Piltur og stúlka/6
Þess er getið hér að framan, að Indriði hafðist við framan af vetrinum suður í Garðahverfi og nefndist Þorleifur. Kaupmaður L. átti þá verslun í Hafnarfirði; hann var danskur maður og þótti afbragð flestra útlendra manna, er hérlendir voru um þær mundir, fyrir sakir hreinskilni og velvildar við landsmenn. Hann var maður roskinn og átti heimili í Kaupmannahöfn, en kom hingað á hverju sumri til að sjá eftir, hvernig verslunin færi fram. Þetta sama haust var hann sjúkur, er skip sigldu, og treystist ekki að fara tvívegis, en batnaði aftur, skömmu eftir að skip voru farin. Einhvern tíma um veturinn bar svo við, að hann sneri skegg af lykli þeim, er gekk að svefnherbergi hans; en með því fátt var um góða smiði í Firðinum, gat einhver þess, að þar í Garðahverfinu væri maður norðlenskur, sem væri besti smiður. Lét þá kaupmaður sækja Þorleif, og stakk hann upp skrána og gjörði síðan nýjan lykil að. Kaupmaður leit á lykilinn og þóttist ekki hér á landi hafa séð fagurlegar gengið frá nokkurri smíð. Þetta varð upphaf kunningskapar þeirra kaupmanns og Þorleifs, og fann kaupmaður skjótt, að hann var eigi aðeins mesti þjóðhagi, heldur og, að hann var vel að sér um marga hluti og maður hinn vitrasti. Bað nú kaupmaður hann að ráðast til sín og vera hjá sér við smíðar það eftir var vetrarins, og var Þorleifur þess fús. Ekki leið á löngu, áður kaupmaður lagði vináttu við Þorleif og lét hann matast með sér sjálfum og hafði skemmtun af viðræðum hans. Það þóttist kaupmaður finna, að Þorleifur byggi yfir nokkrum þungum harmi, er hann færi leynt með, þótt hann væri glaður og viðfelldinn við þá, sem yrtu á hann. Þorleifur var um veturinn nokkra hríð að gjöra við skipsbát fyrir kaupmann, og stóð báturinn inni í timburhúsi einu, og fór hann jafnan fyrri til smíða en nokkur annar maður væri kominn á fætur þar í kaupstaðnum. Kaupmaður kom oft til Þorleifs á daginn og ræddi við hann; en eftir einu tók hann, er honum virtist mjög svo kátlegt, að svo snemma sem Þorleifur fór til smíðanna, voru þó morgunverk hans harla lítil í samanburði við það, sem hann afkastaði á jafnlöngum tíma á daginn. Fór hann þá betur að taka eftir þessu og gætti að smíðinni á kvöldin og leit síðan á á morgnana, er hann kom á fætur; sá hann þá stundum, að litlu sem engu var við bætt, þó Þorleifur hefði farið fyrir allar aldir til smíðahúss. Hann ásetti sér að verða þess vísari, hverju það sætti, og einn morgun lætur hann í kyrrþey vekja sig, áður en Þorleifur er upp staðinn, og gengur til smíðahúss. Húsið var þiljað sundur í miðju; í öðrum endanum var Þorleifur að bátssmíðinni, en hinn endinn var hafður fyrir varningsbúr, og þangað fór kaupmaður og settist við rifu eina, sem á var þilinu. Þorleifur kom skjótt með ljós, eins og hann var vanur; en ekki tekur hann til smíðanna, en sest þar á tré eitt, styður hönd undir kinn og starir fram fyrir sig um hríð, en síðan tekur hann úr vasa sínum bréf nokkurt og les, og virðist kaupmanni sem Þorleifur æ byrji að lesa það, er hann hefur endað það, og sýnist honum hann við og við þerra tár nokkur af augum sér; fer svo langa hríð, uns kaupmaður heyrir mannamál fyrir utan húsið, þá stekkur Þorleifur upp og grípur til smíðanna. Eftir þetta þóttist kaupmaður hins sanna vís um lundarfar Þorleifs, gengur burt og fæst eigi um við fleiri menn; en einhverju sinni, er þeir Þorleifur voru tveir saman í stofu, tekur kaupmaður svo til orða og segir:
Það er þó satt, sem mælt er um yður Íslendinga, að þér eruð menn dulir og ekki allir þar, sem þér eruð séðir, og segi ég þetta ekki til ámælis.
