Piltur og stúlka/1
Á austanverðu Íslandi liggur hérað eitt mikið og fagurt, er .....hérað heitir; þar gjörðist saga sú, er hér skal rituð. Hérað þetta er allfjölbyggt, en var þó betur bæjum skipað á dögum Síðu-Halls, og sést nú víða aðeins fyrir tóftum, þar sem sögurnar segja, að verið hafi vel hýst höfðingjasetur. Sjón er sögu ríkari, en eigi vitum vér, hvað veldur. Þeir, sem rita og ritað hafa um landsins gagn og nauðsynjar, verða ekki á eitt sáttir um það efni; ætla nokkrir, að hin fögru býli hafi lagst í eyði sakir ódugnaðar landsmanna, og hafa það til síns máls, að eins sé landið nú „fagurt og frítt“ sem á fyrri öldum, þegar Norðmenn tóku sér þar bólfestu, og enn sé þar víða byggilegt, sem ekki er byggt. Þá eru aðrir, sem kenna hafísnum og timbureklunni um, að landið sé strjálbyggðara nú en á tíundu og elleftu öld; segja þeir, að um þær mundir hafi enginn hafís komið, en landið verið skógi vaxið frá fjalli til fjöru og nægur húsaviður hvervetna. Það má vel vera, að hvorirtveggja hafi að nokkru leyti satt að mæla; en ekki á mál það að dæma hér á þingi, fyrir því að annað er efni bæklings þessa.
Upp af héraði því, er vér um gátum, gengur dalur einn mikill og breiður, sem ....dalur heitir. Fram af dal þessum liggja aftur tveir minni dalir, er vér köllum Fögrudali. Fagridalur hinn eystri er allur vaxinn víði og vafinn í grasi; landskostir eru þar góðir, en vetrarríki í meira lagi. Dalurinn er þráðbeinn; fjöllin að honum ekki há; hlíðarnar iðgrænar á sumrin og nær því klettalausar; hér og hvar kvíslast smálækir og gil ofan um hjallana. Eftir miðjum dalnum fellur á mikil, það er jökulvatn lygnt og þó ekki afarbreitt. Sá, sem stendur um morgunstund við dalbotninn í björtu sumarveðri við upprás sólar, þegar skuggamyndirnar eru að þokast undan sólarbirtunni, og lítur yfir dalinn endilangan, mun ekki geta bundist þeirra orða: Fagur ertu, dalur fósturjarðar minnar, hér vil ég beinin bera.
Sex bæir eru í Fagradal eystri, og heita fremstu bæirnir Indriðahóll og Sigríðartunga og standa því nær hvor á móti öðrum, sinn hvorum megin árinnar. Litlar samgöngur voru millum bæja þessara; sinn átti hvora kirkjusókn, og sinn var í hvorum hrepp. Áin er óvíða reið þar í dalnum, og fá vöð eru þar á henni; á veturna leggur hana í mestu aftökum, en ekki fjölgaði milliferðum fyrir það, með því bændurnir voru heldur engir vinir; hvor bjó að sínu og hafði mest mök við sína sveitunga. Enginn nábúakrytur var þó með þeim bændunum; áin skar svo skýrt og greinilega úr landamerkjum hvorratveggja jarðanna, að aldrei gátu risið deilur út úr átroðningi eða slægjubletti, sem vant er að vera hneykslunarhella nágranna á Íslandi; en forlögin höfðu hagað því svo til, að bóndinn á Indriðahóli hafði hreppstjórn á hendi í sinni sveit, og í Sigríðartungu bjó og hreppstjóri. Nú þótt menn séu vænir, sem hlut eiga að málum, má það margt verða í sveitarsökum, er sitt líst hverjum; hefur það og lengi mælt verið, að fátækrastjórnin sundri hreppstjórunum, en samtengi þá ekki, og svo fór hér einnig. Í langan aldur höfðu hreppstjórar þessir gengið í friði og spekt hvor hjá öðrum á leið lífsins og hreppstjórnarinnar, þangað til steinn kom í götuna, en það var kerlingarskepna gömul og slitin; enginn maður vissi með sönnu að segja, hvar hún var í heiminn borin, og sjálf mundi hún ekki fyrir víst, hvað hún hafði heyrt um það. Nú fóru menn að rannsaka ritningarnar, það er að skilja kirkjubækurnar í Sigríðartunguhrepp og Indriðahólshrepp, en þá tók málið algjörlega að flókna; í Indriðahólssveitar kirkjubók fundu þeir nafn, og líktist fyrsti stafurinn í því upphafsstafnum í heiti kerlingar, en að öðru leyti var nafnið máð og ritað með sortubleki; þótti bændum í Hólshrepp ísjárvert að gjöra kerlingu þar sveitlæga eftir svo óljósu handriti. Í Tunguhrepps kirkjubók var hundrað ára eyða, og sögðu sveitarmenn, að eftir kirkjubókinni að dæma væri eins líklegt, að hún ætti ekki sveit þar í hrepp. Þá skyldi sýslumaður skera úr þrætunni, og var honum ritað af hreppstjórunum. Sýslumanni varð heldur ógreitt um svarið, en svo búið mátti ekki standa, og tekur hreppstjórinn í Sigríðartungu það ráð, að hann flytur kerlingu með tilstyrk sveitarmanna á Indriðahólshrepp. Hreppstjórinn þar bregður skjótt við, safnar að sér mönnum og lætur flytja hana um hæl yfir að Sigríðartungu. Bænum í Sigríðartungu var lokað, þegar sást til fararinnar, og fyrirbauð hreppstjóri nokkrum manni að vera svo djarfur að ljúka upp. Hinir skildu kerlingu eftir á hlaðinu, en ekki var bærinn opnaður, fyrr en Hólhreppingar voru farnir burtu fyrir góðri stundu. Þetta var á miðri jólaföstu, og var veður fremur kalt fyrir gamalmenni, og var farið að slá að kerlingu, þegar komið var út til hennar; sagði Bjarni hreppstjóri, að best væri að velgja dálítinn mjólksopa ofan í hana, áður en farið væri með hana aftur. - Flytjið þið mig nú hvert, sem þið viljið, skepnurnar mínar, sagði kerling; en guð fyrirgefi kónginum, nú situr hann og drekkur kaffi og brennivín og veit ekki, hvað hér gjörist. - Þetta voru síðustu orð hennar hér í heimi.
Ekki fór eins fyrir hreppstjórum þessum eins og þeim Heródes og Pílatus forðum, að þeir yrðu vinir á þeim sama degi sem kerling fór á milli þeirra; aldrei greri um heilt með þeim eftir þenna þráflutning; þeir sáust að sönnu oft á mannfundum og ypptu höttum hvor að öðrum, en ekki var það fyrir vináttu sakir, heldur af lotningu fyrir embættinu; þeir rituðu stundum hvor öðrum til um hitt og þetta, sem snerti sveitastjórnirnar, og töluðust oft við, og kallaði þá hvor annan signor í hverju orði, en ekki kom að heldur til af góðu, heldur hinu, að hvor um sig hugsaði: Sé hann ekki signor, þá getur og verið efi á um það, hvort ég sé signor eða ekki.
