Jómsvíkinga saga
6. kafli
Byggt á útgáfu Ólafs Halldórssonar frá 1969

6. kafli

breyta

Í þann tíma ræður fyrir Saxlandi og Peitulöndum Ótta keisari, er kallaður var Ótta hinn rauði, og jarlar hans tveir; annar hét Urguþrjótur en annar Brimiskjarr.

Þess er við getið að einhverjum jólum, að keisarinn Ótta strengdi þess heit, að hann skyldi fara til Danmerkur þrjú sumur í samt ef þess þyrfti við og kristna alla Danmörk, ef hann mætti því fram koma.

Og eftir þessa heitstrenging samnar keisarinn liði til þessarar ferðar.

Og þá er Haraldur Gormsson spyr þetta og verður var þess, að keisarinn hefir allmikinn liðsafla, þá sendir hann til Noregs þegar sex tigu manna á einni snekkju til fundar við Hákon jarl og bauð þeim svo að segja jarli, að hann mundi aldregi meir þurfa en þá, að hann byði út leiðangri of allan Noreg og færi að veita honum lið. Sendimenn konungs fóru og fram komu og segja jarli orðsending konungs, og fara síðan aftur. Hákon jarl víkst við skjótt við þetta mál og þykir nauðsyn á vera, að eigi verði þau endimi í að menn sé kúgaðir til kristni í Danmörku eða á öðrum norðurlöndum og megi eigi halda háttum og átrúnaði sinna foreldra. Hann samnar nú liði nakkvað af bráðungu, og mundi meira hafa ef allur væri leiðangurinn og væri lengra tóm til gefið.

Jarl fer þegar úr landi er hann er búinn og hafði hundrað skipa. En um sumarið síðar, þá komu menn úr Noregi þrír með mikið lið til móts við Hákon jarl.

Nú fer Hákon jarl ferðar sinnar og tekst greitt. Og er hann kömur við Danmörk, þá spyr Haraldur konungur og verður harla feginn, og fer þegar í móti honum og býður honum nú til sín með fullri ölværð og gerði veizlu virðilega í móti honum og öllu hans liði. Og nú bera þeir Haraldur konungur og Hákon jarl saman ráð sín, og taka þeir það ráð, að þeir fara í móti Óttu keisara með svo miklu liði sem þeir fá mest saman dregið um alla Danmörk, og eru þeir mestir höfðingjar fyrir því liði, Haraldur konungur og Hákon jarl.

Og fara þeir nú þar til er þeir finna keisarann. Þeir finnast á sæ, og slær þar þegar í bardaga með þeim, og verður þar hin snarpasta atlaga. Þeir berjast allan dag í gegnum, og fellur mikið lið af hvorum tveggjum, og þó fleira af keisaranum.

Og er nátta tók, þá settu þeir þriggja nátta grið á millum sín og lögðu að landi og bjuggust við hvorirtveggju.

Og er þrjár nætur liðu, þá gingu saman fylkingar þeirra Óttu keisara ok Haralds konungs og Hákonar jarls, og berjast nú á landi, og gengur keisaranum nú þungt bardaginn, og féll miklu fleira hans lið of daginn.

Og þar kömur að hann leggur á flótta undan með lið sitt.

Ótta keisari var á hesti um daginn, og er nú sagt að þeir sækja ofan að skipunum, og keisarinn ríður fram að sjónum og hefir í hendi spjót eitt mikið, gullrekið og alblóðugt; og síðan stingur hann spjótinu í sæinn og nefnir síðan guð almáttkan í vitni og mælti síðan: „Í annað sinni þá er eg kem til Danmerkur, þá skal vera annað hvort að eg skal kristnað fá Danmörk eða ella láta hér lífið.“

Eftir þetta ganga þeir Ótta keisari á skip sín og fer hann nú heim til Saxlands. En Hákon jarl er eftir með Haraldi konungi og réð honum mörg viturleg ráð.

Og nú létu þeir gera það mannvirki er víðfrægt er og kallað er Danavirki, en það var gert milli Ægisdura og Slésmunna, um þvert landið milli sjóva.

Síðan fer Hákon jarl til Noregs.

Og áður en þeir skildist, þá mælti hann við konung: „Svo er nú farið herra, að vér þykkjumst eigi lagi á koma að gera yður greiða um skattana sem vér vildim, fyrir sakir starfs þessa hins mikla og fékostnaðar er vér höfum fyrir yðrar sakir. En fyrir hotvetna fram vilju vér gjalda yður skattana þá er þessu léttir af oss.“ Konungur svarar og biður hann ráða, og þykjast menn þó finna að konunginum þykja nökkvers til seinir skattarnir. Skildu þeir nú við svo búið, og fer Hákon heim í land sitt og þykist nú unnið hafa mikinn sigur.

