Norsk æfintýri/Hjartalausi risinn

Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Hjartalausi risinn

Hjartalausi risinn

Einu sinni var konungur, sem átti sjö syni, og honum þótti svo vænt um þá, að hann gat aldrei verið án þeirra allra í einu, einn varð alltaf að vera hjá honum. Þegar þeir voru orðnir fullveðja, fóru sex þeirra út í heiminn að leita sjer að fallegum eiginkonum, en þann sjöunda vildi kóngur hafa eftir heima hjá sjer og honum áttu bræður hans að biðja göfugrar kóngsdóttur, og koma með hana. Kóngur gaf hinum sex sonum sínum fegurstu klæði, sem nokkur hafði augum litið, þau voru gullsaumuð, svo að það glampaði á þau, og einnig gaf hann hverjum um sig ágætan hest, og kostaði hver hestur mörg hundruð dali, og síðan lögðu þeir af stað. Þegar þeir svo höfðu heimsótt mörg konungsríki og litið á kóngsdæturnar þar, komu þeir loksins til kóngs nokkurs, sem átti sex dætur, og svo fallegar stúlkur höfðu þeir aldrei á æfi sinni sjeð, og svo báðu þeir þeirra, og fjekk hver sína fyrir konu, og síðan fóru þeir heim aftur, en steingleymdu alveg að þeir áttu að koma með konuefni handa bróðurnum, sem heima sat, svo hrifnir voru þeir af konuefnunum sínum.

Risinn breytti þeim öllum í stein.

Á heimleiðinni fóru þeir framhjá hömrum miklum, þar sem bjó ramgöldróttur risi. Um leið og þeir riðu framhjá, kom risinn út, og breytti hann þeim öllum saman í steina á stundinni, bæði kóngssonunum og unnustum þeirra og öðru föruneyti.

Kóngur beið og beið eftir sonum sínum, en hve lengi sem hann beið, þá komu þeir ekki. Hann varð mjög sorgmæddur, og sagðist varla sjá glaðan dag framar. — „Ef þú værir ekki eftir hjá mjer“, sagði hann við yngsta soninn, sem hjet Randver, „þá vildi jeg ekki lifa lengur, svo sorgmæddur er jeg af því, að jeg hef mist bræður þína“.

„En nú langar mig til að biðja þig að lofa mjer að fara og reyna að leita að þeim. Jeg skal finna þá“, sagði Randver.

„Nei, það færðu ekki“, sagði faðir hans, „þú kemur heldur ekki aftur“.

En Randver vildi endilega fara og hann bað og bað, þangað til faðir hans ljet þetta eftir honum. En nú átti konungurinn ekki annað eftir af reiðskjótum, en eina aflóga bykkju handa honum, því bræður hans og föruneyti þeirra hafði fengið alla góðhesta kóngsins og meira til, en um það kærði Randver sig kollóttan, hann lagði af stað á gamla klárnum. „Vertu blessaður pabbi minn“, kallaði hann. „Jeg skal koma aftur og hafa þá bræður mína með mjer!“

Þegar hann hafði riðið nokkurn spöl, sá hann hrafn, sem lá á veginum og baðaði vængjunum, en gat ekki flogið, svo svangur var hann.

„Æ, góði vinur, gefðu mjer svolítinn matarbita, þá skal jeg hjálpa þjer, þegar þú þarft þess mest með“, sagði hrafninn.

„Jeg hefi nú ekki mikið af mat, og held varla að þú munir geta hjálpað mjer mikið heldur“, sagði kóngssonur, „en dálítið má jeg víst til með að gefa þjer, því mjer sýnist þú þurfa þess með“, og svo gaf hann hrafninum dálítið af nestinu, sem hann hafði haft með sjer að heiman.

Þegar Randver svo hafði farið nokkuð enn, kom hann að læk, það lá stór lax hjá læknum, hann hafði stokkið upp á þurt land, og komst nú ekki út aftur.