Svo þykir mér, sagði Þorleifur, sem þetta sé meira sannmæli um hina fornu Íslendinga en samtíðamenn vora; mér virðist nú flestir menn vera svo, að þeir beri utan á sér það, sem þeir eru; en hinir gömlu Íslendingar báru kjarnann innan í sér, og því varð tíðum að brjóta hnotina til kjarnans; nú þykir mér réttast að láta hana vera óbrotna, eður því mælið þér þetta, kaupmaður góður?
Mér datt það svona í hug, af því ég þóttist nýlega hafa komist að raun um, að dómar manna um suma menn eru mjög svo fjarri réttu.
Ekki veit ég það, sagði Þorleifur, hvort þeir eru svo oft skakkir; þeir styðjast við það, sem ég sagði áðan, að flestir bera kostina utan á sér og að annað er eigi inni fyrir en að utan má sjá; er það þá ekki rétt að dæma þá eftir því, sem sést? Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.
Ekki er ég svo fróður í ritningunni, að ég viti með vissu, hvort þessi grein er venjulega rétt skilin; hitt veit ég, að til er og önnur grein, sem svo er: 'Guð er sá, sem hjörtun og nýrun rannsakar'; og ekki tek ég það aftur, sem ég sagði um það, að oft væru dómar manna fjarri sönnu, og má vera, að það sé oftast aðalgallinn á þeim, að þeir eru skorðaðir við hið ytra; ég þekki til að mynda einn mann, sem eftir hinu ytra að dæma er glaður og ánægður, og það hygg ég flesta mæla, að ekki sé lífið honum þungbært, og þó er ég sannfærður um, að þessi hinn sami maður hefur einhvern þann harm í brjósti að bera, sem ekki liggur svo létt á honum sem mönnum virðist.
Þorleifur þagnaði dálítið við, en svaraði síðan glaðlega:
Það verður þá að koma af því, að í honum er einhver kjarni, sem þeir sjá ekki, er aðeins glápa á hið ytra.
En þá kemur aftur að því, sem ég sagði áðan, að ekki eru allir þar, sem þeir eru séðir; en nú hef ég talað svo bert við yður, að ekki getur hjá því farið, að yður gruni, við hvern ég á; ég veit, að þér búið yfir einhverjum duldum harmi, og mætti ég telja mig meðal vina yðar, mundi ég biðja yður að segja mér, hvert tilefni er til harma yðar, og þess mundi ég helst til geta, að það væri annaðhvort sorg eftir góðan vin eða sprottið af ástum.
Þorleifur þagði þá aftur nokkra hríð og leit í gaupnir sér, en tekur síðan svo til máls:
Allt er vini sínum vel segjandi, og að vísu þykist ég hafa þess raun, að þér séuð minn vinur og enginn flysjungi, og fyrir því ætla ég að segja yður það, er ég hef flesta aðra um dulda; og er þar þá fyrst til máls að taka, að nafn mitt er Indriði - en Þorleif hef ég kallað mig hér syðra fyrir því, að ég hef viljað dyljast. Faðir minn heitir Jón og býr á Indriðahóli fyrir austan, og er ætt mín öll þar eystra. Sönn er gáta yðar um það, að ógleði sú, er mér er nú orðin næsta hjartgróin, er af ástum sprottin; en stúlka sú, er ég harma, var dóttir nágranna föður míns og heitir Sigríður, og leika engin tvímæli á um það, að hún er flestum konum fremri að fegurð og viturleika. Sá varð fyrstur kunningskapur okkar, að við áttum bæði að gæta fjár á eyðidal nokkrum, og eins og orðtækið segir: maður er manns gaman, höfðum við yndi hvort af öðru; en þá vorum við börn að aldri. Forlögin skildu okkur um stund, og sáumst við ekki fyrr aftur en við vorum orðin fullvaxin; þá var sá ylur, er ég bar í brjósti mínu til Sigríðar, snúinn í hreina ást, og hið sama þóttist ég sjá, að henni mundi innan brjósts, ef augum kvenna er að trúa. Að svo búnu beiddi móðir mín Sigríðar mér til handa, en móðir hennar synjaði, að þau ráð