Norsk æfintýri/Töfrapípan

Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Töfrapípan

Töfrapípan

Það var einu sinni bóndi, sem var orðinn svo skuldugur, að jörðin var seld fyrir honum upp í skuldir. En maður þessi átti þrjá sonu, hjetu þeir Pjetur, Páll og Jón. Þeir hjengu heima og vildu ekkert gera, því þeim fanst engin vinna nógu góð handa sjer.

Loksins heyrði Pjetur, að kónginn vantaði mann til þess að gæta hjeranna sinna, en af þeim átti hann mesta sæg. Sagði þá Pjetur við pabba sinn, að þetta vildi hann gera, því hann vildi helst ekki vinna hjá neinum lægra settum en konungi. Faðir hans hjelt nú, að einhver vinna myndi kannske vera betri fyrir hann en þessi, því sá sem átti að gæta hjeranna, varð að vera ljettur á sjer og árvakur, því þegar hjeraranir tóku til að hlaupa og kom stygð að þeim, þá var annað verk að gæta þeirra, en að rangla um eins og Pjetur hafði lengst af gert.

En Pjetur sagðist nú ekki setja það fyrir sig, hann skyldi komast í þessa atvinnu, svo tók hann malpoka sinn og labbaði af stað, og þegar hann hafði gengið nokkuð langt, kom hann að gamalli kerlingu, sem hafði fest nefið á sjer í viðarbol, og reyndi með öllu móti að losa það. Pjetur fór að skellihlæja, þegar hann sá þessa sjón.

„Stattu ekki þarna og flissaðu“, sagði kerlingin, „en komdu heldur og hjálpaðu gömlum vesalingi. Jeg ætlaði að kljúfa svolítið af viði, en festi þá nefið á mjer hjer og hefi nú ekki smakkað matarbita í hundrað ár“.

En Pjetur hló enn meir, honum fanst þetta bara gaman, og sagði, að fyrst hún hefði verið þarna í hundrað ár, þá gæti hún sjálfsagt verið þar í önnur hundrað.

Þegar Pjetur kom til kóngshallar, var hann strax tekinn fyrir smala. Það var ekki margt að því að vinna þar, gott fæði og góð laun fjekk maður, og hver vissi nema hann næði í kóngsdóttur í tilbót, en ef það vantaði einn einasta af hjerunum, skyldu verða skornar þrjá skinnlengjur úr bakinu á honum, og honum varpað í ormagarðinn. Meðan Pjetur var með hjerana á leiðinni í hagann og í heimahögum, hjeldu þeir sig allir í hóp, en þegar leið á daginn, og þeir komu út í skóginn, tóku þeir að rása um alt, yfir ása og hæðir. Pjetur hljóp sprengmóður á eftir þeim, og að lokum sá hann ekki nema einn einasta hjera, og svo hvarf hann líka, en þá varð Pjetur að leggjast niður, til þess að kasta mæðinni.

Þegar á daginn leið, lagði hann af stað heimleiðis, og var altaf að gá, hvort ekki kæmu hjerarnir, en ónei, ekki sást einn einasti, og þegar hann kom heim að höllinni, stóð kóngur tilbúinn með hnífinn sinn og skar þrjár skinnlengjur úr baki hans, stráði pipar og salti í og ljet kasta Pjetri í ormagarðinn.

Er nokkuð var umliðið, vildi Páll fara og gæta hjeranna kóngsins. Karl faðir hans sagði það sama við hann, og jafnvel meira en hann hafði sagt við Pjetur, en hann vildi endilega fara, það var skelfingar óðagot á honum, og alt fór líka á sömu leið með hann og Pjetur bróður hans. Hann losaði ekki kerlinguna, misti alla hjerana, og var kastað í ormagarðinn, hvernig sem hann hljóp og hamaðist, ekkert dugði.

Þá var það nú hann Jón, yngsti bróðirinn, sem endilega vildi fara og reyna, hvort hann gæti ekki gætt hjeranna betur en bræður hans, og þetta sagði hann föður sínum: „Mjer finst það alveg ágæt vinna að gæta þessara hjera, maður getur týnt ber og sleikt sólskinið milli þess sem maður lítur eftir greyjunum“.

