Jómsvíkinga saga/17. kafli
17. kafli
breytaÞað er nú frá sagt, að þeir Sigvaldi bræður búa skip tvö úr landi og ætla til Jómsborgar og vilja vita ef við þeim væri tekið, og spyrja ráðs Harald jarl föður sinn, hversu ráðlegt honum sýndist það, að þeir réðist til liðs með þeim Jómsvíkingum. En hann svarar og kallar það ráðlegt, að þeir færi þangað og aflaði sér svo ágætis og virðingar, „og er nú mál að ið reynið ykkur bræður hvort ið eruð nokkuð að mönnum.“ Þeir beiða hann fjártillaga til fararinnar og svo vista, en hann svaraði og kvað þá annað tveggja gera skyldu, að þeir færi þess kostar úr landi í braut, að þeir fengi sér sjálfir vistir og annað það er þeir þyrfti að hafa, eða færi hvergi elligar og sæti um kyrrt.
Nú fara þeir eigi að síður, þó að Haraldur jarl faðir þeirra vildi ekki til leggja. Þeir hafa tvö skip og hundrað manna; þeir vönduðu það lið sem mest og fóru síðan þar til er þeir komu til Borgundarhólms og þóttust þurfa að afla sér vista og fjár nokkurs kostar. Og taka þeir nú það ráð, að þeir gera þar upprásir og ræntu og taka upp bú Véseta eitt, það er auðgast var, og ræntu hann því fé öllu og báru ofan til skipa sinna. Og fara þeir nú í braut leiðar sinnar, og er nú ekki að segja frá förum þeirra fyrr en þeir koma til Jómsborgar. Þeir leggja utan að borgarhliðinu. En Pálnatóki gekk ávallt með miklu liði fram í kastalann þann er görr var yfir sundinu, og var hann því vanur að mæla þaðan við þá menn er komu til borgarinnar.
Og nú er hann verður var við kvámu þeirra Sigvalda, þá gerir Pálnatóki enn sem hann var vanur: geingur upp í kastalann með miklu liði og spyr þaðan hver fyrir liði því réði og skipum, er þá var þar komið. Sigvaldi svarar honum: „Hér ráða fyrir,“ sagði hann, „bræður tveir, synir Strút-Haralds jarls, og heiti eg Sigvaldi, en bróðir minn heitir Þorkell. En það er örendi okkart hingað, að við vildim ráðast til liðs með yður við þeim mönnum er yður þykja nýtandi vera í voru liði.“
Pálnatóki svarar vel um þetta mál, og leitar þó ráðs undir Jómsvíkinga félaga sína og kvað sér kunnigt vera kynferði þeirra og segir að þeir voru vel bornir. En Jómsvíkingar báðu Pálnatóka fyrir sjá sem honum sýnist og kalla það sitt ráð sem hann vill.
En nú eftir þetta, þá er lokið upp Jómsborg, og nú róa þeir Sigvaldi í borgina upp. Og er þeir voru þar komnir, þá skal reyna lið þeirra eftir því sem lög þeirra standa til Jómsvíkinga. Og nú fer það sama fram, að til er reynt um lið þeirra, hvort þeir þykja til hafa vaskleik og karlmennsku að ganga í lið með Jómsvíkingum og undir þau lög öll er þar voru sett.
En svo gengur sú raun, að helmingur liðs þeirra er í lög tekinn af þeim Jómsvíkingum, en helminginn senda þeir aftur.
Nú er tekið við Sigvalda og Þorkatli bróður hans og hálfu hundraði manna með þeim, og eru þeir nú leiddir í lög með þeim Jómsvíkingum, og ganga öngvir hærra í mannvirðingu af Pálnatóka en þeir bræður, og stendur þar nú svo búið um hríð.