Orms þáttur Stórólfssonar

Orms þáttur Stórólfssonar

1. kafli

breyta

Hængur hét maður, son Ketils Naumdælajarls, en móðir Ketils jarls hét Hrafnhildur, dóttir Ketils hængs úr Hrafnistu. Hængur var göfugur maður. Hann varð í missætti við Harald konung Dofrafóstra af drápi Hildiríðarsona og því stökk hann úr landi. Hængur sigldi vestur í haf að leita Íslands. Þeir urðu við land varir og voru fyrir sunnan að komnir, sigldu upp í árós einn mikinn og lögðu við hið eystra land. Sú á heitir nú Þjórsá. Þeir könnuðu víða landið. Hængur var hinn fyrsta vetur fyrir utan Rangá en um vorið nam hann land milli Þjórsár og Markarfljóts allt í milli fjalls og fjöru og bjó að Hofi við Rangá hina eystri. Ingunn hét kona hans. Hún fæddi son um vorið er Hrafn hét. Hængur gaf land skipverjum sínum en seldi sumum og eru þeir landnámamenn kallaðir. Herjúlfur hét annar son Hængs. Hans son var Sumarliði. Helgi hét hinn þriðji. Vestar hét hinn fjórði. Hrafn Hængsson var fyrstur lögsögumaður á Íslandi. Hann bjó að Hofi eftir föður sinn. Þórlaug var dóttir hans er átti Jörundur goði. Hinn fimmta son átti Hængur er Stórólfur hét. Hann er kallaður mestur sona hans en Hrafn göfgastur. Stórólfur átti Þórörnu systur Þorbjarnar skólms þess er var faðir Þórálfs. Stórólfur bjó að Hvoli er síðan var kallaður Stórólfshvoll. Stórólfur var allra manna sterkastur og það var allra manna mál að hann væri eigi einhamur. Hann var fróður maður og margvís. Var hann af því kallaður fjölkunnigur.

Hann átti son við Þórörnu konu sinni er Ormur er nefndur. Hann var snemmendis bæði mikill og sterkur og vel að íþróttum búinn því að þá er hann var sjö vetra samvægði hann hinum sterkustum mönnum um afl og allar íþróttir. Ekki hafði hann ástríki mikið af föður sínum enda var hann honum ódæll og vildi ekki vinna en móðir hans unni honum mikið. Ekki lagðist Ormur í eldaskála. Óx hann nú upp þann veg er hann var tólf vetra gamall.

Stórólfur var iðjumaður mikill og verksígjarn. Það var einn dag um sumarið að Stórólfur lét færa hey saman og gengu fernir eykir. Stórólfur hlóð heyi en handfátt varð upp að bera en honum þótti heldur regnlíkt gerast. Kallaði hann þá á Orm son sinn og bað hann til hjálpa og leggja upp heyið. Ormur gerði og svo. En er í tók að draga skúrirnar gerðist Stórólfur mikilvirkur á heyinu og eggjaði Orm fast að hann skyldi duga og neyta aflsins og sagði hann bæði slyttinn og linaflaðan og meir gefinn vöxtur en afl eða harka. Ormur reiddist nú og bar upp fúlguna alla á lítilli stundu og í því kom að eykurinn. Greip Ormur þá upp hlassið og hestinn með öllum akfærunum og kastaði upp á heyið og svo snart að Stórólfur karl féll út af heyinu og ofan í geilina. Varð það svo þungt fall að brotnuðu í honum þrjú rifin.

Stórólfur mælti þá: „Illt er að eggja ofstopamennina, og er það auðséð að þú munt ófyrirleitinn verða.“

Mikil aflraun þótti þetta öllum mönnum af jafnungum manni sýnd.

2. kafli

breyta

Það er enn sagt einnhvern dag að Stórólfur kom að máli við Orm son sinn og bað hann fara á engjar og slá „því að húskörlum gengur lítt í sumar.“

„Hvar er ljár sá er eg skal slá með?“ sagði Ormur.

