Halla
Höfundur: Jón Trausti
8. kafli

Kóngsbænadagurinn - hann er nú týndur úr tölu helgidaganna.

En fram á okkar daga, sem nú lifum og ekki erum orðnir gamlir menn, var hann einn af þeim dögum, sem allir þeir, er báru hita og þunga dagsins, hlökkuðu til að rynni upp.

Hann var einn af þeim dögum, sem gaf mönnum tækifæri til að hrista af sér okið að mestu eða öllu, þótt ekki væri nema einn dag eða dagshluta, fara úr hversdagsgörmunum í sjaldhafnarflíkurnar, þvo sér og greiða betur en vant var, glettast, hlæja og skemmta sér, fara á aðra bæi, eða sofa sér aukablund um hábjartan daginn, - í stuttu máli: vera sinn eiginn húsbóndi, hvíla sig eftir daglega stritið og safna kröftum undir komandi dagana, - halda auka-sunnudag í miðri vikunni.

Nú er þessi kóngsbænahelgi úr sögunni. Bændunum og öðrum vinnuveitendum var leyft að láta vinnulýð sinn vinna þá eins og endranær. Fjölmennustu stéttir þjóðarinnar fengu þar ekkert um að segja, vinnuveitendurnir settu þau lög sjálfir og einir. Og þeim er það helst til vorkunnar, að þeir vissu ekki hvað þeir gerðu.

Kóngsbænadagurinn er einn af þeim þýðingarmiklu dögum ársins, þegar vorið venjulega er farið að vinna sigur yfir vetrinum, hlýindin yfir hörkunni, lífið yfir dauðanum.

Sumarið er komið, en ekki nema að nafninu; það sefur enn þá, eins og ofur lítið barn í reifum sínum, aðeins 2-3 vikna gamalt.

Og þetta vor var það um kóngsbænadagsleytið, að fyrstu fjörtök þess fundust. Veturinn hafði verið harður og heyjafrekur, og á þorranum hafði rekið hafís upp að landinu, sem eftir það var í hrakningi fram yfir páska. Þá fór að skipta um veðráttuna og koma þíður við og við, með sunnanvindum, sem ráku burt hafísinn. En svo kom áfelli aftur með frosti og hríðum og menn urðu almennt skelkaðir við vorharðindin, sem menn þekktu af reyndinni, að eru skæðust og fæstir geta staðist, einkum á eftir allþungum vetri.

En svo kom batinn með sumarmálunum. Margir voru þó enn vantrúaðir á, að það væri nema skyndihláka. En það reyndist þó vera meira.

Dag eftir dag voru hlýir sunnanvindar og blíðviðri, og það leyndi sér ekki, að þeim vannst vel á.

Árnar ruddu sig með dunum og dynkjum, reistu klakaspangirnar á rönd og byltu þeim fram af fossunum, möluðu þær í sundur í hringiðunni og ruddu svo öllu saman fram í sjó.

Stöðuvötnin fóru með meiri hægð, en gerðu þá alveg það sama.

Smálækir færðust í aukana og minntu á tilveru sína, sem annars var hætt við að gleymdist, með því að verða ófærir, eða jafnvel með því að flóa langt út yfir bakka sína og gera óskunda.

Gilin í fjöllunum fylltust af vatni, sem henti sér organdi, þykkt af aur og leðju, fram af hverjum stallinum eftir annan, og ruddi með sér hverju, sem fyrir varð, grjóti sem öðru, og skriðurnar renndu sér, eins og æfðir skíðamenn, niður úr fjallabrúnunum, niður yfir fannirnar undir hömrunum og langt ofan í auðar hlíðar, en stór björg, sem höfðu orðið þeim samferða af stað og voru stórstígari, hentust áfram í loftköstum, rótuðu upp jörðinni í hverju spori, en höfðu langt á milli sporanna; skálmuðu þannig alla leið ofan í hagana, engjarnar eða jafnvel inn á eitthvert túnið, þar sem bændunum kom verst, lögðu sig þar til hvíldar eftir áreynsluna og fengust ekki til að hreyfa sig þaðan, hvorki með illu né góðu.

Hafísinn var horfinn úr landsýn, nema einstöku jakar, sem höfðu strandað á skerjum og flúðum og stóðu þar nú sem sneypulegur vottur um það, að meginflotinn hafði beðið ósigur og var lagður á flótta, og biðu eftir því, að þeir bráðnuðu.

Það var sem landið brytist úr klakafjötrunum; öll náttúran varpaði af sér vetrargervinu, og það með þeirri ákefð, að það var auðséð, að henni var full alvara. Vorið var, komið.

Hagarnir voru auðir að mestu, fannirnar, sem enn voru eftir, voru eins og flíkur af gamalli skyrtu, rifnar og óhreinar; en það gerði ekkert til, því nú var verið að færa sig úr þeim garmi.

Það var að byrja að koma grænn litur á túnin. Raunar var enn klaki í skorningunum á milli þúfnanna, og enn þá vottaði fyrir fönnum hér og þar í kringum bæina og stórum fönnum úti í högunum. En nýgræðingurinn skeytti því alls ekkert. Hann teygði sig, ofur smár og veikbyggður, upp úr rótinni, þar sem hún var orðin þíð, fyrst ljósgrænn, næstum gagnsær, og „pínu-pínu-lítill“, en svo dökkgrænn og ilmsterkur, þegar hann þokaðist og mátti sín meira.

Viðargreinarnar úti í högunum fóru að þrútna og verða gljáandi á börkinn, og hér og þar vottaði fyrir ofur litlum nöbbum; en hver skyldi trúa, að í þeim byggju blöðin, sem áttu að laufga þær um sumarið, og frækorn í margar nýjar hríslur.

Farfuglarnir voru komnir aftur. Það voru nokkrir dagar síðan heyrst hafði til lóunnar, og spóinn „vall graut“ alveg heima undir túngarði, en krían sendi kveðju sína úr háa lofti. Allt kvað við af kvaki, ástarumleitunum og annríki.

Það var aftur farið að lifna yfir högunum, því féð var ekki lengur hneppt í húsum inni, en var nú orðið frjálslegt í bragði og ljóst á lagðinn, eftir að vera búið að viðra sig í marga daga; ærnar voru bústnar og þungar á sér, vögguðu í gangi og drógu ullina, því nú voru þær komnar fast að burði.

Vesalings kýrnar virtust einnig hafa veður af því í jarðhúsi sínu, hvaða tími væri kominn. Þær voru órólegar á básunum sínum og bauluðu aumkunarlega af þrá eftir sólskini, góðu lofti og grænum högum. En þær áttu enn þá eftir alllanga prísund. - Hestunum vegnaði betur; enda réðu þeir sér ekki fyrir fjöri og gáska, því nú voru þeir sínir eigin herrar, að minnsta kosti um nokkuð langan tíma. Þar voru kapphlaup og keppni um fallegan höfuð- og limaburð, en þess á milli bitist, bæði í illu og góðu. En hryssurnar drógu sig út úr slarkinu og baukuðu sér, með hausnettan, hábeinóttan „lalla“, latan í spori og hissa á heiminum, sem þeim þótti samt vænt um, því það gat verið vænt hestefni, sem yrði mömmu sinni til sóma.

Alls staðar var endurfætt líf, gleði, kæti og starfsemi og byltingagirni. Allt kastaði ellibelgnum og yngdist upp, því það var komið vor. Manneskjurnar rifust með út í allan þennan æskuglaum, þessi ærsl, leiki og lífsgáska, og þrá eftir frelsi og fögnuði brann í hverju brjósti, hverju auga, meira og minna rík.

