Jómsvíkinga saga/8. kafli
8. kafli
breytaNú hefst upp annar þáttur sögunnar, sá er fyrr hefir verið en þetta væri fram komið, og má eigi einum munni allt senn segja.
Maður er nefndur Tóki; hann var í Danmörku í héraði því er á Fjóni heitir. Þórvör hét kona hans. Hann hefir átt þrjá sonu barna er hér eru nefndir til sögunnar. Áki hét hinn elzti son hans, en Pálnir sá er þar var næst að aldri. En hinn yngsti hét Fjölnir. Hann var frilluson.
Tóki faðir þeirra hefir þá verið gamall að aldri er þetta var.
Og eitt hvert haust um veturnáttaskeið, þá tók hann sótt og andaðist úr sóttinni. Eigi liðu og langar stundir áður Þórvör tók sótt og andaðist, kona Tóka, og ber þá fjárhluti alla undir þá Áka og Pálni, því að þeir áttu arf að taka eftir föður sinn og móður.
Og er svo var komið, þá spurði Fjölnir eftir bræður sína, hvað þeir ætlaði honum af fénu. Þeir svara og kveðast honum mundu miðla þriðjung af lausafénu, en ekki af löndum, og þóttust þeir þó gera hans hlut góðan. En hann mælti til þriðjungs alls fjár.
Svo er frá Fjölni sagt, að hann væri vitur maður og ráðugur og illgjarn. En þeir bræður Fjölnis kváðu hann eigi meira fé mundu hafa en þeir höfðu boðið honum. En Fjölnir lætur sér það illa líka, og fer hann nú við svo búið í braut með þenna fjárhlut og fer á fund Haralds konungs, og gerist hann nú hirðmaður konungs og ráðgjafi.
Svo er frá sagt um Áka Tókason að engi maður þótti þvílíkur í Danaveldi sem hann í þann tíma, sá er eigi bæri tignarnafn. Hann lá hvert sumar í hernaði og hafði nær jafnan sigur þar sem hann hélt til.
Fjölnir segir svo Haraldi konungi, að hann mundi eigi þykja einn konungur yfir Danmörku meðan Áki Tókason væri uppi, bróðir hans. Og svo gat hann um talið fyrir konunginum loks, að eigi gerist óhætt með þeim Áka og Haraldi konungi. En Áki átti friðland og gott vinfengi við Óttar jarl á Gautlandi.
Og fór hann þangað eitt hvert sinn að heimboði til Óttars jarls og hafði tvö skip; annað var dreki góður og mikill, en annað snekkja. Hann hafði á þeim skipum hundrað manna, og voru allir vel búnir að klæðum og vopnum.
Ekki er getið að þar gerðist einkum til tíðenda um ferð þeirra, og þá Áki góðar gjafir af jarlinum áður en þeir skildist. Og fór hann síðan heim til Danmerkur.
Nú er að segja frá Haraldi konungi, þá er hann fregn að Áki var farinn til boðsins. En það var fyrir þá sök, að Áki var svo mikils virður af landsmönnum, að engi var sú veizla stefnd innan lands, að eigi væri Áka boðið til eigi síður en konunginum, og þá Áki góðar gjafir að hverri veizlu. Og svo gerðist mikið um vinsæld hans, að hann var nær eigi minna virður af alþýðu en sjálfur konungurinn, og það hafði hann úr hvers manns eigu sem hann vildi.
En það bjó mest undir ferð Áka til Gautlands, að hann bað dóttur jarlsins, og var því máli vel svarað.
Nú kemur hér máli, að Áki fer heimleiðis og hafði tvö skip sem áður var sagt. Og er konungurinn verður var þess, þá lætur hann fram setja tíu skip, og lætur hann þar á ganga fjögur hundruð manna og bað þá fara og sæta því er Áki færi aftur frá boðinu, og taka hann af lífi og allt föruneyti hans, ef svo vildi til takast.
Þeir fóru síðan og héldu njósnir til um ferðir Áka, og var það hægt, fyrir því að hann vissi sér enskis ótta vonir.