Hreppstjórakonurnar þekktust lítið, en ekki var það allsjaldan, að þær spyrðu gesti og gangandi hvor um aðra; ekki var það af umhyggju eða velvild sprottið, heldur af metnaði niðrí; vildi hvorug vera annarrar eftirbátur, þar eð þær hefðu jafnar mannvirðingar. Hreppstjórar þessir voru báðir góðir efnamenn; hreppstjóri Jón átti Indriðahólinn, en Sigríðartunga var konungsjörð; þar hafði hreppstjóri Bjarni búið allan sinn búskap; ekki átti hann jarðir, en vel af lausafé. Jón á Hóli átti einn son, er Indriði hét; hann var þá tíu vetra, er saga þessi gjörðist. Indriði var snemma fríður sýnum og vaxinn vel, og afbragð þótti hann jafnaldra sinna fyrir styrkleika sakir, enda lifði hann ekki á moðunum hjá móður sinni; aldrei var svo hart um mjólk á Hóli, að Indriði yrði ekki að fá pott af spenvolgri nýmjólk í hvert mál, og þetta kom mergnum í kögglana á honum; ötull var hann og framgjarn til hvers, sem gjöra var, nema að læra spurningarnar; þó var nú því starfi svo langt komið, að hann kunni þær allar vel nema sjötta kapítulann, sem flestum verður örðugur. Mesta yndi og ánægja Indriða var jafnan að vera eitthvað að tálga og því næst að sinna um fé föður síns. Hann var skyggn vel og fóthvatur og heppnaðist betur en flestum öðrum fjárgæsla og fann oft, þegar vantaði, þar sem aðrir voru frá gengnir leitinni. Eina á átti hann móbotnótta að lit, hún hafði verið gefin honum í tannfé og var allra mesta heppnisskepna; hún var tvílembd á hverju vori, og sögðu menn Indriða fésælan verða mundu; seldi Indriði lömbin á hverju hausti fyrir peninga, er móðir hans varðveitti fyrir hann. Nú var Botna orðin svo farin og lasburða, að hún mátti ekki lengur fylgja fénu eður bíta gras til holda, þó hásumar væri, en ellidauð átti hún að verða, því hafði Indriði heitið; var hún því höfð á baðstofugólfi og gefin mjólk sem barni með pípu, en studd út í hlaðbrekkuna, þegar best og blíðast var veður.
Þau Bjarni í Sigríðartungu áttu þrjú börn; Ragnheiður hét hið elsta, og var hún gefin bóndamanni þar í sveitinni; son áttu þau, er Ormur hét; hann hafði Bjarni til læringar sett, og var hann með föður sínum á sumrum, en í heimaskóla á vetrum; móðir hans unni honum mikið og vildi, að hann yrði prestur, og varla hafði Ormur numið svo mikið í latínumáli, að hann gæti sett tvö orð gallalaust saman, áður móðir hans fór að telja saman lambsfóður og preststíundir á bestu brauðunum, sem hún þekkti, og jafna öllu saman til að vita, um hvert brauðið hann Ormur sinn skyldi biðja. Yngsta barn hjónanna í Sigríðartungu hét Sigríður; það var móðurnafn bónda, og þótti honum harla vænt um hana; en ekki hafði hún jafnmikið ástríki af móður sinni; galt hún þess hjá móðurinni, sem hún naut hjá föðurnum, það er nafnsins og þess, að hana svipaði í ætt til föðurömmu sinnar; sagði Ingveldur oft við sjálfa sig, þegar hún leit framan í barnið: Er það ekki eins og ég sjái sneypuna hana tengdamóður mína þarna lifandi?
Það er nú þessu næst að segja, að þetta sumar var það ætlunarverk Indriða á Hóli, að hann skyldi smala á morgnana, en sitja hjá á daginn; beitarlandið frá Hóli er fram um dalinn, en upprekstrarland bænda og afrétti fremst í dalbotninum. Kvífénu var haldið fram um Grænuhjalla, og þar sat Indriði hjá, og varð honum aldrei vant úr hjásetunni, en örðugar gekk honum að vakna á morgnana svo snemma sem þurfti, og var í fyrstu ekki ugglaust, að faðir hans yrði að vekja hann á stundum nokkuð hvatskeytlega; líður svo fram að slætti, tekur þá féð að spekjast, en Indriði að venjast við að fara nógu snemma á fætur.
Í Sigríðartungu varð það til tíðinda einn morgun á nýbyrjuðum túnaslætti, að rekja var góð, og var Bjarni bóndi genginn heim úr slægjunni og sér, að Ormur sonur hans sefur enn; þá voru liðin dagmál; segir hann þá við Ingveldi konu sína:
Seint stígur Ormur frændi úr rekkju, og líst mér, að þú vekir hann til skattsins: hann gjörir ekki annað, hvort sem er, en matast; nú er hann þegar sextán vetra og kann þó ekki að bera ljá í gras; margur myndi mæla það, að þroski hans sé svo mikill orðinn, að hann gæti hjakkað af einhverjum þúfnakollinum, þar sem allir aðrir eru eitthvað að gjöra.
Og jæja! honum þykir gott að lúra á morgnana, rýjunni, enda mun verða önnur iðja og ákvörðun hans en að ganga út í túnið með karlmönnunum að orfinu.
Bíddu nú við! hann er ekki orðinn klerkur enn þá; mér sýnist þeir verði ekki allir prestar, sem kennt er.
Vissi ég það, að hann Ormur minn yrði ekki prestur, segir Ingveldur, þá skyldi ég ekki hafa eggjað þig á að láta kenna honum, en ég vona, að guð minn góður heyri mína bæn og láti hann verða prest og komast á eitthvert gott brauð hérna einhvers staðar nálægt okkur, og heldurðu þá, að hann þurfi að slíta sér út við orfið?
Ekki tekur til, nema þurfi, og er honum engin skömm eða skaði að kunna til verka; en það er ekki í fyrsta sinni, að þú mælir allt eftir honum.
Eins og þú eftir henni Siggu.
Þetta er nú barn enn þá, krakkinn, og er ekki von til, að hún geti miklu af kastað.
Hún gæti þó setið hjá, stelpan, á daginn; þetta varð ég að gjöra á hennar aldri, og hennar Guðrúnar þarf ég við heima við bæinn.