Á slíkum dögum er kóngsbænadagurinn, þ.e. einn helgidagur í viðbót, kærkominn gestur.

Engum datt að vísu í hug að leggjast á bæn fyrir blessuðum kónginum, eða yfir höfuð að leggjast á bæn. Nei, menn köstuðu frá sér störfum og áhyggjum daglega lífsins, til að gleðja sig, til að njóta yndis og yngjandi blíðu vorsins, njóta samlífsins við náttúruna, starfandi, elskandi og endurreisandi.

En hún hvatti til annars fremur en bæna. Hún hvatti til lofgerðar og aðdáunar; en þó öllu öðru fremur til framsóknar og drengilegra dáða.

Það var byrjuð útivinna á prestssetrinu fyrir nokkru síðan; en á kóngsbænadaginn var ekki unnið, og öll verkfæri fengu að liggja í friði.

Enginn kom til kirkjunnar, nema meðhjálparinn, og hann hefur líklega tæplega búist við því, að á sér þyrfti að halda, því hann kom sætkenndur, vesalings karlinn, og með brennivínsflösku í barminum, og settist með hana inni hjá prestinum. Hann hafði alls ekki getað stillt sig um að fá sér á flösku til bænadagsins, fyrst tíðin var svona góð og útlitið svo blessunarlegt. Og þó vissu allir, að hann var enginn drykkjumaður.

Flest heimafólkið hafði brugðið sér á bæina í kring. Það var heldur ekki undarlegt, því vinnuhjúaskildaginn var eftir fáa daga, og þá átti allt þetta fólk, sem verið hafði saman á prestssetrinu, að skiljast að og dreifast út um aðra bæi. Og þó samkomulagið hefði verið svona og svona með köflum, þá var þó eins og allir yrðu alvarlegir við tilhugsunina um að skiljast að. Nú voru flestir að finna húsbændurna tilvonandi og vita um leið, hvernig sér mundi lítast á sig í nýju vistinni.

Allir vissu, að prestsekkjan gamla ætlaði að bregða búi um vorið og selja lausafé sitt, en presturinn ætlaði að taka við jörðinni.

Enginn sá það á gömlu konunni, hvort henni féll þetta betur eða miður. Hún var ekki orðfærri og alvarlegri en hún var vön.

Hún var að vísu búin að venja sig við þá hugsun, að hún yrði að hrekjast burt af prestssetrinu, og þótt hún vissi vel, að ungi presturinn mundi orðalaust hafa lofað sér að vera þar í húsmennsku framvegis, þá hafði hún þó ekki skap til að biðja hann þeirrar bónar. Hún vildi heldur koma sér fyrir hjá gömlum og reyndum kunningjum, og nú var hún búin að því. Nú færðist jafnt og þétt nær því, að hún kveddi þennan kæra stað. Og hún var undirbúin.

En þegar fólkið var allt farið burtu á kóngsbænadagshelginni, fann hún til óþreyju og tómleika í kringum sig. Hún fór þá að lesa húslesturinn upphátt yfir sér og annarri gamalli konu til, sem var heima; en viðkvæmnin greip hana meira og meira, svo hún varð við og við að hætta að lesa fyrir gráti. - -

Presturinn var aftur fluttur fram í stofuna, þegar veðráttan fór að hlýna.

Áhyggjur hans urðu honum æ meira og meira óbærilegar. Hann fann vel, að því varð nú ekki frestað lengur, sem fram átti að koma, og það hljóp út um hann sviti, er hann hugsaði til þeirrar stundar, er hann þyrfti að skilja við Höllu.

Hann efaðist líka mikið um, að hann gæti skilið hana við sig svona í einni svipan.

Það var auðvitað það æskilegasta fyrir hann sjálfan. En gerði hún sér það að góðu? Og ef hún gerði það ekki, hvernig færi þá? Var hann búinn að spilla heiðri sínum og hamingju? Áttu allir að fá að vita hið sanna?

Þessar spurningar voru nú orðnar enn þá nærgöngulli en nokkurn tíma áður. Þær kröfðust svars. Og hann mátti til að bjarga sér út úr þessu vandræðaástandi.

Hann fann það vel, að hann hafði farið ógætilega og hrasað. Nú hefndist honum fyrir glópskuna með látlausum kvíða og hugarkvöl.

Hann fann líka, að öll hans farsæld hékk á veikum þræði. Hann var búinn að semja sig að þeirri hugsun fyrir löngu, að hann hlyti að skilja við Höllu, hvað sem öðru liði. En átti hann þá að missa allt, embætti, framtíðarhamingju, velvild og traust hvers manns, vegna þess, sem þeim hafði farið á milli?

Nei, það var of grimmúðleg hefnd. En þetta gat þó orðið. Og þótt hann fyndi vel, hvað Halla hefði verið fyrir sig þennan vetur og hvað mikið hann átti henni að þakka, þá gat það þó ekki komið til mála að skilja sig við öll önnur gæði hennar vegna. Hún var þó ekki annað en umkomulaus þjónustustúlka og hafði ekkert að bjóða honum, nema sjálfa sig.

Og úr því kringumstæðum hans var nú þannig hagað, að hann mátti ekki eiga hana, þá var ekki um annað að tala en reyna að skilja hana sem lempilegast við sig - áður en lengra væri komið. Nú var allt undir því komið, hvernig það tækist.

Það var eins og það biti á hann, að það mundi ekki takast vel, og hann fann vel, að það yrði sér hart aðgöngu, því þær tilfinningar bar hann þó í brjósti til Höllu. Hann fann, að hann þurfti að misþyrma sjálfum sér með skilnaði þeirra; en það var þó það eina, sem gat bjargað honum.

Og svo Halla? Hvernig mundi henni verða við? Hvað mundi hann hugsa um hana á eftir. - En það mátti einu gilda, hann gat ekki annað.

Hann hafði boðað Höllu til leynifundar við sig upp að lauginni fyrir ofan túnið, þegar aðrir voru sestir að um kvöldið. Þar átti að skríða til skarar.

Honum var meðhjálparinn hvimleiður gestur, meðan hann sat yfir honum um daginn og var að blaðra um alla skapaða hluti, sem honum komu ekkert við. Hann gat ekki hlustað á hann, og þegar hann svaraði honum einhverju, var einsog svarið kæmi utan af þekju. Hugur hans hafði meira og þyngra viðfangsefni en svo, að þetta hversdagsskraf gæti létt af honum byrðinni.

Hann var óstyrkur og fannst því gott að dreypa á flöskunni meðhjálparans við og við, því það styrkti hann og jók honum hita, um leið og það virtist brjóta sárasta broddinn af sálarplágum hans og gera honum rórra í skapi.

Hann drakk þó með gætni, því hann vildi ekki koma þessum manni upp á það að líta á sig sem drykkjubróður, og þegar degi fór að halla, ýtti hann karlinum á stað. Hann þurfti að fá að vera einn um stund, áður en hann talaði við Höllu. -

Halla hafði brugðið sér bæjarleið um daginn, eins og fleiri, en kom þó bráðlega aftur. Hún gerði það mest sér til afþreyingar, því hana grunaði, að þessi samfundur þeirra mundi ekki færa henni nein gleðitíðindi. En hún brann þó af óþreyju eftir að heyra, hvað það væri, sem hann vildi tala um við sig. Hún þóttist hafa séð það á honum, er hann mælti þeim mótið, að honum væri mikið niðri fyrir.

