I RÍMA

breyta

Ferskeytt

1. Jafnan held eg hæsta ráð,
hvað sem mann vill enda,
að biðja guð um nokkra náð
nýta sér að senda.
2. Annars tekst á öngan veg
áform neinna þjóða;
það sem hefi með höndum eg,
honum vil eg um bjóða.
3. Finnist nokkur neisti hér
nýtur í kvæðum mínum,
það guði einum þakki þér,
er þetta veitir sínum.
4. Eg hefi hér við lítið lag
lagt á þetta kvæði
að vanda svo um breyttan brag,
beint sem efnið stæði.
5. Hrósun öngva ætla eg mér
að auka í þessu neina,
heldur öðrum gamna gjör,
ef guð vill ekki meina.
6. Af mér rímur yrkjast smár,
eina hef eg tilbúna,
nema lýðum lítist skárr
letinni undir fúna.
7. Misjafnt lof af mönnum fá,
margan trú eg blekki;
vondra lýða lastan má
letja mig frá ekki.
8. Sérliga bið eg samt um heim
mér sannmælis unna;
hef eg ei tungu heft á þeim,
sem hálfu betur kunna.
9. Einninn bið eg alla þess,
sem eyrindin skrifa og læra,
að láta ekki ljóða vess
úr laginu neinu færa.
10. Skal eg við hvörn þann skilja til,
sem skrifar að vilja sínum,
að eg gjöri á öllum skil
orðunum sjálfur mínum.
11. Og svo bið eg alla þá
til illsku mér ei virða,
þó eg segi sannleik frá
um sýslan heimsins stirða.
12. Dragi sér enginn manna móð
af mínum brag til styggðar;
þetta gjört er greindri þjóð
til gleði, en ekki hryggðar.
13. Eg skal efna ævintýr
eitt í kvæðum mínum,
hvörsu jafnan drottinn dýr
dugnað veitir sínum.
14. Þeim sem elska og óttast hann,
öllum heitir launum,
yfirgefur aldri þann
í hans háska og raunum.
15. Hefi eg því mest í minni lagt
af mörgum þessa eina
historíu, sem mest er makt,
í mínum kvæðum greina.
16. Hvör sem vill með hæversku sér
hegða í orði og æði,
setji þvílíkt sjónargler
sér fyrir augun bæði.
17. Þar fyrir er það þeim ein synd,
þetta má svo kalla,
þessa ljósu, lifandi mynd
láta úr minni falla.
18. Vér erum beðnir víst um það
vísna smíð að greina;
því skal byrja beint í stað
brúðum frásögn eina.
19. Galisía gjörði einn
göfugur kóngur stýra;
Tíbúrtíus, herra hreinn,
hét hans nafnið dýra.
20. Hélt hann frið og helgan rétt,
heiðnar þjóðir deyddi,
þar með grið og göfuga stétt,
goðanna átrú eyddi.
21. Hans var kvonguð kónglig náð,
á Kristum guðsson trúði;
af Aragónía ítri láð
ættaða fékk hann brúði.
22. Bar af hvörri mennt og mekt
mæt, er kóngurinn átti,
kunni alla kurt og spekt,
sem kvinnur prýða mátti.
23. Bæði voru þau góð og gegn,
guðligan lifnað frömdu;
aldri spurðist fegri fregn;
á fróma alla tömdu.
24. Sín á millum svinnust einn
son þau dýran gátu;
Pontus hét sá hýri sveinn,
er hjó oft vargi átu.
25. Blíður af þeim í breyttum sal
bar sem gull af eiri;
af honum seinna segja skal;
við söguna koma fleiri.
26. Í þennan tíma, það skal tjá,
þeim sem hlýða vilja,
Óríent stýrði soldán sá
við söguna má ei skilja.
27. Að mekt og valdi var hann svo ríkur
og veraldar góssi mestu,
að enginn fannnst þar annar slíkur,
átrú hafði vestu.
28. Lék við alla kristna kalt,
kvaldi og rændi þjóðir,
þar með drap og deyddi allt
sem dýr eður vargar óðir.
29. Fjóra átti soldán sér
syni í þennan tíma,
þar með vopn og valdan her,
til víga fús að stíma.
30. Kóngur talar við sonu sín,
so þeir allir hlýða:
„Eg vil birta ætlan mín
fyrir eyrum minna lýða.
31. Minn skal einn hinn elzti son
eignast lönd og ríki;
þrír eiga öngva þar til von,
þó þeim illa líki.