Stórólfur fékk honum þá orf og nýjan ljá og var hvorttveggja mjög stórkostlegt. Ormur vatt ljáinn í sundur milli handa sér en steig í sundur orfið og kvað sér hvorki skyldu. Snýr Ormur þá í brottu og fær sér tvo fjórðunga járns og fer til smiðju og gerir sér ljá. Síðan tók hann sér einn ás úr viðarbulungi og gerði sér mátulega hátt og færði í tvo hæla stóra og lét þar í koma ljáinn þann nýja og vafði síðan með járni, gekk síðan ofan á engjar. Þar var svo háttað landslegi að þar var þýft mjög en bæði loðið og grasgott. Ormur tók til að slá og slær þann dag allan til kvelds. Stórólfur sendi griðkonur sínar að raka ljána eftir Ormi en er þær komu á engjarnar sáu þær að Ormur hafði haft múgaslátt. Tóku þær þá til og ætluðu að hvirfla heyið en það gekk þeim eigi svo greitt sem þær ætluðu því að þær gátu öngan múga hrært hvorki með hrífu né höndum, fóru heim síðan og sögðu bónda. Fór hann þá og reið á engjar um kveldið. Sá hann þá að Ormur hafði slegið af þúfur allar og fært þær saman í múga. Hann bað hann þá upp gefa og ónýta eigi meira. Ormur gerði þá og svo og var þá ljár hans máður upp í smiðreim. Þá hafði Ormur slegið átta stakka völl og þær einar engjar eru sléttar af Stórólfshvoli og er kallaður ákvæðisteigur milli hverra múga. Sér þessa alls merki enn í dag.

3. kafli

breyta

Dufþakur er maður nefndur. Hann bjó á þeim bæ er heitir í Holti og er síðan kallað í Dufþaksholti. Dufþakur var mikill og mjög trylltur svo að hann var eigi einhamur. Þeir Stórólfur eldu löngum grátt silfur en stundum voru með þeim blíðskapir en þó átti með þeim illan enda að síðustu, því að það segja sumir menn að Dufþakur yrði Stórólfi að bana.

Nú líður áfram þar til að Ormur er átján vetra gamall. Þá kom vetur mikill svo að gerði jarðbönn en Stórólfur hafði fénaðar mart og tók þá að draga fast að heyjum hans er á leið svo að hann þóttist sjá fyrir að hann mundi fella fénað sinn ef öngra bragða væri í leitað því að hey kunni hvergi að fá í byggðinni utan Dufþakur hafði hey með afgöngum og vildi við öngan af standa. Þá var heldur fátt með þeim Stórólfi. Stórólfur sendi þá Orm son sinn til móts við Dufþak að fá af honum nokkuð af heyi því að þá gerðist tímum mjög fram komið en fénaður dreginn mjög.

Ormur fór þá til móts við Dufþak og falaði af honum hey en hann kvaðst ekki til sölu hafa.

En er Ormur herti fast að þá sagði Dufþakur að hann skyldi hafa byrði sína ef hann vildi „og má ykkur þó að gagni koma ef svo mikið leggur hver til í byggðinni.“

Ormur svarar: „Þetta er lítið tillát en þó skal eg hafa eða hvar skal eg af taka?“

„Úti í garði,“ segir Dufþakur, „standa tveir heykleggjar, annar fjögurra faðma en annar tveggja og vel tveggja faðma þykkt og því nærri hátt og þykir von að sigið muni. Þar skaltu hafa af hinum minna.“

„Eg mun fara heim fyrst,“ segir Ormur, „og sækja mér bendi.“

Og svo gerði hann, sagði nú föður sínum.

„Þetta er göngumannlega til látið,“ segir Stórólfur, „enda skal hann hér ekki verð fyrir hafa og þykir mér þó ráð að eg sæki heldur byrðina því að eg mun heldur borið fá en þú.“

„Eigi skal það vera,“ sagði Ormur, „því að svo mikið var gefið sem eg bæri.“

„Hertu þig þá, mannskræfan,“ segir Stórólfur.

Snýr Ormur þá í brottu og til gervibúrs og tekur reip á tíu hesta og leysir af hagldir, kastar þá saman bæði að lengd og digurð svo að hann gerir úr eitt, gengur síðan yfir í Holt og að heygarðinum og brýtur á hlið, gengur inn í garðinn og að hinum meira heykleggjanum og ryður af ofan torfi og því sem verst var orðið. Síðan styður hann á höndum og losar til heyið niðri við jörðina, dregur síðan undir reipin og bregður í hagldirnar og vendir um heyinu. Færist hann þá undir í fatla og vegur upp á herðar sér, en það segja sumir menn að hann hafi haft hinn minna kleggja í fyrir. Gekk hann með þetta heim til Stórólfshvols. Var bóndi úti og sá. Fannst honum mikið um og lét á sannast að hann mundi eigi sjálfur svo miklu orkað hafa. Var þá inn borið í hlöðu og var hún þá full. Dugði þetta hey svo vel fénaði Stórólfs bónda að hann felldi ekki um vorið. Var síðan betur í frændsemi þeirra feðga þaðan af en áður því að Stórólfur sá hvert afbragð Ormur var annarra manna.