Um þetta kýttu þau hjónin nokkra stund, en sá varð endir málanna, að Ormur fór með föður sínum út í tún, og voru honum fengnir nokkrir þúfnakollar til að reyna sig við; en Sigríður litla varð í fyrsta sinni að labba eftir fénu fram fjárgötur, fremur hrygg í huga, með askinn sinn í hendinni. Hún var þá á níunda árinu og heldur lítil vexti eftir aldri. Móðir hennar hvíslaði að henni, áður en hún fór á stað: Þú verður hýdd, kindin þín ef þú kemur of snemma heim í kvöld eða ef þú týnir nokkru af fénu. - Guðrún vinnukona var látin fara með henni til þess að sýna henni, hvar hún ætti að halda fénu til haga. - Vertu ekki að skæla, telpa mín, sagði Guðrún, þú þarft ekki að hræðast huldufólkið á dalnum, það gjörir þér ekkert mein. - Þessi huggunarorð voru ekki til annars en að rifja upp fyrir Sigríði allar sögurnar, sem hún hafði heyrt um Álfhól og hann Draugahvamm; það voru tvö örnefni þar á dalnum. Að lítilli stundu voru kindurnar runnar fram eftir götunum; en er þær voru komnar þar, sem grænu hjallarnir breiðast út, tóku þær að dreifa sér um börðin og lágarnar og fóru að bíta blómgresið.
Hérna áttu nú, Sigga mín, að láta féð vera, segir Guðrún, þú átt að hafa gætur á, að það hverfi ekki upp af brúninni, en fram eftir hlíðinni er óhætt að það fari; þú skalt ekki hnappsitja það, því þá dettur úr því nytin; þegar forsælan er komin ofan í slakkann þarna, þá er tími til fyrir þig að fara að hóa því saman, og gáðu að, að ekki verði eftir í lautunum; varaðu þig á henni stóru Bíldu, hún er vön að læðast upp með gilinu og hefur gjört mér það tvisvar sinnum, svo ég varð að elta hana upp á fjall, skituna þá arna; sigaðu honum Lubba ekki mikið á ærnar, honum er hætt við að hrifsa í þær, og vertu nú sæl!
Æ, farðu ekki undir eins frá mér, Gunna mín, sagði Sigríður litla hálfkjökrandi, ég dey út af úr hræðslu og leiðindum.
Vertu ekki að neinu voli, stelpan þín! sagði Guðrún og reif sig af henni og hljóp sem fætur toguðu og var horfin á svipstundu. Brjóst Sigríðar litlu þrútnaði þá af svo miklum ekka, að henni fannst það ætlaði að springa; tárin flutu niður um litlu kinnarnar; henni sortnaði fyrir augum, en fæturnir gátu ekki valdið þunga líkamans; hún hné niður, þar sem hún stóð, og grúfði sig niður að jörðinni og grét hátt; loksins varð hún svo þreytt af að gráta, að hún sofnaði út af, og þá dreymdi hana, að henni þótti koma til sín maður í hvítum klæðum, hann strauk um augum á henni og mælti: Jesús Kristur huggar góðu börnin, sem gráta. Við þetta vaknaði hún, og varð henni það fyrst, að hún þreifaði með hendinni um kinn sér og fann, að hún var ekki vot, en nokkuð sár og býsna heit; einnig fann hún til dálítils höfuðverkjar; brjóst hennar var léttara, og hjartað barðist ekki af ekka, en enn þá stirndi í bláu augun litlu. Sá, sem þá hefði komið í lautina, þar sem Sigríður sat, og litið í augu hennar, mundi hafa sagt við sjálfan sig: Hvernig stendur á því, að sólin blessuð, sem skinið hefur hér í allan dag, hefur ekki getað þerrað daggperlurnar af bláfjólunum tveimur, sem allra fallegastar eru hérna í brekkunni? - Ótti sá og skelfing, sem verið hafði í Sigríði litlu, áður en hún sofnaði, var nú að miklu leyti horfinn eða hafði ekki ráðrúm til að vinna á hana, því hún var nú að hugsa um það, sem hana hafði dreymt; hún setti sig síðan niður í brekkuna og fór að lesa bænir sínar og las þær upp aftur og aftur, og fannst henni nú sem hún fengi af því nokkra hugsvölun. En er þetta hafði gengið nokkra hríð, heyrðist henni allt í einu sem hundar geltu hins vegar í dalnum; hún reis þá á fætur og gekk upp á hæð eina, sem stóð þar nálægt brekkunni, og litaðist um; allt var kyrrt og tómt í dalnum; sólin var farin að lækka á himninum, og kvöldskuggarnir voru farnir að færast ofan eftir vestari hlíðinni og nærri því komnir ofan í slakkann. Sá þá Sigríður, að hún hafði sofið furðu lengi, og datt henni nú í hug það, sem Guðrún hafði sagt henni, að hún skyldi fara að reka féð saman, þegar forsælan væri komin ofan í slakkann; en sem hún nú var að hugsa um þetta með sér, varð henni litið yfir um ána og í hvamm einn þar á móti; þar var hóll einn í miðjum hvamminum og grár steinn efst á hólnum, og sýndist Sigríði piltur svartklæddur koma út úr honum og hverfa skjótara en auga væri rennt upp eftir hvamminum. Nú fór Sigríði ekki að lítast vel á blikuna og vildi nú sem fyrst vera komin burt úr dalnum; hjarta hennar fór að berjast um í brjóstinu af hræðslu, en í sama bili heyrir hún hóað hinum megin í dalnum svo hátt, að ómaði í báðum hlíðunum. Lubbi Sigríðar hafði legið um daginn þar í brekkunni fram á lappir sínar, ekki langt frá Sigríði, en er hann heyrði hóið bergmála í klettunum, stökk hann upp, hristi sig og bretti eyrun og tók allt í einu undir sig fætur og var horfinn Sigríði á svipstundu. Kindurnar stukku úr hlíðargeirunum og hlupu allar saman í einn hnapp rétt hjá brekkunni. Sigríður tók þá í skyndi að kasta á þær tölu, og taldist henni enga vanta. Meðan Sigríður var að telja, var forsælan komin ofan í slakkann, og fór hún þá að reka heim og kom með féð á bólið í þann mund, sem vant var að mjalta á kvöldin, og var engrar áar vant; þótti mönnum Sigríði litlu hefði tekist vel hjásetan í fyrsta sinni.
Næsta dag, er Sigríður skyldi sitja hjá, fór hún ekki eins hrygg á stað eins og hinn fyrra daginn; þó gat hún ekki gjört að sér allajafna á leiðinni fram eftir að vera að hugsa um álfafólkið á dalnum og um sauðsvarta drenginn, sem hún hafði séð daginn áður. Þegar hún kom í brekkuna, þar sem hún hafði verið daginn áður, settist hún niður, lagði að sér hendur og fór að lesa bænir sínar; en er hún hafði lesið um hríð, varð henni litið yfir ána; sér hún þá, hvar rann þéttur fjárhópur fram með ánni hinum megin, en eftir fjárhóp þessum fór piltur dálítill, á stærð við þann, sem hún hafði séð daginn áður; en pilturinn var ekki eins klæddur, hann var á hvítum brókum og svartri peysu, með röndótta húfu á höfðinu. Sigríður starði á hann um stund, en sagði síðan við sjálfa sig: Piltur þessi getur ekki verið álfabarn, það verður að vera einhver smalapiltur. - Úr brekkunni, sem Sigríður var í, var allskammt ofan að ánni; áin var þar ekki breið og féll þar fram á millum tveggja klettasnasa, er hófust lítið eitt upp. yfir árbakkana. Sigríður gekk fram á snösina sín megin og stóð þar. Kindurnar liðu hægt og hægt og smábítandi undan piltinum, en hann fór spölkorn á eftir; og er hann kemur þar móts við, sem Sigríður stóð við ána, verður honum litið yfir um og sér, að þar stendur kvenmaður ekki allstórvaxinn; hann nemur þá staðar og starir um stund á hana, en hleypur síðan fram að ánni og kallar á Sigríði og spyr hana að heiti.
