheita kinnina á sér snerta vanga hans. Jafnlítilfjörlegt bessaleyfi var ekki misvirt.

Nú skildi Halla, hvað hann hafði átt við með því, að hún kæmi með sólskin inn í stofuna til hans. Og nú gerði hún sér far um að koma með sem mest sólskin í einu í hvert skipti, er hún kom þangað. En hún gætti þess þó vel, að vera þar ekki lengi inni í einu, svo komur hennar þangað gætu engan grun vakið.

En þetta var aðeins hin daglega umgengni. Auk þess mæltu þau sér leynimót, eins og tíðkast meðal elskenda, til þess að njóta unaðar ástarinnar, til þess að faðmast og kyssast og hlýða á sætan ástar-fagurgala hvort af annars vörum, og - til þess að segja ekkert alvarlegt eða skynsamlegt orð hvort við annað eða renna huganum nokkurn tíma saman yfir lífið og kringumstæðurnar - og framtíðina.

Síra Halldóri var þetta mikið umhugsunarefni. Honum var það ljóst, að hann var kominn í mikinn vanda og að efasamt var, hvernig úr honum greiddist.

Þær svartsýnishugsanir, sem áður höfðu ásótt hann, höfðu orðið að reyk fyrir öðrum nýjum og miklu stórfelldari.

Hvað var það, að vera andlítill ræðumaður eða tóna óáheyrilega, hvað var það, að tala sér þvert um geð, þegar á lá - og hvað var það í einu orði, að vera pokaprestur, hjá því, ef það kæmi fram í dagsljósið, sem nú var skeð, svo söfnuðurinn fengi að vita alla söguna? Það fór um hann hrollur við slíka hugsun. Leikslokin lágu beint við. Honum var sem hann sæi sjálfan sig fyrir altarinu, þegar bændurnir ryddust að honum í hóp með hrindingum og ákefð, til að toga af honum hempuna.

Og þó fannst honum slíkur úrskurður svo hrópandi ranglátur.

Hann vissi, að hann var réttur að lögum og þeir menn höfðu verið til, og væru enn til, sem höfðu orðið að drekka þennan beiska bikar í botn.

Honum fannst athæfið sjálft og hugsunarhátturinn, sem það studdist við og var fram komið af, vera svo ómannúðlegt, svo gersneytt öllum menningarbrag, svo hráköld vofa eldgamals ruddaskapar, að hann átti bágt með að trúa, að slíkt væri til enn. En hann vissi þó, að svo var.

Hann vissi, að við slík tækifæri var öll skynsamleg yfirvegun fyrir borð borin, öll vörn brotin á bak aftur, hneykslið eitt stóð nakið fyrir mönnum, sektin og refsingin - allt saman fyrirfram vegið og ákveðið, rígbundið við sína verðlagsskrá, eins og vöruverðið á dögum einokunarveslunarinnar.

Og þó vissi enginn af dómurum hans, og gat ekki með nokkru móti vitað, hvað eiginlega hafði gerst.

Enginn gat vitað, hve nálægt hann var fullkominni örvilnun af óyndi og hugarstríði, þegar hann leiddist út í þetta ævintýr. Enginn gat vitað, hve skjót umskipti höfðu orðið þar, hvernig unaðartilfinningin hafði hreinsað huga hans í einum svip frá myrkraöndum þeim, er þar höfðu tekið sér bólfestu, og hvernig hvert einasta augnatillit þessarar góðu, fríðu, ástríku stúlku, sem nú unni honum, enn þá dreifði flókanum, eins og geisli sólarinnar á hádegi, endurfæddi vilja hans og starfsþol og lýsti upp alla tilveru hans, og þetta allt saman þrátt fyrir það, þótt ástin væri í meinum, og ef til vill fremur einmitt þess vegna.

Honum runnu í hug stökur Jóns Þorlákssonar, þar sem hinn göfuglyndi prestur verður að beita ofríki við sjálfan sig til þess að játa ekki fyrir öllum heiminum ást sína og hamingju, hvað sem hver segir, - stríðir móti úreltum, órökstuddum siðferðiskreddum og erfðakenningum steinrunninnar kirkjumenningar, en veit, að hann getur með einni hendingu snúið almenningsálitinu til vægðar og skynsamlegrar íhugunar, samhryggðar eða samhláturs að minnsta kosti - og kveður svo djarfmannlega, þótt undir rós sé, um þær gerðir sínar, sem hann telur sér til sóma, en ekki vansæmis.

