Sagan af Heljarslóðarorrustu

eftir Benedikt Gröndal
Efnisyfirlit


1. kapítuli

breyta

Svo segja vitrir menn, að sá hluti heimskringlunnar, er vér köllum Norðrhálfu, er skiptr milli þriggja höfuðkonunga; ræðr einn Franklandi, annarr Austrríki; þeir eru keisarar að tign; en hinn þriði ræðr Bretlandi, það er meykóngr.

Fyrir Franklandi ræðr sá, er Napóleon heitir; hann er höfðingi mikill og ráðríkr, vitr og ráðigr og ekki við allra skap; hann á drottningu er Evgenía heitir; hún er skörungr mikill og kvenna fríðust. Frankland er byggt af þeim mönnum, er Frankar heita eðr Frakkar; eru þeir komnir í föðrætt af Japhet Nóasyni, en í móðrætt af Alkibíades enum gríska; þeir eru vaxnir sem aðrir menn, léttlyndir í skapi og gleðimenn miklir; þar er unnin ull mikil og vaðmál. Konur hafa þeir flestir fleiri en eina, eða fylgikonur, og svo hafa og konur fleiri en einn mann, og þykir það kurteisi. Frankland er svo sett í veröldina, að fyrir austan er áin Rín, og ekki væð nema jötnum og múlösnum; þeim megin eru og Mundíufjöll, og kemst þar ekki yfir nema fuglinn fljúgandi, síðan Hannibal herjaði; má þar enn sjá spor Hannibals í snjónum. Þar er klofsnjór á sumrum, en jökull á vetrum. Vestr af Franklandi gengr nes mikið, það heitir Bretagne; þaðan í landnorðr er Normandí; þar var Göngu-Hrólfr; þar eru konur fagrar; þar eru klaustr mörg; þar er fénaðr mikill og fríðr; þar vestr af gengr hafið mikla. Þá liggr Langbarðaland austr af Mundíufjöllum; þar er Mailand; þar var járnkrúnan; þar eru Feneyjar og byggðar í sæ; þar eru hallir miklar og kvennafar; þar er og Mantúa, þar er borinn Virgilíus skáld.

En í landnorðr af Langbarðalandi liggr Austrríki; það er Austrvegr á landi; þar er Vínarborg og þar er Stefánsturn svo hár, að sundlar alla fugla, er á setjast; þar er Duná; þar byggja jötnar. Þar er og Hungaraland, þar var Kossút; þar er Vielizka, þar eru saltnámar miklir í jörðu; þar er Bæheimr, þar var Líbússa meykóngr. Keisari sá ræðr fyrir Austrríki, er Jóseppr heitir; hann er af Habsborgarjötnum; hann bíta eigi járn nema vígð. Hann á ógrynni fjár, bæði silfr og gangandi fé; hann er búmaðr mikill.

Viktoría heitir meykóngr sá, er Bretlandi ræðr; þar sest eigi sól. Þar er Lundúnaborg og þar er Liverpool eða Lifrarpúll; þar er Norðimbraland. Norðr af Bretlandi er Skotland; þar er Edínaborg; þar eru fjöll mikil, þar eru dvergar.

Fyrir sunnan Langbarðaland er Ítalía eðr Valland; þar er ríki það, er Toskana heitir; þar er Flórensborg; þar var Dante fæddr. Þá er þar suðr af Páfadómr, er Arnljótr lærði kallar Rómaríki; þar er borgin Róma, hún er frægust borg í heimi næst Álaborg; þar er páfinn og þar var Cæsar; þar var Ágústus keisari; þar var Neró; þar var Trajanus; þar er áin Tífr, hún kemr úr norðrátt. Þar suðr af er Napólíríki; þar er Vesúvíus; þar undir er helvíti. Þar er Púll; þar var fæddr Hóratsíus skáld; þar er Bár, þangað fór Djúnki og náði helgu vatni á konjaksflöskur og braut allar, en vatnið týndist. Þá er Sikiley; þar er Sírakúsa; þar var Arkimedes; þar búa kýklópar, þeir hafa eitt auga í miðju enni. Um Ítalíu suðr liggr Miðjarðarhaf, en Hadríaflói hið eystra; þar austr af er Tyrkland; þar er Mikligarðr; þar var Kirjalax og þar er Sofíukirkja. En suðr af Tyrklandi er Grikkland; þar er Aþenuborg; þar var Sókrates og þar er Akrópólis.

Austr af Austrríki er Garðaríki; þar ræðr Alexander hinn mikli; hann er goðborinn og kominn af Óðni. Þar er brennivín mikið; þar er Pétrsborg; þar var Katrín. Vestr undan Garðaríki er Kyrjálabotn og þar fyrir vestan Svíþjóð; þá er Noregr; þar er Djúnki; þar eru hreindýr mörg; þar búa fjölkynngismenn. Kristjanía heitir höfuðborg í Noregi; þar kom Guðbrandr og þar er Ívar Aasen. Norðr af Garðaríki liggr Spitsbergen, þar er kalt; þar var Dufferin og þar var Sigurðr. Vestr af Noregi liggr Atlantshaf; þar liggr Ísland; þar er Þjóðólfr og þar er fjárkláðinn mikli. Þá er Grænlandshaf, þar er Grænland og Helluland; þar eru skriðjöklar og þar er Ragnarsslóði; þar vann Gestr Bárðarson á Ragnari. Þá er Vestrhálfa.

Nú höfum vér talið nokkur þeirra landa, er koma við þessa sögu; en það er upphaf þessara atburða, að Austrríkiskeisari efndi til veislu mikillar og bauð Napóleoni, því að hann var þá mestr keisari í heiminum. Skyldi veislan standa á Langbarðalandi; þar hafði Austrríkiskeisari her mikinn og setulið, því að hann kallaðist eiga landið. Austrríkiskeisari sendi út um heim allan til að fá föng til veislunnar, og gekk það í tvö ár; var því öllu hlaðið upp á Marengóvöllum og mátti þar sjá nóg brauð og brennivín; þar voru og öll gæði heimsins saman komin; þar voru rúsínuhaugar frá Sikiley, appelsínuhraukar frá Spanía; úlfaldalæri frá Indíalandi; fílafætur frá Kap; hangikjötskrof norðan úr Skagafirði; æðaregg úr Viðey; kríuegg úr Flatey; svartbaksegg úr Stagley; hænuegg úr Þerney; krækiber úr Garðahrauni; hrútaber ofan af Vífilsstöðum; bláber frá Lneburgerheiði; sauðaþykkni norðan úr Svarfaðardal; saltfiskur sunnan úr Njarðvík; kúasmér ofan úr Jórukleif; rjómi norðan af Sléttu; dilkahöfuð austan úr Múlasýslu; þar var og konjak og kampavín, vatn úr Helliránum og ölkelduvatn vestan úr Rauðamelskeldu, og margt fleira, sem of langt yrði hér upp að telja. Þar voru tjöld sett á völlinn og bekkir allt um kring; var það svo mikið svið, að maðr vel ríðandi varð að færa þeim í staupinu, er ystir sátu í hringnum; var það tveggja daga reið frá brennivínsbrunninum.

Nú mæltu þeir sér mót, keisararnir, og komu báðir á ákveðnum degi og höfðu lið mikið og frítt. Reið Napóleon fremstr sinna manna, hann reið hvítum hesti; sá hestr var ættaðr frá Sleipni og skjótastr allra hesta í heimi; hann hafði manns vit og þýddist engan á baki sér nema Napóleon. Allir menn Napóleons voru í gullbrynjum, og það segja sannorðir menn, að fjöldi manna varð blindr af að horfa á ferð þeirra, því að sólskin var bjart og lagði ljómann af gullbrynjunum. Riðu þeir í fagurri röð með mikilli kurteisi og keisarinn á undan, hann var í brynju af rauðagulli og hafði skjöld við hlið og dreginn á leo með hvítagulli af mikilli list; en skjöldrinn var blár. Keisarinn var gyrðr sverði því er Dreyrvaðill heitir; það sverð gerðu dvergar austr í Sólheimafjöllum og mæltu um, að aldri skyldi það nema að vígi bera, en nú var það að góðri og friðsamlegri gleði borið, og hlaust verra af, sem von var. Merkismaðr Napóleons hét Rollant; hann var kominn af Göngu-Hrólfi og kappi mikill. Þeir riðu fram með lúðurhljómi og hörpuslætti og varð mönnum starsýnt á. En hinsvegar reið fram Austrríkiskeisari með sitt lið; það voru jötnar og allir gráir fyrir járnum. Merki var borið fyrir keisaranum, það hét Feigsblæja; það var svart og dreginn á örn klofinn; það merki grenjaði hátt fyrir atburðum, og nú grenjaði það, og urðu menn hljóðir við. Tólf berserki hafði Austrríkiskeisari; þeir riðu sér og fóru grenjandi og bitu í skjaldarrendr.

Nú fundust keisararnir og kvöddust af mikilli blíðu; þá mælti Austrríkiskeisari: "Með því oss hefur verið flutt af yðar dýrð og vegsemd, þá höfum vér látið efna til þessarar veislu, til þess að njóta með yðr þeirrar gleði, er besta getum vér fundið; viljum vér nú bjóða yðr hér velkominn og allan þann sóma af oss að þiggja, sem vér kunnum yðr að veita; hefur oss orðið ærinn tilkostnaðr að efna til þessarar hátíðar, því að nú er ekki einn skildingr eptir í voru ríki, það vér til vitum, og skulum vér nú drekka upp allt sem til er, og gera oss einn glaðan dag, ef yðr svo sýnist".

Þá mælti Napóleon: "Það viljum vér víst þiggja, er þér bjóðið af mikilli vinsemd til vor, og er oss ánægja að sitja með yðr að þessari gleði, svo lengi sem eigi skortir mat eðr vín; skulum vér bjóða öllum vorum mönnum að ganga sem best fram að drekka allt upp, svo ekki verði einn dropi eptir af þessum ölföngum, sem hér eru saman komin".

Síðan settust keisararnir á gullstóla, og vildarmenn þeirra út frá þeim, og þá hinir, svo sem frammistöðumenn sögðu fyrir; drukku menn nú með mikilli gleði. En er á daginn leið, þá gerðust menn drukknir, og berserkirnir mest; undu þeir þá illa setunni og stóðu upp grenjandi og gengu fyrir hvern mann og spurðu, hvert menn þættist jafnsnjallir þeim; luku allir Austrríkismenn upp sama munni, að þeir þættist þeim eigi jafnsnjallir; en Frakkar voru óvanir slíkum látum og urðu hljóðir við; þá reiddust berserkirnir og ruddu bekkinn þann er fremstr var, er Frakkar sátu á; undu Frakkar því illa, en voru þó stilltir vel, því að þeir eru menn kurteisir. En Austrríkiskeisari bauð berserkjunum að hætta þessum aðgangi og hurfu þeir þá frá; drukku menn nú í friði það er eptir var dagsins.

Um morguninn eptir fór Austrríkiskeisari á fætr í býti og gekk til tjalds Napóleons og vakti hann; þá mælti Napóleon: "Hvað viljið þér nú, herra keisari?" Þá svaraði Austrríkiskeisari: "Nú viljum vér hafa eitt mikið hestaat í dag, og viljum vér að þér kjó hest af yðar liði móti vorum hesti". "Svo skal vera", mælti Napóleon.

Síðan gekk Austrríkiskeisari út, en Napóleon klæddist og gekk til sinna manna. Hann gekk við níunda mann hins níunda tugar til hestaatsins, og slíkt hið sama gerði Austrríkiskeisari.

Voru nú hestarnir leiddir fram; hestr Napóleons var fimm vetra gamall foli sunnan úr Arabía; þann hest hafði Abd-el-Kader gefið Napóleoni og mælt það, að hestrinn væri dugandis gripr; hann var bleikalóttr og hnellinn að sjá; hann hafði höggtennr sem dýr það, er babírússa heitir. Annarr hestr var leiddr fram af Austrríkisliði; það var steingrár hestr og ættaðr norðan úr Gandvíkrbotnum; þann hest hafði Kallbakr þurs gefið Austrríkiskeisara í tannfé; en þá var Kallbakr dauðr.

Rollant merkismaðr fylgdi hesti Napóleons; en hinum hestinum fylgdi sá er Korpa hét, hann var jötunn. Gengust nú hestarnir að og bitust fast; gekk svo lengi dags og höfðu menn góða skemmtan. En er sól var komin í miðmundastað, þá féll hestr Napóleons af mæði og var þegar dauðr; hugðu menn hann sprungið hafa, því að blóð rann út um nasar hans og eyru. Varð Napóleon fár við, en Austrríkismenn gerðu að þessu glens mikið og kváðu Frakka enga hestamenn vera eðr riddara.

Þar í liði Napóleons var maðr einn er Marmier hét, hann var spekingr að viti. Marmier gekk til Napóleons og mælti: "Eigi er svo, herra, sem þér séuð sigraðir í þessum leik, því að betri hesta eigið þér en þessi var; skuluð þér nú etja hesti yðar hinum góða, er þér ríðið sjálfir, og mun ég ganga með hestinum". "Það vil ég gera, Marmier", mælti Napóleon, "og hefur þú lengi heilráðr verið".

Þá var hestrinn leiddr fram á völlinn og gekk Marmier fram með; hann hafði broddstaf í hendi; þann broddstaf hafði Kristján í Stóradal gefið Marmier, og hrút feitan lét hann fylgja stafnum, og kvað hann eigi mundu hrútlausan meðan hann ætti hrútinn, og eigi staflausan meðan hann ætti stafinn. En þá var Marmier búinn að lóga hrútnum fyrir löngu, því að hann gaf Lamartine hrútinn í sumargjöf; en Lamartine seldi gyðingi hrútinn, og vita menn það seinast til hrútsins.