Sigga Bjarnadóttir heiti ég.
Smalar þú þar í Tungu?
Ég á að sitja hjá; en hvað heitir þú?
Indriði frá Hóli heiti ég og sit hjá eins og þú.
Leiðist þér ekki að sitja hjá einn saman?
O, nei, ekki svo mikið, þegar gott er veðrið; en hvar er húsið þitt?
Ég á ekkert hús enn þá hérna fram frá; átt þú nokkuð hús?
Já, hérna inn í hvamminum, og þar sit ég á daginn og er að smíða; það er svo stórt, að við gætum verið þar bæði og staðið upprétt; en það er illt, að þú getur ekki komið yfir um til mín, þá skyldum við leika okkur saman, því ég sé, að þú ert lítil eins og ég - eða leiðist þér ekki á daginn, þar sem þú átt ekkert hús?
Jú, mér leiðist ósköp, segir Sigríður, og svo er ég svo hrædd við álfafólkið, sem kvað vera hérna á dalnum.
Hér er ekkert álfafólk, held ég, sagði Indriði, eða hefurðu séð nokkuð af því?
Já, ég sá í gær svartan strák svo ljótan skjótast þarna út úr gráa steininum, sem stendur þarna inn í hvamminum.
Þar er enginn grár steinn! Það er húsið mitt, sem stendur þarna á hólnum, kelli mín, og það hefur líklega verið ég, sem þú sást; en nú verð ég að fara og hóa kindunum dálítið lengra fram eftir, og svo kem ég aftur, því mér þykir gaman að tala við þig.
Þessar urðu fyrstar samræður þeirra Indriða og Sigríðar; en eftir það sáust þau og töluðust við þar við ána á hverjum degi, og leið ekki á löngu, áður þau yrðu mestu mátar. Á morgnana, þegar þau komu með féð í hagann, gengu þau fram á klettasnasirnar sitt hvorum megin og heilsuðust og sögðu hvort öðru tíðindi; á daginn, þegar veður var gott, sátu þau og ræddust við yfir ána, sögðu hvort öðru sögur og kváðust á; hvort hafði yndi af öðru; Sigríður grét, ef Indriði kom einhverju sinni seinna en vandi var til með féð á dalinn, en hoppaði og lék af gleði, þegar hún sá hann koma. Viðlíka fór fyrir Indriða, að honum fannst hver sú stundin leið og löng, sem hann varð að sjá af Sigríði.
Þannig leið sumarið, og var Sigríði orðið svo kært að sitja hjá, að hún nær því kunni hvergi við sig annars staðar en á dalnum og hlakkaði til á hverjum morgni að fara þangað. Einn dag um haustið sagði faðir hennar við hana, að nú ætti hún ekki lengur að sitja hjá, því hér eftir yrði féð ekki mjólkað meir en einu sinni á dag. Þessar fréttir þóttu Sigríði ekki góðar, en beiddi þó föður sinn að lofa sér um daginn að skreppa fram á dalinn að sækja hitt og þetta smálegt, er hún ætti eftir í húsinu sínu, og kveðja Indriða vin sinn, og leyfði faðir hennar henni það. Sigríður gekk að venju ofan að ánni og fram á klettasnösina og ætlaði að bíða Indriða þar, en sama dag var hætt að sitja hjá á Hóli, og kom Indriði ekki. Sigríður beið lengi, en varð loks að snúa aftur við svo búið og varð nú að skilja við dalinn nær því eins hrygg í huga eins og þá, er hún fór þangað í fyrsta sinni til hjásetunnar.
Ekki fundust þau Sigríður og Indriði þenna vetur hinn næsta, og sumarið eftir var Sigríður ekki látin sitja hjá, og var hún þó til þess ætluð; en það fórst fyrir með svofelldum hætti, að um vorið fékk hún svo illt í hægra fótinn, bólgnaði hann allur upp, og gjörðist úr því fótarmein og greri seint; lá hún í því lengi sumars. Indriði á Hóli sat og ekki hjá það sumar; hann þótti svo ötull og laglegur til allra verka, að faðir hans þóttist hafa meira gagn af að hafa hann heima við heyvinnu en að láta hann gæta fjárins, og var stúlka fengin til þess, sem liðléttari þótti. Þó smalaði Indriði sem fyrr á morgnana; leið svo af sumarið fram til rétta. Upprekstrarland bænda var, sem áður er um getið, fram í Fagradalsbotni; þar áttu Hólhreppingar og Tungusveitarmenn saman rétt mikla; skyldu hvorirtveggja hreppsmenn leggja til menn í göngur. Jón hreppstjóri átti geldfé margt, og lagði hann til þrjá menn í leitirnar; þar var Indriði sonur hans einn þeirra. Veður var gott fjallreiðardaginn; kom þar margt manna neðan úr héraðinu; þótti það mannfundur bestur þar um sveitir; höfðu menn með sér vistir og tjöld, því sjaldan entist dagur til að skilja féð leitardaginn. Að liðnu nóni voru flestir leitarmenn komnir; dreifði féð sér um dalinn, en menn tóku þá til malsekkja sinna og settust niður og snæddu og biðu þeirra, sem ókomnir voru; líður svo fram að miðjum aftni, og vantar þá engan nema Indriða hreppstjórason, og héldu menn hann hafa villst og voru farnir að tala um að leita hans; en í því heyra menn hundaglamm fyrir ofan nyrðri brúnina, og skömmu síðar bólar á fjárhóp; er þar kominn Indriði með margt fé; hann hafði átt að leita dal nokkurn, sem gengur upp úr Fagradalsdrögum, en ekki fundið þar fjár; þótti honum nú óvirðing að hverfa aftur við svo búið og koma kindalaus til réttanna; gekk hann þá upp úr dalnum vestanverðum og vestur um fjöll, uns hann kom að vatni einu miklu; þar fann hann margt fé og hélt síðan heim með það; en upp hafði hann gengið bæði sokka og skó. Nú var orðið svo áliðið daginn, að ekki þótti taka því að reka inn, og biðu menn morguns í tjöldunum. Um morguninn var veður bjart, og risu menn árla og tóku að rétta; kom þá enn fjöldi manns úr héraðinu. Þar kom Sigríður úr Tungu og móðir hennar og horfði á, á meðan verið var að draga, en var þess á millum með öðrum smámeyjum að leikjum. Indriði gekk til og frá eins og aðrir sveinar, og varð honum einhvern tíma reikað þar að, sem þær léku, meyjarnar; verður honum þá brátt litið á Sigríði og þekkir hana; Sigríður kom um sama bil auga á Indriða, og fór henni eins og honum, að hún kennir hann; hlaupa þau nú bæði jafnsnemma hvort að öðru og mætast á miðri leið og kyssast, en Indriði varð fyrri til máls og segir:
Ég þekki þig, telpa mín, þú ert frá Tungu og heitir Sigga, mér þykir ósköp vænt um þig.