En er Dufþakur karl kom út um daginn og sá vegsummerki að í burtu voru hey hans bæði en það eina eftir er vettugi var nýtt og þó eigi vel að unnið, sá hann og hvar Ormur gekk úr garði og bar heykleggjana báða, þótti honum mikil furða í hversu stóra byrði Ormur gat borið.

En um vorið fór Dufþakur til Hvols og heimti heyverð að Stórólfi og fékk ekki. Þótti honum heyið eigi minna vert en sex kúgilda. Leiddi af þessu langan óþokka með þeim Stórólfi og mikinn fjandskap, sem síðar mun sagt verða.

4. kafli

breyta

En er Ormur var tvítugur að aldri reið hann til alþingis sem oftar. Þá var þingið fjölmennt. Þórálfur Skólmsson var kominn á þingið norðan frá Myrká úr Hörgárdal, frændi Orms. Með honum var sá maður er Mækólfur hét. Hann hafði sex karla afl. Þeir voru allir í búð með Jörundi goða mági Orms.

Jörundi goða voru gefnir aurskór einir. Þeir voru svo stórir og járnmiklir að þeir stóðu hálft pund saumlausir. Þeir fóru um búðina til sýnis. En er skórnir komu til Þórálfs tók hann skóna fjóra og lét saman og hélt á nokkura stund, rétti síðan að Ormi og voru þá allir réttir sem kerti. Ormur tók við og beygði í einu alla skóna fjóra sem áður höfðu verið og þótti þetta mikil aflraun hvorttveggja.

En um daginn er þeir gengu út stóð hituketill hjá heituhúsinu sá er tók tvær tunnur. Hann fylltu þeir upp af sandi. Eftir það gekk að Mækólfur og fleytti honum með annarri hendi. Þórálfur gekk þá að og lyfti honum upp með tveimur fingrum. Síðast gekk að Ormur og krækti undir hödduna hinum minnsta fingri og fleytti honum jafnhátt ökkla og brá hendinni undir kápuna.

Þórálfur mælti: „Sýn mér nú fingurinn.“

„Eigi vil eg það,“ segir Ormur.

„Kost átti eg að meiða mig ef eg vildi,“ segir Þórálfur, „og vildi eg eigi.“

Mönnum þótti sem í sundur hefði gengið hold og sinar niður að beini. Síðan riðu menn heim af þingi og sat Ormur um kyrrt.

Mikils þótti mönnum vert um aflraunir Orms þær sem hann hafði gert og gerði síðan, því meiri sem hann var þá eldri, og því er það allra manna mál, vina hans og óvina, að hann hafi sterkastur maður verið á öllu Íslandi bæði að fornu og nýju, sá er einhamur hefir verið.

5. kafli

breyta

Virfill hét maður. Hann átti að ráða fyrir einu þorpi í Danmörk þar er á Vendilskaga heitir. Þeir voru bræður og Véseti í Borgundarhólmi. Virfill var kvongaður maður og átti einn son við konu sinni er Ásbjörn er nefndur. Hann var snemma mikill og vænn og vel að íþróttum búinn. Hann var hverjum manni kurteisari. Af því var hann kallaður Ásbjörn prúði.

Það var þá tíska í þær mundir að konur þær fóru yfir land er völvur voru kallaðar og sögðu mönnum fyrir örlög sín, árferð og aðra hluti þá er menn vildu vísir verða. Þessi sveit kom til Virfils bónda. Var völvunni þar vel fagnað því að þar var veisla hin besta.

En er menn voru komnir í sæti um kveldið var völvan frétt að forspám sínum en hún sagði að Virfill mundi þar til elli búa og þykja nýtur bóndi „en þeim unga manni er þar situr hjá þér bóndi er gott að heyra sín forlög því að hann mun fara víða og þykja þar mestur maður sem þá er hann helst og vinna mart til framaverka og verða ellidauður ef hann kemur eigi á Norðmæri í Noregi eða norður þaðan í það land.“

„Það ætla eg,“ sagði Ásbjörn, „að eg sé eigi þar feigari en hér.“

„Muntu eigi ráða því hvað er þú ætlar,“ segir völvan og varð henni þá ljóð á munni:

Þó að þú látir
yfir lögu breiða
byrhest renna
og berist víða
nær mun það leggja
að norðr fyrir Mæri
þú bana hljótir,
best mun að þegja.

Síðan var völvan þar svo lengi sem ætlað var og leyst í burt með góðum gjöfum.