En sem hestrinn kom fram á völlinn, þá hló hann; og er Austrríkiskeisari heyrði það, þá mælti hann til sinna manna: "Hvert er svo sem mér heyrist, hlær hestrinn?" "Víst hyggjum vér svo sé", mælti Korpa. "Þá munum vér etja Atriða", mælti keisarinn, "því að gjörningar munu þetta vera; hlæja menn, en hestar eigi".

Þá var Atriði leiddr fram; hann var kolblár að lit og stór sem fjall; hann var norðan úr Jötunheimum og hafði verið seitt til, að hann skyldi aldrei lifandi falla, og því hafði Austrríkiskeisari miklar mætur á þeim hesti. Korpa fylgdi hestinum.

Gengu nú hestarnir að allrammliga, og undruðust allir hversu mikinn fimleik hestr Napóleons lagði fram, því að leikr hans var líkari dansi en ati. Tók nú að rökkva af degi og kom tungl upp, og skein á gráserkina hina austrænu. Þá leiddist berserkjunum þetta, að hvorigr skyldi falla, og óðu allir grenjandi fram á völlinn; þá varð Marmier svo hræddr, að hann missti stafinn og flúði, og eptir það er Marmier bæði staflaus og hrútlaus. En berserkirnir gengu að Atriða og studdu hann allir; þá snerist hestrinn Napóleons í kring og reis upp örðigr og beit Atriða á barkann, féll Atriði þar dauðr en eigi lifandi; síðan gekk hestrinn á aptrfótunum og löðrungaði berserkina svo fast, að sundr gengu kjálkabeinin, en tennrnar hrutu víðs vegar um völlinn úr hausum þeim; féllu þeir sem hráviði og létust níu, en þrír komust undan með skömm; varð nú glaumr mikill í liði Frakka og hýrnaði yfir Napóleoni.

Þá gekk Austrríkiskeisari fram og mælti af mikilli reiði: "Nú eru þeir hlutir orðnir, er eigi má bæta, látnir níu af vorum bestu mönnum og vor hinn dýrmætasti gripr, sem finnast kunni í voru ríki; er þetta allt fjölkynngi yðvarri að kenna, og hyggjum vér hér illt undir búa. Viljum vér nú þegar skipa yðr burt úr voru ríki sem skjótast, og eigi lengr að veislu með yðr sitja".

Þá mælti Napóleon: "Ekki þurfið þér svo digrbarklega hér um að láta, því að eigi er landið fremr yðvart en vort, og höfum vér jafnan rétt til að dvelja hér sem þér; en fyrir því að vér erum menn vitrari, þá munum vér héðan á burtu verða, og eigi láta menn vora að óþörfu". Reið Napóleon þegar á burt með allt sitt lið og heim til Parísar, og varð mönnum tíðrætt hér um. En Austrríkiskeisari reið heim og skildi eptir lið mikið í Langbarðalandi í öllum borgum; undu Langbarðar því illa, því þeir þóttust eiga landið, sem og satt var; urðu ýmsir atburðir með þeim og Austrríkismönnum, og kvörtuðu Langbarðar einatt fyrir Napóleoni og beiddust liðveislu af honum; gekk svo lengi, og urðu álögur Austrríkismanna æ þyngri, svo að við sjálft lá, að allt fólk mundi á burtu stökkva; eyddust margir bæir og fór landinu hnignandi dag frá degi, sem von var að, því að það var í hinni verstu ánauð, og hafði Napóleon engan frið fyrir bænum Langbarða. Liðu svo stundir fram.


2. kapítuli

breyta

En er þessir hlutir ágerðust, þá sá Napóleon, að eigi mátti svo búið standa, og með því hann þóttist eiga sín að hefna, þá hugsar hann með sjálfum sér, að best muni vera að fara sjálfr og herja. Hann vaknar snemma einn morgun; var sól komin upp fögr og skínandi í heiði, og skein á sóleyjarnar, sem Napóleon hafði í urtapottum í gluggum sínum; þær sóleyjar hafði Evgenía einu sinni tínt á votengi, meðan Napóleon var á rjúpnaveiðum. Nú lágu þau bæði í rúminu, Napóleon og Evgenía, og rumskaði Napóleon fyrst og tók í handlegginn á Evgeníu. "Hvað ertu að klípa mig", sagði Evgenía. "Ég ætla að fara að stríða", sagði Napóleon. "Þarftu endilega að klípa mig fyrir það", sagði Evgenía. "Þú verðr að fara á fætr og gá að fötunum mínum, Evgenía", sagði Napóleon, og reis upp við. Þá fór Evgenía á knén fyrst og sagði: "Já, ég ætla að klæða mig fyrst og fylgja þér á leið". "Gerðu það", sagði Napóleon, "ég ætla að liggja hérna á meðan og hugsa mig um stríðið".

Nú steig Evgenía yfir Napóleon, því hún lá fyrir ofan, en litli prinsinn svaf í dálítilli ruggu fyrir framan rúmið. Svo kom hún ofan á gólfið; það var lagt allt með spesíum og koparpeningum og mikið furðuverk. Nú færði Evgenía sig fyrst í hnjáskjól úr mjallahvítu og sárfínu vaðmáli, sem unnið var austr í Kasimír; það hafði verið saumað tólf sinnum hvað eptir annað og aldrei líkað; loksins var það ekki rakið upp, og þótti þó þröngt um mjaðmirnar, en nú varð svo að vera. Þá fór Evgenía í silkibuxur utan yfir hnjáskjólið, og tók síðan upp krínólínuna sína, sem hún var vön að hvolfa á spesíugólfið á nóttunni. Hún steypti krínólínunni yfir höfuðið á sér, en krínólínan seig hátignarlega ofan að mittinu á keisarafrúnni og söng í. Síðan gekk Evgenía að speglinum og greiddi sér með gullkambi og lét hringina í eyrun og á fingurna á sér; Napóleon hafði gefið henni alla þessa hringi á meðan hann var að ná henni. Þá setti hún upp skó á fæturna; þessir skór voru úr demanti, og hafði Napóleon náð skónum af flugdreka, sem hann vann á í Ameríku, og gaf hann Evgeníu skóna.

"Hvaða skelfing ertu lengi, Evgenía", sagði Napóleon. "Nú er ég búin", sagði Evgenía, "en það vantar axlabandahnapp í buxurnar þínar; ég ætla að festa hann á snöggvast". Svo festi hún hnappinn á buxurnar, og nú fór Napóleon að klæða sig.

Evgenía fór fram og sagði, að maðurinn sinn ætlaði í stríðið. Þá komu tuttugu riddarar inn með alvæpni, brynjur, hjálma, skildi, brynhosur, spjót og stálhúfur, svo Napóleon gæti valið af því hvað sem hann vildi til að berja á Þjóðverjanum með. Nú fór Napóleon fyrst í nærbuxurnar og sokkana, það voru náttúrlega silkisokkar, en þar utan yfir fór hann í þykkva duggarabandssokka, svo að honum skyldi ekki verða kalt á fótunum á leiðinni. Þá fór Napóleon í silkibuxur, og þar utan yfir í þykkar vaðmálsbuxur norðan úr Skagafirði; þær buxur hafði Gaimarð gefið Napóleoni í sumargjöf, sama daginn og Marmier gaf Lamartine hrútinn, en Gaimarð hafði eignast buxurnar á Íslandsferðinni miklu. Napóleon fór í ógrligar stríðsrosabullur; þær náðu upp í klof og brökuðu svo hátt, að heyrðist suðr í Róm, sem Gissr kvað:


Gekk ótrauðr
gýgjar hami
studdr stillir
fyrir storðar jöðrum;
en bölbrestir
bláan skelfdu
reginturn
í Rómi suðr.


Hér er sagt, að keisarinn sé studdr gýgjar hami, því að rosabullurnar voru gerðar úr tröllkonuhúð. Þá tröllkonu drap Napóleon norðr á Heiðarskógi.

Síðan fór Napóleon í silkiskyrtu, sem Evgenía hafði saumað í meydómi og ætlaði sjálf að hafa; en þegar hún lofaðist Napóleoni, þá gaf hún honum skyrtuna, svo nú var skyrtan á keisara herðum, en ekki á meyjarbrjósti. Þar utan yfir fór Napóleon í duggarapeysu; þá peysu hafði Þjóðólfr tekið af Ófeigi í Fjalli dauðum upp í borgun fyrir hrossalýsingu, og sendi Napóleoni peysuna að gjöf; varð Napóleon allfeginn, því að á peysunni vann engin hríð né væta og ekkert sverð beit á hana nema þrem sinnum hefði verið manns bani. Þá tók Napóleon eina brynju og fór í; hún var skínandi fögr og ofin úr höggorma rifjum, og gullrekin suðr í Miklagarði; þá brynju hafði Amúrates hinn fjórði borið og haft allajafna sigr í; sú brynja var metin tólf hundruð hundraða. Hjálm setti hann á höfuð sér, hann var allr úr gulli og blástáli og skein af sem af sólu; þann hjálm hafði Napóleon tekið af blámannakonungi í Austrvegi og vó hann þar margan mann; sá hjálmr vó tíu vættir. Skjöld tók Napóleon á arm sér; á þeim skildi var markaðr ari með gulli, en skjöldrinn var hvítr sem skjall og söng fyrir vígum, og svo varð nú. Þá tók Napóleon spjót í hönd sér; það spjót hafði Finnbogi hinn rammi borið fyrir löngu og vegið margan mann, en nú var falrinn slitinn nokkuð svo, og oddrinn eigi sem hvassastr; en með því spjótið var sigrsælt, þá bar Napóleon það fremr öðrum vopnum; það spjót hafði Persasoldán sent Napóleoni á fimmtán úlföldum, til að berja á Þjóðverjanum.

Evgenía sat hjá ruggunni og horfði á allan þenna útbúnað, og setti hana dreyrrauða, er hún heyrði að söng í skildinum, því það var fyrirburðr; hún mælti ekki orð, því hún sá að keisarinn hennar var í vígahug. Napóleon var hýr í bragði og glotti eins og ljón, sem lítr yfir músahóp. "Nú skulum við koma út og fá okkr morgunverð," sagði Napóleon, "hann Pelissier getr haldið á drengnum." Þá kallaði Evgenía á Pelissier, en hann kom inn og tók við barninu; en Napóleon og Evgenía gengu út.

Keisarahjónin mættu Thiers í garðinum. Thiers var með fyrsta bindið af uppreistarsögunni og var ófrýnilegr í bragði, því hann hafði fundið prentvillu í bókinni, le fyrir de, og þótti illt, ef mönnum skyldi detta í hug að bera uppreistarsöguna sína saman við Þjóðólf.

"Kondu sæll, Thiers," sagði Napóleon. "Komið þér sælir, Napóleon minn," sagði Thiers. "Nú, hvurnin líst þér á mig núna," sagði Napóleon. "Vel," sagði Thiers. "Eru ekki allhermannleg vopnin mín," sagði Napóleon. "Jú," sagði Thiers. "Er ekki þetta fallegr hjálmr," sagði Napóleon. "Jú," sagði Thiers. "Er ekki þetta fallegr skjöldr," sagði Napóleon. "Jú," sagði Thiers. "Hvurnin þykir þér ljónið málað á hann? Er ekki vinstri fótrinn á því nokkuð stuttr?" sagði Napóleon. "Jú," sagði Thiers. "Er ekki þetta laglegt spjót?" sagði Napóleon. "Jú," sagði Thiers. "Eru ekki rosabullurnar mínar vígamannligar?" sagði Napóleon. "Jú," sagði Thiers. "Er ekki brynjan mín liðleg?" sagði Napóleon. "Jú," sagði Thiers. "Svo hef ég helvíta mikla duggarapeysu af Ófeigi í Fjalli innanundir, sem Þjóðólfr hefr gefið mér," sagði Napóleon. "Það er svo," sagði Thiers. "Ég held ég verði ekki votr í þessari peysu," sagði Napóleon. "So," sagði Thiers. "Nú, hvaða andskoti ertu fúll, Thiers," sagði Napóleon. "Á," sagði Thiers. "Já, þú svarar ekki nema tómum einsatkvæðisorðum," sagði Napóleon. "Hm," sagði Thiers. "Hvurnin heldrðu þetta fari allt saman?" sagði Napóleon. "Ég veit ekki," sagði Thiers. "Jæja, vertu nú sæll, Thiers," sagði Napóleon. "Verið þér sælir, Napóleon minn," sagði Thiers.

Nú komu keisarahjónin að garðshliðinu, það var allt úr gulli og logaði eins og eldsúlur. Fyrir utan hliðið stóð vagn með tíu hestum fyrir bleikalóttum; þá hesta hafði Napóleon fengið norðan úr Hellulandi, og voru þeir skjótari en vindr. Þeir voru allir í stígvélum, því það hafði rignt um nóttina; þessi stígvél voru skaflajárnuð og gerð úr þríeltum hreindýraskinnum norðan af Finnmörk. Djúnki hafði einu sinni veitt þessi hreindýr á prédikunarferð, en týndi þeim öllum; þá fundu Finnar þau og seldu frakkneskum hermönnum skinnin fyrir brennivín, en hermennirnir gáfu þau Napóleoni. Hestarnir voru gullbitlaðir og beislaðir með silkistungnum leðrólum, það var meistaraverk. Vagninn var einnig sleginn með stálkömbum, er ýfðust, þegar hann rann, svo að söng í. Fjórir ökumenn sátu uppi á vagnsætinu, þeir höfðu lúðra og symfón; en á hverjum hesti reið silfrbrynjaðr riddari með organ í hendinni. Í kringum vagninn stóðu margar þúsundir manna af öllum lýð, og ætluðu að kveðja Napóleon, því allir unnu honum hugástum; en það gefr að skilja, að einn maðr kemst eigi yfir að kveðja hvern mann í slíkum grúa; tók Napóleon þá nokkur hundruð í fang sér af þeim er næstir stóðu og kyssti þá, en tók í hendina á sumum, en allir hljóðuðu sem vitlausir væru, og svo er sagt, að það fréttist austr í Garðaríki, að Evgeníu væri orðið illt, því orgið heyrðist þangað, og komu legátar frá krónugreifanum af Kasan með naphta og lífsins balsam; en keisarafrúnni var ekkert illt, því hún hefur aldrei orðið sjúk, það er vér til vitum, nema þegar hún átti litla prinsinn.