„Ó, góði vinur!, hjálpaðu mjer út í lækinn aftur“, sagði laxinn við Randver kóngsson, „þá skal jeg hjálpa þjer þegar þú þarft þess mest með“.

„Varla geturðu hjálpað mjer mikið“, sagði konungssonur, „en mjer finst synd að láta þig liggja þarna uppi á þurru“, og svo setti hann laxinn út í lækinn aftur.

Nú fór hann langa vegu og síðan mætti hann úlfi, sem var svo soltinn, að hann gat varla dregist áfram.

„Góði vinur, gefðu mjer hestinn þinn“, sagði úlfurinn. „Jeg er svo svangur, að það gaula í mjer garnirnar, jeg hefi ekki fengið neitt að jeta í tvö ár“.

„Nei“, sagði Randver, „það get jeg ekki gert. Fyrst hitti jeg hrafn, og honum varð jeg að gefa nestið mitt svo sá jeg lax, sem jeg varð að hjálpa út í vatnið aftur, og nú viltu fá hestinn minn. Það er ómögulegt að láta þig hafa hann, því þá hef jeg engan reiðskjóta lengur“.

„Jú, góði, þú verður að hjálpa mjer“, sagði úlfurinn, „jeg skal vera reiðskjóti þinn, jeg skal hjálpa þjer, þegar þjer liggur mest á“.

„Ekki býst jeg nú við mikilli hjálp frá þjer, en þú verður þá víst að fá hestinn, fyrst þú ert svo aðfram kominn“, sagði kóngssonur. Þegar svo úlfurinn hafði jetið hestinn, tók Randver beislið og lagði það við úlfinn, og hnakkinn setti hann á bak honum, og nú var úlfurinn orðinn svo sterkur af að jeta heilan hest, að hann bar konungssoninn eins og ekkert væri, og gekk nú ferðin betur en nokkru sinni fyr.

„Þegar við erum komnir svölítið lengra, skal jeg sýna þjer bústað risans“, sagði úlfurinn, og eftir skamma ferð komu þeir að berginu. „Líttu á“, sagði úlfurinn, „hjer á risinn heima, og þarna sjerðu bræður þína sex, sem risinn gerði að steini, og þarna eru konuefnin þeirra og fylgdarmennirnir. Og þarna eru dyrnar á bústað risans, þar átt þú að fara inn“.

„Nei, það þori jeg ekki“, sagði konungssonur. „Hann drepur mig, risinn!“

„Onei“, svaraði úlfurinn. „Þegar þú kemur inn, finnurðu kóngsdóttur, sem segir þjer hvernig þú skalt fara að því að ganga milli bols og höfuðs á risanum. Og farðu bara að eins og hún segir!“

Jú, Randver konungsson gekk inn, en hræddur var hann. Þegar inn kom, var risinn ekki heima, en í einu herberginu sat konungsdóttir, eins og úlfurinn hafði sagt, og svo fallega stúlku hafði Randver aldrei sjeð.

„Ó, guð hjálpi þjer. Hvernig í ósköpunum ertu hingað kominn?“ sagði kóngsdóttir, þegar hún sá hann. „Þjer er bani búinn, því risanum, er hjer býr, fær ekkert grandað, hann er hjartalaus, og geymir hjarta sitt einhvers staðar þar sem enginn getur fundið það“.

„Já, en úr því jeg er kominn hingað, þá vil jeg reyna við hann“, sagði Randver. „Og bræður mína, sem eru steinar hjer fyrir utan, vil jeg líka frelsa, og líka vil jeg reyna að bjarga þjer“.

„Fyrst þú vilt endilega vera hjer, þá verðum við að finna upp á einhverjum ráðum“, sagði kóngsdóttir. — „Skríddu nú undir rúmið þarna, og hlustaðu vel á um hvað jeg tala við risann, þegar hann kemur heim“.

Randver skreið svo undir rúmið, og ekki var hann fyr kominn þangað, en risinn kom þrammandi inn.

„Hjer er ljóti mannaþefurinn“, sagði hann.

