Jómsvíkinga saga/38. kafli
38. kafli - Er Vagni voru grið gefin
breytaÞá er maður enn leystur úr strenginum á því mélinu, og hefir strengurinn brugðizt líttað of fót honum, svoað festi nokkuð. Þessi maður er mikill vexti og vænn, ungur að aldri og hinn vasklegsti. Þorkell spyr hann hversu hann hygði til að deyja: „Gott hygg eg til þess,“ segir hann, „ef eg gæta áður enda heitstrenging mína.“
Eiríkur jarl mælti: „Hvert er nafn þitt,“ segir hann, „eða hver er sú heitstrenging þín er þú vildir áður einkum að fram kæmi áður en þú létir líf þitt?“
Hann svarar: „Vagn heiti eg,“ segir hann, „og em eg son Áka Pálnatókasonar af Fjóni. Svo er mér til kennt.“
„Hvers strengdir þú heit, Vagn“ segir Eiríkur, „þess er þér kveðst þá þykja gott að deyja, ef hún væri fram komin og efnd, eftir því sem þú vildir?“
„Þess strengda eg heit,“ segir Vagn, „að eg skylda kominn í rekkju Ingibjargar dóttur Þorkels leiru ón hans ráði og allra hennar frænda, ef eg kæmag í Noreg, og þyki mér nú mikið að skorta um mitt mál ef eg skal þessu eigi fram koma áður en eg deyjag.“
„Eg skal að því gera,“ segir Þorkell, „að þú skalt þeirri heitstrenging eigi fram koma áður,“ - og hleypur að honum fram Vagni og höggur til hans báðum höndum, en Björn hinn brezki fóstri Vagns spyrnti til hans fæti sínum og hratt honum hart frá sér og undan högginu flötum fyrir fætur Þorkatli af láginni, svo spyrnti hann honum hart; hjó Þorkell yfir hann, en sverðið kemur á strenginn er Vagn var bundinn með og bítur hann í sundur, en Vagn verður laus, en ekki sár. Þorkell steyptist við er hann missti mannsins, og fellur hann, en sverðið hrýtur úr höndum honum í brott. En Vagn liggur eigi lengi, þótt Björn hefði hrundið honum, og sprettur hann á fætur og tekur þegar sverðið er Þorkell hafði haft og höggur Þorkel leiru banahögg, svo að þegar lét hann sitt líf.
Þá mælti Vagn: „Nú hefi eg efnda aðra heitstrenging mína,“ segir hann,“ og uni eg nú við þegar sýnu betur en áður.“
Hákon jarl mælti: „Láti þér hann eigi lengi leika lausan við,“ segir hann, „og drepið sem skjótast, fyrir því að hann hefir oss mikinn skaða gört.“
„Eigi skal hann fyrr vera drepinn en eg sjálfur,“ segir Eiríkur, „og vil eg Vagn undan þiggja.“
Hákon jarl mælti: „Eigi þurfu vér nú til að hlutast,“ segir hann, „þvíað einn viltu nú ráða, Eiríkur frændi.“
„Gott er mannkaupið í Vagni, faðir,“ segir Eiríkur, „og sýnist mér því vel keypt, þótt við takim Vagn í virðingar og metnað er Þorkell leira hefir hafðar, og komi hann í stað hans. Átti Þorkell þess af von, sem nú hlaut hann, þvíað nú kemur að því sem oft er mælt, að spá er spaks geta, en þú sátt þegar í dag feigðina á honum.“
Og nú tekur Eiríkur Vagn í sitt vald, og er honum nú við öngu hætt.
Og þá mælti Vagn: „Því að eins þyki mér betra að þiggja grið að þér, Eiríkur,“ segir hann, „ef þeim öllum eru grið gefin er eftir eru vorra félaga, elligar munu vér fara allir sömu förina félagar.“
Eiríkur svarar: „Eg vil enn hafa orð við þessa félaga þína, en þó fyrirtek eg eigi það er þú beiðir.“
Nú gengur Eiríkur að þar er var Björn hinn brezki og spyr hver hann væri eða hvað hann héti, en hann svarar og kveðst Björn heita. Eiríkur jarl mælti: „Ertu sá Björn hinn brezki er bezt sóttir eftir förunaut þínum í höllina Sveins konungs?“
„Eigi veit eg það,“ segir Björn, „að eg sækta bezt eftir. En þó kom eg þaðan manninum einum.“
„Hvað áttir þú að oss að sækja,“ segir Eiríkur, „gamall maður, er þú hefir farið hingað, eða hvað rak þig til farar þessarar, mann sköllóttan og hvítan sem máskára, og er það þó sannast að öll strá vildu oss stangað hafa Noregsmenn, er jafnvel fóruð ér hingað, er komnir eruð af fótum fram fyrir aldurs sökum, að berjast við oss, eða hvort viltu þiggja líf af mér,“ segir Eiríkur, „þvíað eigi þyki mér að þér veganda, svo gömlum manni?“
Björn svarar: „Þiggja vil eg líf að þér, Eiríkur,“ segir hann, „við þann kost ef Vagn fóstri minn er undan leystur og allir vorir menn, þeir er eftir eru.“
Eiríkur mælti: „Það skal yður veitt vera og öllum,“ segir hann, „ef eg má ráða, sem eg skal ráða.“
Og nú gengur Eiríkur fyrir föður sinn og biður hann þess, að þeir hafi allir grið, Jómsvíkingar, er eftir eru; og það veitir jarl honum.
Og nú eru þeir allir leystir, Jómsvíkingar, og þeim tryggðir veittar og í frið teknir. Og nú er þannveg til skipað af þeim Hákoni jarli og Eiríki, að Björn hinn brezki fer til búss þess er átt hefir Hallsteinn kerlingarbani.
Það er sagt að fimm félli lendir menn aðrir en Hallsteinn.
Vagn Ákason fór austur til Víkur að ráði Eiríks, og mælti Eiríkur við Vagn áður þeir skildust, að hann skyldi svo breyta um brúðkaup við Ingibjörgu Þorkelsdóttur sem hans væri vili til sjálfs. Og er Vagn kemur austur í Vík, þá gengur hann í sæng hjá Ingibjörgu hinn sama aftan, dóttur Þorkels leiru, og er Vagn þar um veturinn.
En um vorið eftir fer Vagn í brott og hélt hvern hlut vel þann sem hann hafði heitið Eiríki, og fer Vagn til Danmerkur, heim á Fjón til búa sinna, og réð þar fyrir lengi síðan og þótti vera hinn mesti afreksmaður, og er margt stórmenni frá honum komið.
Það er sagt að Vagn hafði Ingibjörgu heim með sér, en Björn hinn brezki fer heim til Bretlands og réð þar fyrir meðan hann lifði og þótti vera hinn vaskasti drengurinn.