Og er nú svo frá sagt, þá er Áki kömur við Sjóland í Danmörku, að þeir Áki hafa tjöld á landi og ugga þá ekki að sér. En þar koma konungs menn að þeim með her á óvart, þann er áður var getið, og létu þegar drífa vopn á þá og felldu á þá tjöldin, er þeir voru ekki viður búnir, og lýkur þar svo með þeim, að Áki fellur og allt lið hans.
Og eftir þetta þá fara þeir aftur þar til er þeir koma á fund Haralds konungs og segja honum það er unnið var, að Áki var látinn og allt lið hans, og lét konungurinn vel yfir því, og lézt þess vænta, að hann mundi vera mega einn konungur yfir Danmörku fyrir Áka sökum.
Þeir konungsmenn er drápu Áka og lið hans taka vopn þeirra öll og fjárhlut og höfðu með sér að herfangi, og færðu þeir féið allt Haraldi konungi og þar með skip þau er Áki hafði átt, drekann og snekkjuna, og leggur konungur nú sína eign á fé þetta allt.
Það er nú sagt, að Fjölni bróður Áka þótti nú ofraðar vel um stillt og þóttist nú hafa goldið honum það er hann náði eigi fénu, því er hann þóttist eiga að taka eftir föður sinn.
Nú spyrjast þessi tíðendi heim á Fjón, og spyr Pálnir bróðir hans, og þykir honum svo mikið, að hann leggst í rekkju af, og var það mest fyrir því, að honum þóttu ósýnar hefndirnar við þann sem um var að eiga reyndar, er konungur var sjálfur.
Sá maður er nefndur til sögunnar er Sigurður hét, fóstbróðir þeirra bræðra; hann var vitur maður og auðigur að fé. Pálnir leitaði ráða við hann hvernig hann skyldi með fara. Sigurður svarar og kveðst það mundu helzt til ráðs leggja við hann, að hann mundi biðja konu til handa honum, þeirrar er honum væri mikill sómi í ef hann gæti.
Pálnir svarar og spurði eftir hvar sú kona væri.
„Eg mun fara til Gautlands,“ segir Sigurður, „og biðja til handa þér Ingibjargar dóttur Óttars jarls.“
„Það uggi eg,“ segir hann Pálnir, „að eg muna eigi geta þessa konu, en víst ætla eg að það mundi vænst til umbóta minna harma, ef eg gæta þenna ráðakost.“
Nú slítur þar hjali, og býst Sigurður til þessar ferðar og hefir eitt skip og sex tigu manna, og fer síðan þar til er hann kömur til Gautlands, og tekur Óttar jarl vel við honum. Sigurður lýsir brátt yfir örendum sínum og biður dóttur jarls, Ingibjargar, til handa Pálni Tókasyni og kallar hann vera hvergi óframar í öngan stað en Áka bróður hans og kveður eigi skorta fjárhluti á Fjóni, en sagði bana Pálna við liggja fyrir harms sökum, áður hann færi þessa ferð, og kvað þetta helzt mundu til umbóta hans harms, ef hann fingi þetta ráð.
Jarl svarar vel að hófi þessu máli og kvað þó verða á að líta vandlega á slík mál, að ráðum væri sett, en rasa eigi fyrir ráð fram, og lét sér þó þykja líklegt fyrir sakir Áka vinar síns og bróður hans, að hann mundi vera góðs kostar verður.
Eigi kunnu vér að segja hve lengi þeir kníuðu þetta mál. En svo lýkur málinu, að það er sagt að Óttar jarl heitur Pálni Ingibjörgu dóttur sinni.
„Svo er til farið, herra,“ segir Sigurður, „að Pálnir mun eigi til fær verða að sækja hingað veizluna til yðvar fyrir vanmætti og harmi. En hann skortir eigi eignir til né stórmennsku að búa þar veizluna á Fjóni, og vildu vér af því þess beiða fyrir nauðsynja sakir, að ér sækið þangað veizluna með yðvart lið, svo nökkuru mart sem þér vilið sjálfir.“
Og þessu heitur jarl.
