Landnámabók
Formáli

Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skín um nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftir holdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.

En áður Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn. Enn er og þess getið á bókum enskum, að í þann tíma var farið milli landanna.