Faðir hans hjelt að kannske væri einhver vinna, sem hæfði Jóni betur, en að gæta hjeranna, ekki hefði farið svo vel fyrir bræðrum hans tveim, „enda skaltu ekki halda að þjer dugi að liggja eins og dauðýfli, því hjerarnir eru ekki seinir á fæti, og betur er þeim að vera frár, sem ætlar að halda allri hjörðinni til haga“.

„Jæja, mjer er nú sama, hvernig það fer“, sagði Jón, „jeg skal fara til kóngsins og verða vinnumaður hjá honum, og hjeranna skal jeg gæta því það getur varla verið meiri vandi að gæta þeirra, en að eiga við kálfa og kýr!“ Svo tók Jón karlinn malinn sinn og lagði kotroskinn af stað.

Þegar hann hafði gengið lengi, svo hann var farinn að verða svangur, kom hann þar að sem kerlingin stóð með nefið í viðarkubbnum, og stritaði við að losa sig.

„Sæl vert þú, gamla mín“, sagði Jón. „Hvað ertu að gera við nefið á þjer, brýna það?“

„Æ, komdu hjerna drengur minn, og hjálpaðu mjer til að losa mig“, sagði kerlingin, „og gefðu mjer svo örlítinn matarbita, því jeg er orðin sæmilega svöng af því að standa hjer svo lengi, og það getur vel verið, að jeg geti gert þjer smágreiða í staðinn“.

Þá klauf Jón drumbinn fyrir hana, svo hún gat losað nefið, síðan gaf hann henni af nesti sínu, og kerlingin var æði matlystug, hún át bróðurpartinn af nestinu.

Þegar þau voru búin að borða, gaf kerlingin Jóni pípu, sem var svo gerð, að ef maður bljes í annan endann á henni, þá fór alt það langt frá manni, sem maður vildi hafa burtu, en ef blásið var í hinn endann, kom það alt aftur til manns, og ef hann týndi pípunni, eða einhver fengi hana hjá honum, gæti hann fengið hana strax aftur, bara með því að óska að hún væri komin.

Þegar Jón kom til kóngshallar, var hann strax ráðinn fyrir smala, og átti hann að fá kaup og fæði, og gæti hann gætt hjeranna kóngsins, svo enginn týndist, væri ekki ómögulegt, að hann fengi kóngsdóttur fyrir konu; en ef nokkur hjeranna týndist, skyldi Jóni verða varpað í ormagarðinn, en fyrst yrðu ristar þrjár skinnlengjur af bakinu á honum. Og kóngurinn var svo viss um, að Jón myndi týna af hjerunum, að hann fór að brýna hnífinn sinn strax.

„Það er nú ekki mikið verk að gæta þessara hjera“, sagði Jón heldur drjúgur, því þegar þeir fóru á beit, voru þeir þægir eins og bestu kindur. Og meðan hann var með hjerana í heimahögum, gekk alt vel, en er hann nálgaðist skógarásana fór heldur að versna, og þustu nú hjerarnir í allar áttir, og þegar leið að hádegi, og sólskinið var orðið bjart og heitt úti, fóru hjerarnir að fela sig í skorningum og holum.

„Jæja, ef þið viljið dreifa ykkur, þá er það velkomið“, sagði Jón, bljes í annan enda pípunnar sinnar, og hjerarnir þustu eins og fjaðrafok í allar áttir, miklu lengra en þeir höfðu nokkurntíma farið áður. Svo hvíldi hann sig og ljet fara vel um sig í sólskininu, en síðan reis hann upp, er tími var til kominn og bljes í hinn endan á pípunni, og áður en hann gæti áttað sig, voru allir hjerarnir komnir og stóðu fyrir framan hann í röðum eins og hermenn. „Þetta er meiri pípan“, sagði Jón smali við sjálfan sig. Síðan rak hann hjerana heim til kóngshallar, eins og kindahóp.

Kóngur og drotning og meira að segja kóngsdóttir stóðu úti og furðuðu sig á hverskonar smali þetta væri, sem gætti hjeranna þannig, að hann kæmist með þá heim aftur, og kóngur taldi og reiknaði, og benti á hvern einstakan hjera og taldi á fingrum sjer og lagði saman aftur, en það vantaði ekki svo mikið sem einn hjeraunga. — „Þetta er sveimjer duglegur smali“, sagði kóngsdóttir.