Síðan fer Sigurður heim og segir Pálni þessi tíðendi.
Nú léttist honum við þetta mikið, og búa þeir nú veizluna að öllu í móti jarli, og spara nú ekki til að hún væri sem virðilegust á alla vega.
Og er að nefndum degi kom, þeim er boðsmenn skyldu koma, þá varð jarl eigi þinglogi, og mikið lið með honum. Og er þá drukkið veglegt brullaup, og eru þau bæði leidd í eina sæing, Pálnir og Ingibjörg.
Svo er sagt að hún sofnar brátt er hún kömur í rekkju. Þá dreymir hana, og er hún vaknar, segir hún Pálni drauminn: „Það dreymdi mig,“ segir hún, „að eg þóttumst hér stödd vera á þessum bæ sem nú em eg. En eg þóttumst uppi eiga vef, en það var línvefur. Hann var grár að lit. Mér þótti kljáður vera vefurinn, og var eg að og vafk, og var lítið á ofið að því er mér þótti. Og þá er eg sló vefinn, þá féll af einn kléinn af miðjum vefnum á bak og tók eg upp. En þá sá eg að kljár þeir voru ekki nema mannahöfuð ein, og er eg hafða upp tekið þetta höfuðið er af hafði slitnað, þá hélt eg á og hugða eg að og kennda eg höfuðið.
Nú spyr Pálnir eftir hvert höfuðið væri. En hún svarar og kvað vera höfuð Haralds konungs Gormssonar.
„Betra er dreymt en eigi,“ segir Pálnir.
„Og svo þyki mér og,“ segir hún Ingibjötg.
Sitja þau nú að brullaupi slíka stund er þeim þótti fallið.
Og eftir það fer Óttar jarl heim til Gautlands með góðum gjöfum og virðilegum.
En samfarar þeirra eru góðar og hægjar og miklar ástir, og höfðu skamma hríð ásamt verið áður en þau eigu son einn, og er þeim sveini nafn gefið og kallaður Pálnatóki. Hann vex þar upp heima á Fjóni og er þegar snemmendis bæði vitur og vinsæll. Öngum manni var hann líkari í sinni lýzku en Áka föðurbróður sínum.
Og skammar stundir liðu frá því er Pálnatóki var af hinum mesta barnsaldri, þá tekur Pálnir faðir hans sótt, og af þeirri sótt lætur hann líf sitt. En Pálnatóki tekur þar fjárhlut allan fyrir að ráða með móður sinni.
Það er frá honum sagt, að hann liggur í hernaði á sumrum, og herjar hann víða um lönd þegar hann má það fyrir aldurs sökum.
Eitt hvert sumar er þess við getið að hann liggur enn í víkingu og hefir þá tólf skip; þau voru vel skipuð. Og þá er þetta er tíðenda, þá ræður fyrir Bretlandi jarl sá er Stefnir hét. Hann átti sér dóttur þá er Ólöf hét. Hún var vitur kona og vinsæl, og var það góður kostur, svo að stórum bar.
Það er sagt, að Pálnatóki kömur þar við land skipum sínum og ætlaði að herja á ríki Stefnis jarls. Og er það spyrst, þá tekur Ólöf það til ráðs með Birni hinum brezka - hann var fóstbróðir hennar og var mjög í ráðagjörð með henni - að bjóða Pálnatóka heim til veizlu og mikillar vegsemdar, og ætti hann hér heldur friðland og herjaði eigi. Og þetta þekkist Pálnatóki og allt lið hans, og fóru til veizlunnar.
Og að þeirri veizlu biður Pálnatóki dóttur jarls sér til handa, og verður honum þetta mál auðsótt, og er honum konunni heitið og þar næst föstnuð, og sat hún eigi lengur í festum en svo, að þá var þegar drukkið brullaup þeirra að þessi veizlu. Og það var til lagt þar með, að Pálnatóka var jarlsnafn gefið og hálft ríki Stefnis jarls, ef hann vildi þar staðfestast. En hann átti þar allt að hafa eftir hans dag, þvíað Ólöf var erfingi hans ein.
