Jómsvíkinga saga/34. kafli
34. kafli
breytaOg nú fer jarl á land upp með nokkura menn og fer norður í eyna Prímsigð, en þar var mörk mikil í eyjunni. Síðan gengur hann í rjóður eitt er í mörkinni var, og leggst jarl þar niður á knébeð og biðst fyrir, og horfir þó í norður, og mæltist nú fyrir sem honum þótti vænlegast.
Og þar kömur nú bænarorðum hans, að hann skorar á fulltrúa sinn, Þorgerði Hörðatröll. En hún daufheyrðist við bæn jarls, og þykist hann það finna að hún mun honum reið orðin, og býður hann henni nú að þiggja af sér ýmsa hluti í blótskap, og vill hún ekki þiggja, og þykir honum allóvænt horfa málið.
Og þar kömur því máli loks að hann býður fram mannblót, en hún vill það ekki þiggja er hann býður henni í mannblótum.
Nú þykir jarli óvænkast sitt mál, ef hann fær eigi sefað hana. Tekur nú og eykur boðið við hana, og þar kömur máli, að hann býður henni alla menn aðra, nema sjálfan sig og sonu sína Eirík og Svein. En jarl átti son þann er Erlingur hét og var sjö vetra gamall og hinn efnilegsti maður. En það verður nú of síðir, að Þorgerður þiggur af honum og kýs nú Erling son jarls.
Og nú er jarli þykja heyrðar vera bænir sínar og áheit, þá þykir honum vænkast umb, og lætur síðan taka sveininn og fær hann í hendur Skofta kark þræli sínum, og veitir hann sveininum fjörlöst með þeima hætti sem Hákon var vanur og hann kenndi honum ráð til.
Nú eftir þetta fer jarl til skipa sinna og eggjar nú lið sitt allt að nýju - „og veit eg nú víst“ segir hann, „að vér munum sigrast á þeim Jómsvíkingum, og gangið nú fram að betur, þvíað nú hefi eg heitið til sigurs oss á þær systur báðar, Þorgerði og Irpu, og munu þær eigi bregðast mér nú heldur en fyrr.“
Og nú hefir hvíld verið á bardaganum meðan jarl var í brautu, og hafa þó enn hvorirtveggju búizt við orrostunni sem vænlegast þótti, meðan þessi dvöl var.
Nú eftir þetta gengur jarl á skip, og leggjast þeir nú að öðru sinni. Og er jarl nú í móti Sigvalda, og gengur nú fram hið harðasta í trausti Hörðabrúðar og Irpu.
Og nú tekur veðrið að ylgjast í norðrið og dregur upp ský dökkt og dimmt með hafinu og gengur upp með öllu skjótt. En það var í það mund dags er tók út eyktina. Og dregur nú yfir skýið skjótt og fylgir þegar él, og þótti þeim sem þangað væri bæði eldingar og reiðarþrumur. Þeir allir Jómsvíkingar áttu að vega í gegn élinu. En þetta él var svo með miklum býsnum og veðrið það er fylgdi, að ekki máttu sumir menn betur en fá staðizt.
Og nú er menn höfðu áður um daginn farið af klæðunum fyrir hita sökum, en nú var veðrið nakkvað öðru vís, og tekur þeim nú að gnolla. Og er þó svo að þeir sækja bardagann frýjulaust.
Það er sagt að Hávarður höggvandi, förunautur Búa, sér fyrstur manna hvar Hörðabrúður er í liði Hákonar jarls, og margir sjá það ófreskir menn, og svo þeir er eigi voru ófreskir, og það sjá þeir með, þá er líttað linaði élinu, að ör fló að því er þeim þótti af hverjum fingri flagðsins, og varð ávallt maður fyrir svo að bana fékk af. Og nú segja þeir Sigvalda og öðrum sínum félögum.
Og nú tekur Sigvaldi til orða og mælti, þvíað þeir Hákon sóttu þá bardagann sem þeir máttu er élinu laust á og meðan það hélst:
„Eigi þyki mér,“ segir Sigvaldi, „sem vér eigim hér við menn að berjast í dag, heldur við hin verstu tröll, og mun það þykja nokkuð mannvandara að ganga vel í móti tröllunum, og er þó einsætt að menn herðist við sem bezt.“
Það er nú í frá sagt jarlinum Hákoni, að þá er hann finnur að élinu latar og eigi var jafnákaft sem verið hafði, þá hét hann enn á Þorgerði ákaflega og systur hennar Irpu, og telur hann það til við hana og þær, hversu mikið hann hefir til unnið, er hann hefir blótað syni sínum til sigurs sér. Og nú rökkur að élinu annað sinni. Og í þessu élinu öndverðu, þá sér Hávarður höggvandi að tvær konur eru á skipi Hákonar jarls og hafa eitt atferli báðar, jafnt sem hann hafði fyrr séð til annarrar.
