Jómsvíkinga saga/20. kafli
20. kafli - Búi digri fer til Jómsvíkinga
breytaNú hafa þeir bræður skamma hríð heima verið með föður sínum, áður en Búi digri lýsir yfir því er honum bjó í skapi, að hann ætlast að fara til Jómsborgar að leita sér frægðar og ágætis. Sigurður bróðir hans vill og fara með honum, þótt hann sé nýkvongaður, og nú búast þeir heiman bræðurnir og hafa tvö skip og hundrað manna, og vilja gera sem líkast því er gerðu synir Strút-Haralds fyrr, þeir Sigvaldi og Þorkell. Fara síðan þar til er þeir komu til Jómsborgar og leggja þegar utan að steinboganum og að hafnardurunum.
Og er höfðingjar í borginni verða varir við kvámu þeirra, þá ganga þeir höfðingjarnir, Pálnatóki og Sigvaldi og Þorkell hávi, fram á steinbogann, og kenna þeir Sigvaldi mennina þá er fyrir skipunum réðu. Og nú tekur Búi til orða og segir að hann vill þangað ráðast til liðs með þeim Jómsvíkingum og þeir bræður með allt lið sitt, ef Pálnatóki vildi við þeim taka.
En Sigvaldi tekur til orða: „Hversu hafi þér faðir minn, Strút-Haraldur jarl, sett málum yðrum,“ segir hann, „áður en þér færið úr landinu?“
Búi svarar: „Það er löng saga,“ segir hann, „að segja frá vorum viðskiptum. En þau urðu lok á, að Sveinn konungur hefir skipað öllum málum með oss, og má eg nú eigi það upp inna í skömmu máli, er vér höfum saman átt, en sáttir eru vér nú.“
Nú mælti Pálnatóki við félaga sína, Jómsvíkinga: „Vili þér til hætta,“ segir hann, „hvort þessir menn segja satt eða eigi? En allfúss væra eg til þeirra,“ segir hann, „fyrir því að þess vættir mig að fáir myni hér slíkir vera fyrir í voru liði sem þeir eru.“
Þeir svara honum Jómsvíkingar: „Vér viljum attú takir þessa menn í lög með þér og oss, ef þér sýnist það. En ef þeir hlutir nokkurir koma upp síðar umb hagi þeirra er vér vitum nú eigi, þá skal það sem allt annað á þínu umdæmi.“
Og nú eftir þetta, þá er upp lokið Jómsborg, og leggja þeir Búi skipunum inn í höfnina, og er síðan reynt lið þeirra, og hljótast af því liði átta tigir manna, en fjórir tigir fara aftur heim til Danmerkur.
Nú er frá því að segja að þeir eru nú í borginni allir samt höfðingjar þeir er áður voru nefndir og þessir er nú eru til komnir, og vorust góðir vinir. Þeir herja nú hvert sumar eftir annað á ýmsi lönd og fá sér bæði fjár og mikillar frægðar. Og þó að eigi sé hér í þessari frásögn frá þeim stórvirkjum sagt, sem þeir unnu, þá er það þó alsagt, að eigi er sýnt að verið hafi meiri hetjur eða garpar en þeir Jómsvíkingar, og hyggju vér að varla hafi fingist þeirra jamningjar. En þeir eru hvern vetur í Jómsborg í kyrrðum.