Jómsvíkinga saga/22. kafli

Jómsvíkinga saga
22. kafli
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

22. kafli

breyta

Nú réðst Vagn heiman með lið þetta hið vænlega og þurfu þeir nú þegar að afla sér vistar, og verður Vagn ekki mjög örþrifráði, þótt hann væri ungur að aldri: Hann fer nú í fyrstu og rekur hernað fyrir endilanga Danmörk og höggur sér strandhögg ósparlega svo sem hann þarf. Hann rænir bæði klæðum og vopnum, og svo lýkur nú, að hann skortir hvorki vopn né herklæði né vistir, áður hann sigldi í braut úr Danaveldi, og lætur hann þá Danina fá sér slíka hluti. Allt hefir hann nú ærið það er þeir þurfu að hafa með þessum tveimur skipum.

Nú fer hann þar til er hann kemur til Jómsborgar; það var snemma umb morguninn í sólarupprás. Þeir Vagn leggja nú þegar skipunum utan að steinboganum. En þeir höfðingjar borgarinnar, Pálnatóki og Sigvaldi, Þorkell og Búi og Sigurður, þegar er þeir verða við lið varir, þá fara þeir í kastalann sem þeir voru vanir, og spyrja síðan eftir, hverir þar væri komnir. Vagn spyr í móti hvort Pálnatóki væri í kastalanum. Hann svarar og segir að sá væri maðurinn kominn til tals við hann, er svo heiti. - „Eða hverir eru þessir menn,“ segir hann, „er svo láta ríkmannlega?“

Vagn segir: „Ekki skal eg leyna þig heiti mínu. Eg heiti Vagn,“ segir hann, „og em eg son Áka á Fjóni og náfrændi yðvarr, og em eg því hér kominn að eg vilda ráðast til liðs með yður, fyrir því að ekki þótta eg nú dæll heima meir en svo, og þóttust frændur mínir nú ærið hafa, þótt eg færa nú í brott þaðan.“

Pálnatóki svarar: „Þyki þér ráðið, frændi“ segir hann, „að þú munt hér þykja hægur viðskiptis ef menn megu heima trautt eða eigi um tæla?“

Vagn svarar: „Logið er að mér, frændi,“ segir hann , „ef þú getur eigi temprað svo mitt skaplyndi að eg mega vera í samsæti með vöskum mönnum, og muntu vilja gera vorn sóma, þar er vér erum komnir á yðvarn fund.“

Þá ræðir Pálnatóki við Jómsvíkinga; „Hvort þykir yður ráðlegra,“ segir hann, „að vér takim við þeim Vagni frænda eða eigi?“

Þá annsvarar Búi digri: „Það er mitt ráð,“ segir hann, „og er hann við mig bezt sinna frænda, að vér takim aldregi við honum, og hann komi hér aldregi innan borgar.“

Þá mælti Pálnatóki til Vagns: „Við þér vilja menn rísa hér innan borgar, frændi,“ segir hann, „og jafnt frændur þínir, þeir er öll deili vita á þér.“

Vagn svarar: „Hvort verða þeir menn berir að því,“ segir hann, „er þar standa hjá þér, að þeir vilja eigi við mér taka? En þó væri mér þess eigi von af Búa frænda mínum, að hann mundi í þessu ber gerazt.“

„Þar em eg þó saður að því,“ segir Búi, „að eg fýsi ekki að við yður sé tekið, heldur let eg þess, en þó vil eg að Pálnatóki ráði.“

„En hvað leggja þeir til synir Strút-Haralds jarls?“ segir Vagn; „það vil eg vita.“

„Hafa skulu við til þess einörð,“ segir Sigvaldi, „að við vildim attú kæmir hér aldregi í vorn flokk.“

Nú spyr Pálnatóki og mælti: „Hversu gamall maður ertu, frændi?“ segir hann.

„Ekki mun eg ljúga til þess,“ segir hann; „eg em tólf vetra gamall,“ segir hann.

„Já,“ segir Pálnatóki; „þá mælir þú ólög við oss, frændi,“ segir hann, „þar er þú ert miklu æri maður að aldri en svo að vér hafim hér lögtekna í Jómsborg að vera í sveit með oss, og bítur það fyrir, og máttu af því eigi vera með oss.“

Vagn svarar: „Eg mun ekki til þess halda, frændi,“ segir hann, „að þú brjótir lög þín. En þá eru þau sízt brotin ef eg em sem einn átján vetra eða ellri.“

„Heill svo attú halt ekki lengur á þessu, frændi,“ segir Pálnatóki; „eg mun heldur senda þig vestur til Bretlands á fund Bjarnar hins brezka, og fyrir sakir vorrar frændsemi, þá gef eg þér upp hálft ríkið til eignar og stjórnar þar á Bretlandi.“

„Vel þyki mér þetta boðið, frændi,“ segir Vagn, „en þó vil eg eigi þetta er nú býður þú.“

„Hvað viltu þá, frændi,“ segir hann, „er þú vilt eigi slíka hluti sem nú býð eg þér, þvíað nú þykjumst eg vel bjóða?“

Nú svarar Vagn: „Eigi vil eg þetta heldur en áður,“ segir hann, „og er þetta þó vel boðið og frændsamlega.“

Pálnatóki mælti: „Hvar ætlar þú til, frændi,“ segir hann, „með ofsa þinn og framgang, er þú vilt eigi þiggja slíka hluti?“

„Þess skulu þér nú vísir verða, Jómsvíkingar,“ segir Vagn, „hvað mér býr í skapi. Eg vil bjóða Sigvalda syni Strút-Haralds jarls að við eigim leik saman og berjumst við jafnmart lið. Hafi hann tvö skip úr borginni og hundrað liðs og reynim síðan með oss, hvorir undan skulu láta öðrum og hvorir meira hlut skulu hafa í voru viðskipti. Og skal þetta mál binda með oss, og ef svo kann að verða að þeir láti sigrast og renni undan, þá skulu þér skyldir að taka við oss og göra oss lögtekna hér í Jómsborg. En ef vér eigum slíkan hlut máls sem nú ætla eg þeim Sigvalda, þá skulu vér í brott fara, og eru þér þá lausir þessa máls. En eigi býð eg yður með minna kappi en svo, að Sigvaldi jarlsson berist við oss ef hann þorir og sé hann óragur karlmaður og hafi heldur manns hjarta en berkykvendis.“

Nú svarar Pálnatóki: „Hér lýstur í endimi,“ segir hann „hvað þessi hinn ungi maður tekur til, og máttu þar til heyra, Sigvaldi,“ segir hann, „hversu mjög hann vandar boð að þér, þóttú sér jarlsson, og það þyki mér hvergi óvænna attú komir í fulla raun af þessum frænda mínum áður en þér skilið. En við það er svo er fast að skafið og fárlega, þá verður þú trautt hæfur maður af ef þú freistar eigi við þá, fyrir því að miklu er um mælt meira en þú megir undan víkjast. Og er það til að ér leggið að þeim og gerið þeim þá hina fyrstu hríð að þeir kunni hóf sín. En ef svo ber til að Vagn frændi vor verði eigi svo sigursæll sem hann er stórorður og gangi honum þyngra, þá vil eg þar mikinn varnað á bjóða, að engi maður beri vopn á hann, fyrir því að þeim mun þungt falla er það hendir, og leitt mun oss að sjá á ef hann er hart leikinn eða honum nakkvað til meins gert, þótt hann þyki trautt hvers barns leika vera. En þó varir mig að nú sé gör skírsla til, hvílíkur þú ert, Sigvaldi, í framgöngu, þótt frændi minn sé ungur að aldri.“