32. Þrjátigi skal hvör þúsund manns
þiggja stríðs tilbúna,
nauðþurft alla og annan fans
með eyki gulli snúna.
33. Skip og góss sem gjald og menn,
góðlig vopn og hesta,
á meðan endast árin þrenn,
ekki skal yður bresta.
34. Yðar hver skal sigla sér,
so sem forlög standa;
það væri kjör, ef kæmumst vér
til kristinna manna landa.
35. Boðið trú á Machúmet,
mun þess nafnið æðra;
þraut eg slíka þegnum set,
og þann tel eg æðstan bræðra.“;
36. Þessu játa bræður beint,
búast þaðan að halda,
létu bera á borðið steint
byrðir grænna skjalda.
37. Þrjátigi þúsund þriggja hvör
þaðan úr landi hafði;
skeyti og hernesk fór í för
og flest það nauðsyn krafði.
38. Kvendið grét, en kættist vargur,
kveinar í hvörju holti;
hornið gall, er hélt so margur
úr höfnum riddarinn stolti.
39. Úr höfnum burt að bryggju sporður
brast og sjávar þilja;
lenda mitt í löndum norður
lýðir þessir vilja.
40. Undu segl við siglu trés;
söng þá veður í reiðum;
þeyttum munni byrinn blés
báru elgs á skeiðum.
41. Tárast loft, en sveipast sól
sorgar faldi brúnum;
hættan vóx, en skorti skjól;
skellur sjór að húnum.
42. Sterkir vindar vögnum sjós
um vatna brautir óku;
um síðir norður lýður ljós
land fyrir stöfnum tóku.
43. Á hvörju helzt sem hugurinn stár
og hjartans girndin stangar,
þar til maður þetta fár,
þolir hann raunir langar.
44. Frost og hita, sorg og sár
sigrar von þess góða,
sé það heiður, sókn til fjár
eður sætlig elskan fljóða.
45. Falla allir faldar trés;
friðaðist reiðin græði;
þornar sveitinn hesta hlés;
hrinda vindar mæði.
46. Spanía kom að soldáns son,
sá sem Pródus heitir,
dró sér þá að vísu von
að vinna kristnar sveitir.
47. Á Galisía gekk hann land,
grimmur í brynju skærri,
tuttugu mönnum beint í bland
borg Sólógírem nærri.
48. Að fjórum hlutum frétti þá,
er fann af byggðar mönnum:
hvað landið hét og herra sá,
hans að trúnað sönnum.
49. Þeir sögðu honum hið sanna til,
sem að hann eftir frétti;
þegar hann veit á þessu skil,
þá frá landi setti.
50. Hann lézt mundi halda á braut,
huldur gýgjar fiðri,
kvaddi þá og kristnum laut,
en kalt bjó undir niðri.
51. Ótrú sannast útlenzks hér,
öngan skal því leyna;
oftast hjartað ólíkt er
orðum þeirra að reyna.
52. Fölsurum er það furðutítt,
sem frómum lízt ei skarta;
lætur einn sem bróðir blítt,
býr þó illt í hjarta.
53. Lagði skipin leyni í,
leitar ráðs við sína;
fluttu stefnu þá með því
þeir velja kaupmenn fína.
54. Biður þá öldin ekki prúð
eigi lengi dvelja,
segir, að þeir skyldu skrúð
og skarlat látast selja.
55. Þar með sykur og silki frítt
til sölu bjóða skyldu,
flugél, guðvef, bjart og blítt
boð síns herra fylldu.
56. Trúligt ráð þeir tempra það
að taka svo að kveldi
hús í þessum stóra stað,
er sterka vörðu héldi.
57. Að morgni skyldu múra á
menn þeir heiðnu ganga,
so liggja mætti í leyni hjá
liðsfólk kóngs hið stranga.
58. Stigar skulu við stræti hvört
sterkir þá til greiða;
ef þeir fá nú allt það gjört,
eitthvað ber til veiða.
59. Þegar ráð er þetta statt,
þá vill flest til sorgar;
af skipunum tólf þeir skunda hratt
skálkar heim til borgar.
60. Gjörðu rétt sem ríkur bauð,
ráð síns herra fylldu,
létust hafa allan auð,
sem ýmsir kaupa vildu.
61. Sögðust vera Cípren af
sendir menn til kaupa;
hvör út þeirra gjaldið gaf,
gjörðu margt að raupa.
62. Brynju allir bjarta þeir
