Jómsvíkinga saga/30. kafli
30. kafli
breytaEn nú er að segja frá þeim Jómsvíkingum. Þeir fara nú sunnan fyrir landið ófriðsamlega: herja þar og ræna sem þeir koma við. Þeir höggva strandhögg stór og drepa margt manna, og víða er það er þeir brenna býi að köldum kolum, og fara með herskildi allt sunnan fyrir landið. Og flýr hotvetna undan herinum, það er spyr til og undan má komast.
Og nú fara þeir þar til er þeir koma fyrir sund það er kallað er Úlfasund, og eru þeir þá komnir að Stað. Og er það frá sagt, að hvorigir spyrja til annarra glöggt, Hákon jarl eða Jómsvíkingar.
Og nú sigla þeir Jómsvíkingar sunnan fyrir Stað sex vikur sævar og fara þar til er þeir koma í höfn þá er heitir í Hereyjum og leggja þar í höfnina allan flotann sinn.
Og er þeir eru þar komnir, þá þykjast þeir þurfa að nýju að fá sér vista, og er það sagt að Vagn Ákason fer á skeið sinni til eyjar þeirrar er Höð heitir, og veit Vagn eigi að jarl liggur þar í voginum skammt frá eyjunni. Vagn liggur við eyna, og ganga þeir upp og ætla að fá sér strandhögg, ef það ber að hendi.
Og nú ber svo að, að þeir finna mann einn að máli; sá rekur fyrir sér kýr þrjár og geitur. Vagn spyr þann mann að nafni. Sá svarar og kveðst Úlfur heita. Þá mælti Vagn við sína menn: „Takið ér nú kýrnar og geiturnar og höggvið út á skip vort, og svo og ef ér finnið hér fleira fé.“
„Hver er þessi maður,“ segir hann Úlfur, „er fyrir liðinu ræður á þessu skipi?“
„Þessi heitir Vagn og er Ákason.“
„Svo þætti mér nú,“ segir hann Úlfur, „sem vera mundi nú stærri slátrarefni og nú eigi allfjarri yður komin, að því er ér ætlið nú til Jómsvíkingar, en höggva niður kýr mínar eða geitur.“
„Segðu oss ef þú veizt nakkvað til ferða Hákonar jarls,“ segir Vagn; „og ef þú kannt oss nakkvað það að segja með sannindum, að vér vitim hvar hann er, þá muntu undan koma bæði kúm þínum og geitum, - eða hver eru tíðendi oss að segja? Hvað veiztu til Hákonar jarls?“
Úlfur svarar: „Hér lá hann í gærkveld síð einskipa fyrir innan eyna Höð á Hjörungavogi, og munu þér þegar fá drepið hann er þér vilið, þvíað hann bíður þar manna sinna.“
„Þá skaltu,“ segir Vagn, „hafa keypt í frið fé þitt allt, og gakk nú á skip með oss og seg oss leið til jarls.“
„Svo hæfir eigi,“ segir Úlfur, „og vil eg víst eigi berjast í móti jarli, og samir það eigi, en segja mun eg yður leið þar til er þér hittið inn í voginn ef þér vilið. Og ef eg fer með yður á skip út, þá vil eg það mælt eiga að eg sjá þá látinn vera í friði er þér séið yfir það, að ér hittið í voginn.“
Nú gengur Úlfur út á skip með þeim. En það er snemma dags, og fara þeir Vagn þegar í Hereyjar sem tíðast og segja Sigvalda og öllum Jómsvíkingum þessi tíðendi er Úlfur sagði þeim.