Pálnatóki er þar eftir á Bretlandi það er eftir er sumarsins og svo um veturinn. En of vorið, þá lýsir Pálnatóki jarl því, að hann mun fara heim til Danmerkur. Og áður hann færi þaðan um sumarið, þá mælti hann við Björn hinn brezka: „Nú vil eg, Björn,“ segir hann, „attú sér hér eftir með Stefni mági mínum og sér að landráðum með honum fyrir mína hönd, þvíað hann tekur nú að eldast mjög, en eigi óvænt að eg koma eigi allbrálliga aftur; og ef það dvelst að eg koma eigi hingað, og missi jarls við, þá vil eg attú varðveitir allt ríkið, þar til er eg kem aftur.“
Og eftir þetta fer Pálnatóki í braut þaðan með Ólöfu konu sína og ferst honum vel og kömur nú heim á Fjón í Danmörk og er nú heima of hríð.
Og þykir hann nú annar mestur maður í Danmörku og ríkastur og bezt að viti búinn, þegar er konunginn líður sjálfan.
Það er nú frá sagt, að konungurinn fer yfir landið og þiggur veizlur að vinum sínum. Pálnatóki gerir dýrlega veizlu í móti konunginum og fer síðan og býður honum, og það þekkist hann og fer til veizlunnar með mikið lið.
Og síðan lýstur á illviðri fyrir þeim, og koma þeir of kveldið til búanda eins, þess er Atli hét, og var hann kallaður Atli hinn svarti. Hann var maður félítill, og tók hann við konunginum með allri ölværð. Dóttir hans gekk of beina of kveldið, og hét hún Æsa og var kölluð Saumæsa; hún var mikil kona vexti og drengileg. Konungi leizt vel á hana og mælti við föður hennar: „Það er satt að ræða, að beini má varla verða betri en hér er í frammi hafður við oss, af þér búandi, og lætur þú nú einn hlut verða undan dreginn við oss, og er dóttir þín Æsa og gás hennar.“ En búandi svarar og kvað það ekki hans vera að leggja slíka konu að sér sem var dóttir hans. En konungur kvað honum mikillar vináttu von í móti, ef hann gerði þetta eftir hans vilja.
Og þar lendir þessi viðræðu þeirra og viðurhjali, að Haraldur konungur rekkur hjá dóttur búanda um náttina.
En of daginn eftir, þá léttir af veðrinu, og býst konungur snemmendis í braut frá Atla. Og áður en þeir skiljast, gefur konungur honum góðar gjafir og sæmir hann svo og dóttur hans.
Og eftir þetta fer konungur ferðar sinnar, þar til er hann kömur til veizlunnar þeirrar er áður var getið. Konungur var lengi á veizlu þessi, og veitir Pálnatóki með miklum ríkdómi. Og þá er konungur fer í braut af veizlunni, þá gefur Pálnatóki honum góðar gjafir og virðilegar. Konungur tekur því og vel.
En um veturinn eftir er á leið upp, þá var það fundið af mönnum, að Saumæsa dóttir búanda tók að þróast og digrast og mundi vera ólétt. Eftir það ræddi faðir hennar við hana eina saman og spyr eftir hver vanheilsu hennar mundi valda. En hún segir að engi maður var þar annar í tigi til nema Haraldur konungur. „En þó hefi eg öngum manni þorað þetta að segja nema þér einum.“
„Já,“ segir hann; „því æ betur skal eg þig virða sem þú hefir göfgara mann að þér lagðan.“
Og nú líða stundir fram þar til er hún verður léttari, og fæðir hún sveinbarn, og er þeim sveini nafn gefið og kallaður Sveinn, og var hann kenndur við móður sína og kallaður Saumæsuson.