Daginn eftir fór hann aftur út í haga með hjerana. En þegar hann lá og ljet fara vel um sig úti í hlíð og át jarðarber, kom þerna kóngsins til hans. Hún hafði verið send, til þess að komast eftir því, hvernig hann færi að að gæta hjeranna svona vel.

Jón tók upp pípuna og sýndi henni. Svo bljes hann í annan endann, og hjeranir dreifðu sjer eins og fjaðrafok yfir hæðir og ása, en síðan bljes hann í hinn, og um leið komu þeir hlaupandi og röðuðu sjer fyrir framan hann.

Þetta fanst þernunni skemtileg pípa. Hún sagðist gjarna vildi gefa hundrað dali fyrir hana. — „Viltu selja hana?“ sagði hún,

„Já, þetta er mikil pípa“, sagði Jón smali, og fyrir peninga er hún ekki föl, en ef hún vildi láta hann hafa hundrað dali og koss í uppbót á hvern dal, þá skyldi hún fá pípuna, sagði hann.

Jú, það sagðist hún skyldi gera; hún skyldi jafnvel láta hann fá tvo kossa með hverjum dal og þakkir í kaupbæti.

Svo fjekk hún pípuna. En þegar hún kom heim í kóngshöllina, þá var pípan horfin, því Jón smali hafði óskað að hún hyrfi til sín aftur, og þegar leið að kveldi, kom hann heim með hjerana sína eins og þægan fjárhóp, og kóngurinn fór kannske að telja og reikna, en þeir voru samt allir.

Þriðja daginn sem hann gætti hjeranna, sendu konungshjónin dóttur sína til hans, til þess að ná af honum pípunni. Hún gerði sig mjög blíða á manninn, bauð honum 200 dali ef hann vildi selja henni pípuna og segja henni hvernig hún ætti að fara að, til þess að komast með hana alla leið heim.

„Þetta er stórmerkilegpípa“, sagði Jón, „og ekki er hún föl“, sagði hann, en hann yrði víst að gera það fyrir hana að láta hana fá pípuna, ef hún borgaði honum 200 dali og kysti hann tvö hundruð kossa í tilbót, en ef hún vildi ekki missa pípuna, þá var bara að gæta hennar vel, og fyrir því varð hún að sjá sjálf.

Þetta fanst kóngsdóttur hátt verð fyrir eina hjerapípu, og það var eins og henni væri ekki um að láta Jón smala hafa alla þessa kossa, en fyrst þetta var inni í skógi, og enginn sá til, þá varð að hafa það, því pípuna varð hún að fá, hugsaði hún. Og þegar Jón smali var búinn að fá sitt vel útilátið, skundaði kóngsdóttir heimleiðis og hjelt dauðahaldi um pípuna alla leiðina, en þegar hún var rjett að koma heim, hvarf pípan alt í einu úr höndunum á henni.

Daginn eftir ætlaði drotningin sjálf af stað og ná pípunni, og hún sagði að það skyldi ekki bregðast, að hún kæmist með hana alla leið heim.

Jón smali kyssir kóngsdóttur

Hún var nískari á fje, og bauð ekki nema 50 dali, en hún varð að hækka tilboðið, svo það komst upp í 300. Smalinn sagði, að þetta væri hreinasta undrapípa, og 300 dalir væru ekkert verð, en af því að það væri nú hún sjálf, drotningin, þá skyldi hún fá pípuna fyrir þetta verð, ef hún kysti sig rembingskoss fyrir hvern dal í tilbót. Kossana fjekk Jón vel úti látna, því á því sviði var drotningin ekki eins naum, og á aurunum.

Þegar hún hafði fengið pípuna, bæði batt hún hana fasta við sig og hjelt um hana, en það fór ekki hóti betur fyrir henni en hinum, því hún hvarf alt í einu um það leyti sem hún kom heim, og um kvöldið kom Jón með hjerana alla í einum hóp.

„Miklir skelfilegir aumingjar eruð þið“, sagði kóngurinn. „Jeg verð víst að fara sjálfur“, bætti hann við og klóraði sjer í hnakkanum, „annars náum við aldrei þessu pípuræskni af honum Jóni. Jeg sje, að það er ekki um annað að gera“.

„Jeg verð víst að fara sjálfur“.

Og þegar Jón smali var kominn út í skóg með hjerana daginn eftir, fór kóngur á eftir honum, og fann hann í sömu brekkunni, þar sem kvenfólkið hafði heimsótt hann.

