Landnámabók/40. kafli
Auður fæddi Óláf feilan son Þorsteins rauðs; hann fékk Álfdísar hinnar barreysku, dóttur Konáls Steinmóðssonar, Ölvissonar barnakarls. Sonur Konáls var Steinmóður, faðir Halldóru, er átti Eilífur son Ketils hins einhenda. Þeirra börn Þórður gellir og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða; hún var og móðir Barkar hins digra og Más Hallvarðssonar. Ingjaldur og Grani voru synir Óláfs feilans. Vigdís hét dóttir Óláfs feilans.... Helga hét hin þriðja dóttir Óláfs; hana átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttir Jófríður, er Þóroddur Tungu-Oddsson átti, en síðar Þorsteinn Egilsson; Þórunn var önnur dóttir Gunnars, er Hersteinn Blund-Ketilsson átti; Rauður og Höggvandill voru synir Gunnars. Þórdís hét hin fjórða dóttir Óláfs feilans; hana átti Þórarinn Ragabróðir; þeirra dóttir var Vigdís, er Steinn Þorfinnsson átti að Rauðamel.
Auður var vegskona mikil. Þá er hún var ellimóð, bauð hún til sín frændum sínum og mágum og bjó dýrliga veislu; en er þrjár nætur hafði veislan staðið, þá valdi hún gjafir vinum sínum og réð þeim heilræði; sagði hún, að þá skyldi standa veislan enn þrjár nætur; hún kvað það vera skyldu erfi sitt. Þá nótt eftir andaðist hún og var grafin í flæðarmáli, sem hún hafði fyrir sagt, því að hún vildi eigi liggja í óvígðri moldu, er hún var skírð. Eftir það spilltist trúa frænda hennar.
Kjallakur hét maður, son Bjarnar hins sterka, bróður Gjaflaugar, er átti Björn hinn austræni; hann fór til Íslands og nam land frá Dögurðará til Klofninga og bjó á Kjallaksstöðum. Hans son var Helgi hrogn og Þorgrímur þöngull undir Felli, Eilífur prúði, Ásbjörn vöðvi á Orrastöðum, Björn hvalmagi í Túngarði, Þorsteinn þynning, Gissur glaði í Skoravík, Þorbjörn skröfuður á Ketilsstöðum, Æsa í Svíney, móðir Eyjólfs og Tin-Forna.
Ljótólfur hét maður; honum gaf Kjallakur bústað á Ljótólfsstöðum inn frá Kaldakinn; hans synir voru Þorsteinn og Björn og Hrafsi; hann var risaættar að móðerni. Ljótólfur var járnsmiður. Þeir réðust út í Fellsskóga á Ljótólfsstaði. Vífill var vin þeirra, er bjó á Vífilstóftum. Þórunn að Þórunnartóftum var móðir Oddmars og fóstra Kjallaks, sonar Bjarnar hvalmaga.
Álöf, dóttir Þorgríms undir Felli, tók ærsl; það kenndu menn Hrafsa, en hann tók Oddmar hjá hvílu hennar, og sagði hann sig valda. Þá gaf Þorgrímur honum Deildarey. Hrafsi kvaðst mundu höggva Oddmar á Birni áður hann bætti fyrir hann. Eigi vildi Kjallakur láta eyna. Hrafsi tók fé þeirra úr torfnausti. Kjallakssynir fóru eftir og náðu eigi. Eftir það stukku þeir Eilífur og Hrafsi í eyna. (Ör kom í þarminn Eilífs ígrás, og hamaðist hann. Björn hvalmagi vó) Björn Ljótólfsson að leik. Þeir Ljótólfur keyptu að Oddmari, að hann kæmi Birni í færi. Kjallakur ungi rann eftir honum. Eigi varð hann sóttur, áður þeir tóku sveininn. Kjallak vógu þeir á Kjallakshóli. Eftir það sóttu Kjallakssynir Ljótólf og Þorstein í jarðhús í Fellsskógum, og fann Eilífur annan munna; gekk hann á bak þeim og vó þá báða. Hrafsi gekk inn á Orrastöðum að boði; hann var í kvenfötum. Kjallakur sat á palli með skjöld. Hrafsi hjó hann Ásbjörn banahögg og gekk út um vegg. Þórður Vífilsson sagði Hrafsa, að yxni hans lægi í keldu; hann bar skjöld hans. Hrafsi fleygði honum fyrir kleif, er hann sá Kjallakssonu. Eigi gátu þeir (sótt) hann, áður þeir felldu viðu að honum. Eilífur sat hjá, er þeir (sóttu) hann.