mættu takast; leikur mér þó grunur á, að ekki hafi hún sjálf verið að spurð. Litlu síðar fastnaði móðir hennar hana manni þar í sveitinni, en Sigríður sleit því heiti, áður brúðkaup færi fram; en um þær mundir var ég í Norðurlandi, en Sigríður réðist hingað til Reykjavíkur og er nú, að sögn manna, heitin manni þar í Víkinni. Þannig er von mín með öllu horfin, var hún og á veikum grundvelli gjör, þar sem var staðfesti einnar konu; hefur það og lengi mælt verið, að henni sé varlega trúandi; virðist mér sá maður, er henni treystir, fari eins sönnu fjarri og sá, sem er alinn upp í fjalldölum og í fyrsta sinni kæmi að sjávarströndu í fögru veðri, logni og ládeyðu, og horfði út á hinn víða sæ og segði í huga sínum: Þessi sjór er sléttur sem fagur völlur og bærist ekki, aldrei getur hann skipi grandað. Nú þótt að þessi hugarburður æsku minnar og von sé að öllu horfinn, er hann þó nægur til þess að valda mér ógleði, því ástinni er öðruvísi varið en þeim hlutum, sem eyðast í eldi og verða að reyk, að þeir fljúga í ósjáanlegum ögnum út í hið víða loft og hverfa með reyknum; en ástin, sem brennur út, getur aldrei horfið að öllu eða þyrlast burt út í ósýni tíðarinnar, því að reykur hennar verður eftir í minningu þess, sem einu sinni var.
Kaupmaður hlýddi með athygli sögu Indriða, en er hann þagnaði, tekur hann svo til orða:
Nú hafið þér gjört vel, er þér hafið sagt mér af hið sanna um hagi yðar og sýnt mér í því mikið vináttumark, og kann ég yður þökk fyrir það; má og vera, að nú berið þér léttara harma yðar eftir en áður, er þér hafið við nokkurn um rætt, því dulinn harm hygg ég hverjum þyngstan. Ekki mun ég þykjast þurfa að spyrja yður um það, hver sú Sigríður sé, er þér hafið um getið, því enga hygg ég vera aðra en þá, sem fór til kaupmanns Á. í vor eð var; en hitt er mér forvitni á að vita, hverjum hún er heitin þar í Víkinni.
Hann heitir Möller, sagði Indriði, og er kaupmaður í Reykjavík.
Kaupmaður Möller! sagði L. og brosti við.
Já, það er víst, að hann heitir Möller, og ég hef ekki aðeins ástæðu, heldur vissu fyrir, að það er satt, sem ég segi, að hún ætlar að eiga hann.
Þá eru þar fleiri kaupmenn en ég þekki með því nafni; eða getið þér sagt mér, hvar hann á heima?
Það er svo eitt hús í Reykjavík, að ég þekki glöggt og kann að lýsa; það eru þrjú hús á millum þess og hússins, sem hann kaupmaður B. er í, og í þeim endanum, sem snýr að læknum, er sölubúðin, og er gengið í hana frá húsendanum; aðrar dyr ganga frá strætinu inn í mitt húsið, og listarnir á gluggunum, sem snúa til strætisins, eru grænir.
Þá er það sami maðurinn, sem við eigum báðir við; en þá þykir mér líkast til, Þorleifur minn - æ, mér er orðið svo tamt að kalla yður Þorleif, Indriði minn, ætlaði ég að segja - að þetta fari eitthvað milli mála; eða hver er sú vissa, sem þér þykist hafa um þetta?
Indriði sagði honum þá frá hið sanna; fyrst, hvers hann hafði orðið áheyrandi, er hann var nóttina hjá L. í Reykjavík, þá að hann sá Möller á gangi með henni upp hjá Skólavörðunni og að honum sýndist hann þá láta svo að henni sem þau væru gagnkunnug; og loksins tók hann upp bréfið Sigríðar og sýndi kaupmanni, og las hann það, en sagði síðan:
Að vísu er það satt, að svo lítur út sem Sigríður sé riðin við einhvern mann þar í Víkinni; en ekki er Möller nefndur, og get ég ekki séð af því, að sá maður, sem hún ætlar að eiga, sé Möller fremur en einhver annar, enda getur það ekki verið.
