Landnámabók
45. kafli

Ketill gufa hét maður Örlygsson, Böðvarssonar, Vígsterkssonar; Örlygur átti Signýju Óblauðsdóttur, systur Högna hins hvíta.

Ketill son þeirra kom út síð landnámatíðar; hann hafði verið í vesturvíking og haft (úr) vesturvíking þræla írska; hét einn Þormóður, annar Flóki, þriðji Kóri, fjórði Svartur og Skorrar tveir.

Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetur að Gufuskálum, en um vorið fór hann inn á Nes og sat á Gufunesi annan vetur.

Þá hljópu þeir Skorri hinn eldri og Flóki frá honum með konur tvær og fé mikið; þeir voru á laun í Skorraholti, en þeir voru drepnir í Flókadal og Skorradal.

Ketill fékk öngvan bústað á Nesjum, og fór hann inn í Borgarfjörð og sat hinn þriðja vetur að Gufuskálum við Gufá. Snemma um vorið fór hann vestur í Breiðafjörð að leita sér landa; þar var hann á Geirmundarstöðum og bað Ýrar dóttur Geirmundar og gat; vísaði hann þá Katli til landa fyrir vestan fjörð.

En meðan Ketill var vestur, þá hljópu þrælar hans á braut og komu fram um nótt á Lambastöðum; þar bjó þá Þórður son Þorgeirs lamba og Þórdísar Yngvarsdóttur, (móður)systur Egils Skalla-Grímssonar. Þrælarnir báru eld að húsum og brenndu Þórð inni og hjón hans öll; þeir brutu þar upp görvibúr og tóku vöru mikla og lausafé; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu; þeir snöru á leið til Álftaness. Lambi hinn (sterki) son Þórðar kom af þingi um morgininn, þá er þeir voru farnir á braut; hann fór eftir þeim, og drífa þá menn til af bæjum. En er þrælarnir sá það, hljóp sinn veg hver þeirra. Þeir tóku Kóra í Kóranesi, en sumir gengu á sund; Svart tóku þeir í Svartsskeri, en Skorra í Skorrey fyrir Mýrum, en Þormóð út í Þormóðsskeri; það er vika undan landi.

En er Ketill gufa kom aftur, þá fór hann vestur fyrir Mýrar og var hinn fjórða vetur á Snæfellsnesi að Gufuskálum; hann nam síðan Gufufjörð og Skálanes til Kollafjarðar. Þau Ketill og Ýr áttu tvo sonu; var Þórhallur annar, faðir Hallvarar, er átti Börkur son Þormóðar Þjóstarssonar; annar var Oddi, er átti Þorlaugu Hrólfsdóttur frá Ballará og Þuríðar dóttur Valþjófs Örlygssonar frá Esjubergi.