Mér þykir eins ósköp vænt um þig, Indriði litli; ég þekki þig síðan í fyrra, en nú hef ég ekki séð þig svo lengi.
Þetta stutta viðtal þeirra var með svo mikilli alúð og einlægni, sem börnum einum er veitt, að auðséð var, að sálir þeirra voru enn hreinar og saklausar, og langt væri sá maður kominn á vegi spillingarinnar, er séð hefði þessi börn og ekki hefði sagt í hugskoti sínu: Ó, að ég væri aftur orðinn barn í hjarta, þá þyrfti ég ekki að dylja hugrenningar mínar fyrir mönnunum.
Indriði tók Sigríði við hönd sér, og lofaðu mér, segir hann, að sýna þig henni móður minni, því að ég hef oft sagt henni frá þér og hvað mér þykir vænt um þig.
Þau fóru síðan bæði til Ingibjargar, og kyssti hún Sigríði í krók og kring og sagði, að hún væri fallegt barn, og bað Indriða að vera henni góðan.
Um þetta leyti höfðu þeir yngri mennirnir, sem við réttina voru, tekið sig saman um að fara í bændaglímu þar á vellinum og tóku til þess hvern pilt, sem farinn var að stálpast; varð Indriði að fara með og svo Ormur frá Tungu. Síðan er öllu liðinu skipt í tvo flokka, og voru þeir Tunguhreppsmenn í öðrum, en Hólhreppingar í öðrum; völdu hvorirtveggja sér bændur, skipuðu liði og sögðu fyrir, hvernig menn skyldu að gangast; þeir skyldu glíma fyrst, er óhraustari voru, en úrvalaliðið síðast og svo bændur sjálfir. Var nú markaður glímuvöllur, og tóku menn að glíma, en konur og hinir eldri menn, sem ekki fengust við að draga úr réttinni, sátu hjá og horfðu á, og var það góð skemmtun; veitti þeim Tunguhreppingum þyngra í fyrstu. Ormur frá Tungu gekk þá fram og móti þeim manni af liði Hólhreppinga, er Bjarni hét; ekki höfðu þeir lengi glímt, áður Ormur þreif Bjarna upp á klofbragði og slengdi honum á völlinn. Tvo felldi Ormur enn af þeim Hólverjum. Þá stóð upp maður af liði þeirra Indriðahólsmanna, er Þorgrímur hét og kallaður Trölli; hann var maður stór vexti og rammur að afli; hann þrífur til Orms með mikilli reiði; kenndi þar aflsmunar, sveiflaði hann Ormi kringum sig sem snældu, en Ormur var mjúkur og fótviss og féll ekki að heldur, og gekk svo um stund, og tekur Þorgrímur að mæðast; það finnur Ormur og gjörir aðsókn hina snörpustu, en Þorgrímur stóð fast fyrir sem jarðfastur klettur, og getur Ormur ekki komið við neinum brögðum; loksins tekur Þorgrími að leiðast þauf þetta, sleppir nú tökunum á Ormi og ætlar að grípa hann hryggspennu, en Ormur verður fyrri til og hleypur inn undir hann og hefur hann upp á hnykk og kastar honum á völlinn; verður þá óp mikið af hendi þeirra Tungusveitarmanna, og lofar hver maður hreysti Orms og framgöngu. Eftir þetta gengur Ormur fram á völlinn og segir:
Mikinn garp höfum vér hér að velli lagðan, eður hvern látið þér nú fram, Hólverjar?
Ekki er maður stór eða sterkur, sögðu Hólverjar, Indriði litli frá Hóli er nú næstur til framgöngu, og mun þér ekki örðugt að brjóta hann á bak aftur. Indriði gekk fram, og takast þeir Ormur tökum; ekki hafði Indriði afl við Orm, en svo var hann liðugur, að ekki mátti Ormur hann af fótum færa, enda lúðist Ormur skjótt, er hann var móður áður. Þar var þúfa ein á glímuvellinum utanverðum; þangað færðu þeir leikinn, og sá Ormur ekki þúfuna, en Indriði stökk öfugur yfir hana, og í sama vetfangi kippir hann Ormi að sér, og urðu honum lausir fætur og fellur áfram á annað hné. Gjörðu þá Hólverjar sköll mikil og kváðu lítið hafa lagst fyrir kappann. Ormi þótti þetta hin mesta óvirðing og vildi ráðast að Indriða í annað sinn, en Hólverjar sögðu, að sá leikur væri þegar fullreyndur. Eftir þetta gengust menn að sem skipað var, og stóðu síðast engir uppi nema bændur sjálfir; glímdu þeir bæði lengi og sterklega, en svo lauk um síðir, að þeir féllu báðir í senn. Höfðu menn haft af þessu hina mestu skemmtun, en Ingveldi í Tungu sveið það mjög, að Ormur hafði fallið fyrir Indriða - eða því léstu strákóhræsið fella þig, segir hún, eða því hefndir þú þín ekki á honum? Ormur kvað það ekki sæma, að menn erfðu slíkt lengi.
Þá skal ég ekki vera búin að gleyma því í kvöld, sagði Ingveldur, enda er mér það ekki minni skömm en þér sjálfum, því það er eins og ég hafi aldrei tímt að gefa þér að éta.
Ekki töluðu þau mæðgin meira um þetta að því sinni.
Á meðan þeir sveinarnir glímdu, höfðu þeir bændurnir haldið áfram að draga úr réttinni, og var nú komið að því, að þeir þar af næstu bæjunum dragi sitt fé; drógu þeir jafnan síðastir, en þeir, sem voru lengst að, drógu fyrst. Sá maður var þar við réttina, er Ásbjörn hét, er svo var glöggur á fé, að hann þekkti hverja kind, ef hann hafði séð hana einu sinni áður; hann vissi og, hvaða mark hver maður átti í hinum tveimur næstu sýslum; hann stóð jafnan í miðjum réttardyrum og skoðaði hverja kind, sem dregin var, og sagði, hver átti, og rengdi hann enginn maður; og kæmi einhvern tíma nokkur ágreiningur milli manna um mörk, var hann látinn skera úr þrætunni, því menn vissu, að Ásbirni bar saman við markabækurnar. Gengu menn nú fast að að draga, eftir að bændaglímunni var lokið.