Ásbjörn óx nú upp en þegar að aldur færðist yfir hann þá hafði hann sig í förum til ýmissa landa og kynnti sér svo siðu annarra manna og var mikils metinn af öllum höfðingjum. Móðir hans var ættuð norðan úr Noregi af Hörðalandi og Norðmæri, komin af ætt Bifru-Kára. Sat Ásbjörn þar löngum hjá móðurfrændum sínum, mikils metinn sakir íþrótta sinna og atgervi.

6. kafli

breyta

Nú er þar til að taka er fyrr var frá horfið að Ormur Stórólfsson sat á Íslandi og er hann var kominn á þrítugsaldur tók hann sér fari með þeim manni er Össur hörðski hét er skip átti uppi standanda í Þjórsá og fór utan með honum.

Össur átti garð á Hörðalandi og sat Ormur hjá honum um vetur. Þá var Ásbjörn prúði á Hörðalandi og bar oft saman fundi þeirra Orms og féll vel á með þeim og gerðist þar skjótt vinátta. Reyndu þeir margar íþróttir og voru á allar jafnir þær sem eigi reyndi afl með en miklu var Ormur sterkari. Svo kom að þeir sórust í fóstbræðralag að fornum sið, að hvor skyldi annars hefna sá er lengur lifði ef hinn yrði vopndauður.

En um vorið talaði Ásbjörn við Orm að hann vildi fara norður á Mæri að hitta Eyvind snák og Bergþór bestil frændur sína.

„Er mér og forvitni á,“ segir hann, „að vita hvort þegar dettur líf úr mér er eg kem þar sem sagði völvan arma.“

Ormur lést þeirrar farar búinn „en eigi þykir mér þú þar mega um keppa því að nógu mart vita þess háttar menn sem hún er.“

Síðan fóru þeir á tveimur skipum norður á Mæri og tók Eyvindur og Bergþór allvel við Ásbirni frænda sínum því að þeir voru systkinasynir.

Þetta var á ofanverðum dögum Hákonar Hlaðajarls.

Þar spurði Ásbjörn að eyjar tvær lágu norður fyrir landi og hét hvortveggi Sauðey og réði fyrir hinni ytri eyjunni jötunn sá er Brúsi héti. Hann væri mikið tröll og mannæta og ætluðu menn að hann mundi aldrei af mennskum mönnum unninn verða, hversu margur væri, en móðir hans var þó verri viðureignar en það var kolsvört ketta og svo mikil sem þau blótnaut að stærst verða. Engi gæði höfðu menn af landi úr hvorigri eyjunni fyrir þessum meinvættum. Gerðist Ásbjörn fús að fara til eyjanna en Ormur aflatti og kvað fátt verra en við fjandur slíka að eiga og því varð ekki af ferðinni. Héldu þeir um sumarið suður í Danmörk og sátu hjá Virfli um veturinn.

En að vetri liðnum og vori komnu héldu þeir í hernað með fimm skip og fóru víða um eyjar og útsker og höfðu sigur og gagn hvar er þeir komu. Urðu þá eigi aðrir menn frægri í víkingu heldur en þeir.

En um sumarið er á leið lögðu þeir til Gautlands og herjuðu þar. Þá réð þar fyrir sá jarl er Herröður hét. Þar áttu þeir marga bardaga og fengu vald yfir landinu og sátu þar vetur hinn þriðja. Þar voru drykkjur stórar um veturinn og gleði mikil.

Það var einn dag um veturinn er þeir Ásbjörn og Ormur sátu og drukku. Þá kvað Ásbjörn vísu þessa:

Sagði mér á seiði,
söng um það löngum
að eg á feigum fæti
færi eg norðr á Mæri.
Vætki vissi völva,
vera mun eg enn með mönnum
glaðr í Gautaveldi,
gramir eigi spá hennar.

Um vorið fóru þeir Ormur og Ásbjörn og undu þar eigi lengur og fóru um sumarið norður í Danmörk og svo til Noregs og voru þar vetur hinn fjórða með Össuri hörðska.

En um vorið töluðust þeir með fóstbræður. Vildi Ásbjörn í hernað en Ormur út til Íslands og því skildu þeir og þó með kærleikum og vináttu.

Fór Ormur til Íslands með Össuri hörðska, urðu vel reiðfara, komu skipi sínu í Leiruvog fyrir neðan heiði. Þá frétti Ormur þau tíðindi að Stórólfur karl faðir hans hafði dáið í viðskiptum þeirra Dufþaks. Var hann fám mönnum harmdauði. Fór Ormur þá heim á Stórólfshvol og setti þar bú saman og bjó þar lengi eftir það er hann hafði hefnt Stórólfs föður síns, eftir því sem segir Íslendingaskrá.