Halla hafði stöðugt orðið efablandnari og alvarlegri síðan um veturinn, að þeirri fregn var kastað svo hrottalega í andlit henni, að presturinn væri giftur. Henni fannst nú sjálfri eins og sinnisjafnvægi sitt og glaðlyndi um veturinn hefði í raun og veru stafað af þeirri vissu, að þau ættu aldrei að skilja, en mættu njótast ævilangt, og traust hennar á forlögin og handleiðslu æðri vilja var traustið á hin góðu öfl, sem ekki gætu ráðstafað þessu á annan veg. Þess vegna hafði hún gefið hinum bestu og innilegustu tilfinningum sínum vald yfir sér og breytt eins og auðtrúa flón.

Þessi ísköldu hreytiyrði vinnukonunnar höfðu vakið hana óþyrmilega af hinum góðu draumum, vakið efann og vantraustið, sem stöðugt píndi hana eftir það.

Hún lagði raunar engan trúnað á þessa hranalegu fregn. Hún vildi ekki trúa henni. En hvað stoðaði það? Hún gat þó verið sönn. Og ef svo væri, þá hlaut hún að leiða einbera óhamingju yfir hana.

Og ekki einungis yfir hana; henni fannst sér það vera mátulegt, og henni fannst hún hafa þrek til að bera það; - heldur líka yfir hann.

Ef til vill miklu meiri ógæfu hlaut þetta að leiða yfir hann, - hann, sem hún elskaði miklu meira en sjálfa sig. Það var henni þyngri tilhugsun en allt annað. Og orsökin fannst henni liggja hjá sér.

Þessar hugsanir héldu vöku fyrir henni margar nætur og voru orsakir til margra tára í einrúmi, þótt hún bæri sig vel, hvenær sem aðrir sáu til. Þessar áhyggjur gengu líka mjög nærri henni og höfðu þegar - auk annars - sett ótvíræð merki á útlit hennar. Hún var orðin ofur lítið fölari og magrari en hún átti að sér. Kinnarnar voru að vísu enn ávalar og skiptu vel litum, en voru ekki eins þykkar og áður. Hvarmarnir voru stundum rauðleitir og þrútnir eftir grát, og það vottaði fyrir bláleitum sveigum neðan við augun.

En Halla gat breitt bros yfir öll þessi veiklunarauðkenni, sem villti flestum sjónir. Og vinnufólkið hafði enn þá ekkert séð. Í hæsta lagi hafði það ef til vill grun um það stöku sinnum, að hún væri eitthvað lasin; en engum fannst það neitt eftirtektarvert. Það var engin nýlunda í sveitinni á þeim árum, þótt menn gengju með einhvern lasleika og kvörtuðu ekki fyrr en í fulla hnefana, því fram að þeim tíma hafði aldrei sést læknir þar um slóðir.

Halla var því örugg gagnvart vinnufólkinu. Öðru máli var að gegna um gömlu húsmóðurina.

Halla sá það enn sem fyrr, að fyrir henni átti hún bágt með að dyljast. Og hún skalf á beinunum og það bar enn þá meira á auðkennunum, þegar gamla konan horfði hvasst á hana.

Stundum sagði hún með vanalegri hægð: „Ósköp eru að sjá þig, Halla mín. Gengur nokkuð að þér?“ En Halla neitaði, og þar með var úttalað um það mál að sinni. En Halla bjóst á hverri stundu við strangri yfirheyrslu og kveið fyrir henni.

Allt heimafólkið var komið heim fyrir venjulegan háttatíma. Það var ys og kliður í baðstofunni, eins og í fuglabjargi. Hver skvaldraði í kapp við annan, og þó heyrðist varla orðaskil. En á meðan tæmdu menn matarílátin sín, sem biðu þeirra uppi á hillunum, og fóru svo að klæða sig úr.

Það tók enginn eftir því, þótt Halla laumaðist út.

Veðrið var undur gott og milt, hafði að vísu verið stinningshvasst á sunnan um daginn, með mistri til heiðanna, en var nú orðið kyrrt og góðviðrisleg Maríutása yfir mestan hluta himinsins. Hún lét því nægja að kasta ullarþríhyrnu lauslega yfir herðar sér um leið og hún gekk út.

Hún gekk fyrir stofugluggana, svo presturinn skyldi sjá sig, og hljóp síðan léttilega upp túnið, þann veg, að hún yrði ekki séð úr baðstofugluggunum.

Laugin og hverinn voru skammt fyrir ofan túnið, og var ofur lítil hæð á milli, sem var klettótt þeim megin, er að lauginni vissi, og fagrir, grösugir hvammar neðan undir klettunum, sem nú voru farnir að gróa öðrum blettum fremur, vegna hitagufunnar úr hvernum, sem lagði oft þangað. Þegar Halla kom upp á hæðina, leit hún við og sá prestinn koma á eftir sér. Hún fór þá niður fyrir klettana og beið hans þar.

Meðan hún beið, hafði hún nóg að gera að virða hverinn fyrir sér. Á þessum dögum bættist svo mikið vatn í hann, bæði ofan jarðar og neðan, að hann hafði ekki við að spýta því frá sér. Og svo sauð hann og vall í ákafa, þeytti kristaltæru vatninu, sjóðandi heitu, fulla mannhæð upp í loftð, og lét þétta, hvíta gufubólstra stíga upp í vornætursvalann. Stundum dró niður í honum, eins og hann væri orðinn uppgefinn. En það var ekki nema augnablik. Þá byrjaði hann aftur með meira afli og meiri gný en áður. Vatnið bólgnaði og bungaði upp yfir jarðsprungunni, sem það kom upp úr, og sauð og krakkaði í sífellu, en rann síðan sjóðheitt fram í laugina, þar sem Halla svo margsinnis hafði kropið að fataþvotti. En út úr lauginni rann lækur ofan í hraunið.

Meðan hún var að virða þetta allt fyrir sér, kom presturinn til hennar.

Hann settist niður hjá henni og tók um hendina á henni. Þau köstuðu ekki einu sinni kveðju hvort á annað.

Það var dauðaþögn furðulengi. Halla horfði hálfforviða á hann. Hann var óstyrkur eins og sjúkur maður, og hendin, sem hélt um hönd hennar, titraði. Það var auðséð, að honum var mikið niðri fyrir. Hann leit ekki framan í hana, heldur niður fyrir sig, eins og hann væri að forðast augu hennar.

Halla sá það vel, að það var ekki laust við, að hann væri drukkinn, þótt ekki væri það mikið.

Allt þetta vakti einhvern ónotabeyg hjá henni. Svona alvarlegir höfðu fundir þeirra aldrei verið áður. Og slíkan hafði hún aldrei séð hann fyrri.

Hann byrjaði á samtalinu. En það sýndist ekki ætla að ganga vel í fyrstu. Hann stamaði og hjó eftir orðunum, eins og eitthvað stæði í kverkunum á honum, sem hindraði málið. En það var ekki nema fyrst. Svo fór það að verða liðugra. Halla leyfði honum að tala og hlustaði þegjandi á.

Hann byrjaði á því að þakka henni fyrir, að hún hefði komið til fundar við sig. Þessi fundur þeirra væri þýðingarmikill fyrir þau bæði og þótt hann væri alvarlegri en þeir, sem á undan væru gengnir, þá yrði hann þó ekki umflúinn.

Hann hefði ekki þurft að segja þetta. Halla hafði vel tekið eftir því, hve alvarlegur hann hafði verið nú síðustu dagana, og þó einkum, þegar hann boðaði hana til þessa leynifundar.