Nú steig Napóleon upp í vagninn og konan hans líka, en vagninn gekk hvergi, þar sem hestarnir komust ekki fram fyrir mannþrönginni, og mannþröngin komst ekki á burt fyrir húsunum, er fyrir voru. Þá kallaði Napóleon á þann, er næstr honum stóð, og skipaði að sækja Pelissier; var svo gert. Pelissier kom. "Farðu og sæktu tröllkonurnar mínar, Pelissier," sagði Napóleon. "Já," sagði Pelissier. "Þú skilur," sagði Napóleon. "Já," sagði Pelissier.

Síðan fór Pelissier, en að lítilli stundu liðinni komu níu tröllkonur, bláar sem hel og digrar sem naut; þær voru í skinnkyrtlum, sem náðu niðr á lærin, og í brókum; þær höfðu rekur miklar í hendi og skelldu rekublöðunum á lærin, svo að skellirnir heyrðust austr í Asía; þær ýmist hlógu eða grenjuðu og hræktu, svo Napóleon lokaði vagninum, en stórhríðin dundi yfir mannfjöldann. Þessum tröllkonum höfðu Englar náð á Indíalandi og flutt heim til Englands, en Engladrottning gat eigi hamið þær, svo hún gaf þær Napóleoni; en Napóleon geymdi þær í járngrindum og hafði þær til að kveða rímur á stórhátíðum.

Tröllkonurnar fóru ekki friðlega; þær brutu gullgrindurnar og allt garðshliðið, en fólkið varð hrætt og vildi hver forða sér sem hann mátti, en fjöldi manna lést þar í troðningnum. Tröllkonurnar óðu fram fyrir hestana og ruddu þeim braut; þær mokuðu fólkinu burtu með rekunum og tvístruðu öllu í háalopt upp yfir hús og hallir, eins og þegar maðr mokar úr hlössum á haustdegi og dreifir mykjunni út yfir þúfur og hóla. En með því gatan var krókótt, þá rann vagninn ekki svo hart sem skyldi; þá hömuðust tröllkonurnar og mokuðu húsunum á burt, svo þar varð akbraut þráðbein, og er það hin fegrsta gata í Parísarborg og kölluð Rue de Rivoli; var illt að vera í húsunum og mannalát mikið. En með því að meira er komið undir einum kappa og miklum fyrirliða en undir höfuðlausum her, þótt mannmargr sé, þá tjáði ekki að horfa í slíkt, og ók Napóleon út að járnbrautinni, en tvö þúsund riddarar teymdu tröllkonurnar aptr heim og gáfu þeim í staupinu.

Úti við járnbrautina er salr mikill úr hvítagulli og þakinn með kristall. Í þeim sal var morgunverðr búinn keisarahjónunum. Napóleon gekk inn í salinn og leiddi Evgeníu; honum varð þá litið hvar Pelissier sat við borðið og var fullr. "Ertu strax orðinn fullr, Pelissier?" sagði Napóleon. "Nú, ég veit ekki," sagði Pelissier, "það er svo andskoti sterkt þetta konjakk hér, að það er engum manni drekkandi nema hann verði fullr." "Hvurnin ertu kominn hingað?" sagði Napóleon, "og hvur lítur nú eptir drengnum?" "Hann Thiers er með barnið," sagði Pelissier, "ég hljóp hingað eins og fætr toguðu og út fyrir alla borgina, svo ég skyldi ekki verða fyrir mannþrönginni, - og svo var ég dauðhræddr um að skessurnar mundu taka mig; ég hef beðið hér í tuttugu mínútur."

Napóleon og Evgenía settust nú á gullstóla með rauðum gimsteinarósum á; síðan gengu inn mörg hundruð riddarar með sínar frúr, þær voru allar í gullofnum silkikjólum og brakaði í um allan salinn; settust menn nú til borðs. Voru þar bornir fram hinir dýrustu réttir og allt hið besta, sem veröldin mátti veita; snjóhvítt skyr norðan úr Húnavatnssýslu, rjómi austan af Síðu; mjallhvítr skyrhákall vestan úr Svefneyjum og rengi norðan úr Bolungarvík; þar voru og glæný kríuegg í dúnskálum, svartbaksegg og æðaregg; þar var fram borinn tunglbjartr Kjósarostr og svo feit hangikjötsrif norðan úr Skagafirði, að þau ötuðu hnífana eins og skyrhákall; þar voru mysuostar norðan af Þelamörk, rauðir sem blóð og mjúkir sem meyjarbrjóst; fínasta hveitibrauð og skonrok frá Havsteen og gómsætt syltutöj frá Spanía; þar voru og appelsínur, perur, epli, plómur, rúsínur, sveskjur, gráfíkjur, bláber, krækiber og lúsamulningar. Margt var þar fleira matar, sem hér er eigi getið. Þar voru og hin dýrustu vín: sjampanje og ekta Kaupinhafnar kornbrennivín og Flensborgarbrennivín; sprit, schiedam og sjenever, og einirberjabrennivín, konjakk með gullslit og áfengt nokkuð; þar var og sherry og kirsuberjabrennivín og ótal aðrar brennivínstegundir. Napóleon skar stórt stykki af sauðarlæri austan úr Múlasýslu og lagði fyrir Evgeníu og mælti: "Fyrst skal frægri bjóða." Síðan drakk hann Pelissier til og sagði: "Það vitum vér, Pelissier, að þú ert eitt af vorum bestu sverðum, og því viljum vér drekka yðr til í klára konjakki og óska, að þér megið verða ófullr þegar vér sjáum yðr næst." Stóð Pelissier upp og þakkaði Napóleoni með mörgum fögrum orðum virðinguna; þetta var og í ræðu hans: "Það er ekkert að marka, þó ég hafi orðið fullr hér, því fjandinn má bíða tuttugu mínútur við borð, sem er fullt af ölföngum, og vera þurrbrjóstaðr; ég veit annars ekki til að ég hafi drukkið meir en tíu dramma, en konjakkið er sterkt, eins og allir sjá; nú þætti mér ekki ólíklegt, að af mér kynni að renna á meðan þér eruð burtu, og ég yrði ódrukkinn þegar þér komið aptr. Vil ég nú einnig hnýta hér við óskum bestu fyrir yðar herferð og að allt megi ganga yðr sem best, yðr til frægðar og frama, svo sem yðr er verðugt og oss æskilegt." Síðan drakk Pelissier út bikarinn og rann ofan um barkann.

Sátu menn nú nokkra stund og drukku og voru glaðir; furðaði alla á Napóleoni, því að hann talaði við hvern mann af mesta lítillæti og kyssti Evgeníu á milli, svo small í; urðu menn nú allvel drukknir.

Þá stóð Pelissier upp og tók í hönd sér stóran gullbikar, fullan af konjakki, og mælti: "Virðulegir herrar og frúr, leyfið mér að tala fáein orð, því vínið býðr mér að tala, en vínið er undirrót alls sannleika og leiðir það í ljós, sem í hjörtunum er falið, einkum ef menn drekka konjakk. Nú er það öllum kunnugt, að virðuligr herra Napóleon ætlar í Austrveg að berja tröll, og ætlar hann nú að yfirgefa sína frú og eftirskilja hana hér undir vorri vernd og umsjá, svo að vér sjáum um með henni og gætum alls hennar heiðrs og sóma, svo sem sæmiligum og dubbuðum riddurum ber, með aðstoð guðs hins hæsta. En með því nú yðr er öllum kunnugt, virðulegir herrar og frúr, að sá gressiligi fjárkláði, sem geisar á Íslandi og drepr allar kindur þar, hefr nú svo mjög gripið um sig, að liggr við almennum niðrskurði, þá er það náttúrlig afleiðing þessarar drepsóttar, að hér verðr kjötlítið í Frakklandi, hvers vegna vér megum öll búast við að saltfiskr verði hér útgengiligr og í háu verði. En það er öllum auðsætt, að það er eigi oss að kenna, þó hin háæruverðuga frú hljóti að gangast undir sömu kosti og þjóðin og borða fisk, svo ekki má það oss til niðrunar reikna. Og með því ég nú í morgun snemma hef fengið eitt skrif frá hinum nafnfræga lord Dufferin með loforði um herta kola og nokkur lýsipund af hörðum fiski, þeim er bestr kunni að fást á Spitsbergen, þá vonar mig að vér getum veitt drottningunni þá tilbreytingu í fiskiátinu, sem sé nægileg til þess að henni ekki leiðist það. Enn fremr, þar eð nú allt lítr út til stríðs og styrjaldar í Norðurálfunni, þá hefr lord Dufferin lofað mér að standa á horninu á Frakklandi, því, er að Dover snýr, til þess að banda með hendinni á móti Englendinginum, ef hann ætlar að ráðast á hafnir vorar og brenna föðrland vort, en sjálfr mun ég verða í París og láta þaðan útganga skipanir miðnefndarinnar um gjörvallt ríkið. Þar sem nú ágæti og frami hinnar háæruverðu frúr er svo mikill, eins og ég nú hef lýst og eins og þér allir megið skilja af þessum mínum orðum, þá væri það ófyrirgefanlegr dónaskapr af oss öllum, ef vér ekki drykkjum skál hennar með þeim óskum, að henni megi allt til vegs og gæfu ganga, og að hún megi í góðri gleði hjá oss una þar til hennar háæruverðugi bóndi kemr heim aptr úr Austrvegi."

Þannig mælti Pelissier, og varð háreysti mikil, því menn höfðu eigi gjörla skilið samanhengið ræðunnar; en minni drottningarinnar var drukkið af miklum fögnuði og gleði; var eigi laust við, að hlegið væri að Pelissier.

Síðan tók Evgenía upp gullbikar með sjampanie, því að hún drekkr aldri konjakk eda brennivín eða sherry, og stóð upp; hún var hýr í bragði og hóf brýrnar, en léttr roði flaug um kinnarnar, líkt eins og kvöldgeisla bregðr á liljuhjálm. Hún drakk brosandi til Pelissiers og mælti: "Nú er auðheyrt, að þér eruð fullr, Pelissier, og vona ég að þér gerið það fyrir mig að drekka ekki meira, því þér eruð í rauninni allra vænsti maðr, þó yðr þyki konjakkið gott. Mér hefr alla tíð líkað vel við yðr, og vil ég nú ennfremr votta yðr mína velþóknan og minn góðan hug til yðar. En jafnvel þó ég sé engin kind og enginn saltfiskr, og þó að mér komi ekki við neitt fjárkláðatal eðr saltfisksprísar, þá virði ég samt vilja yðar fyrir verkið, því í rauninni munuð þér hafa ætlað að hrósa mér, en þótt úr því yrði fjárkláðaprédikun og fiskiræða; sannast hér sem optar, að tungunni er það tamast, sem hjartanu er kærast, og fer yðr sem sumum þeim, er alltaf lifa í fjárkláða og saltfiski, svo að þegar þeim verðr illt, þá hugsa þeir að nú sé þeir búnir að fá fjárkláðann, eðr ef þeir tapa túmarki, þá dettr þeim í hug að slíkt muni hafa áhrif á saltfiskinn. Eins hefr nú hugsunarhætti yðrum verið varið í þetta sinn, Pelissier minn, en ég tek það allt fyrir góða vöru, og afsaka yðr með konjakkinu, sem hér mun vera í sterkara lagi eins og þér segið. Vil ég nú drekka skál yðar og mælast til, að þér megið öfluglega aðstoða oss í að stjórna þessu volduga ríki með ráð og dáð á meðan á þessari tröllabarsmíð stendr, og að þér megið lifa marga og ánægjusama daga á meðal vor allra."

Þá stóðu allir upp og greip hver það, er hann fyrst náði til, héldu þá sumir á sjampanieglösum, sumir á brennivínsstaupum, sumir á konjakksflöskum, sumir á vatnsglösum og vatnsflöskum, sumir á eplum, en sumir höfðu einn lúsamulning á milli fingranna, og er of langt að telja hér allt það, er menn héldu á, með því að borðið var alsett öllum veraldarinnar gæðum og nóg var til að grípa, voru menn glaðir mjög og þótti Evgeníu hafa farist vel orð; hringdu menn þá saman hákarlinum, kjötinu, ostinum, skyrinu, glösum, flöskum, eplum og lúsamulningum og mörgu öðru og drukku þar minni Pelissiers eða átu það af mikilli gleði. Varð Pelissier svo frá sér af þakklætistilfinningu, að hann grét og kom engu orði upp til að þakka drottningunni fyrir sig.