7. kafli

breyta

Litlu síðar en þeir Ormur og Ásbjörn höfðu skilið fýstist Ásbjörn norður í Sauðeyjar. Fór hann með fjóra menn og tuttugu á skipi, heldur norður fyrir Mæri og leggur seint dags að Sauðey hinni ytri, ganga á land og reisa tjald, eru þar um náttina og verða við ekki varir.

Um morguninn árla rís Ásbjörn upp, klæðir sig og tekur vopn sín og gengur upp á land en biður menn sína bíða sín.

En er nokkuð svo var liðið frá því er Ásbjörn hafði í brott gengið verða þeir við það varir að ketta ógurleg var komin í tjaldsdyrnar. Hún var kolsvört að lit og heldur grimmleg því að eldar þóttu brenna úr nösum hennar og munni. Eigi var hún og vel eyg. Þeim brá mjög við þessa sýn og urðu óttafullir. Kettan hleypur þá innar að þeim og grípur hvern að öðrum og svo er sagt að suma gleypti hún en suma rifi hún til dauðs með klóm og tönnum. Tuttugu menn drap hún þar á lítilli stundu en þrír komust út og undan og á skip og héldu þegar undan landi.

En Ásbjörn gengur þar til er hann kemur að hellinum Brúsa og snarar þegar inn í. Honum var nokkuð dimmt fyrir augum en skuggamikið var í hellinum. Hann verður eigi fyrr var við en hann er þrifinn á loft og færður niður svo hart að Ásbirni þótti furða í. Verður hann þess þá var að þar er kominn Brúsi jötunn og sýndist heldur mikillegur.

Brúsi mælti þá: „Þó lagðir þú mikið kapp á að sækja hingað. Skaltu nú og erindi hafa því að þú skalt hér lífið láta með svo miklum harmkvölum að það skal aðra letja að sækja mig heim með ófriði.“

Fletti hann þá Ásbjörn klæðum því að svo var þeirra mikill aflamunur að jötunninn varð einn að ráða þeirra í milli. Bálk mikinn sá Ásbjörn standa um þveran hellinn og stórt gat á miðjum bálkinum. Járnsúla stór stóð nokkuð svo fyrir framan bálkinn.

„Nú skal prófa það,“ segir Brúsi, „hvort þú ert nokkuð harðari en aðrir menn.“

„Lítið mun það að reyna,“ segir Ásbjörn, „en ógæfusamlega hefir mér tekist að eg skyldi öngri vörn fyrir mig koma og er það líkast að feigð kalli að mér“ og kvað vísu þessa:

Sinni má engi
íþrótt treysta.
Aldrei er hann svo sterkur
né stór í huga.
Svo bregst hverjum
á banadægri
hjarta og megin
sem heill bilar.

Síðan opnaði Brúsi kvið á Ásbirni og náði þarmaenda hans og knýtti um járnsúluna og leiddi Ásbjörn þar í hring um en Ásbjörn gekk einart og röktust svo á enda allir hans þarmar.

Ásbjörn kvað þá vísur þessar jafnframmi:

Segist það minni móður,
mun hún ei syni kemba
svarðarláð í sumri
svanhvít í Danmörku.
Hafði eg henni heitið
að eg heim koma mundi.
Nú mun segg á síðu
sverðsegg dregin verða.
Annað var þá, eg inni,
ölkátir vér sátum
og á fleyskipi fórum
fjörð af Hörðalandi,
drukkum mjöð og mæltum
mart orð saman forðum.
Nú er eg einn í öngvar
jötna þröngvar genginn.
Annað var þá, eg inni,
allstórir saman fóru,
stóð þar upp í stafni
Stórólfs bur hinn frækni
þá er langskipum lagði
lundr að Eyrasundi.
Nú mun eg tældr í tryggðum
trölla byggðir kanna.
Annað var þá, eg inni,
Ormr að Hildar stormi
gekk enn gráðgum blakki
geitis sylg að veita.
Rekk að rómu dökkri
raunmargan gaf vargi
seggr og sárt nam höggva
svinnr að Ífu mynni.
Annað var það, eg inni,
eg veitti ferð sveittri
högg með hvassri tuggu
Herjans suðr í skerjum
elfar, oft nam kólfi
Ormr haglega að forma,
mest þá er miðjungs traustir
mágar eftir lágu.
Annað var þá, eg inni,
allir saman vorum,
Gautr og Geiri,
Glúmr og Starri,
Sámr og Semingr,
synir Oddvarar,
Haukr og Hama,
Hrókr og Tóki.
Annað var þá, eg inni,
oft á sæ fórum,
Hrani og Högni,
Hjálmr og Stefnir,
Grani og Gunnar,
Grímr og Sörkvir,
Tumi og Torfi,
Teitr og Geitir.
Annað var þá, eg inni,
alllítt vér spörðumst
að samtogi sverða.
Sjaldan eg latti
að brúnpálmar brýndir
biti hvasslega seggi.
Þó var Ormr að ímun
æ oddviti þeirra.
Mundi Ormr
ófrýnn verða
ef hann á kvöl þessa
kynni að líta
og grimmlega
gjalda þursi
vorar viðfarar
víst ef hann næði.

