Landnámabók
52. kafli

Óláfur jafnakollur nam land frá Langadalsá til Sandeyrarár og bjó í Unaðsdal; hann átti Þóru Gunnsteinsdóttur. Þeirra son var Grímólfur, er átti Védísi systur Vébjarnar.

Þórólfur fasthaldi hét maður ágætur í Sogni; hann varð ósáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór til Íslands með ráði Haralds konungs. Hann nam land frá Sandeyrará til Gýgjarsporsár í Hrafnsfirði; hann bjó að Snæfjöllum. Hans son var Ófeigur, er átti Otkötlu.

Örlygur son Böðvars Vígsterkssonar fór til Íslands fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra; hann var hinn fyrsta vetur með Geirmundi heljarskinn, en um vorið gaf Geirmundur honum bú í Aðalvík og lönd þau, sem þar lágu til. Örlygur átti Signýju dóttur Óblauðs, systur Högna hins hvíta; þeirra son var Ketill gufa, er átti Ýri Geirmundardóttur.

Nú taka til landnám Geirmundar, sem fyrr er ritað, allt til Straumness fyrir austan Horn.

Örlygur eignaðist Sléttu og Jökulsfjörðu.

Hella-Björn son Herfinns og Höllu var víkingur mikill; hann var jafnan óvinur Haralds konungs. Hann fór til Íslands og kom í Bjarnarfjörð með alskjölduðu skipi; síðan var hann Skjalda-Björn kallaður. Hann nam land frá Straumnesi til Dranga, og í Skjalda-Bjarnarvík bjó hann, en átti annað bú á Bjarnarnesi; þar sér miklar skálatóftir hans. Son hans var Þorbjörn, faðir Arngerðar, er átti Þjóðrekur Sléttu-Bjarnarson, þeirra synir Þorbjörn og Sturla og Þjóðrekur.

Geirólfur hét maður, er braut skip sitt við Geirólfsgnúp; hann bjó þar síðan undir gnúpinum að ráði Bjarnar.

Þorvaldur Ásvaldsson, Úlfssonar, Yxna-Þórissonar, nam Drangaland og Drangavík til Enginess og bjó að Dröngum alla ævi. Hans son var Eiríkur rauði, er byggði Grænland, sem fyrr segir.

Herröður hvítaský var göfugur maður; hann var drepinn af ráðum Haralds konungs, en synir hans þrír fóru til Íslands og námu land á Ströndum: Eyvindur Eyvindarfjörð, Ófeigur Ófeigsfjörð, Ingólfur Ingólfsfjörð; þeir bjuggu þar síðan.

Eiríkur snara hét maður, er land nam frá Ingólfsfirði til Veiðilausu og bjó í Trékyllisvík; hann átti Álöfu dóttur Ingólfs úr Ingólfsfirði. Þeirra son var Flosi, er bjó í Vík, þá er austmenn brutu þar skip sitt og gerðu úr hrænum skip það, er þeir kölluðu Trékylli; á því fór Flosi utan og varð afturreka í Öxarfjörð. Þaðan af gerðist saga Böðmóðs gerpis og Grímólfs.