Þessa kind veit ég ekki, hver á, sagði Ásbjörn og þuklaði um eyrun á einni tvævetlu. Kallið þið á hreppstjórann í Tungu; það er allt undir því komið, hvort hér hefur verið biti, en eins er og þarna sé bris á eyranu, piltar, eða hvað segir þú, Jón á Lækjamóti? Yfirmarkið er hreppstjórans í Tungu, blaðstýft framan bæði og fjöður aftan vinstra, en sé þarna biti aftan hægra, þá á hann Jón á Gili hana; en metféskepna er það, hver sem hana á, hvar er hreppstjórinn?
Hér er ég, eða hvað er þér á höndum núna, Ásbjörn minn?
Eigið þér þessa tvævetlu, signor Bjarni?
Það veit ég ekki, ef að markið mitt er á henni, þá á ég hana, annars ekki.
Hér er nokkur vafi á; þarna eru blaðstýfingarnar og fjöðrin, en skoðið þér nú sjálfir! Hérna er eins og einhver ben hafi verið á eyranu, líklegast biti, en illa er hann gerðnr, og þá á hann Jón á Gili hana; því, eins og þér munið, er markið ykkar eins, nema það sem hann brá bitanum út af, þegar hann kom hérna í sveitina.
Ég þori ekki að segja neitt um það, Ásbjörn minn, það er best að kalla á fleiri til að dæma um það mál; sækið þið hann Guðmund smala og hann Jón á Gili sjálfan, því ekki vil ég mér sé eignað annað en það, sem ég á.
Þá var farið eftir þeim Guðmundi og Jóni, og kom Guðmundur fyrr.
Þekkir þú þessa tvævetlu, Gvendur? sagði Ásbjörn, á hreppstjórinn hana?
Guðmundur skoðaði tvævetluna í krók og í kring, en sagði síðan, að þar um gæti hann ekki sagt með neinni vissu.
Æ, hvaða smali er það, skrattinn sá arna, að þekkja ekki kindurnar hans húsbónda síns, sagði Ásbjörn; mér er þó næst skapi að halda, að hann eigi hana; það er eins og mér sýnist, að ég hafi séð þessa kind áður, þegar ég kom fram að húsunum þar í Tungu í vetur, en ekki þori ég að sverja það, held ég, nei, ekki þori ég að sverja það, og síðan þetta bris, sem þarna er á eyranu.
Í þessum svifunum kom Jón á Gili þar að og skoðaði markið og segir:
Mér sýnist enginn vafi þurfa að vera á um hana, markið mitt er á henni, ég á hana.
Og ekki er það nú skýrt á henni, markið þitt, en hitt er það, ef þú þekkir hana og þorir að sverja þér hana, sagði Ásbjörn.
Hvort sem heldur væri, sagði Jón, þar sem markið mitt er á henni; ég á ekki svo margt féð, að ég ætli að láta hunda draga það af mér, sem ég á.
Nær er mér þó að segja, að þú eigir ekkert í henni.
Rétt í þessu kom Sigríður litla frá Tungu hlaupandi þar að, sem þeir voru að þrefa um tvævetluna, og kallaði, áður en hún kom til þeirra:
Æ, þarna er hún Kolla mín blessuð komin af fjallinu!
Hvar sér þú hana? sagði Bjarni.
Hérna! Þetta er hún Kolla mín, ég þekki hana.
Er þetta hún Kolla þín? gall Ásbjörn við.
Já, Ásbjörn minn, hún er undan henni Forustuhníflu hennar móður minnar; en hvað er orðið af græna spottanum, sem var í eyranu á henni?
Á, heyrir þú nú, Jón góður! sagði Ásbjörn, þetta er hún Kolla hennar Sigríðar litlu, heldur þú, að barnið skrökvi? Og þarna hefur verið dregið í eyrað á henni, en rifnað út úr, og er svo gróið saman aftur, og því er þarna bríxlið á eyranu; ég vissi það líka, að ég þekkti svipinn, þó ég kæmi honum ekki fyrir mig, en nú kannast ég við það, að hún er af Hníflukyninu.
Það er eins og vant er fyrir þér, Ásbjörn sæll! sagði Jón, þú dregur þeirra taum, sem þú heldur, að geti slett í þig bita eða sopa, en í þetta sinn skaltu ekki féfletta mig, því ég á kindina með öllum guðsrétti, eins og á eyrunum má sjá.
Það lýgur þú, sagði Ásbjörn og reiddist því, er Jón sagði, að hann væri hlutdrægur.
Á, lýg ég það! sagði Jón og brá hendinni framan á nasir Ásbirni, svo úr dreyrði; Ásbjörn sleppti þá tvævetlunni og ætlar að rjúka í Jón, en hreppstjóri Bjarni hljóp í fangið á honum og hélt honum, en tveir aðrir tóku Jón og öftruðu honum að berja Ásbjörn meira. Ásbirni þótti það illt, er hann náði ekki að hlaupa að Jóni, og beiddi hreppstjóra grátandi að lofa sér að slá þrælinn dálítið - því ég er óvanur því, að mér sé gefið á nasirnar fyrir ekkert, eða þurfti hann að gefa mér á hann, þó að ég kallaði hann lygara, það er hann, og þetta var þá ekki það stóryrði.
Bjarni lét sem hann heyrði það ekki og reyndi til á allar lundir að stilla til friðar með þeim og tókst það svo um síðir, að þeir kysstu hvor annan og beiddu hvor annan fyrirgefningar; en tvævetluna skipaði hann að leiða til fjár Jóns á Gili og kvað nóg illt af henni hlotist hafa og skyldi hún ekki oftar verða þrætuefni. Þegar Sigríður litla sá, að Kolla var burtu leidd, og heyrði, að Jón á Gili ætti að eiga hana, gat hún ekki gjört að sér að fara að gráta, því henni þótti svo vænt um hana og hafði hlakkað svo lengi til að sjá hana aftur af fjallinu; hún settist þá undir annan réttarvegginn og táraðist. Indriði litli frá Hóli var staddur skammt þar frá og sá, að Sigríður fór að gráta. Æ, ég get ekki séð hana Siggu litlu gráta, sagði hann við sjálfan sig og gekk til hennar. Hvað gengur að þér, Sigga mín? Mér er svo vel við þig, að tárin koma fram í augun á mér, þegar ég sé þig gráta, sagði hann og klappaði Sigríði á herðarnar með hendinni; segðu mér, hvað gengur að þér?
Æ, mér þótti svo mikið fyrir að missa hana Kollu mína; hún er svo falleg, en nú hefur hann faðir minn látið óræstið hann Jón á Gili taka hana frá mér; þetta var sú eina kindin, sem ég átti, og það er svo gaman að eiga sjálf kind.