bera klæðum undir;
drengir þess sem dimmir meir
drekka á ýmsar lundir.
63. Nóttin sveipast himna hjúp,
heldur ljós á flótta,
stóran skugga dró yfir djúp,
daginn myrkrið sótta.
64. Þarf ei lengja þetta spil,
þanninn tókst að bragði;
allt gekk það á einn veg til,
eins og Pródus sagði.
65. Þegar vaktin var á braut
víst á múrnum gengin,
heiðin þessa þjóðin naut;
þá uggði manna enginn.
66. Þá voru komnir þúsund manns
þeirra heiðnu seggja
saman í breiðan brodda krans
borgar innan veggja.
67. Dagurinn kom, en renndi rauð
reiðum sólin augum;
hlakkar fold, þá fögur að bauð
í fylsni myrkra draugum.
68. Horn var þeytt, en bumba börð,
bilaði hjartað deigum;
öll jörð skalf, þá aðsókn hörð
aldur stytti feigum.
69. Þegar herlið höggva má,
hjartað viknar móði;
þeir vildu ei heldur vægja þá
en vargar sauða blóði.
70. Myrtu og drápu einn veg allt
unga menn og gamla;
gjörist þeim kristnu geysivalt,
ef guð vill ekki hamla.
71. Örva él að drífur dimmt;
dýrar meyjar harma;
vargar sóttu flokkum fimt
fæðu sína varma.
72. Kóngur og drottning fregna fljótt
fögnuð þrotinn mesta,
í einum sal þau skrýðast skjótt;
skerða heiðnir flesta.
73. Tíbúrt verst, en vill ei hann
verða tekinn höndum;
og mjög vel berst hinn mæti mann,
móður í háska vöndum.
74. Kom þar loks, að kóngurinn hné
kristinn dauður að velli;
létu heiðnir liggja í hlé
að leifa fleirum elli.
75. Dauði er vegur og leið til lífs,
af löstum hjálpar sönnum,
upphaf góðs, en ending kífs
öllum kristnum mönnum.
76. Þreyttra hvíld og trega traust
tel eg líkams dauða;
gleðinnar lán og lífsins raust
lausn er allra nauða.
77. Svo má sjá, að lukku lán
lýði gjörir að pretta;
þá varir minnst, í mestu smán
menn að jafnan detta.
78. Því er hóf í heiðri bezt
að halda öllum mönnum,
styggja ei þá veitir vest,
en vera með drengskap sönnum.
79. Enginn má hér ósköp nein
af sér nokkur kaupa,
ekki heldur gæfu grein
gjöra á mis við hlaupa.
80. Efni valt hefur oss svo allt
eðli fest á hjóli;
þó syngi snjallt, þá situr þó hallt
sérhvör maður á stóli.
81. Drottning gat um dyr út hleypt,
döpur af stórri mæði;
einn hefur möttul yfir sig steypt,
en ekki fleiri klæði.
82. Út á nokkurn eyðiskóg
með eina jungfrú vendi;
eftir af sögunni enn er nóg
ævintýr fyrir hendi.
83. Pontus kóngsson komst á braut
og kapellán hans teiti
dýrum fylgdi dreng með skraut,
Damptenus að heiti.
84. Með honum voru í fylgd og för
fjörutigi eðla barna;
þessi vill með þýðlig svör
þeim við dauða varna.
85. Héldu í fjalli hellir einn,
höfðu öngva fæðu
dagana þrjá; hinn dýri sveinn
við Damptenum hóf so ræðu:
86. „Oss hæfir ekki hér til dauðs
í hellir inni að svelta;
vildi annað efni auðs
uppi á hjóli velta.
87. Blíður guð mun bjarga enn
burt úr angri nauða,
so vér séum ei sjálfir menn
sekir í vorum dauða.“;
88. Presturinn bannar börnum þá
í burtu þaðan að ganga,
segir, ef hlaupa hellir frá,
heiðnir muni þau fanga.
89. Prestur sleppti piltum þá,
Pontus ráðin kéru,
hlaupa síðan hellir frá;
af heiðnum teknir vóru.
90. Dvínar ófróðum mínum móð,
mest vend prestum senda;
þín mun ljóð, hið fína fljóð,
flest kennd bezt að enda.
91. Kvæða smíði hæfir hóf,
hætti brátt að létta;
fræðið líður, lofa eg próf
lítt sé bætt um þetta.

Heimild

breyta
  • Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.