Hvarf séra Odds frá Miklabæ

eftir Einar Benediktsson

Hleypir skeiði hörðu
halur yfir ísa,
glymja járn við jörðu,
jakar í spori rísa.
Hátt slær nösum hvæstum
hestur í veðri geystu.
Gjósta af hjalla hæstum
hvín í faxi reistu.


Hart er í hófi frostið;
hélar andi á vör.
Eins og auga brostið
yfir mannsins för
stjarna, stök í skýi,
starir fram úr rofi.
Vakir vök á dýi
vel, þótt aðrir sofi.


"Vötn" í klaka kropin
kveða á aðra hlið,
gil og gljúfur opin
gapa hinni við.
Bergmál brýzt og líður
bröttum eftir fellum.
Dunar dátt í svellum:
Dæmdur maður ríður!
— — —