Þar næst lýsti hann því með mörgum og innilegum orðum, hvað hún hefði verið fyrir sig um undanfarinn tíma. Hún hafði verið stjarnan hans í því svartamyrkri áhyggju og óyndis, sem hér lukti um hann. Hún hafði sent ljós og yl inn í sálu hans og gert honum það bærilegt, sem hann annars hefði aldrei getað borið. Hún hafði verið heilladísin hans, sem studdi hann og styrkti, þegar honum lá hvað mest á, sem strauk með blíðu sinni og viðkvæmni sorgina burt af svip hans og kyssti angistina burtu úr sálu hans. Hann hafði fundið, að með henni yrði hann allur annar maður framvegis. Hún var sú kona, sem guð hafði skapað til að vinna með honum dagsverk lífsins, hún og engin önnur. Við hlið hennar hefði hann ef til vill orðið sá maður, sem væri erindi sínu vaxinn.

Það var enginn efi á, að hann sagði hvert af þessum orðum í einlægni. Hann hafði hugsað um þetta fram og aftur, hugsað um það hvað eftir annað, og aldrei komist að annarri niðurstöðu. Þetta var orðið honum trúaratriði.

Jafnframt sá hann það líka fyrir, að skilnaður þeirra mundi verða þeim báðum til hinnar mestu mæðu, ef til vill til hinnar mestu ógæfu. En hann sá þó engan veg til að komast hjá því. Hann hafði ekki hugsað út í neitt af þessu, að minnsta kosti ekki nægilega, þegar hann lét eftir ástríðum sínum og stofnaði nánari kunningsskap við þessa ungu stúlku, sem hann þá ekkert þekkti.

Hún hafði unnið í áliti hans við viðkynninguna. Nú leit hann hana öðrum augum en þá.

Hann iðraðist ekki eftir því, sem hann hafði gert. Það gaf honum ógleymanlegar, kærar minningar til fylgdar út í framtíðina. Hann kveið aðeins fyrir skilnaðinum, kveið því, að þetta skyldi enda svona fljótt, kveið tómleikanum, sem eftir mundi verða í lífi sínu, og - kveið fyrir því, að svo kynni að vera komið, að lyktir þessa ævintýris yrðu mun erfiðari viðfangs en byrjunin.

Halla sem horfði fram fyrir sig eins og í draumi og hlustaði á það, sem hann sagði, eins og það væri kært, gamalkunnugt lag, sem hún heyrði óma til sín úr fjarlægð. Hún hafði heyrt öll þessi fögru orð áður. Þau voru ekki annað en endurtekning á játningu hans um það, að hún hefði verið það fyrir hann, sem hún hafði viljað vera. Henni leiddist aldrei að heyra þau, því það voru indælustu orðin, sem hún nokkru sinni hafði heyrt.

Eftir þennan inngang hélt presturinn áfram. Hann kvað sér nauðugt að segja það, en þó yrði ekki hjá því komist.

Skilnaðarstund þeirra væri nú upp runnin. Hann þyrfti að leggja á stað í langferð eftir fáa daga, og eftir heimkomu hans yrði samfundum þeirra að vera lokið, enda yrði hún þá farin burtu af heimilinu.

Hann þagnaði og horfði framan í Höllu, en hún horfði fram fyrir sig eins og áður. Hann hafði búist við að sjá henni bregða meira við þessi tíðindi, en hann varð engrar breytingar var.

Halla hafði verið undir þessa frétt búin, síðan hún heyrði glósu vinnukonunnar. Þess vegna veitti henni nú léttara að láta hana lítið á sig fá. Þó fylltust augu hennar af tárum og röddin skalf, þegar hún spurði, hvort hann færi til að sækja konuna sína.

Honum kom þessi spurning á óvart. Hann hefði að vísu getað búist við, að hún væri búin að frétta af högum hans. En að hún gæti spurt um þetta atriði með slíkri stillingu, slíkri hógværð, án biturlyndis eða þykkju, því hefði hann ekki trúað. Hann horfði á hana, og hljómurinn í svarinu lýsti undrun, þegar hann sagði:

„Já. - En hvernig hefir þú frétt þetta?“

Halla leit ekki upp: „Það var rödd úr ríki myrkranna, sem sagði mér þetta“, sagði hún. Eftir ofur litla þögn leit hún framan í hann og spurði: „Mátti ég ekki frétta það?“

Honum varð hverft við að sjá framan í hana og heyra spurninguna. Það var eins og kaldur gustur af ásökunum andaði á móti honum. Hann sá vel, hve mikið henni var niðri fyrir og hve aðdáunarleg tök hún hafði á því að bæla niður geðshræringar sínar.

„Ég hefði helst óskað að segja þér frá því sjálfur fyrstur manna“, mælti hann.

„Það var rödd úr ríki myrkranna“, mælti Halla. „Það var ein vinnukonan, sem hatar mig og öfundar mig, sem sagði það af illgirni, í því skyni að særa mig.“

Presturinn hrökk saman: „Vissi hún -? Hafði hún komist að -?“ stamaði hann.

„Hún vissi ekkert og hafði ekki komist að neinu“, flýtti Halla sér að grípa fram í. „Annars hefði hún ekki sparað að nota það betur. Ég hef gert mér far um að komast eftir því, og ég er viss um, að enginn veit neitt um samdrátt okkar - enn þá.“

Hann varð aftur rólegur, þótt þetta „enn þá“ kæmi honum nokkuð undarlega fyrir.

„En það illa getur snúist til góðs“, hélt Halla áfram. „Og ég gæti verið þessari illgjörnu stelpu þakklát fyrir það, að hún kastaði þessu í andlit mér. Það hefði komið sér verr að heyra það ekki fyrr en nú í kvöld.“

Samtalið féll niður um stund. Þeim var báðum þungt um andardráttinn, og það var sem þau hvort um sig notuðu hvíldina til að sefa geðshræringar sínar og velja orðum sínum sem þýðastan búning.

Presturinn rauf þögnina: „Halla, þú veist ekki, hve óhamingjusamur ég er. En þú mátt ekki auka á óhamingju mína. Þú verður að fyrirgefa mér!“

Rómurinn bar vott um bæn og viðkvæmni.

„Hvað á ég að fyrirgefa þér?“ spurði Halla, eins og út í loftið.

„Ég hef leynt þig þessu; ég hef leitt þig afvega, haldið þér við tálvonir og -.“

Halla greip fram í fyrir honum: „Þetta er engu síður mér að kenna. Ég hefi ekki spurt þig neins; ég hefi einskis af þér krafist. Það var ógætilegt af mér og óskynsamlegt. En ég gat það ekki - ég elskaði þig svo mikið.“

Hún hallaði höfðinu upp að brjósti hans, og tárin streymdu niður kinnarnar.

„Halla, Halla, - þú ert þá ekki reið við mig!“

Hann gat ekki dulið feginleik sinn. Það var sem bjargi væri létt af brjósti hans. Hann lagði handlegginn um hana og þrýsti henni hægt að sér. Ásökunum hennar hafði hann kviðið mest af öllu, kviðið því, að þau skildu óvinir og ást hennar á sér breyttist í hatur. Nú var hann utan þeirra skerja.

Halla hvíldi sig upp við barm hans eins og dauðþreytt barn. Orðin, sem hún sagði, voru sögð með hvíldum, ofur lágt, en þó stundum með gráthljóði.

„Ég hefi elskað þig - það hefir verið mér nóg. Þú hefir gert mér lífið að yndislegum draumi. Ég hefi verið alsæl í faðmi þínum og með þig einan í huga mínum. Ég hefði ekki getað orðið sælli, þótt allir prestar veraldarinnar hefðu blessað yfir ást okkar. Hver sem kjör mín verða, á ég þó dýrmætan grip í eigu minni. Það er minningin um viðkynning okkar. Hana getur enginn tekið frá mér. Þegar við erum skilin, verður hún eina ljósið mitt. Ég elska hana, af því ég elska þig til dauðans.“

„Halla -!“ Hann gat ekkert annað sagt. Það var klökkvi í röddinni.