Síðan lét Ásbjörn líf sitt með mikilli hreysti og drengskap.

8. kafli

breyta

Það er að segja að þeir þrír menn er undan komust sóttu knálega róður og léttu eigi fyrr en þeir komu að landi, sögðu þau tíðindi er gerst höfðu í þeirra förum, kváðust ætla Ásbjörn dauðan en kunnu ekki frá að segja hversu að hafði borist um hans líflát. Komu þeir sér í skip með kaupmönnum og fluttust svo suður til Danmerkur. Spurðust nú þessi tíðindi víða og þóttu mikil.

Þá var orðið höfðingjaskipti í Noregi, Hákon jarl dauður en Ólafur Tryggvason í land kominn og bauð öllum rétta trú.

Ormur Stórólfsson spurði út til Íslands um farar og líflát Ásbjarnar er mönnum þótti sem vera mundi. Þótti honum það allmikill skaði og undi eigi álengdar á Íslandi og tók sér fari í Reyðarfirði og fór þar utan. Þeir komu norðarlega við Noreg og sat hann um veturinn í Þrándheimi. Þá hafði Ólafur ráðið þrjá vetur í Noregi.

Um vorið bjóst Ormur að fara til Sauðeyja. Þeir voru því nær margir á skipi sem þeir Ásbjörn höfðu verið. Þeir lögðu að minni Sauðey síð um kveldið og tjölduðu á landi og lágu þar um náttina.

Það segja menn að Ormur væri prímsigndur í Danmörku en hafi kristnast á Íslandi.

En er Ormur var sofnaður sá hann að kona gekk inn í tjaldið mikil og errileg, vel búin og væn að yfirlitum. Hún gekk innar að þar er Ormur lá og nam þar staðar.

Ormur þóttist heilsa henni og spyrja hana að nafni en hún kveðst Menglöð heita, dóttir Ófótans norðan úr Ófótansfirði „en við erum systkin og Brúsi að föður en eg átti mennska móður en móðir hans er sú hin kolsvarta ketta er þar er í hellinum hjá honum. En þó að við séum skyld þá erum við þó ekki lyndislík. Ræður hann fyrir eyjunni ytri og er hún sýnu betri. Veitir hann mér þungar búsifjar svo að eg hygg að eg muni í brottu stökkva. Veit eg og hvert erindi þitt er. Þú ætlar að hefna Ásbjarnar fóstbróður þíns og er það vorkunn því að þú átt eftir hraustan mann að mæla. Mun þér og forvitni á að vita hversu honum var í hel komið en þar munu ekki margir kunna frá að segja utan Brúsi og eg.“

Hóf hún þá upp alla sögu og sagði frá lífláti Ásbjarnar og svo kvað hún allar þær vísur er hann hafði kveðið „en eigi þykist eg þar sjá fyrir mun um hvort meira má tröllskapur Brúsa og móður hans eða hamingja þín. En öngvan mann óttast hann utan þig einn og viðurbúnað hefir hann veittan ef þú kynnir að koma. Hann hefir fært það bjarg í hellisdyrnar að ekki má í hellinn komast meðan það stendur þar en þó að þú sért sterkur þá hefir þú hvorki afl við Brúsa né bjarginu í brott að koma. Nú eru hér glófar að eg vil gefa þér og fylgir sú náttúra að þeim verður aldrei aflafátt sem þá hefir á höndum. Yrði það svo að þú ynnir Brúsa þá vildi eg að þú gæfir Sauðey í vald mér en eg mun heldur vera þér í sinni því að mér ert þú vel í þokka þó að við megum eigi njótast sakir trúar þinnar.“

Síðan hvarf konan en Ormur vaknaði og voru þar glófarnir en hann mundi allar vísurnar. Stóð Ormur þá upp og vakti menn sína og hélt út til eyjarinnar, gekk á land og bað menn sína bíða á skipi til annars dags í þær mundir en halda á burt ef hann kæmi þá eigi.