Hann hafði kunnað þessar stökur síðan hann var barn, en aldrei skilið þær eins vel og nú, þegar honum fannst hann vera sjálfur líkt á vegi staddur og þjóðskáldið góða.

Hann minntist margra embættisbræðra þeirra, sem hann hafði spurn af, að líkt stóð á fyrir. Þeir höfðu ekkert kveðið; en hann skildi undur vel, hvers vegna þeir höfðu ekki gert það. Enginn fugl syngur, nema hann hafi rödd.

Hann óskaði, að hann væri skáld, svo hann gæti látið hugsanir sínar fljúga út á meðal mannanna á braglistarinnar léttu vængjum og tala máli sínu við hvert hjarta, hvernig sem allt færi að öðru leyti; - skýra hverri manneskju frá, að það, sem hann hefði gert, væri í alla staði eðlilegt og sjálfsagt og yrði sér um allan aldur kær og ógleymanleg minning.

Og þó varð hann að játa fyrir sjálfum sér, að það hefði verið betra að vera laus við þetta ævintýr. Hann fann, að hann hafði dregist út í það af veikleika, léttúð og eigingirni; hann fann, að það hefði verið karlmannlegra, og eflaust eftir á aukið sér siðgæðisþrek, hefði hann verið maður til að láta ekki bugast af sorgum sínum og ástríðum, heldur staðið eins og bjarg, þar til éljunum létti.

Hann hafði aðeins hugsað um sig - alls ekki um hana. Hann hafði anað fram í blindni, eins og vél, sem knúin er af blindu afli. Allt, sem nú færðist upp yfir sjóndeildarhringinn, hefði hann getað séð fyrir.

Nú gat hann ekki lengur hugsað um sig einan. Nú var hún honum kærari en svo, að hann vildi leiða neina ógæfu yfir hana. Hann hafði alls ekki hugsað út í, hver áhrif þetta hlyti að hafa á hana. Nú var hann búinn að raska sálarfriði hennar; nú var fyrir hendi að skapa þar aftur jafnvægi. Hann vissi vel, hve örðugt sér myndi veita það. Hún elskaði hann og hún hafði fest vonir sínar og traust á honum einum.

Ábyrgðin var svo þung, að honum fannst hann mundi vanmegnast undir henni.

Honum var jafnhugarhaldið að verja hana minnkun í augum annarra manna eins og sjálfan sig; niðurlæging hennar var niðurlæging hans um leið.

En fyrr eða síðar hlaut hann að bregðast trausti hennar. Hann hugsaði til þeirrar stundar með kvíðahrolli, þegar hann yrði að segja henni allt eins og væri um hagi sína, eða þegar hún frétti það af öðrum. En sú stund var óumflýjanleg. Það var hægt að fresta henni fram að vissu takmarki, en svo hlaut hún að koma. Þetta var stundar leikur, sem hlaut svo að hafa ákveðinn enda.

En hvað forlögin höfðu hagað þessu öllu óskynsamlega - klaufalega, lá honum við að hugsa. Það var allt gert í blindni, eins og vant var.

Hann bar þær saman í huganum, Höllu og þá konu, sem hann var tengdur. Hvílíkur munur!

Þessar tvær manneskjur voru jafnólíkar eins og lífskjörin voru ólík, sem þær höfðu átt við að búa, og eins og lífskjör hans voru ólík fyrr og nú. Konan hans var Reykjavíkurstúlka, föl og veikluleg, síþyrst í samkvæmisglaðværð og bæjarnýjungar og síhrædd við öll óþægindi og allt það, sem reyndi á ráðsnilld og framtakssemi.

Halla var sveitastúlka, ötul og hraustleg, alin upp við vinnu og baráttu fyrir lífinu, vonglöð og ótrauð og albúin þess að taka því, þótt eitthvað blési á móti.

Hún hefði ef til vill ekki sómt sér í höfðustaðnum á við hina - ekki fyrst í stað. - En nú höfðu forlögin rekið hann úr þeirri Paradís um aldur og ævi og skipað honum til rúms í hennar umhverfi. Hér átti hann að lifa og starfa framvegis og hér átti hún heima. Hér átti hún að vera konan hans.

