VI RÍMA

breyta

Ferskeytt

1. Fram eg selda þjóðum þátt;
þrot að kvæðum geisa;
nú skal felldan fyrra hátt,
á fætur ræðu reisa.
2. Stirðnar lag, en stopult gengur
stjórn af tungu minni;
því minn hag að hyggju strengur
herðir þungu sinni.
3. Hvör sem vill um fríðar frúr
fremja mansöngs smíði,
hann með snill þarf huga úr
hrinda bann og stríði.
4. Enginn neitt að yrkir par,
sem er með þanka sárum;
hugurinn streitt fer hér og þar
sem hafskip vankar á bárum.
5. En þó mitt sé orðbragð stirt
ungum meyjunum bjóða,
bið eg það sé vorkunn virt
af virðing allra þjóða.
6. Þó eg sé ekki alltíð hraður
orð eður dikt að vanda,
mér hefur nokkur styggðar staður
með sturlan borið til handa.
7. Eg hefi á minni æsku tíð
angurs stigu kannað;
þar með örlög yfrið stríð
alla gleðina bannað.
8. Hefi eg nú það næst var ár
nokkurt mótkast fengið,
oftast lygar, fals og fár,
fátt að óskum gengið.
9. Mun ei þar fyrir mengið flest
mig í sorgum eyma;
sá kann hvör við harminn bezt,
sem hefur hann ekki að geyma.
10. Er í valdi einskis manns
ætlan guðs af venda;
fel eg mitt ráð í hendur hans,
hvar sem það vill lenda.
11. Því mun eg segja sorgar kvitt
sjálfan mig að græta,
ef so fer, að angur mitt
engin mey vill bæta.
12. Kalla eg bezt að kefja hryggð,
kæti drottna láta,
líða flesta leynda styggð
og líka þrotna játa,
13. inna heldur öðrum frá,
ósköp sólgin herða,
hvörsu eldur elsku má
með æru fólginn verða,
14. hata allt það heiðri er mót
hefta stríðan losta;
forðast skaltú lýti ljót,
en lifnað fríðan kosta.
15. Stuttur losti langri hryggð
lýði plagar að kvelja;
hvörn sem kosta drýgir dygð,
dugi hagur að velja.
16. Víkjum þar til kóngsson kemur
klén í skemmu drósar,
leika og alla fordild fremur;
fagna meyja ljósar.
17. Býður sæti buðlungs kund
brúðurin sitt að veita,
en hann vill á önga lund,
oft því gjörði að neita.
18. Settist lægra nokkuð niður,
nam so fjölda tytta;
Sídónía blíðust biður
brúðunum dægur stytta,
19. vita ef dans og sætum söng
sínum gleymdum hefði,
drósum stytta dægur löng
dýrum, meðan hann tefði.
20. Pontus svarar brúði brátt
beint af mjúkum munni:
„Eg fæ ei gleymdum þessum þátt
þeim eg aldri kunni.“
21. Síðan kættist kóngsson þá;
kortast stundir langar,
frúinna hjörtun full með þrá
Fíenis pílan stangar.
22. Sídónía fagra frygð
fékk af Pontus orðum,
síðan alla sannar dygð,
sem sögð var henni forðum.
23. Jungfrú tekur tigin hann
til sín, er menn hæla,
segist ætla enn við hann
annað fleira mæla.
24. „Lengi hafið,“ segir listug frú
„í landi dvaldar stundir,
en aldri saman, áður en nú,
okkar bárust fundir.“
25. Pontus segist sinni ferð
sjálfur ekki ráða
og svo sína alla gjörð
öðrum mönnum háða.
26. „Eg vil spyrja aftur þig,
áður en ræðan dvínar:
hvörninn lízt þér, halur, á mig
eður hýrar jungfrúr mínar.
27. „Yðar fegurð og andlit bjart,“
anzar Pontus vífi,
„vænan lit og vegligt skart
og vöxt á yðar lífi.“
28. „Slíkur sómi,“ sagði hann,
„sem nú hef eg fundið,
hjartað víst að hressa kann,
sem hart er sorgum bundið.“
29. „Hafið af frúnum fengið náð?“
fylkirs spurði dóttir,
„riddara því þér drýgið dáð
og dýrar mennta gnóttir.
30. Ef vaskur riddari verða má,
að vísu brjótur sverða,
hvörja þér í heimi þá
helzt þess aktið verða?“
31. Pontus anzar orðum þá
eftir ræðu langa:
„Þenkjan mín er þar til smá
þeirra náð að fanga.“
32. Jungfrú segir ættlegg hans
allan dýrstu manna.
„Þér eruð verðir þessa lands
að þjóna æðstum svanna.“
33. Slíkar ræður fagrar fyrst
fóru þeirra á milli;
þar af frúnnar fengu lyst
og fagna ungum stilli.
34. Aftur talar í annað sinn
enn við reynir sverða:
„Þér skuluð riddari mætur minn,
mildings arfinn, verða.
35. Ef eg nokkra fregna frægð
fagra af verki þínu,
það mun gjöra góða hægt
og gleði hjarta mínu.
36. „Náðuga frú,“ að kóngsson kvað,
„kalla eg skyldu mína
yðar náð að þakka það
og þjónkan alla sýna,
37. ef guð minn vildi gefa og tjá
gjörðir riddara snjallar,
þær sem hefði þjónkan á
þér og frúnnar allar.“