9. kafli

breyta

Nú gengur Ormur þar til er hann kemur að hellinum. Sér hann nú bjargið það stóra og leist ómáttulegt nokkurum manni það í brott að færa. Þó dregur hann á sig glófana Menglaðarnauta, tekur síðan á bjarginu og færir það burt úr dyrunum og þykist Ormur þá aflraun mesta sýnt hafa.

Hann gekk þá inn í hellinn og lagði málajárn í dyrnar. En er hann var inn kominn sá hann hvar kettan hljóp með gapanda ginið. Ormur hafði boga og örvamæli. Lagði hann þá ör á streng og skaut að kettunni þremur örum en hún henti allar með hvoftunum og beit í sundur. Hefir hún sig þá að Ormi og rekur klærnar framan í fangið svo að Ormur kiknar við en klærnar gengu í gegnum klæðin svo að í beini stóð. Hún ætlar þá að bíta í andlit Ormi. Finnur hann þá að honum mun eigi veita, heitir þá á sjálfan guð og hinn heilaga Petrum postula að ganga til Róms ef hann ynni kettuna og Brúsa son hennar. Síðan fann Ormur að minnkaðist afl kettunnar. Tekur hann þá annarri hendi um kverkur henni en annarri um hrygg og gengur hana á bak og brýtur í sundur í henni hrygginn og gengur svo af henni dauðri.

Ormur sá þá hvar bálkur stór var um þveran hellinn. Hann gengur þá innar að en er hann kemur þar sér hann að fleinn mikill kemur utar í gegnum bálkinn. Hann var bæði digur og langur. Ormur grípur þá í móti fleininum og leggur af út. Brúsi kippir þá að sér fleininum og var hann fastur svo að hvergi gekk. Það undraðist Brúsi og gægðist upp yfir bálkinn. En er Ormur sér það þrífur hann í skeggið á Brúsa báðum höndum en Brúsi bregst við í öðrum stað. Sviptast þeir þá fast um bálkinn. Ormur hafði vafið skegginu um hönd sér og rykkir til svo fast að hann rífur af Brúsa allan skeggstaðinn, hökuna, kjaftana báða, vangafillurnar upp allt að eyrum. Gekk hér með holdið niður að beini. Brúsi lét þá síga brýnnar og grettist heldur grepplega. Ormur stökkur þá innar yfir bálkinn. Grípast þeir þá til og glíma lengi. Mæddi Brúsa þá fast blóðrás. Tekur hann þá heldur að ganga fyrir. Gefur Ormur þá á og rekur Brúsa að bálkinum og brýtur hann þar um á bak aftur.

„Snemma sagði mér það hugur,“ sagði Brúsi, „að eg mundi af þér nokkuð erfitt fá þegar eg heyrði þín getið enda er það nú fram komið. Muntu nú vinna skjótt um og höggva höfuð af mér. En það var satt að mjög píndi eg Ásbjörn prúða þá er eg rakti úr honum alla þarmana og gaf hann sig ekki við fyrr en hann dó.“

„Illa gerðir þú það,“ segir Ormur, „að pína hann svo mjög, jafnröskvan mann. Skaltu og hafa þess nokkurar menjar.“

Hann brá þá saxi og reist blóðörn á baki honum og skar öll rifin frá hryggnum og dró þar út lungun. Lét Brúsi svo líf sitt með litlum drengskap. Síðan bar Ormur eld að og brenndi upp til ösku bæði Brúsa og kettuna.

Og er hann hafði þetta starfað fór hann burt úr hellinum með kistur tvær fullar af gulli og silfri en það sem meira var fémætt gaf hann í vald Menglaðar og svo eyna. Skildu þau með mikilli vináttu. Kom Ormur til manna sinna í nefndan tíma, héldu síðan til meginlands. Sat Ormur í Þrándheimi vetur annan.

10 kafli

breyta

Að sumri bjóst Ormur til Rómferðar og tókst sú ferð vel, kom sunnan til Danmerkur um haustið eftir Svöldrarorustu og spurði þar þau tíðindi er þar höfðu orðið. Fór hann þá til Noregs á fund Eiríks jarls og hitti hann á Hlöðum, gekk fyrir jarl og kvaddi hann. Jarl tók honum vel og spurði hann að nafni. Hann lést Ormur heita.