Þeim kom ágætlega saman, og skemtu sjer hið besta, og Jón sýndi kóngi pípuna, bljes í báða enda hennar og kóngi fanst þetta fyrirtaks pípa, og vildi endilega kaupa hana, þótt hann yrði að gefa fyrir hana 1000 dali.

„Já, þetta er mikil pípa“, sagði Jón smali, „og fyrir peninga er hún ekki föl“, sagði hann, „en sjerðu hvítu merina þarna niðri?“ spurði hann og benti út í skóginn.

„Ójá, þetta er nú hryssan mín, hún Hvít“, sagði kóngur. „Ætli jeg þekki hana ekki“.

„Jæja, ef þú vilt borga mjer 1000 dali og kyssa hvítu merina, sem er á beit þarna niðri í mýrinni, bak við stóra furutrjeð, þá skaltu fá pípuna mína“, sagði Jón.

„Er hún ekki föl fyrir neitt annað“, spurði kóngur.

„Nei, það er hún ekki“ sagði Jón smali.

„En jeg má þó líklega leggja silkiklútinn minn á milli, þegar jeg kyssi merina?“ sagði kóngur.

Jú, það mátti hann, og svo fjekk hann pípuna og setti hana í pyngjuna sína, og lokaði síðan pyngjunni, og svo flýtti hann sjer heimleiðis, en þegar hann kom þangað, og ætlaði að fara að taka upp pípuna, þá hafði ekki farið betur fyrir honum en kvenfólkinu, hann hafði ekki pípuna frekar en þær, og Jón smali kom með hjerahópinn, og ekki vantaði svo mikið sem einn unga.

Kóngur var æfareiður við Jón, af því hann hafði gabbað þau öll sömun og ekki einu sinni látið hann hafa pípuna, og sagði, að nú skyldi hann missa lífið, og drotningin sagði það sama, að best væri að taka svona svikara af lífi tafarlaust.

Jóni fanst það alls ekki rjett, að fara þannig að, því hann hefði ekki gert annað en það, sem honum hefði verið sagt að gera, og hann hefði varið bakið á sjer og líf sitt eins og hann hefði best getað.

Kóngur sagði, að það væri alveg sama, en ef Jón gæti logið stóra ölkerið hans svo fult, að út úr því flóði, þá skyldi hann þyrma lífi hans.

„O, það er nú hvorki langt nje erfitt verk, og ekki verð jeg lengi að því“, sagði Jón smali. — Og svo byrjaði hann að segja frá því, hvernig honum hefði gengið frá því fyrsta, hann sagði frá kerlingunni, sem var föst á nefinu, og alt í einu sagði hann: „Nú verð jeg víst að ljúga einhverju, ef kerið á að verða fult!“ og svo sagði hann frá pípunni, sem hann fjekk, og um þernuna, sem kom til hans og vildi kaupa af honum pípuna fyrir 100 dali, og um alla kossana, sem hún varð að gjalda í kaupbæti úti í skógi, og svo talaði hann um kóngsdóttur, hvernig hún kom til hans og kysti hann svo vel fyrir pípuna, úti í skógi, án þess að nokkur sæi það nje heyrði, — „en ljúga verð jeg einhverju, ef kerið á að vera fult“, sagði Jón smali, og svo fór hann að segja frá drotningunni, hve nísk hún væri á skildinginn, og ósýnk á rembingskossa, — „jeg verð að ljúga meiru, ef kerið á að fyllast“, sagði Jóni smali.

„Nú finst mjer það sæmilega fult“, sagði drotningin.

„Ekki finst mjer það“, sagði kóngur.

Þá fór Jón að tala um það, þegar kóngur kom til hans, og mintist á hvítu merina niðri í mýrinni, — og ef hann vildi fá pípuna, þá yrði hann .... já með leyfi, ef jeg á að ljúga kerið fult, þá verð jeg að segja sitt af hverju..“, sagði Jón smali.

„Hættu strákur, hættu, það er fult! Sjerðu ekki að það flóir út af barminum?“, kallaði kóngur.

Svo fanst þeim best konungshjónunum, að Jón fengi dóttur þeirra og hálft ríkið, það var ekki annað hægt.

„Ja, þetta var meiri pípan“, sagði Jón smali.