„Ef ég hefði nokkra von um, að guð bænheyrði mig“, hélt Halla áfram, „þá mundi ég biðja hann að lofa mér að deyja nú, þar sem ég er.“

„Halla, þetta máttu ekki segja.“

Aftur varð þögn. Halla reisti sig hægt upp frá barmi hans og horfði sem áður fram undan sér. Hann sá það glöggt, að enn þá var eitthvað ósagt.

„Hvers vegna berðu ekki giftingarhring?“ spurði hún eins og út í bláinn.

Hann brosti við; spurningin kom honum svo barnalega fyrir.

Gat það verið þetta, sem þyngdi huga hennar? Hafði hringurinn blekkt hana? Hann flýtti sér að ná honum fram af fingrinum og sýna henni innan í hann. Þar voru grafnir tveir stafir. Hann var giftingarhringur, þótt hann væri steinhringur. Hann var það - því miður.

Halla leit ekki við hringnum.

Þá fór hann að segja henni frá, hve óhamingjusamur hann væri í hjúskap sínum. Hann hafði verið neyddur til að ganga að eiga þessa stúlku af vandamönnum hennar. Sjálfur hafði hann lítið þekkt hana. Sameiginlegar glaðværðarfýsnir höfðu dregið þau hvort að öðru. Hann hafði í fyrstunni orðið ástfanginn af því, hve vel hún dansaði. Hann vissi, að hún iðraðist eftir hjónabandinu, ef til vill engu minna en hann. Hann vissi, að hún bar ekkert traust til hans. Hingað til hafði hún treyst á foreldra sína og ekkert annað. Og þau höfðu ekki innrætt henni traust á honum. Hún hafði ekkert vitað, hvað hún gekk út í með hjúskapnum. Það, að eiga mann, hafði ef til vill verið henni eitt leikfang í viðbót. Hann kveið fyrir því, þegar þetta höfuðstaðarbarn ætti að fara að lifa lífi sínu í afskekktri sveit. Hann sá það fyrir, að sambúð þeirra gat aldrei orðið innileg. Þau höfðu bæði sömu ókostina. Hvorugt þeirra gat bætt hitt upp. Þau mundu reyna að dylja sorgir sínar hvort fyrir öðru og bæði andvarpa eftir frelsinu í kyrrþey, um leið og þau reyndu þó að umgangast friðsamlega og forðast að auka hvort á annars áhyggjur.

Þannig kom honum hjúskaparlíf sitt fyrir sjónir. En hann gleymdi því, að hann var að baktala manneskju, sem þó þráði hann og þótti vænt um hann, og að sumt af því, sem hann sagði, var sprottið af grun og kvíða hans sjálfs, en studdist ekki við næga reynslu.

En hann sagði þetta allt, eins og það hafði búið um sig í huga hans. Þetta var mildasta niðurstaðan, sem hann hafði komist að um þetta atriði. Og kæmi nú eitthvað fyrir, sem andaði á þetta hjúskaparhamingju-hrófatildur, þá duldist honum ekki, að það hlaut að fara enn þá verr.

Það var sem Halla heyrði ekkert af þessu, sem hann sagði. Henni fannst sig í raun og veru ekkert varða um þetta allt saman. Hún vissi, að hann unni ekki konu sinni, og hún vissi, að leiðir þeirra gátu samt ekki legið saman framvegis. Þetta hvort tveggja var henni nóg. Allar hamingjuvonir hennar sjálfrar voru lagstar til hinnar hinstu hvíldar, og með hvarfi þeirra virtist athyglin fyrir öllu öðru hafa kólnað og dofnað. Nú hugsaði hún mest um það, að hlífa honum, svo lengi sem unnt var, við því að heyra það, sem enn þá var ósagt.

En það var ekki unnt lengur. Á þessum fundi urðu þau að tala út um allt það, er þeim fór á milli. Síðar var það of seint. -

Lágnættið var komið.

Ennþá var að vísu ekki kominn sá tími ársins, að sólin væri hætt, eða því nær hætt, að ganga undir; en þó var nokkuð síðan, að dagur var hættur að hverfa af loftinu alla nóttina. Það var því hálfdimma ofur litla stund.

Veðrið var undur kyrrt og milt, og hátíðlegur friður allt í kringum þau.

Þunn kápa af dökkum vorskýjum lá yfir því nær allan himininn. Sums staðar grisjaði í hana, og sáust þá daufar stjörnur upp í hvelfingunni, en niður við sjóndeildarhringinn var dagur allt í kring.

Um lágnættið þéttust skýin og sigu niður undir jörðina, eins og þau væru forvitin og væru að hlusta og rýna eftir því, sem gerðist þar niðri í bládimmunni og næturkyrrðinni.

Sum tylltu sér þá á fjallakollana, löt og hvílrækin, vöfðu sig saman eins og kettir og fengu sér blund - meðan sólin léti þau í friði.

En litlu skýin, skýjabörnin, héldu sér svífandi. Þau voru hvorki forvitin né værukær, en þau leituðu hærra upp í loftið, til þess að vera viðbúin þegar sólin kæmi upp. Það væri þó gaman að vera komin í morgunkjólinn sinn á undan öllum öðrum, standa íklædd pelli og purpura. meðan hin skýin voru enn þá dökkgrá!

Prestinum fannst sem þessi leynifundur þeirra mundi nú vera á enda og ekki væri annað eftir en að kveðja Höllu hinni síðustu kveðju.

En það var eins og hún yrði vör við hugsun hans. Hún leit til hans og horfði fast á hann um stund; þótt skuggsýnt væri, gátu þau gjörla greint svip og útlit hvors annars. Og honum duldist ekki, að hana langaði til að segja eitthvað, sem hún þó hikaði við að koma fram með. Var það einhver bón, sem hana langaði til að biðja hann? Eða var það eitthvað annað? Hún horfði til hans eins og hún reyndi til að skyggnast inn í huga hans, og tillit hennar vakti beyg hjá honum.

Halla tók í hönd hans milli beggja sinna, eins og hún með því vildi milda þau tíðindi, sem hún hafði að segja. Eftir þennan undirbúning sagði hún einarðlega, en þó blíðlega:

„Elsku vinur minn. Okkur hefur fram að þessu tekist að halda vináttu okkar leyndri fyrir mönnum. En forsjóninni, sem hefir séð allar okkar athafnir og hugrenningar, hefir ekki þóknast að leyfa, að svo skyldi vera framvegis. - Leyndarmál okkar verður óumflýjanlega innan skamms á allra vitorði.“

Honum varð hverft við. Hann renndi grun í, hvað hún átti við. En hann lét sem minnst á því bera og spurði eins og annars hugar: „Hvað áttu við?“

Höllu fannst það óþarfi af honum að neyða sig til að tala ljósara, og sagði því ofur lítið harðlegar en áður:

„Þú skilur vel, við hvað ég á.“

Það varð dauðaþögn. Það var líkast því, sem ekkert orð væri í huga hvorugs þeirra, sem lægi beint við að segja. Þau horfðu hvort framan í annað. Halla ástúðleg, angurblíð og alvarleg, og hann - sviplaus. Það var um stund eins og hverri hugsun væri stolið úr huga hans. Hann var utan við sig, lamaður af þeirri frétt, sem hann mest af öllu hafði kviðið fyrir. En augu Höllu vöktu hann aftur til meðvitundarinnar. Þau horfðu beint inn í augu hans og kröfðust svars.