Og nú tekur Sigvaldi til orða og mælti: „Nú vil eg brott flýja,“ segir hann, „og geri svo allir mínir menn, og er nú því verr en fyrr, þá er eg gat umb þetta, að vér berjumst nú við tvö flögðin, en þá var eitt, enda skal nú eigi lengur við haldast. Enda er það til kostar, að eigi flýju vér fyrir mönnunum þótt vér haldim undan. Ekki strengdu vér þess heit að berjast við tröll.“
Og nú snýr Sigvaldi undan skipi sínu og kallar á þá Vagn og Búa, að þeir skyldu undan flýja sem harðast.
Og nú í því bili er Sigvaldi hafði frá flotanum leyst skip sitt og hann kallar á þá Búa og Vagn, þá hleypur Þorkell miðlangur af skipi sínu og á skipið Búa og höggur þegar til Búa, og ber þetta nú allbráðum. Hann höggur af honum vörina og hökuna alla niður í gegnum, svo að það féll þegar niður í skipið, og fuku tennurnar úr Búa við höggvið það er hann fékk.
Þá mælti Búi er hann fékk sárið: „Versna mun hinni dönsku þykja að kyssa oss,“ segir hann, „í Borgundarhólmi, þótt vér kæmim enn þangað þessu næst.“
Búi höggur í mót til Þorkels, en hált var á skipinu er blóðugt var, og fellur hann Þorkell í skjaldrimina er hann vildi forða sér við högginu, og kömur nú höggið á hann miðjan Þorkel, og höggur Búi hann í sundur í tvo hluti út við skipsborðið.
Og þegar eftir þetta, þá tekur Búi gullkistur sínar í sína hönd hvora og hleypur síðan fyrir borð með kisturnar báðar, og kömur hvorki upp síðan svo að menn sæi, kistarnar né hann.
Það segja sumir menn, þá er Búi sté upp á borðið og ætlaði að ganga fyrir borð, sem hann gerði síðan, að hann hafi mælt þessum orðum: „Fyrir borð allir Búa liðar,“ segir hann, og þá þegar stígur hann fyrir borðið.
Nú er þar til að taka er Sigvaldi dregst út frá flotanum og gáir eigi þess er Búi er fyrir borð ginginn, og kallar nú á þá Vagn og Búa, að þeir skyldi flýja sem hann. En Vagn svarar honum og kvað vísu:
- Sigvaldi hefir setta
- sjálfa oss und kylfu,
- en fárhugaður fnauði
- fór heim til Danmarkar;
- hyggur í faðm að falla
- fljótt vinkonu sinni,
- en fyrir borð hið breiða
- Búi gekk með hugrekki.“
Það er sagt að Sigvalda var orðið kalt í élinu og hleypur hann til ára og vill láta orna sér, en annar maður sezt við stjórnina. Og er Vagn hafði kveðið vísuna og hann sér Sigvalda, þá fleygir hann spjóti til hans og ætlaði að hann sæti enn við stjórnina, en Sigvaldi var þá þó við árar, og hlaut sendingina sá er stýrði. Og þá er Vagn fleygði af hendi spjótinu, þá mælti hann til Sigvalda, að hann skyldi fara manna armastur.
En Þorkell hávi, bróðir Sigvalda, fer í brott þegar er Sigvaldi var farinn og hafði sex skip, og svá Sigurður kápa, þvíað Búi bróðir hans var þá fyrir borð ginginn, og var þá ekki hans að bíða; og þykist nú hvortveggi þeirra hafa efnt sína heitstrenging, Þorkels og Sigurðar, og fara þeir nú allir þar til er þeir koma heim til Danmerkur, og höfðu í brott með sér fjögur skip og tuttugu. En allt það er af komst þeim skipum er eftir voru, þá hlaupa þeir allir upp á skeiðina Vagns og verjast þar allir saman hið hvatlegsta, allt þar til er myrkva tók. En þá sleit bardaganum, og stóðu þá enn upp mjög margir menn á skeiðinni Vagns, og varð þeim Hákoni jarli dagfátt til að leita um skipin, hvað lífvænt væri eða lífs, og létu vörðu á halda um nóttina, að engi maður skyldi komast af skipunum þeirra um nóttina, Jómsvíkinga, og tóku frá ræðin öll frá skipunum.
Og er þetta var að gört, þá róa þeir Hákon jarl til lands og skjóta yfir sig tjöldum og þykjast nú eiga sigri að hrósa. Nú síðan vega þeir haglkornin og reyna svo ágæti þeirra systra, Þorgerðar og Irpu, og þykir vel reynast. Og er það frá sagt að eyri vægi eitthvert haglkornið, og vágu þeir í skálum.
Og nú eftir þetta, þá eru bundin sár manna, og vaka þeir of nóttina, Hákon jarl sjálfur og Guðbrandur úr Dölum.