Þannig sátu menn nú að þessum morgunverði uns sól var komin í náttmálastað, og þótti þeim langt, er eigi sátu að veislunni, en hinum stutt, er hennar nutu, með því líka allir voru orðnir mjög drukknir, nema keisarahjónin. Þá stóð Napóleon upp og hélt snjalla ræðu, höfum vér eigi heyrt þá tölu og því megum vér eigi hana skrifa; en það er oss sagt, að hann kvaddi þar alla veislugesti og þakkaði þeim með mörgum fögrum orðum góða samveru og gleði, kvaðst hann mundi aptr koma sem skjótast, þá er hann hefði barið á tröllunum. Síðan gekk hann út með Evgeníu að gufuvagninum og nam þar staðar; þar kvaddi hann Evgeníu með kossi eigi alllitlum, og það segja stjörnumeistarar þeir, er við voru og reiknuðu út gang allra þessara hluta, að sá koss hafi verið jafnlangr og er frá Langanesi og til Hvarfs á Grænlandi. Þá grét Napóleon og þá grét Evgenía. Má það eigi furða, því að vér höfum eigi heyrt að nokkur kappi var sá, er aldri grét, og eigi grét Akkilles síðr en Napóleon. En með því að keisarahjónin unnust hugástum, þá þótti þeim mikið fyrir að skilja, og hyggjum vér að þeim hafi runnið til rifja fallvaltleiki mannligrar ævi, sem svo er á völtum grundvelli skipuð, að eigi má fyrir sjá; voru þau og bundin sannligri ást, en eigi stjórnligum kænleik.

Þá varð fyrirburðr: leiptr mikið í heiðríku lopti og örn í loptinu og hélt á öðrum erni klofnum eptir endilöngu; sá atburðr stóð alllengi og sáu allir, er við voru, og eru nóg vitni til að sanna þennan atburð. Urðu allir glaðir við þessa sýn, og þótti vænliga áhorfast, því merki Þjóðverjans er örn klofinn, en Frankland á ara heilan. Þá tók Napóleon upp vasaklútinn sinn; sá klútr var úr gullofnu liljusilki og stunginn á örn; Napóleon þerrði tárin af Evgeníu með klútnum og kyssti hana aptr og sagði: "Gráttu ekki, Evgenía, því hér mun allt vel ganga." Þá sagði Evgenía: "Nei, nú skulum við ekki gráta lengr, vertu nú sæll og gangi þér eins og ég ann þér."

Á meðan á veislunni stóð, var vagninn sendr heim, sem hjónin höfðu ekið í, en vagn Evgeníu var kominn í staðinn og beið eptir henni. Þessi vagn var ekki gerðr handa neinum öðrum en keisarafrúnni einni. Hann var allr úr liljulaufum og rósablöðum, og ofið í pellglit með ormagulli; vagnsætið var úr næturgaladúni, en vagnstöngin úr mánasilfri. Þar settist keisarafrúin og var á lopti í krínólínunni á dúnsætinu; hún lagði fæturna á fótaskör úr rauðagulli, en demantskórnir skinu á rauðagullsljómanum eins og stjörnur í norðrljósi.

Fimm páfuglar drógu vagninn; það voru fjórir páhanar og ein páhæna; hún fór fyrir og hafði kórónu á höfði, af því sú var kórónuð, sem í vagninum sat. Páhanarnir göluðu allir alla leiðina, og safnaðist fjöldi fugla utan um þetta til að sjá þessa dýrð; það voru mest hrafnar og gaukar og gerðu háreysti mikla. Svo mikill vindr varð af páahölunum, að fólkið fauk eins og hráviði af allri götunni þar sem vagninn ók, og var engum fært að nálgast hann; kenndu menn þetta gjörningum, þar sem svo mikið kvað að þessu, að margir urðu að fleygja sér marflötum til þess að fjúka eigi á burtu, og helst kvenfólk, því vindrinn stóð fast í pilsin; en sumir héldu sér í húsagrindr eðr í járnkróka, er á húsunum voru, og lá við skemmdum. En það segja vitrir menn, og það hyggjum vér sannara, að guðdómligr kraptr fylgdi vagninum. En þessi vagn var svo til Franklands kominn, að keisarinn af Blálandi fór einhverju sinni á dýraveiðar með riddurum sínum og fann töfrahöll; hann braut hallina, því að hann hafði þann hring á hendi, er átt hafði Salómon Jórsalakonungr; því fingrgulli fylgdi sú náttúra, að það mátti öllu uppljúka og öllu læsa; var engi slagbrandr svo sterkr, að eigi hrykki upp, ef snortinn var meðr innsigli Salómons, er á var fingrgullinu. Keisarinn braut hallina þann veg, að hann snart dyrnar með innsigli Salómons, og spruttu þegar upp allar hurðir. Þar fann keisarinn mey fagra; hún sat á silfrstóli og hafði hár mikið og var sem á gull sæi og harðreyrt við stólbrúðirnar. Keisarinn leysti meyna, en hún vísaði honum á allar gersimar þær, er í höllinni voru; var vagninn einn þeirra; en páarnir drógu vagninn heim til Blálandshallar og runnu lopt og lög. Bók lá í vagninum, og það sögðu vitrir menn, er bókina kunnu að lesa, að þetta var skemmtivagn Brama Indíaguðs og gerðr af hafmeyjum vestr að Singasteini; þar segja menn sól til hvílu ganga á kvöldum. En Blálandskeisari varð svo glaðr yfir fegrð meyjarinnar, að hann gekk að eiga hana; en hún sendi Evgeníu vagninn, því að þær urðu báðar keisarafrúr sama daginn. Þannig ók Evgenía heim og gekk til hvíldar í gullsæng.

En Napóleon steig upp í gufuvagninn. Hann var allt öðruvísi en drottningarvagninn, því hann var eins og aðrir gufuvagnar, nema meiri og fegri; þar voru í vagninum herbergi mörg og allr húsbúnaðr. Þar var eigi kynt kolum, svo kolalyktin skyldi eigi ónáða keisarann, heldr var þar kynt sedrusviði frá Libanon, rósatrjám og reykelsi frá Arabía; gengu þar upp á hverri klukkustund sex miklar sedruseikur og voru rótartré, fimm hundruð vættir af rótartrjám og tvö þúsund lýsipund af reykelsi, og því hyggjum vér þessa hluti nú eigi lengr fást. Napóleon tók landabréf og horfði á um stund; síðan gætti hann að, hvar stjarna var komin; hún var þá í hádegisstað, og þá skipaði Napóleon að halda af stað. En vagninn hvein og rauk yfir lög og láð sem vindr færi.


3. kapítuli

breyta

Í þann tíma andaðist Ferdínandr konungr af Napólí. Þá kom eldr upp í Vesúvíusfjalli og sást djöflar í eldinum; sáu það margir menn. Þá varð landskjálfti svo mikill, að borgir hrundu, en konur margar urðu svo hræddar, að þær hlupu á sjó út og drekktu sér. Þá gekk Kirjalax keisari aptr í Miklagarði og gekk um borgarstrætin um hábjartan dag, og voru menn óttaslegnir mjög. Þá varð Miklagarðskeisari svo penningalauss, að hann átti ekki einn skilding. Sást norðrljós í Róma og fyrirburðr í ljósinu; það var maðr mikill og brynjaðr frá hvirfli til ilja; hann reið eldrauðum hesti og hafði spjót í hægri hendi, og lagði spjótinu fram á milli eyrna hestinum; en í vinstri hendi hafði hann brennivínsflösku og sáði brennivíninu út yfir borgina; urðu klerkar fullir mjög af því. Þá lét herra páfinn boð út ganga til allra biskupa og kardínála, að biðja skyldi í öllum kirkjum fyrir friði, og var því sumstaðar hlýtt; en þó þótti mönnum sem heldr mundi fást stríð, ef um væri beðið, eða jafnvel þótt eigi væri um beðið, eftir því sem þá horfðist til. Þá var Eirekr af Pommern löngu andaðr og búið að drepa Hólófernes; það gerði Júdit.

Var nú hreyfing mikil í Norðrhálfunni út af stríðinu, og haft í munnmælgi ýmislegt um hversu fara mundi. Flýttu Danir sér sem skjótast að senda legáta víðs vegar til þess að segja að þeir væri ekki með neinum, því þeir vissu enn eigi, hverjum mundi betr ganga, en vildu víst þar vera, sem von var. Danir eru drengir góðir og vinfastir. Á Danmörku eru fegrstir skógar í Norðrhálfu.

En sumir mæltu, að Bretar mundu stoða Austrríki, ef þar gengi miðr, en að Rússakeisari mundi snúast í lið með Napóleoni, ef hann þyrfti. Sáu menn nú eigi annað fyrir en almenna styrjöld, og urðu spell mikil í allri kaupverslun og siðum manna. Þá varð skóleðr svo dýrt, að allir menn í Parísarborg urðu að ganga berfættir, konur sem karlar, því að enginn fékk á fætrna, þar sem allt leðr var tekið handa herliðinu til að stríða; en klæði og silki varð eigi selt, svo að kaupmenn gáfu aleigu sína til þess að menn skyldi kaupa það af þeim og fóru á höfuðið hrönnum saman. Þá komust margir úr skuldum, er setið höfðu í súpunni upp í axlir alla sína ævi og gekk allt öndvert. Þá varð einn förukall í Parísarborg svo ríkr, að hann keypti Sikiley og lét forgylla alla eyna; þá varð Etna svo fögr að sjá, að sjómenn hugðu það vera eldsloga brennanda, þeir er eigi höfðu haft fréttir af þessum hlut. Þá var mörgu logið. Þá andaðist Yeh grimmi í Kalkútta, og iðraðist þess mest, að hann hafði eigi látið drepa eðr pína alla kristna menn. Þá andaðist Alexander Húmbolt í Berlín; hann er nefndr í Klaustrpóstinum. Hann var aldri við kvenmann kenndr, og eru slíkt eindæmi í þessari tíð. Þá þuldi drottningin af Darmstadt alla Krukksspá upp úr sér í svefni, og mátti þar margt nýstárligt heyra. Þá var goldið jafnmikið flutningskaup fyrir fáein blöð af einu ári af Norðra frá Íslandi til Danmerkr eins og allr Norðri kostar um hálfan annan mannsaldr; kind fæddist með tíu hölum norðr í Þistilfirði. Þá varð þjófnaðr í Portúgallía meðr undarligu móti: stolið frá öllum þeim, er ekkert áttu, en engu frá hinum, er auðugir voru; urðu ríkir menn svo hræddir, að þeir gáfu ógrynni fjár til kirkna og klaustra fyrir sálum sínum, svo munkar gerðu sukk mikið og svall í klaustrunum fyrir þá penninga; en því gerðu hinir ríku menn þenna hlut, að þeim datt í hug, að þessi býsn mundi vera á sömu rótum byggð og hringrinn Pólýkrates; en sú saga er þannig, að maðr hét Pólýkrates, hann bjó á Krít; þar var Júpíter konungr endr fyrir löngu. Pólýkrates var maðr auðigr; hann kastaði hring á sæinn og sagði það skyldi vera fórn handa Neptúnó sævardrottni, en sjómaðr fann hringinn litlu eptir í fiskjarmaga og færði Pólýkrates; en allir urðu forviða og sá að hann var í óvild guðsins, og að gjöf hans var aptrreka gerð; og slíkt hið sama héldu ríkismenn í Portúgallía um sjálfa sig; en eigi er þess getið, að gull þeirra og silfr rynni til þeirra aptr, og urðu allir bláfátækir eins og Repp, er Þjóðólfr sagði að eigi hefði getað látið grafa sig í Danmörk.

Þá urðu og þau tíðindi, að fjöldi fátækra manna dó í Spanía og urðu þeir ekki grafnir þar fyrir fátækt, svo að þeir voru allir fluttir á þiljubátum frá Bilbaó til Íslands og jarðaðir fyrir ekkert í Ódáðahrauni. Þá komu tíu tröllskessur norðan af Jamtalandi og ætluðu að ganga suðr til Róms; þær ætluðu að vaða Miðjarðarsjó frá Marselju til Lívornó, en drukknuðu allar, og ráku skrokkarnir upp á Korsíka; þá varð daun svo illr, að allt fólk stökk suðr á Sardiníu, nema einn smali; hann sitr yfir kindum í Kalvi; sá bær er vestan til á eynni. Þá komu pílagrímar frá Mekka, og sögðu að stjarna væri sén í landnorðri frá Jemen, er Kómeta heitir; hún hafði tíu hala og kleppr mikill austr af; hún fór öfugt og stefndi á tunglið. Þá óðu Tartarar suðr í Birma og brenndu og brældu, drápu alla, en gerðu sig alla að keisurum. Þá varð Indíaflói allr blár í heiðríku lopti og leið yfir alla kaupmenn í Kalkútta. Þá komu Skrælingjar norðan frá Kamsjatka og sögðu að Franklín væri á leiðinni frá Húðsonsflóa, en það var lygi; þá varð kona Franklíns svo glöð að hún hljóp suðr á Tyrkland og svamm á krínólínunni yfir Svartahafið og yfir til Kolkis; þar hitti hún Medeu dóttur Eetes konungs; þær glímdu og lauk svo, að maddama Franklín drekkti Medeu í Fasisá og var nær því drukknuð sjálf, því áin er gull rennanda og straumhörð. Þá kom keisarinn af Móngolía austr í Afganistan og fann þar Persíakeisara; kysstust keisararnir svo fast, að þeir sáluðust báðir, og var ekki eptir ein tönn í þeirra munni; voru þeir grafnir báðir saman í Persepólis með mikilli dýrð. Þá hló kammerráð fyrir vestan svo hátt, að hvalir hlupu á land í Trékyllisvík.

Margt varð fleira tíðinda, er fáheyrð eru, og eru slíkt engin undr, þótt svo kunni að verða fyrir miklum atburðum; höfum vér lítið eitt upptalið af því, sem ritað finnst í annálum, og ekki getið um blóðrigningar og slíka fyrirburði, því það yrði of langt upp að telja; munum vér nú heldr snúa aptr til sögunnar og sjá hvað gerðist af hinni ógrligu styrjöld, er upp var komin í heiminum.