Það var snöggvast eins og leiftri brygði fyrir í huga hans. Eitt hið hæsta og göfugasta í karlmannseðlinu: föðurgleðin, gerði allra snöggvast ng óljóst vart við sig.

Hann var sæll, að vera faðir að því barni, sem þessi góða, göfuga stúlka var móðir að. Þessi stúlka, sem af fölskvalausri ást og blindu trausti hafði gengið honum á hönd, án þess svo mikið sem spyrja um, hver hann væri. Þessi stúlka, sem enn þá horfði framan í hann, full elsku og trausts og reyndi að segja honum þessa frétt með sem allra mestri hlífni og varúð - og það eftir að hann hafði neyðst til að segja henni, að hann hefði dregið hana á tálar og ætlaði að yfirgefa hana. Þessi stúlka, sem hafði fyrirgefið honum af hjarta allt, sem skeð var, og litið á það frá hans sjónarmiði, en ásakað sig. -

Það var eins og hljómþýð rödd hrópaði í sálu hans: Brjóttu af þér öll bönd, slíttu þig frá lyginni og heigulshættinum, taktu hana í faðm þér í augsýn alls heimsins og játaðu drengilega allt þitt athæfi, hvað sem hver segir; byrjaðu svo nýtt líf og vertu hamingjusamur í örbirgð þinni og stríði, því það blessast af ást góðrar konu.

En leiftrið hvarf, röddin þagnaði. Það var eins og suða fyrir eyrunum á honum. Hugsunin varð aftur óskýr, og hann var um augnablik sem heillaður í leiðslu.

Svo komu aðrar hugsanir. Þær gerðu fyrst vart við sig sem dimmir skuggaflekkir. En svo óðu þær að honum, hver eftir aðra og hver annarri ægilegri.

Það voru afleiðingarnar af því, sem skeð var, afleiðingarnar fyrir hann sem eiginmann og sem prest.

Og við komu þeirra hugsana vaknaði sú tilfinning, sem alla hans ævi hafði borið af öllum öðrum í brjósti hans: sjálfselskan - þessi meðfædda hvöt til eigin gengis og eigin varnar, sem er því ríkari sem siðferðisþroskinn er minni, og sem kyrkir svo marga drengilega hugsun í fæðingunni og gerir svo margan efnismann að skriðdýri. Nú lét hún til sín heyra.

Hann fann til vanmáttar síns og kjarkleysis; óttinn greip um hann sínum dökku, löngu, héluköldu örmum, óttinn fyrir fátækt, vanvirðu og útskúfun úr stétt sinni.

Og jafnhliða óttanum kom kvíðinn, napur og nístandi, og rann eins og kaldur hrollur um sálu hans, kvíðinn fyrir ábyrgðinni af verkum sínum og fyrir lífinu og framtíðinni.

Meðan þetta var að berjast um í huga hans hvíldu augu Höllu stöðugt á honum. Hún gat ekki ráðið í það, hvað honum bjó í hug. Hún sá snöggvast bregða fyrir gleði í svip hans. En svo myrkvaðist andlitið von bráðar og hélt áfram að skipta litum. Henni fannst þögnin óþolandi og tók því blíðlega til máls:

„Elsku vinur minn, ég er ekki óhamingjusöm. Ég sé það að vísu, að við megum til að skilja. Það er krafa heimsins og stöðu þinnar. En ég skal geyma trúlega minningu þína og aldrei, aldrei gleyma þér. Ég er viss um það, - ég finn það í sálu minni - að samlíf okkar hefir ekki verið syndsamlegt í augum hans, sem allt sér. Ég hafði engan til að ráðfæra mig við nema hann, hann sem býr þarna uppi og ræður kjörum mannanna. Til hans hugsaði ég á efasemda og áhyggjustundum mínum og lagði öll mín kjör í hans hönd. Látum mennina segja það, sem þeim þóknast. Þeir geta rifið þig frá mér, en þeir geta aldrei rifið frá mér hamingjuna, sem minningin um þig veitir mér. Og ef það, sem ég ber undir brjóstinu, fær að lifa og vaxa upp hjá mér, þá skal ég elska það, lifa fyrir það og verja öllum mínum lífskröftum því til blessunar, af því ég er móðir þess og þú faðir þess, og af því það er tryggðarpantur okkar, gefinn í faðmlögum algleymisástar og sælu, sem enginn sá eða vissi um nema guð, faðir okkar beggja. - Heyrðu, elsku vinur minn, má ég ekki láta það heita Halldór, ef það verður drengur - eða Halldóru, ef það verður stúlka, svo það beri líka nafn þitt - kærasta nafnið, sem ég kann að nefna?“

Veslings Halla. - Þetta var seinasta hamingjuvonin hennar - allt það, sem nú var eftir af draumum hennar. Það var lífsakkerið, sem hún nú byggði allt á. Hún hélt í einfeldni sinni, að þetta væri þó að minnsta kosti hættulaust, og ætlaði að gera sér það að góðu. Hún vissi ekki, hve veikt þetta hálmstrá var.

Presturinn var orðinn náfölur í framan. Varirnar voru bláhvítar og titruðu. Hann heyrði orð Höllu, eins og þau væru töluð álengdar, en heyrði þau þó.

Hann skildi það vel, að hún krafðist einarðlega réttar síns af honum. Það var ekkert undanfæri. Það var öll von úti.

Honum sortnaði fyrir augum. Það sem hafði barist um völdin í huga hans, hafði nú lokið taflinu. Sjálfselskan hafði sigrað. Skynsemin hafði orðið hugsjóninni yfirsterkari. Allar mótraddir voru þaggaðar niður.

Og ofboðið greip hann. Hann gleymdi sér í myrkviðri sinna eigin hugsana, og líkamskraftarnir brugðust honum líka í þessu sálarstríði. Hann titraði eins og laufblað, lét fallast með höfuðið ofan að barmi Höllu og stundi upp því eina, sem honum nú sem stóð gat hugkvæmst að segja:

„Halla, ég er glataður maður!“

Halla strauk hendinni mjúklega um hárið á honum. „Er það mér að kenna?“ spurði hún svo lágt, að naumast heyrðist.

Það var enn þá bið eftir svarinu. Hann reisti sig upp aftur, og augu þeirra mættust. Hún hrökk saman. Hún hafði aldrei séð annað eins myrkur mannlegrar örvæntingar eins og í þessum augum.

Hann varð fyrri til að svara en hún að spyrja frekar:

„Já, það er þér að kenna - nú er það þér að kenna. Nú hefir þú forlög mín öll í hendi þinni. Ó, Halla, Halla, vertu ekki miskunnarlaus!“

„Miskunnarlaus!“ hváði Halla. Henni kom þetta allt svo ókunnuglega fyrir.

„Halla, þú veist ekki, hvers þú krefst af mér. Það, sem þú ferð fram á, er ekki nokkur hluti hamingju minnar, heldur er það hún öll. Embættið, heiðurinn, hjúskaparfriðurinn, æran - þetta er allt tapað. Ég veit það vel, að ég er faðir að barni þínu. En ég má ekki heita faðir að því. Við því liggur allt mitt tímanlega gengi. Halla, ég bið þig, - reyndu að gera þér ljóst, hve takmarkalaus óhamingja mín er! Sviptu mig ekki öllu!“

Halla þagði og horfði á hann. Það var eins og henni skildist ekki enn, hvað um var að vera.

Hann hélt áfram með vaxandi ákefð. Röddin titraði af geðshræringu. Halla hafði séð hann líkan þessu einu sinni áður. Það var kvöldið, þegar hún færði honum kertið og sá í fyrsta sinn í augu hans.