Vertu samt ekki að gráta út úr því, Sigga mín góð, sagði Indriði, ég á tvö lömb hérna í réttinni, og mátt þú eiga hvort þeirra, sem þú vilt; hún móðir mín hefur sagt, að ég mætti gefa þér annað, og komdu nú og skoðaðu þau.
Sigríður varð þessu ofur glöð, og fór Indriði með hana þangað, sem lömbin voru; það voru tvö gimbrarlömb ofur féleg, og bauð Indriði Sigríði að kjósa sér hvort, sem hún vildi; sagði Sigríður föður sínum frá gjöfinni, og sagði hann það fallega gjört af Indriða og sagði Sigríði að þakka Indriða fyrir með kossi. En þú, Indriði, skalt einhvern tíma koma yfir að Tungu í vetur og finna hana Siggu litlu, því vera má, að þið unga fólkið fellið meira huga saman en við feður ykkar, og vil ég ekki meina ykkur það.
Varð nú ekki fleira til tíðinda að því sinni. En um veturinn voru frost mikil og ísalög, og lagði Fagurá þar á milli bæjanna, og minntist Indriði einhvern sunnudag á, hvað Bjarni í Tungu hafði sagt við hann, og biður foreldra sína að lofa sér yfir að Tungu að finna Siggu, og játtu þau því, en segja honum að vera kominn aftur fyrir vökulok. Indriði kom að Tungu, og fagnaði Bjarni honum vel og svo Sigríður, en Ingveldur lét sér fátt um finnast. Ormur Bjarnason var þar fyrir, hafði hann fengið leyfi af kennara sínum að finna foreldra sína um helgina; urðu þeir Indriði brátt góðir vinir, eins og ekkert hefði í skorist með þeim; voru þau öll að leikjum um daginn, börnin, og bjuggu sér snjókerlingar eða renndu sér; í rökkrinu höfðu þau það að skemmtun að kveðast á; voru þeir sveinarnir báðir á móti Sigríði og veitti þó miður, því Sigríður kunni allar Úlfarsrímur spjaldanna á milli auk alls annars. Eftir að búið var að kveikja og borða, minntist Sigríður á, hvort ekki ætti að fara að spila; það þótti þeim Indriða og Ormi gott ráð, Ingveldi þótti og gaman að spila, og var hún sú fjórða, og er nú farið í alkort.
Við Indriði verðum saman, sagði Sigríður.
Spilin skulu ráða, sagði Ormur; því ekki var honum meir en svo um að vera saman við móður sína, er hann vissi, að hún var sjaldan vön að fá lýju.
Hjartakóngur er hér, sagði Indriði.
Og hérna er hjartadrottning, og þá erum við saman, Indriði minn, eins og ég vildi; og fáðu nú gott, því við eigum að vinna.
Er þá tekið til að spila, og gekk þeim Indriða betur; hver strokan og múkurinn eftir annan.
Nú skulum við einu sinni fá stroku, Ormur litli! sagði Ingveldur, í því hún rétti spilin að Indriða til að draga, en það er verst, að hún Sigga á útsláttinn.
Nei, nei, ekki held ég verði stroka í þetta sinn, segir Sigríður ofur glöð, í því hún tók upp spilin, því hérna fékk ég fjóra besefa í einum slag.
Fjóra besefa í einum slag! Þá verður að gefa upp aftur.
Æ nei, móðir mín góð, þeir voru ekki nema þrír, en þann fjórða fékk ég í öðrum slag; ég hef ekki nema níu á hendinni.
Víst voru þeir fjórir í einum slag, spilið er ónýtt.
Varð þá að vera sem Ingveldur vildi, og gefur hún upp aftur.
Það var þá ekki verra, sagði Sigríður í hálfum hljóðum og ætlar að stíga fætinum ofan á tána á Indriða, og átti það að þýða hjartatvistinn, en sté í þess stað óvart ofan á fótinn á móður sinni undir borðinu.
Þetta spil er ógilt, sagði Ingveldur, þá er hún skoðaði hjá sér spilin og sá, að stóra brúnkolla var hæsta spilið. Þú sagðir honum Indriða til og steigst ofan á fótinn á mér, stelpan þín, og svo stelur þú úr stokknum, held ég, og því fæ ég ekki roð.
Nei, það gjöri ég ekki, móðir góð!
Ætlar þú að bera á móti því, sem ég sé? Ég vil ekki spila við þig; það er best að fara í þjóf og láta hýða þig!
Þá kölluðu allir: Já, þjóf! Við skulum fara í þjóf. - En Ingveldur vildi nú ekki spila meira, og varð svo ekki úr spilamennskunni framar, enda var þá farið að líða á vökuna, og vildi Indriði fara að fara heim. Bjarni hreppstjóri skipaði einum af vinnumönnum sínum að fylgja Indriða yfir að Hóli, en bað Indriða að koma þar oftar, er hann hefði tíma til - því mér segir svo hugur um, að þú verðir gæfumaður, og eru komur þínar hingað mér kærar.
Sigríður litla beiddi föður sinn að lofa sér að fylgja Indriða á veg ofan fyrir túnið, og leyfði hann það. Þegar komið var ofan fyrir túnið, segir Sigríður við Indriða:
Hér verð ég að snúa aftur, Indriði minn. Ég má ekki fylgja þér lengra í þetta sinn, en þetta sagði hann faðir minn mér, að ég skyldi gefa þér, því hann veit, að þú ert smiðsefni; en þessir leppar eru frá mér sjálfri, ég hef prjónað þá sjálf; og vertu nú sæll og blessaður! Og komdu bráðum yfir um aftur, ef þú getur, því mér þykir svo vænt um að sjá þig og get aldrei gleymt þér.
Indriði kyssti Sigríði fyrir gjafirnar og þótti harla vænt um þær, einkum hefilinn og sögina, sem Bjarni hafði sent honum.
Ekki fundust þau Sigríður oftar þenna vetur; en nokkrum sinnum kom hann að Tungu á þeim missirum, og varð ætíð mikill fagnaðarfundur með þeim Sigríði, er þau sáust, og skildust jafnan með blíðu.
Líður svo fram til þess, að Sigríður er staðfest. Faðir hennar kenndi henni spurningarnar og að skrifa og dálítið í talnafræði; þótti presti, er hún var fermd, að hún væri afbragð annarra barna að kunnáttu og hrósaði gáfum hennar og stillingu. Ekki tók Sigríður eins miklum framförum til handanna; móðir hennar hafði hana til alls, sem gjöra þurfti á heimilinu, eins og aðrar griðkonur; nam hún að sönnu öll innanbæjarverk, sem hún sá fyrir sér, og tóvinnu, sem tíðast er í sveitum, en ekki fékkst móðir hennar við að kenna henni hannyrðir eða matreiðslu; kunni hún þó hvorttveggja vel. Bjarni hreppstjóri ámálgaði það oft við konu sína, að Sigríði væru kenndir saumar og matartilbúningur, en Ingveldur sagði jafnan, að hún vænti þess ekki, að Sigga yrði sú fyrirmannsfrúin, að hún mundi þurfa mikils við af þess háttar, og sat við sinn keip. Illa þótti Bjarna það fara, en lét þó svo standa.