Og nú ber svo til, að sumar hið þriðja eftir þetta, að Haraldur konungur skyldi enn sækja veizlu þangað á Fjón. Og er konungur kömur þar til veizlunnar, þá ræðir Pálnatóki við Æsu, þvíað hún var þar komin með son sinn, þann er hún eignaði Haraldi konungi og sér: „Nú skaltu,“ kvað Pálnatóki, „ganga fyrir konunginn djarflega í það mund er hann situr yfir drykkju og gerast bermælt við hann um þá hluti er þér þykir varða. Þú skalt og leiða sveininn eftir þér og mæla síðan þessum orðum við konunginn, að eg leiði hér eftir mér einn svein, og kalla eg þar öngan mann annan í tigi til að eiga þenna svein með mér en þig, Haraldur konungur. En hversu sem konungur svarar þínu máli, þá vertu djarfmælt. En eg mun vera nær staddur og taka undir með þér og styðja málið þitt.“
Hún gerir svo sem hann ræður henni, og gengur hún nú fyrir konunginn Harald og leiðir sveininn með sér og mælir þessum sömum orðum sem í munn henni voru lögð af Pálnatóka. Konungur svarar brátt, þá er hún hafði mælt þessum orðum og spyr eftir, hver þessi kona væri, er svo mikla dirfð hafði við konunginn, að slíkt þorði upp að bera, og spyr hana að nafni. En hún kveðst Æsa heita og vera eins búanda dóttir þar í Danmörku. Konungur segir: „Firna djörf kona ertu og heimsk,“ segir hann, „og dirfðu þig eigi að mæla slíkt oftar ef þú vilt ómeidd vera.“
Pálnatóki segir þá: „Því mun hún þetta mæla, herra,“ segir hann, „að henni mun þykja mikil nauðsyn til bera, og er hún engi skyndikona né púta, heldur er hún góð kona og ráðvönd, þótt hún sé lítillar ættar eða kynferðar, þá hyggju vér hana þó satt eitt upp bera.“
Konungur mælti: „Eigi varði oss þess af yður, Pálnatóki, að ér munduð þetta mál þannig tengja til vor sem nú reynist.“
„Svo skal og vera,“ segir Pálnatóki, „að eg mun þetta ekki ræsa á hendur yður, herra, en svo mun eg til sveinsins gera í alla staði sem hann sé þinn einkason. En nú skulu við láta falla þessa ræðu að sinni.“
Og brátt eftir þetta býst konungur í braut af veizlunni. Pálnatóki gefur konunginum gjafir, en hann vill eigi við taka né þiggja. En Fjölnir var þá með Haraldi konungi, er getið var fyrr í sögunni, er var föðurbróðir Pálnatóka; hann bað konunginn taka við gjöfum þessum hinum virðilegum og gera sig eigi svo beran í þessu máli, að svívirða svo hinn mesta höfðingja að vilja eigi þiggja hinn mesta sómahlut af honum, þar er hann var áður hinn kærsti hans vin. Og nú fær hann svo um talið fyrir konunginum, að hann þiggur gjafirnar og tekur við. En þó þakkar hann ekki, og var auðfynt að konunginum hafði mjög mislíkað er Pálnatóki hafði honum eignað sveininn.
Og við þetta skilja þeir, að allfátt var um með þeim; og aldregi kom þeirra vingan í samt lag síðan. Fór konungur heimleiðis með sína menn, en Pálnatóki tekur Svein Haraldsson heim til sín og Æsu móður hans, fyrir því að þá var við misst Atla hins svarta föður Æsu og upp gert féið nálega allt.
Nú vex Sveinn þar upp á Fjóni með Pálnatóka, og gerði hann svo vel við sveininn sem hann væri hans son og hélt honum til virðingar í öllum hlutum. Hann unni honum og mikið.
Þess er nú við getið að Pálnatóki á son við konu sinni Ólöfu, og er hann fæddur litlu síðar en konungur fór í braut af veizlunni; sá sveinn var kallaðut Áki. Hann var þar upp fæddur heima með feður sínum, og várust þeir Sveinn Haraldsson fóstbræður. Og þar fæddist Sveinn upp þar til er hann var fimmtán vetra gamall að aldri.