„Ég skil vel ástæður þínar. Þú ert of hreinhjörtuð til þess að segja ósatt, of stórhuga til þess að vilja láta aðra bera af þér blak, og ímyndar þér aðra menn eins og sjálfa þig. Þér stendur ekki á sama, hver kallast faðir að barni þínu. Þú krefst þess, og það réttilega, að heimurinn viti það sanna. Ég vil ekki misbjóða þér. Það mundi varpa skugganum á þig, ef ég bjargaðist. Menn mundu ef til vill blekkjast, eða að minnsta kosti láta sem þeir létu blekkjast. En það er þýðingarlaust að tala um slíkt. Ég þekki engan mann þér samboðinn og ég á engan trúnaðarmann, sem ég get leitað til. Það er öllum sundum lokað. Sverð bölvunarinnar hangir yfir höfði mér. Ég hef drýgt glæp. Ég hefi leitt þig afvega. - Blíðmæli mín hafa verið blandin eitri. Kossar mínir hafa verið höggormsbit. - Nú kemur hefndin. - Allt þetta eitur brennir nú sjálfan mig. Því fer betur, að það er aðeins lítill hluti þess, sem nær að skaða þig. Það eru góð öfl, sem varðveita þig og barnið. Þið eruð bæði hrein og saklaus. - Guð og menn líta í mildi á ástæður ykkar. - Hefndin hittir þann einn, sem hún á að hitta.“

„En hvers krefstu þá af mér?“ mælti Halla. „Segðu mér, hvers þú krefst. Krefstu þess, að ég leyni faðerni barnsins míns, kenni það einhverjum, einhverjum saklausum manni, ljúgi frammi fyrir öllum heiminum, frammi fyrir prestinum, sem á að skíra það? Getur þú krafist annars eins af mér? - Geturðu ímyndað þér nokkurn mann svo lítilmótlegan, að hann léti fá sig til að gangast við því, sem hann hefir ekki gert, - kaupa sig til þess? Og ef hann kynni að finnast, þá á ég að játa á mig mök við slíkan ræfil! Barnið mitt á að kalla hann föður sinn! Geturðu krafist annars eins af mér?“

„Nei, ég get það ekki. Það er úti um allt!“

Hann sagði þetta svo lágt, að hún heyrði varla orðin. Hann heyrði það á undirtektunum, að þennan veg var ekki fært að fara. Og þá var fokið í öll skjól.

Halla hélt áfram: „Og hver mundi trúa slíkri sögu? Það vita allir, að ég hefi fremur sneitt hjá karlmönnum. Verið stygg eins og hind. Enginn af þeim mönnum, sem ég hefi umgengist, hefir verið góðkunningi minn, hvað þá heldur meira. Enginn maður veit til, að ég hafi staðið í neinu nánu sambandi við neinn mann, engan mann umgengist einslega, nema þig. Og þó ætlarðu, að menn mundu trúa því, sem þeim væri ætlað að trúa. - Nei, ég þekki fólkið í þessu byggðarlagi. Það mundi ekki segja mikið upphátt, en þeim mun fleira í hljóði. Sögur í ótal útgáfum mundu læðast um alla sveitina. Óvíst, hve langt þær gætu komist. Tortryggnin myndi lýsa sér í hverju andliti. Menn mundu leynt og ljóst endurgjalda það með nöpru háði og köldum, hlífðarlausum glósum, að við ætluðum þeim slíka einfeldni og trúgirni. Væri það betra fyrir þig en hitt? Fyrir mig væri það óbærilegt?“

Hann þagði og beit á vörina. Hann fann, hve margt var satt í þessu, sem hún sagði. Og tækist þannig til, var lítið betur farið en að það sanna kæmi í ljós. Samlíf hans og safnaðarins var þá gerspillt. Hver smaladrengur í sveitinni gat gert hann orðlausan. Hann fann, að staðan yrði sér óbærileg.

„Nei, elsku vinur minn“, mælti Halla enn fremur, „þú getur ekki gert til mín slíka kröfu. Er ekkert annað til, sem getur bjargað þér?“

„Ekkert, ekkert!“ Hann hristi höfuðið.

Það varð enn þá ofur lítil þögn. Halla strauk hendinni blíðlega um vanga hans: „Get ég þá ekki bætt þér upp neitt af því, sem þú missir vegna mín?“

Hann brosti, - en í brosinu lýsti sér angist hans og örvænting. „Það er embætti og æra, sem þú átt að bæta mér upp. Treystirðu þér til þess? Það eru allir vinir mínir, sem hafa stutt mig með ráði og dáð, síðan ég var barn; það er faðir minn, sem sjálfur er prestur og sem byggði svo miklar vonir á mér! Það er allur heimurinn, sem þú átt að bæta mér upp. Treystirðu þér til þess?“

Halla þagði.

„Ég veit, að þú gerðir allt, sem í þínu valdi stæði. En hvað stoðaði það? Við yrðum að heyja baráttu gegn öllum völdum, andlegum og veraldlegum. Við yrðum útskúfuð. Við yrðum vargar í véum. - Ég fengi ekki að ganga að eiga þig. Lögin kalla samlíf okkar hórdóm og frillulifnað og banna okkur að giftast. Börnin okkar yrðu réttlaus, því þau væru óskilgetin, og að lokum yrði okkur stíað sundur með valdi, eins og manneskjum, sem spilla öðrum með dæmi sínu. Þannig er siðferðislögmál okkar kristnu kirkju! Slík eru kjör þeirra, sem rísa gegn kirkjustjórn og landsstjórn! Og þótt menn leituðust við að sýna okkur einhverja vægð, - hvað stoðaði það? Af hverju ættum við að lifa? Ég kann ekkert, sem ég get unnið fyrir mér með, þegar búið er að taka af mér emhættið. Hver kærir sig um hempulausan hneykslisprest á skrifstofur eða til verslunarstarfa, þar sem nóg býðst af heiðarlegum mönnum? Nei, Halla mín. Ofan á allt annað bættist örbirgðin, sulturinn -.“

Hann hætti upptalningunni í miðju kafi og stóð upp. Þessar skelfilegu hugsanir gengu svo nærri honum, að hann gat ekki haldist kyrr við. Honum var ósjálfrátt þörf á að hreyfa sig.

Halla stóð líka upp. Nú fór henni að skiljast, að hugarstríð hans var ekki að ástæðulausu. Hún hafði heyrt margt þessi síðustu augnablik, sem hún hafði aldrei hugsað út í áður. Ógæfan, sem yfir þeim vofði báðum, óx henni líka í augum.

Hún sá heldur engin úrræði. Fram undan þeim og allt í kringum þau breiddu sig torfærur, sem hún eygði ekki út yfir. Hún sá það vel, að það stoðaði ekki mikið, þótt hann tæki hana að sér. Hún megnaði lítið að bæta honum upp allt hitt. Samlíf þeirra yrði tómt stríð og barátta, sem ef til vill gerði þau bæði köld og biturlynd; - og þegar færi að kastast í kekkina, - hver veit nema hann kenndi henni þá um alla óhamingjuna. Ástin kólnar í stríðinu. Samlíf þeirra yrði kannski tómt böl, sem drægi ekki einungis hana í gröfina, heldur hann líka, - hann, sem hún elskaði. En - hana hryllti við eina úrræðinu, sem þeim hafði hugkvæmst til bjargar.

Hún var sokkin ofan í þessar hugleiðingar, þegar orð hans vöktu hana. Henni brá við. Hún þekkti naumast róminn. Það var eins og orðin kæmu einhvers staðar langt að. Í hverju orði lá svo þung sorg, svo ömurlegt vonleysi og járnkalt biturlyndi, að það smaug henni í gegnum merg og bein.

