Lagasafn handa alþýðu (1885)/Stjórnar-stöðu-lögin

Lagasafn handa alþýðu (1885)
Stjórnar-stöðu-lögin
Stjórnar-stöðu-lögin.
 

 
[1871. — 2. janúar: L. um ina stjórnarlegu stöðu Íslands í ríkinu.]

Vér Chr. IX. o. s. fr. g. k.: Ríkisþing hefir fallizt á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru: — 1. gr. Ísland er óaðskiljanlegr hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum. — 2. gr. A meðan að Ísland ekki hefir fulltrúa á ríkisþinginu, tekr það engan þátt í löggjöfinni um in almennu málefni ríkisins, en aftr á móti verðr þess ekki krafizt, að Ísland leggi neitt til inna almennu þarfa ríkisins á meðan að svo á stendr. — Um það, hvort Ísland eigi að hafa fulltrúa á ríkisþinginu, verðr að eins ákveðið með lögum, sem bæði ið almenna löggjafarvald ríkisins og ið sérstaklega löggjafarvald Islands samþykkir. — 3. gr. In sérstaklegu málefni Ísland eru þessi: — 1) in borgaralegu lög, hegningarlögin og dómgæzlan, er hér að lýtr; þó verðr engin breyting gjörð á stöðu hæsta-réttar sem æzta dómstóls í íslenzkum málum án þess að ið almenna löggjafarvald ríkisins taki þátt í því; — 2) lögreglumálefni; — 3) kyrkju- og kenslumálefni; — 4) lækna- og heilbrigðismálefni; — 5) sveitar- og fátækramálefni; — 6) vegir og póstgöngur á Íslandi; — 7) landbúnaðr, fiskveiðar, verzlun, siglingar og aðrir atvinnuvegir; — 8) skattamál beinlínis og óbeinlínis; — 9) þjóðeignir, opinberar stofnanir og sjóðir. — 4. gr. Öll gjöld til alþingis og landsstjórnar, er snertir þau málefni, sem nefnd voru í næstu grein á undan, og þar á meðal eftirlaun þau, sem nú eru goldin eða eftirleiðis verða veitt íslenzkum embættismönnum, er hafa fengið lausn frá embætti, eða ekkjum þeirra eða börnum, skulu talin sérstakleg gjöld Íslands. — 5. gr. Til inna sérstaklegu gjalda Íslands skal á ári hverju goldið úr ríkissjóðnum 30 000 rd. [= 60 000 kr.] tillag og í 10 ár 20 000 rd. [40 000 kr.] auka-tillag, sem á þeim 20 árum, sem þá fara í hönd, verðr fært niðr um 1000 rd. [2000 kr.] á ári, þannig að það sé alveg fallið niðr að 30 árum liðnum. Auk afrakstrsins af þjóðeignum Íslands og opinberum sjóðum og af beinlínis og óbeinlínis skattgjöldum, sem nú eru heimt saman eða eftirleiðis verða innleidd á Íslandi, skal talið með inum sérstaklegu tekjum Íslands það endrgjald, vextir af láni og borgun upp í lán eða því um líkt, sem hvílir á íslenzkum sveitarfélögum, stofnunum, embættum eða gjaldþegnum ríkissjóðnum til handa. — Öll skuldaskifti, sem verið hafa hingað til milli ríkissjóðsins og Íslands, eru hér með alveg á enda kljáð. — 6. gr. Gjöldin til innar æztu stjórnar inna íslenzku málefna í Kaupmannahöfn og sömuleiðis til póstferða milli Danmerkr og Íslands skulu greidd úr ríkissjóðnum. — Ef nokkurt gjald verðr lagt á þessar póstferðir til ins sérstaklega sjóðs Íslands, verðr jafnmikið dregið af árstillagi því, sem á kveðið er handa Íslandi í 5. gr. — 7. gr. Þessi lög öðlast gildi 1. dag aprílm. 1871. Frá þessum tíma eru störf þau á enda, sem ríkisþingið hefir haft á hendi um fyrirkomulag á inum sérstaklegu tekjum og útgjöldum Íslands. — Eftir þessu eigi allir hlutaðeigendr sér að hegða.