„Já, það var hrafn eitthvað að flækjast hjer með mannsbein“, svaraði kóngsdóttir. „Jeg kastaði því nú út, en það er víst svolítil lykt hjer enn“.

Jú, það ljet risinn sjer vel líka.

Svo kom kvöld, og þau fóru að hátta, og þegar risinn var háttaður, sagði kóngsdóttir: „Mig langar til að spyrja þig að dálitlu, — bara ef jeg þyrði það“.

„Hvað er nú það?“ spurði risinn.

„Mig langar svo til að vita, hvar þú geymir hjarta þitt, fyrst þú hefir það ekki í brjóstinu“, sagði kóngsdóttir.

„O, þig varðar nú lítið um það“, sagði risinn. „En annars liggur það undir dyrahellunni“.

Einmitt, ekki verður þá mikill vandi að finna það, hugsaði Randver konungsson undir rúminu.

Morguninn eftir fór risinn á fætur fyrir allar aldir og gekk til skógar, og ekki var hann fyr farinn, en Randver og kóngsdóttir fóru að leita undir dyrahellunni að hjartanu hans, en hvernig sem þau leituðu, fundu þau ekkert. „Nú hefir hann leikið á okkur“, sagði kóngsdóttir, „en aftur skulum við reyna“. Svo tíndi hún öll fallegustu blómin, sem hún gat fundið og stráði þeim umhverfis dyrahelluna, — en hana settu þau á sinn stað, og þegar leið að kvöldi og von var á að risinn kæmi heim, skreið Randver undir rúmið aftur.

Litlu síðar kom risinn. „Svei og svei aftur, hjer er mannaþefur mikill“, sagði hann.

„Það er altaf þessi hrafn að flækjast hjer“, kvað kóngsdóttir, og risinn ljet það gott heita. En eftir stundarkorn spurði hann, hver það væri, sem hefði stráð öllu þessu blómskrúði umhverfis dyrahelluna.

„Það gerði jeg nú“, sagði kóngsdóttir.

„Hvað á það nú að þýða“, spurði risinn.

„Ó, mjer þykir svo vænt um þig, að jeg verð að géra það, þegar jeg vissi, að þú hefir hjarta þitt þar undir“, sagði kóngsdóttir.

„Það var fallega gert“, sagði þursi, „en annars er nú hjartað alls ekki þar“, bætti hann við.

Svo þegar risinn var háttaður um kvöldið, spurði kóngsdóttir aftur, hvar hjartað væri, því henni þætti svo vænt um hann, að hún mætti til með að fá að vita það.

„Æ, það er í skápnum þarna á veggnum,“ sagði risinn geispandi.

„Einmitt,“ hugsuðu þau bæði, kóngsdóttir og konungssonur, „ekki er vandi að finna það þar“.

Snemma næsta morgun fór risinn á stjá að vanda, og ekki var hann fyr farinn, en þau fóru að leita í skápnum, kóngsdóttir og Randver. En hvernig sem þau leituðu, þá fanst það ekki þar. — „Jæja, við verðum að reyna einu sinni enn“, sagði hún. Hún skrýddi nú skápinn allan með blómsveigum, og þegar leið að kvöldi, kom risinn þrammandi heim aftur, en þá var Randver auðvitað kominn undir rúmið.

„Svei, svei, hvernig stendur á þessum mannaþef hjerna“, sagði risinn.

„Æ, jeg veit ekki hvernig jeg á að fara með þenna hrafn, hann er hjer altaf með beinið sitt“, sagði kóngsdóttir, og það ljet risinn gott heita, en svo rak hann augaun í alt skrautið á skápnum, blóm og kransa alt umhverfis hann, og spurði, hvað svona tiltæki ætti að þýða, og hver væri með slíkan hjegóma.

Jú, það var þá kóngsdóttir.

„Hversvegna ertu að þessum fíflaskap?“, sagði risinn.

„Æ, mjer þykir nú altaf svo vænt um þig, að jeg verð að skreyta skápinn, fyrst þú geymir hjarta þitt þar“.

„Ertu svo heimsk, að þú trúir að það sje þar“, sagði risinn og skellihló.