Indriði sagði þá enn til stuðnings ætlun sinni um þetta mál, að hann um veturinn hefði á laun látið kunningja sinn, er hann ætti þar syðra og Sigurður héti, halda spurnum um hagi Sigríðar, og hefði hann þá fyrir skömmu flutt honum þær fréttir, að það væri af ráðið, að Sigríður færi til Möllers um vorið, og væri það talað, að það væri í því skyni, að hann ætlaði að eiga hana.
Allar ástæður yðar, sagði kaupmaður, í þessu máli sannfæra mig ekki að heldur, því ég veit, að það væri óhæfa að hugsa það. Möller er maður kvongaður, þó fáir viti það hér á landi, og þegar ég vissi seinast til í sumar, var konan hans á lífi. Hún var áður ekkja, og átti Möller hana sér til fjár, því hún var flugrík, en hann snauður. Ég þekkti fyrri manninn hennar betur en ég þekki yður.
Indriða brá svo við þessar fréttir, að hann setti dreyrrauðan og þagði um stund, en sagði síðan:
Nú, sé ég, hvernig í öllu liggur. Sigríður er einlæg og hreinskilin, og hjarta hennar er svo laust við hrekki, að hún getur ekki ímyndað sér þá hjá öðrum, og því er hægt að leggja snörur fyrir hana; en ekki læt ég þá skömm eftir mig liggja að vara hana ekki við svikunum, þar sem ég er þess hins sanna vís orðinn.
Að svo mæltu stóð Indriði upp og gekk skjótlega fram eftir gólfinu og tók að hneppa að sér treyjunni, eins og hann ætlaði þegar að snarast út; kaupmaður L. stóð þá upp og gekk í veginn fyrir hann og mælti með mikilli stillingu:
Flas er ekki til fagnaðar, Indriði minn! Eða hvað ætlið þér fyrir yður? Ekki er til neins að hlaupa svona út í vitleysuna; ekkert vandamál fer vel úr hendi, ef ekki eru viturleg ráð við höfð, enda virðist mér ekki nauðsyn til bera að hrapa svo að þessu, að þér megið ekki bíða til morguns; þá á ég ferð inn í Reykjavík, og þætti mér ráð, að þér færuð með mér og sæjuð svo, hvernig skipaðist; og sé það annað en munnmæli um Sigríði og Möller og einhver brögð eru í tafli af hans hálfu, mun það eigi örðugt að kippa því í liðinn aftur.
Við þessar umræður sefaðist Indriði, og er það því næst af ráðið, að Indriði skuli fara með kaupmanni daginn eftir til Reykjavíkur. Þenna dag átti kaupmaður að sækja boð nokkurt hjá kaupmanni einum þar í Víkinni, er B. hét; það var afmælisdagur hans. Segir nú ekki af ferðum þeirra kaupmanns og Indriða, fyrr en þeir komu til Reykjavíkur; það var nær miðjum degi; sté kaupmaður af hesti sínum í koti einu fyrir austan bæinn og lét geyma hann þar, en biður Indriða að hafast þar við öðru hverju, þar til að hann gjöri honum nokkra vísbendingu. Til kaupmanns B. kom L. kaupmaður um það leyti, sem menn átu dagverð, og var þar fyrir margt manna þar úr Víkinni og svo úr Hafnarfirði; ekki var kaupmaður Möller þar meðal annarra gesta, og hafði hann skorast undan að koma og beðið kaupmann B. eigi virða það svo, sem honum væri það til óvirðingar gjört. Þar var veisla góð um daginn, og voru þau þar bæði hjón, kaupmaður Á. og kona hans. Húsakynni voru fremur lítil hjá B., og þótti honum því betra að bjóða gestum sínum til skytnings, þegar staðið var undan borðum og drykkja skyldi byrja um kvöldið; en þær urðu þar eftir, konurnar, hjá maddömu B. -