Jarl mælti: „Ertu Ormur sterki?“

„Kalla megið þér svo herra ef þér viljið en það er erindi mitt að eg vildi vera gestur yðvar í vetur.“

Jarl kvað honum það til reiðu og skipaði honum á hinn æðra bekk utarlega. Ormur var fáskiptinn um veturinn og óhlutdeilinn.

Það var einn tíma að talað var til Svöldrarorustu og hversu kappar Ólafs konungs höfðu drengilega vörn sýnt og hversu seint að Ormurinn hafði unninn orðið eða hversu harða atsókn Eiríkur jarl hafði veitt að hann fékk unnið það skip er engi ætlaði að á þíðum sjó mundi unnið verða.

Ormur svarar: „Seinna mundi Ormurinn langi unninn hafa orðið ef eg hefði þar verið með öðrum köppum konungs.“

Nú var sagt jarli að Ormur hefði mikið um talað að Ormurinn langi mundi eigi unninn orðið hafa ef hann hefði þar verið.

Jarl lætur þá kalla Orm fyrir sig og spyr hvort hann hefði það talað að Ormurinn mundi eigi unninn hafa orðið ef hann hefði þar verið.

„Eigi er það herra. Hitt sagði eg að seinna mundi unninn hafa orðið Ormurinn ef eg hefði þar verið.“

Jarl svarar: „Lítinn mun mundi það segja um einn mann, svo mörgum og miklum köppum sem þar var saman skipað en þó skal gera tilraun nokkura. Þú skalt vera einn á skipi og skulu sækja að þér fimmtán skeiður og er það þó lítið af þeim skipafjölda er var við Svöldur.“

„Þér munuð ráða herra,“ sagði Ormur, „en ekki mun eg fyrr gefast en eg er yfirkominn.“

Ormur gekk þá út og tók einn berlingsás digran, þrettán alna langan. Síðan fór hann á skip og lét frá landi. Síðan voru menn til fengnir á fimmtán skeiðum og sóttu að Ormi. En svo er sagt að á lítilli stundu hafði Ormur slegið í kaf sjö skeiður, lamið og brotið. Þá kallaði jarl og bað þá hætta þessum leik. Var og svo gert. Varð þá borgið flestum öllum mönnum.

Síðan bað jarl sex tigu manna sækja að Ormi úti á víðum velli og svo var gert. Ormur hafði ekki vopna nema ásinn og veifði honum um sig sem hreytispeldi svo að engi þorði nærri að koma því að þeir sáu vísan bana hver sem fyrir yrði.

Bað jarl þá hætta þessum leik og svo var gert.

Jarl mælti: „Eigi ætla eg að það væri oftalað Ormur þótt seinna ynnist Ormurinn langi ef þú hefðir á verið því að hann mundi aldrei unninn hafa orðið ef þú hefðir þar til varnar verið.“

Síðan gerðist Ormur hirðmaður Eiríks jarls og var með honum í miklum kærleikum sakir atgervi sinnar.

11. kafli

breyta

Það var einn tíma að Ormur fór á kynni þar sem hann hafði fyrr verið í Þrándheimi. Hann kom um leið á Gimsar og var Einar heima. Það var í þann tíma sem Einar var að kirkju. Bogi hans var úti fyrir kirkjudyrum. Ormur gekk að og tók upp og lagði ör á streng og dró fyrir odd og lét svo örina standa í boganum og lagði síðan niður aftur og gekk í brottu. En er Einar kom út sá hann hversu bogi hans var til háttaður og undraðist mjög og spurði eftir hver með boga hans mundi farið hafa en þess varð hann lengi ekki vís fyrr en Ormur sjálfur sagði honum. Einar kveðst það og vita að það mundi ekki skræfa verið hafa er boga hans hafði fyrir odd dregið.

Eiríkur jarl fór að veislum austur um Víkina. Þá var Ormur með jarli. En er þeir komu þar sem Ormurinn langi hafði verið upp hogginn lá þar siglutré. Jarl bað menn prófa hversu margir þyrftu undir að ganga áður en axlað yrði. Skipaði hann Ormi undir mitt tréð. Sex tigir manna tóku tréð. Síðan bað jarl sinn mann tínast undan hvorum enda og svo var gert þar til að Ormur stóð einn undir trénu. Þá gekk hann með það þrjú fet og lagði niður síðan.

Segja menn að Ormur muni varla samur orðið hafa síðan og áður. Var hann með jarli nokkura vetur, fór síðan út til Íslands og settist í bú að Stórólfshvoli og þótti æ hinn mesti maður og varð ellidauður og hélt vel trú sína.