„Auðvitað trúi jeg því, fyrst þú segir það“, sagði kóngsdóttir.

„Æ, skelfingar auli ertu“, sagði risinn. „Aldrei finnur þú þann stað, þar sem jeg geymi hjarta mitt“.

„Já, en gaman væri nú samt að vita hvar það væri“, sagði kóngsdóttir.

Þá gat risinn ekki lengur að sjer gert, en varð að segja hvar það væri: „Langt, langt í burtu í vatni einu er hólmi nokkur“, sagði hann. „Í hólma þessum stendur kirkja, í kirkjugólfinu er brunnur, á brunninum syndir önd, í öndinni er egg og í eggi þessu er hjartað úr mjer, góða mín“.

Snemma næsta morgun, þegar enn ekki var orðið bjart, fór risinn aftur til skógar. „Já, nú verð jeg að fara af stað líka“, sagði Randver konungsson, „bara að jeg rati nú!“ Hann kvaddi því kóngsdóttur, sagðist koma aftur, og þegar hann kom út úr herberginu, stóð úlfurinn þar enn og beið konungssonar. Honum sagði Randver hvað skeð hefði í húsakynnum risans, og sagði að nú vildi hann komast til kirkjunnar, sem brunnurinn var í, bara ef hann rataði þangað. Þá bað úlfurinn hann um að setjast á bak sjer, hann sagðist skyldi rata, og svo þaut hann af stað yfir fjöll og dali og fór sem vindur væri.

Þegar þeir höfðu haldið áfram marga daga, komu þeir loks að vatninu. Þá vissi konungssonur ekki, hvernig hann ætti að komast út í hólmann, en úlfurinn bað hann vera óhræddan, og lagði til sunds með hann á bakinu, synti yfir í hólmann. Svo komu þeir að kirkjunni, en kirkjulykillinn hjekk hátt uppi í turninum, og konungssonur vissi ekki, hvernig hann ætti að ná í hann. — „Nú verðurðu að kalla á hrafninn“, sagði úlfurinn, og um leið og hann kallaði, kom hrafninn, flaug eftir lyklinum, og svo komst Randver inn í kirkjuna. Þegar hann kom svo að brunninum, synti öndin þar fram og aftur, eins og risinn hafði sagt. Svo fór hann að reyna að lokka öndina til sín, og að lokum synti hún til hans og hann greip hana. En um leið og hann lyfti henni upp af vatninu, verpti hún egginu, og nú vissi Randver alls ekki, hvernig hann ætti að ná í það. „Nú verðurðu að kalla á laxinn“, sagði úlfurinn, og það gerði Randver. Svo kom laxinn og náði í eggið, og þá sagði úlfurinn, að hann skyldi kreista eggið, og um leið og Randver gerði það, æpti risinn.

„Kreistu það aftur“, sagði úlfurinn, og þá vældi risinn enn aumlegar og bað svo aumkvunarlega um líf, hann skyldi gera alt sem konungssonur vildi, ef hann fengi að halda lífi, og kóngssonur kreisti ekki hjarta hans sundur.

„Segðu honum, að ef hann geri bræður þína sex og unnustur þeirra aftur eins og þau voru, áður en hann breytti þeim í stein, þá skuli hann lífi halda“, sagði úlfurinn.

Jú, það gerði risinn strax, og breytti steinunum aftur í menn.

Síðan reið Randver aftur á úlfi sínum til bjargsins, þar sem risinn bjó, og þá var alt fólkið þar fyrir utan, bræður hans og konuefnin þeirra, og síðan sótti Randver brúði sína inn í bergið, og öll fóru þau heim í konungsgarð. Og enginn getur lýst gleði gamla konungsins, þegar allir synirnir hans sjö komu aftur, hver með sína brúði. „En fegurst af öllum er samt konuefnið hans Randvers míns“, sagði kóngur, „og þau skulu sitja í öndvegi“. Svo var haldin stórkostleg veisla, og ef hún er ekki búin, þá stendur hún enn.