4. kapítuli

breyta

Nú sem Austrríkiskeisari heyrir herbresti og tröllkvennalæti vestr í heim, þá hyggr hann sem var, að Napóleon muni eigi láta við svo búið standa, og sér nú að eigi er til setu boðið. Lætr hann nú spenna tuttugu gráa alifola fyrir einn mikinn vagn; sá vagn hafði verið sóktr í sel norðr í Bæheim; síðan bauð hann ráðgjafa sínum að stíga á vagninn og sækja Metternich. Metternich er dvergr að vexti og viti; hann er gamall og grár fyrir hærum og hefr lifað allar umbyltingar Norðrhálfu frá Cæsar. Hann býr í fjalli því, er Jóhannesarbjarg heitir; það fjall er alvaxið vínviði og kemr þaðan enginn ófullr nema Metternich.

Fór ráðgjafinn nú af stað og drógu folarnir vagninn knáliga; þar var engin á eðr sjór að eigi mætti þeir yfir komast; þeir stukku af einum fjallstindinum á annan og stikluðu á kirkjuturnum yfir fen og foræði; og svo ferlega tóku þeir í vagninn, þegar þeir fóru frá Vínarborg, að allir aktaumar slitnuðu, en þeir runnu engu að síður í réttri röð og vagninn á eptir, þótt hann væri laus, svo var ferðin mikil. Nú námu þeir ekki staðar fyrr en við Jóhannesarbjarg; þar rakst vagninn svo fast á bergið, að hann brotnaði í smámola, en ráðgjafinn datt ofan og gekk úr hálsliðunum. Metternich kom þegar út, er hann heyrði þenna skruðning, og sá þegar hvað um var að vera: folarnir löðrandi, vagninn molaðr, ráðgjafinn hálsbrotnaðr, skilmálalaust. Vissi Metternich af forvisku sinni, hvernig á öllu stóð; hann þekkti og gullkrossana á ráðgjafanum. Þá stundi Metternich og mælti: "Nú eru vandræði í Vínarborg." Síðan gekk hann inn.

Ráðskonu hafði Metternich, er Guðríðr hét; hún var ættuð norðan úr Finnmörk og hafði Metternich keypt hana í skreiðarferð. Hann mælti þá við Guðríði: "Fá mér vaxspjöld mín, Gudda." Hún gerði svo; settist Metternich nú á rúmstokkinn og reist rúnir á vaxspjöldin; lék hann sér síðan að þeim um hríð. "Ekki veit ég, hversu viðrar," mælti Metternich, "og hafi tröll ykkr, spjöld, aldri hafið þið brugðist mér fyrr."

Þá tók Metternich krókstaf og vöttu og reið gandreið til Vínarborgar; var það drykklöng stund. Sól var í miðsmorgunsstað, þegar Metternich kom til Vínar, og var keisarinn að taka litla skattinn. Metternich gekk inn óboðinn, því að hann var virktavinr keisarans. "Nú, komið þér sælir, Metternich," sagði Jóseppr. "Sælir verið þér," sagði Metternich. "Hvar er ráðgjafinn minn með gullkrossana?" mælti Jóseppr. "Ekki sjáið þér hann aptr," sagði Metternich, "því hann er hálsbrotnaðr." "Það er leiðinlegt," mælti Jóseppr, "en það er hið sama, þegar ég hef þig; vilt' ekki í staupinu, Metternich?" "O, það held ég," sagði Metternich, "er gott brennivínið hjá yðr núna, Jóseppr minn?" "Já, það er ekki svo bölvað," sagði keisarinn, "ég fékk það uppá krít í Firðinum, því nú eru engir penningar til." "Mig grunaði þetta," sagði Metternich og kýldi niðr stóran brennivínssopa úr tinstaupinu keisarans, því ekkert annað staup var á borðinu.

"Hafið þér hvergi reynt að fá penninga?" sagði Metternich. "Jú," sagði Jóseppr, "ég fór austr í Miklagarð og ætlaði að drífa upp hjá soldáninum þar, en hann sýndi mér eitt mark, sem hann átti; hann tók það upp úr vestisvasa sínum og sagði ég skyldi eiga, og sór sig norðr og niðr uppá að hann ætti ekki einn einasta skilding í sinni eigu þar fyrir utan, og þetta mark skuldaði hann á einhvurri kneipu fyrir brennivín, so ég gat ekki fengið af mér að taka viðr markinu, svo að soldáninn yrði eigi með öllu knekkaðr, rúinéraðr og demóralíséraðr." "Ja, hér eru góð ráð dýr," sagði Metternich, "nú skulum við fara báðir norðr í Reiðgotaland, og sjá hvað í gerist."

En svo var Metternich mikið tryggðatröll, að Jóseppr tvílaði eigi uppá hans krapt og visku; heldr bjó hann sig þegar til ferðarinnar sem best hann mátti, með nesti og nýja skó, og sendi boð út um allt sitt ríki, að nú ætlaði hann norðr í Reiðgotaland; það er svo langt, að haukr flýgr þangað á mánuði, en hann er skjótastr fugla. Þá sendi erkibiskupinn af Prag Jóseppi vaxkerti, tíu pund, og kvað kvikna mundi á kertinu ef upp væri haldið; varð Metternich glaðr við, og kvað það forvitrliga gefið.

Gengu þeir nú út á hlað; þá tók Metternich upp snýtuklút úr vasa sínum, bládröfnóttan léreptsklút, og tóbakugan; hann breiddi klútinn á hlaðvarpann og gekk þrívegis rangsælis í kringum klútinn; síðan tók hann dupt úr pússi sínum og dreifði í suðrátt. Þá steig Metternich á klútshornið og bauð Jóseppi að stíga á annað horn; gerði Jóseppr svo; þá kom gustr mikill af suðri og hóf upp snýtuklútinn og Metternich og keisarann og liðu þeir þannig hálfan daginn, þá mælti Jóseppr: "Ráðigr ertu, Metternich, eðr hvert er nú langt til tungslins?" "langt er það," sagði Metternich, "og hærra lypti Þórr kettinun en nú erum við; en nú er ég svangr og þyrstr, Jóseppr minn, og erum við nú hálfnaðir norðr í Reiðgotaland." "Þá skulum við snæða," sagði Jóseppr, og mötuðust þeir Metternich þar á snýtuklútnum uppi yfir skýjum, en klútrinn leið áfram, og segir eigi af ferð þeirra fyrr en þeir komu í Reiðgotaland. Þar sé klútrinn niðr í einum skógi; þar var rjóðr í skóginum og haugr í rjóðrinu; þangað gengu þeir.

Þá mælti Metternich: "Hér er heygðr Fúlvarðr hinn fólkdjarfi; skuluð þér nú fara í hauginn." Jóseppr mælti: "Það kann ég eigi að skilja, hversu hér megi nokkurr kappi heygðr vera, því að mér sýnist þetta líkra mykjuhaugi en fornmannshaugi." "Gerið sem ég segi fyrir," mælti Metternich, "og látið það eigi blekkja yðr, þótt haugrinn sé fallinn og fornfáligr; liggr hér heiðr yðvarr og sómi; skuluð þér nú fara í hauginn, en ég mun halda festinni." "Svíktu mig þá ekki, Metternich," mælti Jóseppr. "Það mun ég eigi gera," sagði Metternich.

Tók Jóseppr nú að brjóta hauginn og var að því fram á nótt, en Metternich sat hjá og horfði í gaupnir sér. Fékk hann um síðir brotið hauginn; þá stóð Metternich upp og batt snýtuklútnum um mittið á keisaranum, en sú var náttúra snýtuklútsins, að alltaf tognaði á honum, svo að hann varð aldrei of stuttr, og aldri slitnaði hann. En klútrinn var reyndar dula af fjötrinum Gleipni, og hafði Fenrisúlfr slitið hana af, en Metternich náði dulunni einu sinni með lífsháska, því að við sjálft lá, að úlfrinn gleypti hann.

Keisarinn seig nú í hauginn og hafði kertið í hendinni; seig hann nú lengi og alltaf dýpra og dýpra, og fór um síðir að verða hræddr, því hann kenndi aldrei botns. Loksins hafði hann fætr á jörðu, og litaðist nú um. Ljós brann í hauginum; þar var bæði fúlt og kalt. Þar stóð stóll í miðjum hauginum; sá stóll var allr af gulli, og lagðr með grásilfri, en stólbrúðirnar úr ametýststeini; sá steinn læknar tunglsýki. Á stólinum sat dólgr mikill og illúðligr; hann hafði sverð í hægri hendi og skók blóðrefilinn, svo að blikaði viðr ljósið; en í vinstri hendi hélt hann á tóbakspípu og reykti af svo ógrliga, að svæluna lagði um allan hauginn; varð af því skuggsýnt í hauginum og mátti keisarinn eigi gjörla greina þá hluti, er þar voru.

Dólgrinn leit til keisarans og ýgldi sig; keisarinn gekk að honum og kvaddi hann. "Veit ég eigi gjörla," mælti hann, "hví eg em hingað kominn; en svo er mér sagt, að hér sé falinn frami minn og sómi; vil ég nú vita, hvort þú kannt þar nokkur skil á að gjöra."

Engu svaraði dólgrinn.

"Óvanur er ég því, að mér sé eigi ansað," mælti Jóseppr, og tók um úlnliðinn á dólginum þeirrar handar, er sverðsins geymdi; varð dólginum þá laust sverðið og féll það niðr, en blóð spratt undan neglum hans. Hann reisti sig þá upp af stólnum og andvarpaði þungan; síðan sté hann fram og voru þá eigi orð um höfð, því að þar tóku þeir saman, draugrinn og keisarinn, og varð þegar harðr atgangr: óð dólgrinn jörðina upp að knjám og rótaði upp steingólfinu eins og krapasnjó; hann spjó svo illri fýlu út úr nösum og munni, að keisaranum lá við óviti; glímdu þeir svo lengi og var allt sem á þræði léki; steinmúrarnir gengu í bylgjum eins og grindahjallr fyrir aftaka veðri; gekk þetta þar til keisaranum lá við að hníga niðr af mæði.

Barst leikrinn nú að ljósinu, og fann keisarinn glöggliga, að af sér dró; hét hann þá á hinn heilaga Dúlikíkanus, en þar urðu þegar skjót umskipti, því að þá var sem kippt væri fótum undan dólginum og féll hann og keisarinn á hann ofan; en þá tók eigi betra við; því að af þeim gusti sem þá varð, þá slokknaði ljósið; þótti keisaranum nú vandast sitt mál, því að hann var bæði vopnlaus og kertislaus, er hann hafði misst allt í glímu þessari. Varð honum þá fyrir að hann hreyfði fótinn, og fann hann eitthvað fyrir fætinum; hann seildist þá til meðr hendinni, en hinni annarri hendinni hélt hann um háls drauginum. Var þetta kertið, og brá hann því þegar á lopt, en það kviknaði ekki á því. Varð keisarinn þá bæði hryggr og reiðr, er þetta brást; og þá gaus upp gneistaflug af ljósinu aptr og kastaði helbjarma á dólginn, en hann hvessti augun feigðarsnör framan í keisarann og mælti: "Nú hefir þú hér mikinn kappa að velli lagt, sem hans jafningi mun engi héðan af finnast fyri mold ofan; hefir þú hingað komið að mér saklausum og rænst eptir fé mínu og fjörvi; mun ég nú það á leggja, að þetta fé skal þér að engu haldi koma til þess er þú ætlar það að hafa."

Draugrinn ætlaði að mæla enn lengra, en keisarinn mælti með hárri röddu: "Þegi þú, hinn armi herjans son, aldri skaltu það á mig leggja, sem þér er helst í hug, og víst skil ég, að meiri muni vera hamingja mín en fúlmennska þín, skaltu hér nú deyja illum og vegsemdarlausum dauða". Síðan rak hann kertið á kaf í gin drauginum, svo hann kafnaði þegar í stað; þá slokknaði aptr geislagusan. En keisarinn leið í ómegin og lá lengi svo, að hann vissi eigi af sér. En er hann raknaði við, þá reis hann upp, og var ákafliga stirðr af atganginum; þreifandi myrkr var í hauginum, en það skildi keisarinn, að þar mundi margt fémætt vera. Lítill gneisti var enn þar, sem ljósið hafði brunnið; þangað gekk keisarinn og leitaðist við að blása upp ljósið; gekk það seint.

Þá kallaði Metternich niðr í hauginn og mælti: "Hvaða skelfing eruð þér lengi, keisari góðr, eða hefir draugrinn drepið yðr?" "Nei", sagði keisarinn, "en ég er búinn að drepa drauginn; hér er koldimmt af því að ljósið drapst, og ég er að blása það upp". "Nú, en kertið?" sagði Metternich. "Það er hreint ónýtt", sagði keisarinn, "það kviknaði ekki á því". "Það er fallegt!" sagði Metternich.

Nú blés keisarinn í gríð, og gat loksins kveikt upp ljósið; bar hann það að dólginum; hann tók upp sverðið og hjó höfuð af drauginum og setti við þjó honum; síðan bar hann ljósið að skrokknum og kviknaði skjótt á, því að dólgrinn var feitr, þar sem hann hafði setið þarna í mörg hundruð ár og eigi tekið handtak.

Gekk nú keisarinn um í hauginum á meðan dólgrinn var að brenna, og bar í festina allt það, er fémætt var; var það ógrynni fjár, svo að hann hafði aldri fyrri slíkt séð um sína daga. Þar var hafskip úr rauðagulli og kista meðr spesíum í; þar voru og fimmtíu sjóvettlingar órónir og troðnir út meðr túmörkum; allt þetta bar keisarinn í festina og gullstólinn með, og margt fleira; var draugrinn þá nærri allr brunninn.