Og eru nú kyrr tíðendi bæði í Noregi og Danmörku þrjá vetur.

Og á þessum þrem vetrum lét Ótta keisari samna liði og fær ógrynni liðs.

Og er þessir vetur liðu, þá fer hann til Danmerkur með þenna hinn mikla her og jarlar tveir með honum, Urguþrjótur og Brimiskjarr.

En þá er Haraldur konungur spyr þetta, þá sendir hann menn á fund Hákonar jarls jafnmarga sem hið fyrra sinn, og sendir honum þau orð, að hann þykist aldregi meir hafa þurft hans liðveizlu og fjölmennis en þá. Hákon jarl skipaðist brátt við orðsending Haralds konungs og þykir vera nauðsynjamál, og fer þegar er hann var búinn, og hefir hann nú hvergi minna lið en hið fyrra sinni og kemur við Danmörk og fer þegar við hinn tólfta mann á fund Haralds konungs, og varð konungurinn honum stórum feginn og kveður hann vel hafa vikizt við sína nauðsyn, - „og skal nú senda menn í móti liði þínu öllu og fari það hingað til veizlu, og kann eg hvers yðvars þökk.“

„Við skulum enn innast orð við áður,“ segir jarl, „en þetta sé að gert. Mig áttu heimilan til fylgdar við þig og ráðagerðar og það lið sem nú hefi eg, þessa tólf menn, en eigi fleira lið, nema eg vilja, þvíað eg hefi komið áður of sinnsakar með leiðangur að veita þér lið sem við áttum mælt með okkur fyrir öndverðu.“

„Satt er þetta,“ sagði Haraldur konungur, „er þú mælir. En þess vætti eg attú munir þetta lið láta mér að gagni koma er þú hefir hingað haft fyrir sakar vináttu okkarrar.“

„Þess verð eg ráðandi við menn mína,“ segir Hákon, „að þeir þykjast skyldir til fylgdar við mig að verja mitt land og ríki. En þess þykjast þeir eigi skyldir að verja Danmörk eða annað konungs ríki og leggja síður sínar við spjótsoddum, en taka ekki í mót í gæðum eða virðingum.“

„Hvað skal eg til vinna við þig,“ segir Haraldur konungur, „eða menn þína, að ér komið mér nú að liði er eg þarf mest, þvíað það hefi eg sannspurt, að eg mun við ofurefli eiga að skipta fyrir sakir fjölmennis keisarans.“

Jarl svarar: „Einn er hlutur skoraður til þess,“ segir hann, „að því er vér urðum ásáttir, eg og mínir menn: Sá hlutur ef þú gefur upp alla skatta af Noregi, þá er ógoldnir eru, og svo skaltu gefa upp vandlega, að aldregi síðan verði Noregur skattgildur undir þig. En ef þú vilt eigi þetta er nú er til mælt, þá mun lið þetta allt fara aftur er mér hefir hingað fylgt, nema eg sjálfur skal vera hér og veita þér með þessum tólf mönnum er nú eru hér komnir, þvíað allt skal eg það enda, er við urðum á sáttir.“

„Það er satt um að ræða,“ segir konungur, „að alla menn byrgir þú inni fyrir vitsmuna sakir og ráða, og eru mér nú gervir tveir vandræða kostir, svo að mér þykir hvorgi góður.“

„Sé þú vandlega á kostina,“ segir jarl. „En svo sýnist mér sem þér myndi að öngu haldi skatturinn koma af Noregi ef þú lætur lífið hér í Danmörku.“

„Skjótt skal kjósa,“ segir konungur, „að því sem nú er máli komið að þú veitir mér með allt lið þitt sem þú hefir framarst drengskap til, og muntu þá öðlast það er þú mælir til.“

Og eftir þetta, þá voru menn sendir þegar í mót öllu liði jarls, að þangað skyldi koma á eina stefnu, og eigu þeir að þessu hannsöl og binda fastmælum sín í milli, og nú taka þeir veizlu dýrlega að Danakonungs, og fara nú síðan í móti keisaranum með allan her þann er þeir fingu til. Haraldur konungur fer með skipaliði til Ægisdyra. En Hákon jarl fer með sinn her til Slésdura öðru megin landsins.

Ótta keisari spyr þetta, að Hákon jarl er kominn í Danmörk að berjast í móti honum. Hann tekur þá það ráð, að hann sendir jarla sína, Urguþrjót og Brimiskjarr, til Noregs. Þeir höfðu tólf kugga hlaðna af mönnum og vopnum þeirra örenda að kristna Noreg, meðan Hákon jarl væri í brautu.