Honum sárnaði það, hvað þessu var óheppilega komið. Og því lengur sem hann velti þessu fyrir sér, því sjálfsagðara fannst honum, að þannig hefði þetta átt að vera.

Hann var sannfærður um, að þetta hafði verið hugsun forsjónarinnar. Hér átti hún að bæta upp bresti hans, vinna þann hluta af störfum hans, sem hann sjálfur var ekki maður til að vinna. Hún átti ekki að trufla hann eða tefja með óþægilegum smá-áhyggjum og sífelldum kvörtunum; hún var fær um að leysa sitt verk af hendi án hans aðstoðar, vinna í sínum verkahring, vinna fyrir hann og með honum og elska hann.

Hann fann til þess, hve slík sambúð mundi lyfta sér og auka sér siðferðislegan þrótt, með því meðal annars að gefa sér meiri tóm til að rækja dyggilega embættisskyldur sínar, og hann fann það líka, hve mjög það mundi stuðla til að gera sig virtan og elskaðan í söfnuðinum, ef hann tæki að sér bláfátæka, en væna stúlku, sem væri hold af safnaðarins holdi og bein af hans beinum.

Hann var sannfærður um, að einmitt fyrir slíka stöðu væri Halla sköpuð. - Og þeir, sem best þekktu Höllu, mundu hafa samsinnt honum í því. -

En hin - ? Því fór fjarri, að hann vildi varpa rýrð á hana, ekki einu sinni í hugsunum sínum.

En hvað hafði hún með slíka stöðu að gera? Hún, sem aldrei hafði þekkt annað en Reykjavíkurheimili, sem að vísu var ekki efnað, en þar sem henni þó leið vel. Hún, sem alltaf hafði varpað allri sinni áhyggju upp á móður sína. Hvað átti hún að gera með húsfreyjustöðu á sveitaheimili?

Hann vissi, hve sárt hún kveið fyrir því að þurfa að fara burt úr Reykjavík, og hvílíka óbeit hún hafði á sveitabúskapnum. Hann sá hana í huga sér, enn þá fölari og veiklulegri en áður, með stóru, gráu augun síspyrjandi, alltaf vantreystandi, alltaf kvíðandi; og nettu, fríðu andlitsdrættina afmyndaða af óyndi og hugraun, sem hún þó reyndi af öllum kröftum að leyna, til þess að auka sem minnst á byrði hans.

Hann sá hana heimilisfasta í þessu bæjargreni, þar sem allt var missigið, skakkt og að falli komið, fullt af sagga og svælu, súg og ódaun; þar sem allir hlutu að verða henni til ama og leiðinda.

Hann sá hana bólgna um augun af gráti og áreynslu, sem hún var ekki fær um, og sá, hvernig allt heimilisfólkið mundi lítilsvirða hana, hlæja að henni í sinn hóp og tala um hana á öðrum bæjum, jafnvel þó það kenndi í brjósti um hana eða því lærðist að þykja vænt um hana.

Hann sá hana koma til sín, mannsins síns, til að stynja upp kvörtunum yfir raunum sínum - að vísu ekki nema ofur litlum hluta þeirra; en samt allt of miklu til þess, að hann gæti heyrt það með ró og jafnaðargeði.

Hann sá, að hún mundi tefja sig, trufla sig, auka á raunir sínar, í stað þess að létta þær, blanda líf sitt beiskju, án þess jafnframt að geta fært því nokkurn sætleik. - Allt þetta var hann fús á að leggja í sölurnar, ef það bæri nokkurn árangur.

En ekkert af því gat þó bjargað henni. Hann sá, að hún gæti ekki lifað hjá sér á þessum eyðilega stað. Hún hlyti að deyja, - og sér yrði um kennt, þegar lífi hennar væri lokið.

En hér varð engu um þokað. Hefðu þau aðeins verið trúlofuð, þá var enn þá tími til að bjarga þeim báðum. Eitt bréf var nóg. Það hefði sviðið í bráðina; en í það mátti ekki horfa. Tíminn hefði grætt það sár smátt og smátt og loks að fullu. En þau voru gift - reyrð saman ævilangt, dæmd til að sökkva hvort með öðru. - „Það, sem guð hafði samantengt, - - !“ Mikil ósköp! Hann kunni þetta allt utan að!