„Þú færð að sjá leikslokin, Halla. Þú verður meðal áhorfendanna. Það gengur allt saman eins og fyrirfram er ákveðið. Atburðirnir verða sögulegir. Atvikum og tildrögum verður ekki leynt. Sagan flýgur mann frá manni, byggð úr byggð, alla leið upp til háyfirvaldanna í Reykjavík - mannanna, sem þekktu mig á skólaárunum og þurftu þá að fyrirgefa mér svo margar yfirsjónir. Nú geta þeir það ekki lengur. Sómi þeirra og embætti er í veði, ef þeir hlífast við að gera skyldu sína. Svarið kemur. Það verður áheyrilegt; sannur vottur um árvekni hinna háu og strangleika þeirra um, að kirkjan sé ekki vanhelguð! Það kemur í blöðin. Menn verða fíknir í að lesa það. Hneykslissögurnar eru sælgæti fjöldans. Það verður hlakk og hlátur um allt land. Kirkjan hefur löngum verið mönnum ströng húsmóðir; nú benda þeir á blettinn: þannig er hún inni við beinið! Svona eru prestarnir! Faðir minn afneitar syni sínum; hann getur ekki annað. Allir, sem hafa hjálpað mér, stutt mig, þótt vænt um mig og byggt glæsilegar vonir á mér, - þeir formæla mér og snúa við mér bakinu með djúpri fyrirlitningu. - Konan mín neitar að yfirgefa mig í neyðinni. Ég get ekki neytt hana til þess. - Hún fylgir mér eftir - og minnir mig á fall mitt í hvert skipti, er ég lít framan í hana. - - Söfnuðurinn, sem ég heilsaði með stórum, fögrum orðum og loforðum, hann verður feginn að losna sem fyrst við mig! - - Það verður ekki messufall í kirkjunni þann sunnudaginn - þegar prófasturinn ómakar sig hingað í annað sinn mín vegna! Þið sitjið þar báðar, sem ég hefi dregið með mér í ógæfuna, - önnur í prestskonusætinu, hin framar. - Það verður mannkvæmt í kórnum, - þröng inni við altarið! Þann sunnudaginn vantar ekki útréttar hendur - til að færa mig úr hempunni - - á fyrsta embættisárinu mínu!“

Í enda þessarar tölu, sem hafði komið með hvíldum, var sem kraftar hans brystu. Síðustu setningarnar hálfköfnuðu í grátekka. Hann sneri sér snöggvast undan, til að reyna að leyna því, að hann gréti.

En áður en hann gæti byrjað aftur, fann hann mjúka handleggi vefjast um háls sér. Halla varpaði sér í fang hans og mælti skýrt og hiklaust, þótt röddin hefði hreim af gráti:

„Hættu, hættu!“ Þetta skal aldrei verða! Ég skal heldur láta lífið en nokkuð af þessu fái að fara fram! Treystu mér, og reyndu að vera ókvíðinn. Enn þá veit enginn neitt - og það skal aldrei neinn fá neitt að vita um leyndarmál okkar. Ég lofa þér því - ég sver það! - Þorirðu ekki að treysta mér? - Heyrirðu það? - Ég skal heldur láta lífið.“

Hann horfði framan í hana. Hún sneri sér gegn miðnæturbjarmanum í norðaustrinu. Tárin stóðu tindrandi björt á hvörmum hennar, og andlitið var ljómandi af ást og göfugleik.

Slíkur verður einungis svipur þeirrar manneskju, sem leggur alla sína velferð í sölurnar fyrir þann, sem hún elskar, - sem fórnar öllu því helgasta og kærasta, sem hún á, og lífinu með, ef þess þarf við. - Þvílík elska á einungis heima í óspilltum og ósjúkum sálum.

Hann trúði því naumast, að hann hefði heyrt rétt. Skapsmunir hans voru svo æstir, að hann heyrði og sá sem í óráðsórum, það sem fram fór.

En orð og atlot Höllu höstuðu á þennan úfna sjó hugsana hans. Það var sem meðvitundarlíf hans staðnaði og kólnaði upp, um leið og það sefaðist. Hann stóð sem dáleiddur og vissi hvorki í þennan heim né annan.

Og þetta einkennilega hugarástand birtist í svipnum. Andlitið var afmyndað af baráttunni við grátinn. Þessi nýju, óvæntu tíðindi færðu undrun og fögnuð, sem blönduðust hinu fyrra. Svipdrættirnir urðu hikandi, óvissir og stirðnuðu upp undir þeim áhrifum, svo andlitsútlitið líktist glotti manns, sem ekki er með öllum mjalla.

Hin ósjálfráða vitund manna er hög á svipbreytingar.

En Halla sá ekki útlit hans. Á þessari stundu sá hún hann aðeins, eins og hann kom henni fyrir sjónir, þegar hann hélt fyrstu ræðuna sína í kirkjunni. Þá var það fyrst, að hann hreif til sín allan huga hennar. Í þeirri mynd hugsaði hún jafnan um hann síðan, í þeirri mynd var hann orðinn henni samgróinn; þannig hafði hún elskað hann, og þannig fannst henni hann hverrar fórnar verður, hve stór sem hún var. - Þannig stóð hann henni einnig fyrir hugskotssjónum nú, en ekki eins og hann í raun og veru stóð hjá henni í næturhúminu, beygður af kvöl og hugarstríði. Það var því ekki af meðaumkun einni saman, að hún lagði rétt sinn og velferð í sölurnar, heldur af ást og aðdáun, sem nálgaðist tilbeiðslu.

Það stóð lengi á því, að hann gæti nokkru orði upp komið.

„Halla, - hvernig ætlarðu að fara að þessu?“ hraut honum loks af vörum.

„Ég veit það ekki - ekki enn þá! En treystu mér! Ég er búin að lofa því, og ég stend við það. Ertu ekki ánægður með það? - Spurðu mig ekki frekar! - Lofaðu mér að verða hér eftir. - En - kysstu mig að skilnaði!“

Aftur var sem leiftrinu brygði fyrir í huga hans, og röddin utan úr geimnum talaði til hans og minnti hann á að manna sig upp. En nú var leiftrið eins og endurskin hins fyrra og röddin sem bergmál; innri vitund hans heyrði og sá gegnum svefnmókið.

Enda var það árangurslaust. Viljinn, skapið, sjálfstraustið, sómatilfinningin, ástin - allt, allt, sem gerði hann að manni, það var allt sem steinrotað. Ekkert vakti í brjósti hans, nema sjálfsbjargartilhneigingin, sem dýrum og mönnum er ásköpuð. Hún rak hann áfram á þessu þýðingarmikla augnabliki.

Ein hugarhræring varð honum að lokum sjálfráð; það var þakklætistilfinningin.

- „Kysstu mig að skilnaði!“ endurtók Halla.

Hann hlýddi eins og barn. Varir þeirra mættust, og sálir þeirra runnu saman í innilegum kossi þakkar og kveðju.

Enn þá einu sinni fann hann hjartayl þessarar ástríku stúlku læsast um sig og gagntaka sig allan. - En nú var það í síðasta sinni.

Þannig stóðu þau, hvort í annars örmum, og gleymdu tímanum, gleymdu bölinu og hættunni - þótt ekki væri nema stutta stund. - En uppi í himinhvelfingunni greiddust skýin í sundur, og nokkrar daufar stjörnur gægðust niður um raufina. Þær skyggndust gaumgæfilega eftir því, sem gerðist í hálfskugga jarðarinnar, og depluðu augunum íbyggilega, eins og þær vildu segja: Við erum vitnin.