Bjarni átti systur, er Björg hét; hún var ekkja og auðug vel; hún bjó í Skagafirði á bæ þeim, sem heitir V...; hún hafði átt dóttur eina barna, en misst hana unga. Einu sinni kom Björg í kynnisferð til bróður síns í Tungu og dvaldist þar nokkrar nætur; það var seint á engjaslætti. Sigríður gekk að venju með griðkonum á engjar, fór snemma á stað á morgnana, en kom seint heim á kvöldin, og sá Björg hana ekki tvo fyrstu dagana, sem hún var í Tungu, enda var henni ekki fram haldið. Þriðja daginn var veður gott, og var bundið af engjunum, og fór Sigríður á milli, en Bjarni var við tóftina og tók á móti. Björg settist á garðvegginn og þótti gaman að tala við bróður sinn; og er Sigríður kemur með fyrstu ferðina, víkur hún talinu til hans og segir:
Þarna áttu laglega stelpu, Bjarni bróðir. Hvað kemur til, að þú hefur ekki sýnt mér hana?
Hún hefur aldrei verið heima, hróið.
Ég þóttist undir eins þekkja á henni ættarmótið okkar; láttu mig sjá þig, stelpa mín! Þú hefur svip af henni Steinunni minni heitinni utan á vangann og ennið ekki ólíkt heldur, en augun hefurðu úr henni móður okkar sælu.
Og eftir henni heitir hún líka, sagði Bjarni.
Það má og á sjá, að það mun vera móðurnafnið okkar og eftirlætisbarnið þitt, sagði Björg og glotti við.
Og ekki sér það nú á henni; það getur aldrei orðið maður úr henni, hróinu, meðan hún er hér; hún lærir ekki svo mikið sem að búa til utan á sig spjör eða gjöra graut í ask; ég hef oft óskað mér, að hún væri komin til þín, systir góð.
Björg þagnaði við um stund, en segir þó um síðir:
Jæja, láttu hana þá fara til mín eitt ár, stelpuna.
Bjarna þótti nú vel skipast, og er það af ráðið, að Sigríður færi þegar norður með Björgu; en ekki lét Ingveldur sér mikið um finnast og grét mikið, þegar þær skildu, mæðgurnar; sagði hún þá, að Sigríður alltaf hefði verið augasteinninn sinn og eftirlætið.
Sigríður fór að V... með föðursystur sinni; hjá henni var hún þrjá vetur; féll Björgu því betur við hana sem þær voru lengur saman; sá hún, að Sigríður var mesta konuefni, og lagði því alla alúð á að kenna henni allar þær hannyrðir og menntir, sem vel sæma göfgum konum; nam Sigríður allt fljótt og vel, því bæði hafði hún góðar gáfur og stillingu til að taka áminningum systur sinnar; kom svo að síðustu, að Björg lagði svo mikla ást á hana sem hún hefði verið dóttir hennar; gleymdi hún nú að mestu missi dóttur sinnar og þótti sem hið auða skarð væri bætt, þar sem Sigríður var. Hún arfleiddi Sigríði að öllum sínum fjármunum, föstum og lausum, og sagði, að ekkert nema dauðinn skyldi skilja þær. Þau þrjú ár, sem Sigríður var í Skagafirði, fór hún aldrei að finna foreldra sína, en faðir hennar hafði lengi haft þá venju að hitta systur sína einu sinni á ári, og þessari venju hélt hann enn; þess á millum ritaði Sigríður föður sínum við og við og svo móður sinni, en sjaldan voru bréf þau sem hún skrifaði henni, annars efnis en um veðráttufar, skepnuhöld og önnur almælt tíðindi, og þó þau jafnan væru alúðleg, gat samt hver aðgætinn maður séð, að þau bréf, sem hún skrifaði föður sínum, voru með einhverjum öðrum blæ, hýrlegri og innilegri; það leit svo út sem hún ætti hægra með að opna fyrir honum fylgsni hjarta síns en fyrir öðrum. Eitt af bréfum Sigríðar hefur borist oss í hendur, og er það ritað rúmu missiri eftir að hún fór frá Sigríðartungu, og er þetta einn kafli úr því:
Þú biður mig, faðir góður, að segja þér hreinskilnislega frá því, hvernig mér líði og hvernig ég kunni við mig hér nyrðra. Það væri stakt vanþakklæti af mér við guð, ef ég segði annað en að mér liði vel að öllu. Systir mín er mér svo ástúðleg eins og ég væri einkadóttir hennar, og oft hef ég verið að hugsa um það með sjálfri mér, að í rauninni geti það ekki verið satt, að móðurástin, það er að skilja sú hin blíða, alúðlega og umhyggjusama tilfinning, sem ég nú ekki get lýst, geti hvergi kviknað nema undir því brjóstinu, sem barnið hefur borið; hvað á ég þá að kalla þá ást, sem systir mín sýnir mér? Ég get ekki ímyndað mér móðurástina öðruvísi, og marka ég það af tilfinningu sjálfrar mín; ég elska hana eins heitt og barnslega og mér er unnt; mér finnst hver stundin löng, sem hún er ekki nærri mér; mig langar til að gjöra henni allt að geði; allt, sem hún skipar, verður mér létt, af því það er mín mesta gleði, að mér mætti takast það, sem hún vill; í stuttu máli að segja: Ég er barn; en hvernig ætti ég að vera það, nema hún væri mér móðir? Af þessu, sem ég nú hef sagt þér, faðir góður, getur þú og getið því nærri, að ég kunni vel við mig, og þar að auki eru allir vandalausir mér góðir og alúðlegir, af því þeir vita, að henni systur minni þykir vænt um mig; og hvað landslagið snertir, þá segja allir, að hér sé ofur fallegt; hér er mikið áþekkt því, sem er í Tungu. Hlíðin eins græn fyrir ofan bæinn. Vötnin eins spegilfögur eins og hún Fagurá; að minnsta kosti vantar mig orð til að gjöra þess mun, og þó finnst mér hann vera einhver; það er eitthvað, sem augað getur ekki greint, en brjóstið aðeins finnur; og hvar af kemur það? Ég veit það ekki. Er það af því tilfinning mín sé breytt og önnur nú en þegar ég var yngri? Eða er það einhver hulinn og óskiljanlegur kraftur, sem loðir við þann blett, sem maður hefur fyrst lokið upp augunum á? Hér virðist mér hver blómknappurinn öðrum hýrari, hver lautin og brekkan annarri fegri. En hvað kemur til þess, að aldrei getur mér orðið eins vel við neina þeirra eins og þá brekkuna á honum Fagradal, sem ég grét sárast í og á í flest tárin? Og þó fellur mér hér aldrei tár af augum. -