Þá kallaði keisarinn til Metternichs og bað hann upp draga festina. "Það get ég meðr engu móti", sagði Metternich, "því að nú er ég orðinn bæði þreyttr og svangr, og er mér líka farið að leiðast að sitja hér". "Þá verðurðu að halda vel", sagði keisarinn, "því að ég ætla að handstyrkja mig upp á festinni". "Bíðið þér þá dálítið", sagði Metternich, og batt festinni um mitti sér, og velti sér ofan af hauginum og lá þar eins og stjóri. "Nú megið þér koma", kallaði Metternich þá. Þá handstyrkti keisarinn sig upp á festinni, og dró síðan upp allt féð. Síðan báru þeir allt á snýtuklútinn, en hann óx og varð stærri en flugdrekavængir, því féð var mikið; hurfu þeir þá á snýtuklútnum aptr til Vínarborgar. Þakkaði keisarinn þá Metternich sína dyggiliga þjónustu, og gaf honum túmark með gati á.

En er erkibiskupinn frétti, hvað illa hafði til tekist með kertið, þá sendi hann afsakanarboð til keisarans, og kvaðst hafa gleymt að vígja það. Var Metternich nú með keisaranum í góðu yfirlæti; hafði keisarinn nú penninga eins og sand.


5. kapítuli

breyta

Nú er að víkja sögunni aptr til Napóleons. Vagninn rauk áfram alla nóttina og var eldrák eptir ferilinn, en blossinn reið áfram eins og vígahnöttr, svo sást langar leiðir. Hann dró tuttugu hundruð vagna, og alla fulla af hermönnum; það lið var svo frítt, að menn þóttust eigi slíkt muna; enda var þar og engi, sá er eigi hefði vopn úr liði hinna frægustu kappa, er uppi hafa verið; þar voru búklarar frá Sesostris, brynjur frá Semiramis, skildir frá Alexander, spjót frá Cæsar, brynhosur frá Hannibal, sverð frá Karlamagnúsi, hjálmar frá Gengiskan, stálhúfur frá Epaminondas og bryntröll frá Ragnari loðbrók.

Létti Napóleon eigi ferð sinni fyrr en hann kom til Marselju; þaðan sigldi hann með herinn til Genúa. En sá floti var meðr þeim hætti, að það voru tólf hundruð skipa; þar var og skip, er Napóleon sigldi ætíð sjálfr á, og var fremr skrautligt á að líta; það var dreki; hann var steindr fyrir ofan sjó, með hinum fegurstu litum; var það líkara himneskum eldi en jarðneskum farfa, því að sólarljóminn lék á súðunum meðr svo margvísligu ljósbliki, að eigi má orðum um fara; þar var hver rá af hvítagulli og húnar af rúbínsteini loganda; siglutrén voru af dripthvítum marmara og knappar á uppi af smaragdus; drekahöfuð úr gulli var framan á skipinu, og greypt í meðr safírsteinum; það drekahöfuð hafði gin gapanda og spjó döggskæru og perlustíganda kampavíni óaflátanliga. Allir voru þar hástokkar og rengur úr rauðagulli, en bönd úr kínversku fiðrildasilki og snúin af mikilli list, stjórnvölrinn var úr snjóhvítum hvalskjálka norðan frá heimskauti; þann hval hafði Dufferin drepið og gefið Napóleoni hausinn; þeim stjórnveli hélt Napóleon sjálfr, og mátti enginn annar á honum taka; sá stjórnvölr var svo liðugr, að hann lék ef á var andað. Öll segl voru af páasilki og glitofin meðr eldrauðum fasandúni; þar stóð nafn Napóleons á hverju segli, og hafði Evgenía saumað það einn góðan veðrdag í hlaðbrekkunni fyrir framan Parísarborg. Hörpur stilltar héngu í reiðanum uppi og sungu sjálfkrafa fyrir andvaranum, er skipið skreið. Svo voru og öll hin önnur skipin fagrliga búin, þótt eigi væru þau svo listileg sem keisaraskipið, og luku allir upp einum munni, að þetta væri hinn fríðasti floti, er sæ hefði svifið.

Létu nú öll skipin frá landi; veðr var glatt og sólskin mikið, og blánaði sjórinn fyrir léttri hafrænu, en aldan stikaði purpurarauð og nýmjólkurvolg frá Affríkuströnd og minntist við brjóstið á keisaraskipinu. Þá var hýrt yfir Napóleoni. Skriðu nú skipin áfram í þrefaldri röð og sást eigi fyrir endann á röðinni; en er fjöll voru komin í hvarf, þá komu tólf hafmeyjasveimar sunnan frá Sikiley; þær voru fríðar sýnum meðr kolsvört augu og svanhvítar á hörund; þær höfðu gullhörpur og sungu við, en öldufallið undan skipunum drundi dimmt undir, var það því líkast sem svanasöngr í þrumuhljóði; þær kváðu um Napóleon, og höfum vér heyrt þann söng, en eigi er hann ritaðr hér; svámu hafmeyjarnar með flotanum fram alla leið, uns hann kom til Genúa; þá voru allir menn sofnaðir af söngnum, nema Napóleon.

Sá maðr var í liði Napóleons, er Edmond hét; hann var akólútus að vígslu, og hafði ritið bók nokkura um Norðrlönd; segja menn að það sé sú vitlausasta bók, er ritin hefir verið á þessari öld, af öllum þeim bókum, er sannleikann vilja segja. Þessa bók hafði Edmond alla jafna meðr sér og las í henni einatt; en á nóttum hafði hann hana undir höfðalaginu, eins og Alexander gerði við Hómerum; en eigi höfum vér heyrt þess getið, að Napóleon hafi haft mætr á þeirri bók.

Keisarinn gekk til Edmonds og vakti hann, og bauð honum að vekja liðið; reis Edmond upp og hafði bókina í fanginu, og snart menn með bókinni; en menn stukku upp meðr andfælum, sem von var, því bókin var ill. Ætlaði Edmond þá að ganga yfir á annað skip, en datt í sjóinn meðr bókina í fanginu. Vindr stóð sunnan frá Túnis allsnarpr, en þó var brimlítið; vildi nú svo til, þegar Edmond féll, að bókin varð þyngri, þó vitlaus væri, en Edmond var þó enn vitlausari sjálfr, og var því léttari; varð nú bókin undir, en Edmond ofan á, og bar hann þannig að landi á bókinni, en hann kraflaði upp á klappirnar í Genúa og fór inn á gestgjafahús til að þurrka bókina.

Tóku þá þeir við, er vaknaðir voru, og vöktu hina, sem sváfu. En er allir voru vaknaðir, þá gengu þeir í land og Napóleon fyrir, og upp í borgina; var þar þá kominn einn mikils háttar konungr frá Sardinía, er Viktor Emanúel hét, og bauð Napóleoni að þiggja að sér veislu, og það þá Napóleon. Gengu nú allir heim til einnar fagurrar hallar, er í var borginni.

Frænda átti Napóleon þar í liðinu; sá hét og Napóleon; hann var kappi mikill, og þá ungr að aldri, er þessi saga gerðist.

Komu menn nú til hallarinnar, hún var öll tjölduð dýrasta pelli og purpura; þar voru nýstárliga herbergi búin, því að þar stóðu súlnaraðir úr jökli ofan úr Mundíafjöllum og skærar sem steinn sá, er alabastr heitir; lagði jökulkuldann af súlunum um höllina, og því var langeldum kynt á hallargólfinu; þar var ekki brennt öðru en tómum Fenixhreiðrum og var sá ilmr í sætara lagi. Borð löng voru í höllinni, og þakin svanahömum norðan af Bláskógaheiði; þá svani hafði Koch stórkaupmaðr sent Viktor Emanúel í vináttuskyni, og skírt eptir honum skip, er hann átti; þótti Viktori vænt um það allt. En síðan tók Koch nafnið af skipinu og kallaði Arktúrus, og þá reiddist Viktor. Voru borðin alsett hinum dýrustu krásum, en vínið glóaði í gullbikurunum og hvítagullshornunum, eins og eldr á ormadúni. Þar fyrir miðjunni voru þrír hástólar úr gulli, en hinn fjórði var úr þeim steini, er karbúnkúlus heitir; sá steinn er rauðr eins og járn glóanda, en svalr sem austanblær. Settust þeir nú á gullstólana Napóleonarnir báðir og Viktor Emanúel, en karbúnkúlusstóllinn var auðr. Svo var Napóleon kurteis, að eigi spurði hann hverr þar skyldi sitja. En öllu liðinu var skipað á silfrstóla beggja megin viðr borðin.

En er menn voru nýsestir, þá gengu inn fimm hundruð meyjar í snjóhvítum silkifötum með bláum földum neðst; skrúfstigi var utan til í höllinni úr gulli og silfrpallr uppi yfir meðr gullgrindum í kring; þar gengu meyjarnar upp og settust á kristallstóla, er stóðu á pallinum; þar stóðu gullhörpur, en meyjarnar snertu hörpurnar og sungu fagran söng um Napóleon. Vængjahurðir úr gulli voru á höllinni, og settar listilegum laufaskurði. En er meyjarnar höfðu lokið söngnum, þá flugu gullhurðirnar upp og gekk mær ein inn í höllina; sú mær var svo fögr, að öllum varð bilt við, er að veislunni sátu. Þeirri mey fylgdu hundrað frúr; þær voru allar á rauðum silkikjólum meðr gullrósum. En sú, er fyrst gekk, var í bláum kjól meðr silfrbylgjum og sló á eldrauðum bjarma; hún hafði fingrgull á hverjum fingri; þar var einn steinn svo bjartr, að lýsti af sem af stjörnu; gullfesti hafði hún um hálsinn fimmtánfalda og men á úr gimsteini þeim, er hafsól er kallaðr, en heitir á latínu haliopthalmus; hálsinn meyjarinnar var svo mjallahvítr og svo mjúkr, að það sást, þótt enginn snerti; hár hafði hún greitt á þann hátt, sem rósalauf liggja um það leyti, er blómknapprinn springr upp, og heitir það rósbragð, er hár meyja er þann veg bundið. Hún hafði hanska úr dvergsilki, og skó úr svanahami.

Meyjan gekk að Viktor Emanúel og kvaddi hann meðr kossi, og kallaði hann föðr sinn; síðan hneigði hún sig af mikilli kurteisi fyrir keisaranum og keisarafrændanum, og slíkt hið sama gerðu allar hennar þjónustufrúr. Síðan settist konungsdóttirin á karbúnkúlusstólinn, en hinar meyjarnar stóðu í hálfhring fyrir innan gullstólana.

Og er Napóleon keisarafrændi sá þessa konu, þá hvíslaði hann að Napóleoni keisara: "Það sver ég, að ég skal þessa konu eiga, eðr enga að öðrum kosti". "Gerðu það", hvíslaði keisarinn að honum aptr.

Eirði Napóleon keisarafrændi nú hvorki mat né drykk, og gáði hann einskis annars en að horfa á Klótildi; svo hét konungsdóttirin.

En sem Viktor Emanúel varð þess var, þá sá hann hverju gegna mundi, og stóð upp og mælti: "Það hyggjum vér, að þér rennið ástaraugum til þessarar meyjar, Napóleon keisarafrændi, og ef svo er, þá viljum vér yðr hana gefa og skulu henni allar hennar frúr fylgja og þar með vinátta vor til alls þess, er þér hafa viljið".

Þá stóð Napóleon keisarafrændi upp og mælti: "Það vissi ég fyrir löngu, að ég mundi eigi hingað sorg sækja, og vil ég gjarna þiggja af yðr meyna, ef þér viljið mér hana gefa". Þá tók Viktor Emanúel í hönd Klótildi og leiddi hana til Napóleons og lagði hendr þeirra saman; og þar kyssti Napóleon keisarafrændi Klótildi konungsdóttur af miklum blíðskap. Var nú veislunni snúið upp í brullaup, og var meiri gleði en frá megi segja; drukkið píment og klarent og sungið simfon og salteríum, organ troðin og bumbur barðar og var allt sem á þræði léki.

En er á leið veisluna, þá kom Edmond inn og var allr votr; hann hafði bókina undir hendinni og hafði þurrkað bókina, en gleymt að þurrka sjálfan sig; varð hann ófrýniligr í bragði, er hann sá að hann hafði farið á mis við mikla gleði, og lagðist hann niðr við langeldana, og þar þornaði hann; en allir voru svo glaðir, að enginn tók eptir Edmond, og er hann úr sögunni.

Stóð veislan nú í þrjá mánuði, og var það afráðið, að Klótildr skyldi sitja heima hjá föðr sínum á meðan á stríðinu stæði.


6. kapítuli

breyta

Þess er áðr getið, að land það liggr norðr í heimi, er Finnmörk heitir; þar er biskup sá, er Djúnki nefnist, og hefir hann og áðr verið nefndr. Hann hefir snúið öllum Finnum frá heiðni til kristinnar trúar, og er þar í áliti miklu. Djúnki átti gersimar margar og fásénar; hafði hann fengið sumar sunnan úr heimi, en sumar úr Garðaríki. Eitt var konjaksflaska; hún var eins og önnur brennivínsflaska, en með þeirri náttúru, að hún varð aldri tóm; úr henni staupaði Djúnki sig jafnharðan og kallaði Heiðrúnardropa. Annan hlut átti Djúnki, það var brevíaríum eðr lesbók meðr látúnsspennslum; þá lesbók hafði Guðmundr góði fyrrum átta, en nú var hún nokkuð máð orðin, en þó var hún öll slegin með járni og prinsmetalli. Þriðja hlut átti Djúnki, það var Guðbrandarbiblía; hún var svo stór, að hún tók honum í klof og var mesta gersimi. Enn átti Djúnki hinn fjórða hlut, það var kýr; þá kú hafði Djúnki keypt austr í Kyrjálabotnum, hún var mjólkrkýr mikil og stólpagripr, og ekki laust við, að Finnar legði átrúnað á kúna.