Hann beit á jaxlinn. En hvað hann hataði þessa setningu, þetta kirkjuinnsigli á hjónabandinu, sem var lögverndað og órjúfanlegt.

Hann hafði oft hugsað um það, hvílíka óblessun það margsinnis leiðir af sér, - já, hvílíkt bölvunarband það er og hefir verið fyrir margar manneskjur. Nú skildist honum það betur en nokkurn tíma áður. Nú - þegar búið var að trúa honum sjálfum fyrir þessu heilaga innsigli, til að setja það þar, sem það ef til vill væri enn verr komið en hér.

Allar þessar hugleiðingar gerðu hann hálfringlaðan. Hann kannaðist við, að hann hefði siðferðislegar og lagalegar skyldur eiginmanns á herðum sér. En hann hafði siðferðislegar skyldur gagnvart sjálfum sér og Höllu - því hann unni henni hugástum.

Þá kom það fyrir, að hann fylltist móði og ákefð til stórræða.

Hann vildi bjóða öllu byrginn, taka Höllu sér fyrir konu, hvað sem hver segði, gera algerða uppreist gegn öllu því, er þóttist hafa rétt til að hlutast til um sambúð þeirra, berjast, með hana við hlið sér, gegn öllu því ofurefli, sem kirkja og löggjöf mynduðu í sameiningu. Láta áminningarnar dynja á sér, láta þá refsa sér, taka af sér embættið, taka allt, sem hann ætti, upp í sektirnar. og reka sig blásnauðan út úr Paradís embættisvegsemdar og höfðingjahollustu. Byrja svo nýtt líf sem bóndi, með Höllu sem húsfreyju - - !

En móðurinn rann af honum von bráðar. Hann fór að hugsa skynsamlega um alla þá glötun, sem þetta leiddi yfir hann - einmitt nú, þegar svo langt var komið, að hann var búinn að heyja alla sína skólabaráttu með afarerfiði fyrir sig og afarkostnaði og fyrirhöfn fyrir föður sinn og vini hans. Hvað mundu menn hugsa? Hvaða kröfur áttu þeir á hendur honum? Og nú, þegar öllu þessu stríði var farsællega lokið og hann orðinn embættismaður hinnar umburðarlyndu íslensku þjóðkirkju - - nei, hann mátti ekki hugsa til þess.

Og hvað hafði hann með það að gera að vera bóndi? Var hann fær um það? Eða átti Halla að vinna fyrir honum? Eða hvað gat hann orðið annað? - Nei, hann mátti ekki heldur hugsa til þess.

Hann var ráðþrota, þreyttur af að hugsa, þreyttur af að lifa og yfirbugaður af sinni eigin ragmennsku. Hann byrgði andlitið í höndum sér og sá sjálfan sig reka með straumi atvika og tilviljana, einsog hjálparlaust skip. En - hvað átti hann að gera?

Þannig sat hann stundum, þegar Halla kom inn og leit brosandi, ástúðlega til hans. Þetta yndislega bros, fullt af trausti og innileik, var sólargeislinn, sem dreifði hverju skýi frá huga hans. Það andaði friði og blíðu inn í sálu hans og leið um hjarta hans eins og hlýr straumur. Hann var sæll, því hann vissi sig elskaðan.

Og þetta ástúðlega bros mátti hann ekki missa, hvað sem það gilti. Honum fannst hann mundi stirðna upp og deyja, ef hann missti það.

Raunar bærðist einhver strengur í sálu hans, sem sagði, að þessi himnesku gæði keypti hann fyrir eftirgerða mynt, og að verslunarsvikin mundu komast upp.

En önnur rödd, enn þá sterkari, mótmælti því. Þessi gæði voru gjöf frá guði sjálfum, sem gladdi hann með þeim, mitt í raunum hans, til að gera honum þær bærilegar.

Því annars gat þetta bros ekki á svipstundu gert hann svona sælan. Og hann fann, að hann mátti ekki án þess vera. Hann varð að njóta þess, njóta þess, meðan tími ynnist til. -

„Halla, ég elska þig“.