Söknuður
Höfundur: Jóhann Jónsson
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað,
og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums,
hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir
borið með undursamleikans
eigin þrotlausan brunn þér í brjósti, hvar?
Við svofelld annarleg orð,
sem einhver rödd lætur falla
á vorn veg - eða að því er virðist
vindurinn blæs gegnum strætin,
dettur oss, svefngöngum vanans, oft drykklanga stund
dofinn úr stirðnuðum limum.
Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra.
Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast.
Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor andar,
vér áttum oss snöggvast til hálfs, og skilningi lostin
hrópar í allsgáðri vitund
vor sál:
Hvar!
Ó hvar? Er glatað ei glatað?
Gildir ei einu um hið liðna, hvort grófu það ár eða eilífð?
Unn þú mér heldur um stund, að megi ég muna,
minning, hrópandi rödd,
ó dvel!
En æ, hver má þér með höndum halda,
heilaga blekking!
Sem vængjablik svífandi engla
í augum vaknandi barna
ert þú hverful oss, hversdagsins þrælum,
og óðar en sé oss það ljóst, er undur þitt drukknað
í æði múgsins og glaumsins.
Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu,
hver í sínu eigin lífi vegvilltur, framandi maður;
og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð
af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan...
En þei, þei, þei - svo djúpt er vor samvizka sefur,
oss sönglar þó allan þann dag
við eirðarlaus eyrun
eitthvað þvílíkt sem komið sé hausthljóð í vindinn,
eitthvað þvílíkt sem syngi vor sálaða móðir
úr sjávarhljóðinu í fjarska.
Og eyðileik þrungið
hvíslar vort hjarta
hljótt út í bláinn:
Hvar?...Ó hvar?