Svo bar til, að Djúnki sat í stofu sinni einhvern dag norðr í Finnmörk, og er að lesa brevíaríum og dreypa á Heiðrúnardropa; gekk lestrinn vel, því að Djúnki var vel læs og gáfaðr, en brevíaríum vel ritið og allt með nótum og málverkum. Mælti Djúnki "sursum corda" við hverja línu, það er: upp hjörtun. Þá heyrðist skruðningr mikill frammi í bæjardyrum, og leið eigi á löngu áðr kýrin kom inn í stofuna með bæjardyraumbúninginn allan á herðakambinum og stofudyrnar tók hún með, því að kýrin var sterk og óð fast áfram, en húsið eigi sem traustbyggðast. Vaknaði Djúnki nú upp úr guðhræðslusvefninum við illan draum, og hafði engin önnur ráð en þau, að hann klifraðist uppá Guðbrandarbiblíu. Kýrin var í skörungshug og froðufelldi og litaðist um alla vegu; þótti henni margt nýstárlegt inni hjá Djúnka að sjá, sem von var, en þó virtist henni biblían merkilegust, því að hún var mikilhæf að sjá og Djúnki þar upp á biblíunni eins og hrafn á hjalli og var lafhræddr. En þó hafði kýrin alls eigi í hyggju að gera neitt illt af sér, því að hún hafði aldri etið af skilningstré góðs og ills, og kunni því engan greinarmun á þessum hlutum að gera. Gengr hún nú að Guðbrandarbiblíu og rekr hornin á kaf og þegar í gegnum spjöldin, en Djúnki datt ofan af biblíunni. Varð biblían nú blýföst á hornunum kýrinnar, en kýrin hristi höfuðið og vildi fá biblíuna til að detta af sér, en það tókst eigi; þá varð kýrin svo trufluð og rugluð af hræðslu, með því líka að dyraumbúningarnir krepptu að henni um leið, að hún ýtti sér í krákustíg aptr á bak út um dyrnar, og hamaðist þá er hún kom út á túnið. Fór hún með biblíuna á hornunum og dyratrén á herðunum suðr um allt Hálogaland og Rogaland og hljóp út í sjóinn við Stafangr; þar öslaði hún fram fyrir Jaðarinn og fram með Ægissíðu og létti eigi fyrr en hún kom að Amsterdam; þar festist hún á leirunum í Rínárósum, og öskraði ógrliga. Stökk allt fólk inn í borgina og tók til að víggirða hana móti kúnni.

En það er af Djúnka að segja, að hann bergði á Heiðrúnardropa eins mikið og Þórr drakk af horninu hjá Útgarðaloka; færðist þá fjör og þrek í Djúnka, og fékk hann sér nú sleða af órökuðum selskinnum; þann sleða drógu tíu graðhreinar og fimm Lappar; en Djúnki sat á sleðanum og hafði konjaksflöskuna í annarri hendinni, en brevíaríum í hinni; hann var í loðnum hreindýrsfeldi og hinn vígamannligasti. Fór Djúnki nú að elta kúna og hugðist að taka af henni biblíuna; ekr hann nú á snæfönnum eptir endilöngum Kili og suðr eptir öllum Noregi, æskjandi eptir heppilegri ferð og hringjandi saman flöskunni og brevíaríó, svo heyrðist langar leiðir suðr í heim. Hverfum vér nú þar frá að sinni.

Nú var allt með kyrrð og spekt í Parísarborg, og réði Pelissier ríkinu ásamt með keisarafrúnni vel og skörugliga; var keisarafrúin hvers manns hugljúfi, sem von var, því að hún tók öllum fram að allri kvenligri prýði og ágæti hjartans, en Pelissier var vitr maðr og einarðr og kunni manna best til allra stjórnligra starfa. Þá var Marmier kominn aptr frá Ítalíu til París.

Bar nú svo til einn góðan veðrdag, að Pelissier lá í rúmi sínu um morguninn, og var að drekka kaffe og lesa harmagrát Guðmundar Torfasonar um skipskaðann mikla; fannst Pelissier mikið um kvæði þetta. Þá heyrði hann allt í einu læti mikil í norðrátt, öskr og undirgang og skruðning, glamr og hringingar og undarligt skrölt; mátti hann eigi þetta skilja og var lengi djúpliga hugsandi um þenna hlut. Loksins hringdi Pelissier; þá kom Alexander Dumas inn. "Hvaða ólæti eru þetta?" mælti Pelissier. "Ég veit ekki", sagði Alexander Dumas. "Ætli það sé stríðið?" mælti Pelissier. "Ég veit ekki", sagði Alexander Dumas. "Farðu út, Alexander Dumas, og sæktu Lamartíne, hann kann að vita það", mælti Pelissier. Þá fór Alexander Dumas út og sótti Lamartíne. "Hvaða ólæti eru þetta, Lamartíne?" mælti Pelissier. "Ég veit ekki", sagði Lamartíne. "Ætli það sé stríðið?" mælti Pelissier. "Ég veit ekki", mælti Lamartíne. "Farðu út, Lamartíne, og sæktu Marmier, hann kann að vita það", mælti Pelissier. Þá fór Lamartíne út og sótti Marmier. "Hvaða ólæti eru þetta, Marmier?" mælti Pelissier. "Það er kýr", sagði Marmier. "Hvaða kýr?" sagði Pelissier. "Kýrin hans Djúnka", sagði Marmier. Síðan sagði Marmier Pelissier frá öllu hvernig á stóð, því að hann hafði þá náttúru, að hann vissi allt, sem við bar á Norðrlöndum hvar sem hann var; fór Pelissier þá með Marmier hæst upp á Notre-Dame-kirkjuna til að sjá þetta, og sá þeir þá, að Djúnki var kominn með kúna í einhvern mýrarflóa í Ardennerfjöllunum, var kýrin þar dottin ofan í mógröf, en Djúnki stóð á bakkanum og var að lesa bænir yfir kúnni. Bárust nú þessi tíðindi eins og logeldr á einu augnabliki um alla Parísarborg, og kom saman svo mikill múgr og margmenni, að þar var nær átta hundruð þúsundum vígra karla; en þá komst kýrin upp úr mógröfnni og héldu þau Djúnki aptr norðr í heim, og eru bæði úr sögunni.

En er mannsafnaðrinn frétti, hvað um var að vera, þá kom upp kurr mikill og vildu þeir vinna til einhvers frama; hugðu þeir sér annað til afreksverka en að draga eina kú upp úr mógröf; en Frakkar eru menn fjörugir og fúsir til stórvirkja; tók Pelissier þá það til bragðs, að hann sendi allan þennan her til Napóleons; var Djúnki orsökin til alls þessa liðssafnaðar, þótt hann vissi eigi, og því hlutum vér að skýra svo ýtarliga frá öllum þessum atvikum. Fóru þeir Marmier og Alexander Dumas með herinn til Ítalíu; hafði Napóleon nú ógrynni hermanna.


7. kapítuli

breyta

Nú er að segja frá Austrríkiskeisara, að honum berast þau tíðindi, að Napóleon er kominn í tengdir við Sardiníu-konung, og að hann hefir fengið óvígan her enn að nýju frá Frakklandi. Lætr hann nú skera upp herör um allt sitt ríki og bjóða hverjum þeim til stríðs, er vettlingi getr valdið; ætlaði Jóseppr keisari að vera sjálfr fyrir leiðangrinum. En meðr því að hann vildi eiga sigrinn vísan, sem von var, þá sendir hann norðr til Bretlands á fund Viktoríu, í liðsbón. Þá sendiför fóru tólf legátar og léttu eigi fyrr en þeir komu til Lundúna. Gengu þeir þegar upp í borgina og á fund drottningar, en hún tók þeim meðr mikilli blíðu og frétti tíðinda. Sögðu legátarnir henni það, er þeir ljósast vissu; "erum vér hingað sendir af vorum herra þess erindis, að frétta ef þér viljið honum nokkura aðstoð veita að þessu máli, því að ríki hans er hætta búin og mikið í veði".

Þá mælti Viktoría: "Vant þykir oss hér úr að ráða, því að eigi höfum vér verið í fjandskap viðr Napóleon hingað til; en meðr því að öll norðrálfa heimsins er sem á reiðiskjálfi út af þessari styrjöld, þá munum vér á það hætta, að veita höfðingja yðrum að þessu máli".

Urðu legátar fegnir mjög við þetta svar, og þökkuðu Engladrottningu með mörgum fögrum orðum, og sneru aptr síðan; en er þeir voru komnir til Vínarborgar, þá sendi keisarinn þá óðar aptr austr í Tartaría til að fá liðveislu; var honum henni og þaðan heitið.

Lét Viktoría nú búa flota ógrligan til að sigla um sæinn inn um Njörfasund; var sérhvert skip úr járni og kolsvart sem líkkista, og lagði af nálykt og feigðarblæ, því að þau skip fluttu böl og bráðan dauða; var þetta hinn ógrligasti og stórkostligasti floti, sem menn höfðu haft sögur af þangað til; þau skip voru öll tjölduð svörtum blæjum og óðu sjóinn grenjandi fyrir eldi og eimyrju; stóðu eldslogar brennandi og sótþykk reykjarsvæla upp úr reykháfum skipanna, svo að eigi sást til sólar, og var sem himin og jörð væri á heljarþremi; hugðu margir Ragnarökkur komið, og urðu sumir vitlausir. Þau skip fluttu fimm hundruð þúsundir hermanna og allskonar vopn og vígvélar.

Viktoría drottning fór sjálf með og var á því skipi, er kallað var Skjaldmeyjaskeið; það skip var klætt utan með svanadúni mjallhvítum og vöknaði eigi í sænum; það var þann veg gjört, að því mátti aldrei á berast, þótt grunnt yrði, því að það var allt úr stálfjöðrum og flattist út í grunnsævi, en tók sig aptr þá er dýpkaði; siglutrén voru úr silfrbergi gáralausu, en segl öll ofin úr kristallsteinum, og skinu stjörnur í gegnum um nótt með svo miklum ljóma, að það var því líkast sem ljósahjálmr eðr eldligr blómrunnr sigldi um sæinn; en um daga skein sólin í gegnum reiðann og seglin, og bar þetta svo mikla birtu, að allr flotinn sigldi sem um albjartan dag, þó nótt væri. Knappr var á fremsta siglutrénu; hann var úr þeim steini, er sæmáni heitir, og var frá Mógúlnum mikla; sá knappr var metinn jafndýrt og allt Indíaland. Á skipunum voru tólf hundruð skjaldmeyja; þær voru allar í hvítagullsbrynjum og höfðu sverð úr ensku öskustáli; þau sverð bitu jafnt grjót og járn sem vatn rennanda. Skjaldmeyjar þessar voru grimmari en karlmenn og gáfu aldrei grið í orrustu, þær voru lífvörður Engladrottningar.

Hélt nú flotinn á stað, og er eigi getið ferða hans fyrr en hann kom til Feneyja; þar gekk allr herinn á land og beið eptir Austrríkiskeisara.

En það er frá Tartaría að segja, að konungr sá, er þar réði, lét skera upp herör um allt sitt ríki, og streymdi til hans múgr og margmenni, svo að menn hyggja það verið hafi nær þrem millíónum en tveim; var það illþýði mikið og óþjóðalýðr og eirði engu nema ránum og manndrápum. Þar var ein fylking bjargþursa austan úr Móngolía, þeir voru skolbrúnir á hörund og sex álnir upp að höku; allir voru þeir hárlausir nema með lokk langan aptr úr hnakka; þeir gengu allsberir og brynjulausir, því þá bitu engi járn; þeir höfðu sumir kylfur og lömdu menn, svo brotnaði hvert bein, en sumir voru vopnlausir. Önnur fylking var þar austan af Kórea; þá fylkingu skipuðu þeir, er Svalfarar heita; þeir voru fjölkunnigir; fyrir þeim réði hofgyðja sú, er Vígvaða hét; hún var eldrauð á lit og hafði tennr tvær í munni fram sem fíll; hún átti tólf syni og tólf dætr, og öll fjölkunnig og hin verstu tröll, því að þau máttu fara í hvern þann ham, er þeim líkaði. Hið annað lið Tartarakonungs voru mennskir menn; þeir voru í leðurbrynjum, og lituðum í mannadreyra; þeir höfðu hálsbönd úr eyrnasneplum og hjálma úr hauskúpum af þeim mönnum, er fallið höfðu í orrustunni við Ancyra, þá er Tamerlan átti við Baiazet soldán. Konungr Tartara hét Pútíphar, hann var tröll að vexti og hann bitu engi járn; engi hafði hann vopn, heldr barðist hann meðr knefunum og beit menn á barkann, ef unnt var.

Dreif nú allt þetta lið til Austrríkiskeisara, og setr Tartarakonungr fyrst um sinn herbúðir sínar suðr í Steiermark, og var allt landið fullt af fólki; kom nú Jóseppi keisara vel að haldi féð það, er hann tók í hauginum, því að mála þurfti til að gjalda öllum þessum her, og hann eigi lítinn, til þess að halda þeim frá manndrápum og ránum.

Sendir nú Austrríkiskeisari legáta til Napóleons og býðr honum bardaga á Heljarslóð; það er völlr mikill á Langbarðalandi og fimm hundruð rasta á hvorn veg.

