Landnámabók
48. kafli

Eiríkur hét maður, er nam Dýrafjörð og Sléttanes til Stapa og til Háls hins ytra í Dýrafirði. Hann var faðir Þorkels, föður Þórðar, föður Þorkels, föður Steinólfs, föður Þórðar, föður Þorleifar, móður Þorgerðar, móður Þóru, móður Guðmundar gríss. Þorleif var móðir Línu, móður Cecilíu, móður Bárðar og Þorgerðar, er átti Björn hinn enski. Þeirra börn voru þau Arnis ábóti og Þóra, er átti Ámundi Þorgeirsson.

Vésteinn son Végeirs, bróðir Vébjarnar Sygnakappa, nam land milli Hálsa í Dýrafirði og bjó í Haukadal; hann átti Þórhildi Bjartmarsdóttur, þeirra börn Vésteinn og Auður.

Þorbjörn súr kom út að albyggðu landi; honum gaf Vésteinn hálfan Haukadal. Hans synir voru þeir Gísli og Þorkell og Ari, en dóttir Þórdís, er Þorgrímur átti, þeirra son Snorri goði. Síðan átti Þórdísi Börkur hinn digri, þeirra dóttir Þuríður, er átti Þorbjörn digri, en síðar Þóroddur skattkaupandi. Þeirra son var Kjartan að Fróðá.

Dýri hét maður ágætur; hann fór af Sunnmæri til Íslands að ráði Rögnvalds jarls, en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum. Hans son var Hrafn á Ketilseyri, faðir Þuríðar, er átti Vésteinn Vésteinsson, þeirra synir Bergur og Helgi.

Þórður hét maður Víkingsson eða son Haralds konungs hárfagra; (hann) fór til Íslands og nam land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils; hann bjó í Alviðru. Þórður átti Þjóðhildi dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra.

Þorkell Alviðrukappi og hinn auðgi var son þeirra; hann átti.... Þórður hét son þeirra, annar Eyjólfur: faðir Gísla, er átti Hallgerði Vermundardóttur hins mjóva. Þeirra son var Brandur, faðir Guðmundar prests í Hjarðarholti: en dóttir Þóra, er átti Brandur Þórhaddsson, þeirra dóttir Steinvör, móðir Rannveigar, móður Sæhildar, er Gissur átti. Helgi hét annar son Eyjólfs; hans börn voru þau Óláfur og Guðleif, er Fjarska-Fiður átti.

Þorvaldur hvíti hét annar son Þórðar Víkingssonar; hann átti Þóru dóttur Nesja-Knjúks. Þeirra son var Mýra-Knjúkur, faðir Þorgauts, föður Steinólfs, er átti Herdísi Tindsdóttur. Þeirra börn voru þau Þorkell á Mýrum og Halla, er átti Þórður Oddleifsson. Annar son Þorvalds hvíta var Þórður örvöndur, er átti Ásdísi Þorgrímsdóttur Harðrefssonar. Móðir Ásdísar var Rannveig, dóttir Grjótgarðs Hlaðajarls. Ásdís var móðir Úlfs stallara, en systir Ljóts hins spaka og Halldísar, er Þorbjörn Þjóðreksson átti. Dóttir þeirra Þórðar örvandar var Otkatla, er átti Sturla Þjóðreksson, þeirra son Þórður, er átti Hallberu dóttur Snorra goða, þeirra dóttir Þuríður, er átti Hafliði Másson. Snorri var son Þórðar Sturlusonar, er átti Oddbjörgu, dóttur Gríms Loðmundarsonar. Þeirra börn voru þau Flugu-Grímur og Hallbera, er Mág-Snorri átti. Dætur Sturlu voru sex. Ein var Ásný, er Snorri Jörundarson átti, þeirra dóttir Þórdís, móðir Höskulds læknis. Son þeirra Snorra og Ásnýjar var Gils, faðir Þórðar, föður Sturlu í Hvammi.