38. Mildings dóttir mælti senn,
meyja flestra jafni:
„Þó þér riddari ekki enn
orðnir séuð að nafni,
39. reikna eg yður riddara minn
ríki og lönd að verja;
þér skuluð nú í þetta sinn
það með eiði sverja
40. mér fyrir allar aðrar frúr
með æru og dygð að þéna;
þá mun harla hugurinn trúr
af hjarta aldri réna.“
41. Pontus jungfrú þakkar það
þá með bezta hætti,
síðan guð þess blíðan bað
beint því orka mætti.
42. „Ef þér oss,“ segir öðlings mær,
„ódygð viljið þenkja,
þaðan af sjálfar viljum vær
vináttu okkar krenkja.“
43. Anzar kóngsson ekki trauður,
auðmýkt birti sína:
„Vildi eg heldur vera dauður
en virðing sneyða þína.“
44. Jungfrú biður blíðan það
binda tryggðar máli,
so það eigi sterkan stað,
studdan öngu táli.
45. Lofaði síðan ljósri frú
lestir grænna skjalda
upp á sína æru og trú
með orð og verk að halda.
46. Jungfrú gefur gullhring einn
gram af sinni hendi;
í ljósum málmi stendur steinn;
stillirs son hann kenndi.
47. Biður hún hringinn buðlungs son
bera sinna vegna,
segir þetta vissa von,
sem vel má síðar gegna.
48. Pontus þakkar skorðu skjótt
skraut fyrir utan vanza,
hringinn dró á fingur fljótt
og fór með henni að dansa.
49. Þá til fríðrar kóngsson klár
kveiktist ástar bandi;
í þeirra beggja brjósti stár
blíða horfin grandi.
50. Harðasta kann hugurinn ást
harla mjúka binda
og augu þau sem skyggn eru skást
í skýrum höfðum blinda.
51. Pontus þar næst kvæði kvað;
kvikna hjörtun meyja;
allar lofuðu einn veg það
og so stundir þreyja.
52. Þaðan af hvör að þenkti frú
það um ævi langa,
að jungfrú væri sælust sú,
er svoddan mann réð fanga.
53. Þegar höfðu sungið sín
sérhvör kvæði á enda,
jungfrú ljós að lætur vín
lofðungs arfa senda.
54. Síðan vilja af brúði brátt
báðir orlof þiggja
og so ganga á annan hátt
inn fyrir ríkan tiggja.
55. Jungfrú leyfir þetta þeim,
þakkar sína kómu;
síðan fóru til hallar heim
herrar þeir enir frómu.
56. Áður en skildi kóngsson kær
við kerrur öglis fitja,
aftur bað þá öðlings mær
sem oftast þangað vitja.
57. Þegar voru viknir burt,
vífið spyr hið rjóða:
„Hvörsu virðist heiður og kurt
hilmirs skaranum fljóða.“
58. Frúr og jungfrúr allar eitt
af honum reyndar sögðu,
vissu hann ekki vanta neitt,
virðing á hann lögðu.
59. Svinnar sögðu sæla þá,
sem hann hreppa næði,
því hinn vænsti væri sá
í veröldu hvar hann stæði.
60. Lofuðu allar lofðungs kund
og lykta ræður sínar;
þetta þóknast hýrri hrund;
hryggð í brjósti dvínar.
61. Ekki lét sig merkja mær,
mektug hafnar stríði,
að henni væri í hjarta kær
hilmirs sonurinn fríði.
62. Biður ei lofa listug þann,
er lasta síðar mætti,
segir Pontus seinna kann
sínum bregða hætti.
63. Þá var blíða brjósti í
brúði fólgin hreinni;
elska Ponto olli því,
sem innir bragurinn seinni.
64. Veizlan nýt stóð níu dægur;
nokkra leika tamdi
skarinn ríkur, rausnar frægur,
riddara spil hann framdi.
65. Síðan lyktar hófið hæst;
hér með ber til fleira;
en af mínum orðum fæst
ekki að sinni meira.
66. Mín er tungan máli sljóf
meyjunum skemmtan gjalda;
á er vandi einum hóf
í orðu réttri halda.
67. Fyrir eina hefur oss und með pín
innan gjört að bíta;
hvör mun mey fyrir hjarta mín
hryggð og angur slíta.
68. Þó mér verði, mjúkust mær,
af meyjunum auðið fanga,
eg efast, hvört sú undin grær
ævina mína langa.
69. Auðið verður efalaust
í annað sinn mig gifta;
á einni hef eg allgott traust
angri muni svipta.
70. Sú hefur meyja sjálfum mér
svinnust aukið harma;
því fyrir norðan hlýt eg hér
hryggð að fæða varma.
71. Alla skal eg angur og þrá
fyrir utan hjartað byrgja;
sjaldan stöðvast hamingjan hjá
hinum, er jafnan syrgja.
72. Hygg eg bezt að hætta tal,
hér frá sögunni venda,
því að rímu skýrast skal
skeið er komið á enda.
73. Léttur andi launar tal
límir fléttu banda,
réttur vandi raunar skal
rímu séttu standa.

Heimild

breyta
  • Grímur M. Helgason (ritstj.) (1961). Rit Rímnafélagsins X : Pontus rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.