Napóleon svaraði legátunum af riddaraligri prýði og kurteisi, og segir, að hann vill víst þiggja bardagann; en er hann frétti ljósliga af viðrbúnaðinum, og öllum þeim feiknum, er þar með fylgdu, þá þótti honum samt vandast sitt mál. Tekr hann það þá til bragðs að hann kýs þá, er honum þótti vænlegastir úr öllu liðinu, var það einvalalið og fimm hundruð þúsundir manna; og þótt slíkt kunni mikið að virðast, þá var það samt harðla lítið á móti liði Austrríkiskeisara. Napóleon skipaði liði þessu í tólf fylkingar, og fjörutigi þúsundir í hverri; var helmingr riddaralið en helmingr fótgöngulið; hafði hver fylking fótgönguliðsins þúsund fallbyssur. Líðr nú eigi á löngu áðr flokkarnir komu á Heljarslóð og hugðu hvorirtveggi til víga og dreyra.


8. kapítuli

breyta

Svo er landslagi háttað á Heljarslóð, að sunnan til rennur áin Padus, og eru eyrar sléttar og grösugar fram með ánni; en it nyrðra eru hamrar miklir og hengiflug ofan frá Mundíafjöllum, þar er slétt á hömrunum uppi og graslaust. En sjálfr völlrinn er blásinn og ber, og eigi stingandi strá; kveða menn að svo sé fyrir þá sök, að Atli Húnakóngr reið um völlinn fyrir löngu, en allt grasið sviðnaði undan hesti hans og spratt aldri síðan.

Austrríkiskeisari fylkti liði sínu undir hamrabeltinu; hann hafði átján hundruð fylkinga og skipaðar eptir þjóðum; segja menn hundrað þúsundir manna hafi verið í hverri fylking. Þar var Pútíphar fyrir einni; hann var meðr sama hætti og áðr er greint. Fyrir einni fylkingunni var kappi sá, er Loðbertus hét; hann var ættaðr sunnan úr Dekan og hamrammr að afli; hann hafði flein þann, er Undfari var kallaðr; og var sá engi hlutr skapaðr í heiminum, er þann flein kynni að standast, ef lagi varð meðr honum á komið. Vígvaða var fyrir Svalförum, og í þeim hóp voru og dætr hennar og synir; sú fylking var ógrlig á að líta, því að augu Svalfara tindruðu sem helstjörnur, og stóð öllum ógn af þeim feigðarljóma, er lagði af þeim hausum. Enn var þar sá höfðingi, er Gúníbrandus er nefndr, hann hafði eitt auga á hægri öxl, en ekkert í höfði; haus hans var hárlaus og húðlaus og beinið skjallahvítt sem snækökkr, en hausinn blindr sem birkiraptr. Þar var einn greifi, sá er Eldjárn hét; hann var rammr að afli, en eigi hamrammr; hann hafði sverð loganda; það sverð vakti aldri blóð, og eigi hneig það til holundar eðr mergundar; en þeim var dauðinn vís, er það snerti. Margt var þar fleira höfðingja og hraustra manna, og yrði of langt að telja hér allan þann fjölda.

Viktoría drottning setti tjöld sín yst undir hamrabeltinu; það voru rauð skinntjöld úr leðri því, er saffían heitir, og stengr af upp með silfrknöppum efst; en skjaldmeyjatjöldin voru hvít silkitjöld, og gullrósir ofnar í dúkana, en gullknappar á stengunum uppi. Þar var skjaldmeyjunum fylkt, tólf hundruðum; þær riðu allar hvítum hestum og drottningin fremst; var það hin fegrsta fylking á Heljarslóð, sem nærri má geta.

Metternich gekk eigi að vígum, en hann lagði ráð á fyrir hönd Austrríkismanna, en eigi skipti hann sér af aðstoðarherinum; höfum vér og það heyrt, að Jóseppr keisari var eigi riðinn við þeirra athæfi eptir að þeir komu í hans ríki, og engi orð fóru milli hans og þeirra á Heljarslóð. Má það skilja af því, sem síðar mun sagt verða. Keisarinn skipaði sínum her gjörvöllum, en var eigi fyrir neinni fylkingu; hann reið hesti þeim, er Heltroði hét; sá hestr var albrynjaðr og brynjan sett járngöddum; en keisarinn var allr grár fyrir járnum; hann hafði grímu fyrir andliti og sást hvergi í hans hörund; hann hafði bryntröll í hendi, það var gullrekið og hið besta vopn.

Napóleon fylkti sínu liði á eyrunum meðr ánni fram; skipaði hann fyrir hversu fram skyldi ganga; skyldi Napóleon frændi fara móti Loðbertus; Napóleon frændi hafði fylkingu fríða og vel að vopnum búna; í henni mátti engi vera eldri en þrítugr, og eigi yngri en tvítugr. Marmier var fyrir einni fylking; hann átti að ganga móti Gúníbrandus; Marmier var í brynju þeirri, er Snudda hét; hún var meðr undarligu móti gerð, því að hún var saumuð saman úr blöðum, er Marmier hafði ritið í Revue Britannique um bækr Dufferins og Edmonds; hlífði brynjan Marmier fyrir öllu eitri og fítonsanda áblæstri nema þar sem lofsyrði stóðu um Edmond, þar skeindist Marmier, ef á kom.

Enn var sá maðr í liðinu, er Páll Mússett hét; hann var skáld og kappi mikill, og svo frár á fæti, að engi hestr var sá, er hann eigi hlypi upp; hann hljóp einhverju sinni kapphlaup viðr Bóreas norðr í Lapplandi og hafði sigr; var hann frægr mjög af því. Þessi Páll réði fyrir einni riddarafylkingu; hann hafði engan hest, því að hann var svo fljótr að hlaupa. Napóleon keisari reið hestinum góða; hestrinn var í rauðagullsbrynju og gullkögr á bringunni; en keisarinn var í hvítri silkitreyju yst klæða, en þar innan undir eins og áðr er sagt.

Var nú komið að miðaptni; þá reið Napóleon fram á völlinn og tíu kallarar með honum; þeir höfðu hvíta fána; það var friðarmerki. Napóleon reið þar að sem Viktoría var fyrir og mælti viðr drottningu: "Nú virðist oss sem öðruvísi muni á fundum standa heldr en í Skerborg seinast; manstu það, Viktoría, að þá kysstumst við bæði af vináttu og blíðu, og það hugði ég síst þá, að þú mundir ganga í óvinaflokk mér á móti; skaltu vita það, að við ráðum bæði ríkjum voldugustum vestan um haf og eru það feikn mikil, að bræðr skulu þannig berjast og að bönum verða. En því em eg eigi hér til tals við yðr kominn, að ég vili yðr friðar biðja, því að ég mun eins berjast móti yðr sem öðrum, ef þér fyllið flokk óvina minna og nauðr rekr oss til móti yðr bröndum að beita. Vil ég yðr þess eins frétta, ef þér hafið nokkuð það oss á móti, að yðr reki nauðr til að ýfast viðr voru ríki; því að vér höfum öðrum engan ágang sýnt, en þótt vér nú hljótum hendr að verja".

Þá mælti Viktoría drottning: "Víst munum vér það, að vér fundumst í Skerborg og kysstumst, Napóleon, og vorum vér þá jafnt sem þér í friðarhug. En meðr því að oss hafa borist stórtíðindi um þessa styrjöld, og oss þótti sem allri norðrálfu heimsins væri hætta búin ef þér eydduð gjörsamlega öllu Austrríki, þá létum vér tilleiðast að ganga í lið meðr þeim, er vér hugðum fámennari. En nú hefir oss eigi rétt frá sagt verið, því að hér er slíkr fjöldi manna saman kominn yðr á móti, að vér höfum slík fádæmi aldri séð eðr heyrt; og sjám vér, að þér hafið lið minna og fríðara; því að fjandr yðrir eru margir líkari forynjum en mönnum, og hyggjum vér yðr það ráðligast að snúa frá og berjast eigi móti þessu liði. En þess skuluð þér fullvissir vera, að aldri mun ég eðr mínar meyjar og enginn af mínum her ganga í slíkan óvinaflokk yðvarn sem þessi er, nema meðr þeim einum kostum, sem eigi munu fyrir koma, að þér ætlið að eyðileggja allt Austrríki. Viljum vér enn á ný biðja yðr þess, að ganga hér frá, og hafa yðr eigi í hættu móti þessu liði".

Þá mælti Napóleon: "Það vissi ég fyrir löngu, Viktoría, að þú ert svo mikið tryggðatröll og svo drenglundaðr kvenmaðr, að þú mundir aldri móti oss að raunalausu stríða; en eigi em eg svo hræddr, að ég muni frá hverfa að óreyndu; nú viljum vér því yðr heita, að ef allt fer hér með feldi og gengr eptir óskum vorum, þá skulum vér gefa skjaldmeyjum yðrum kost á að kjósa sér allar mann handa sér úr öllum vorum her, þann er hver vill helst og hennar hugr til stendr, skulum vér halda þau tólf hundruð brullaup í einu meðr öllum þeim sóma og allri þeirri dýrð, sem okkr báðum er sæmilig og þeim til fagnaðar og ástsamligs yndis".

"Eigi hyggjum vér af því verða munu", mælti Viktoría, og brosti við; "en þó kunnið þér margt ókomið fyrir að sjá, og má eigi um slíkt dæma fyrr en útséð er um þessa hluti". Kvöddust þau síðan, en Napóleon reið til sinna manna; þá var komið kvöld.


9. kapítuli

breyta

Maðr er nefndr Hjörleifr, hann var víkingr og óeirðarmaðr mikill um kvennafar; hann fór við flokk manna og tók bændadætr og ógipt kvenfólk og lagði í rekkju með sér, og átti við þeim fjölda barna út um allan heim. Hann hafði njósn af að Metternich mundi ekki vera heima, og ferr til Jóhannesarbjargs, og var þá einn, en því var hann eigi vanr. Stóð þar svo á, að Gudda ráðskona var úti á túni að berja, og átti sér einskis von. Hjörleifr kom að Guddu eins og elding og ætlaði að taka hana; en Gudda var sterk og tók á móti Hjörleifi; og þar glímdu þau á túninu lengi, svo að tvísýnt var hvort hafa mundi; sá Gudda loksins sitt óvænna, og hét víkinginum því, að hún skyldi hvíla hjá honum þrjár nætr í fjallinu, ef hann færi að sér friðliga, en eigi með slíkum ofsa og ógangi. Lét Hjörleifr Guddu þá lausa, og gengu þau inn í fjallið. Þar setti Gudda fyrir hann mat og drykk, steikta kola og brennivín; en Hjörleifr var þreyttr og þyrstr af atganginum úti á túninu, með því líka að sólarhiti var mikill, og tekr hann sér nú drjúgum neðan í því; gerðist hann skjótt ölóðr, því að hann drakk fljótt og gáði þess eigi, að brennivínið var brennivín. Tók hann nú til kolanna, og var fullr; en kolarnir voru beinóttir eins og kolar eru vanir að vera; ruddi Hjörleifr nú ofan í sig stórum stykkjum meðr beinum og öllu saman; en þá stóðu öll beinin þversum í vélindinu, en sum lengst niðr í maganum, og æpti hann nú ógrliga og engdi sig allan sundr og saman, meðr því að hann var hörmuliga haldinn. Kenndi hann allt þetta göldrum og gjörningum; en Gudda stóð yfir honum grátandi, og rann henni sárliga til rifja eymd karlmannsins, því að hún var kvenmaðr.

Krókstaf átti Metternich; þann staf hafði Búdínus konungr af Bjarmalandi gefið honum, og var gandreiðarstafr; en ekki notaði Metternich hann eptir það hann náði klútnum af Fenrisúlfi. Stafrinn stóð út í horni hjá einu gömlu skattholi, sem Metternich átti, og var allr rykugr og myglaðr, því hann hafði eigi verið hreyfðr um langan aldr. Tók Gudda nú stafinn og hugði það ráðligast sem ráðligast var, að sækja Metternich til að lækna Hjörleif. Metternich þekkti Hjörleif að illu einu og vissi allt um hans athæfi. Reið Gudda nú gandreið á stafnum suðr á Langbarðaland; hún spurði þegar upp Metternich og gekk til fundar við hann. Varð Metternich öldungis hissa, er hann sá Guddu, svuntulausa og húfulausa, því að hún hafði týnt af sér helminginum af fötunum á gandreiðinni; og frétti hann þegar hverju slíkt sætti.

"Hjörleifr er kominn", sagði Gudda. "Er Hjörleifr kominn", mælti Metternich og stökk þegar upp, og bauð Guddu að bíða sín þar til hann kæmi aptr. Í þessu fáti fóru bæði stígvélin af fótunum á Metternich. Hann hljóp út og þangað sem Austrríkiskeisari var og mælti: "Nú verð ég að fara heim til mín, Jóseppr minn, hann Hjörleifr er kominn", sagði Metternich. "Hvaða Hjörleifr er kominn?" sagði keisarinn. "Hann Hjörleifr", sagði Metternich. "Nú, hvaða andskotans Hjörleifr?" sagði keisarinn. "Hann Hjörleifr", sagði Metternich, "og nú ætla ég að biðja yðr um að ljá mér Pútíphar Tartarakonung til að vinna á Hjörleifi, því ég er gamall orðinn, en Hjörleifr er illr viðreignar og víkingr mikill og kvennamaðr". "Ger sem þú vilt", mælti keisarinn, "eigi má ég neita þér um neitt, Metternich, en þungt segir mér hugr um vorn hag, er þú ert farinn, því að þú hefir oss opt heilráðr verið".

Fór nú svo, að Metternich fékk Pútíphar í för með sér, og var svo óðr, að hann gleymdi snýtuklútnum, og stigu þau nú öll á stafinn, Metternich fremstr, og Pútíphar, og Gudda á milli þeirra. Riðu þau nú í loptinu, þar til þau komu til Jóhannesarbjargs. Þar lá þá Hjörleifr, og var svo af honum dregið, að hann mátti eigi mæla. Metternich var læknir góðr, og sá þegar, að maðrinn var sjúkr; komst hann nú við af sannri meðaumkvun hjartans, þótt Hjörleifr ætti það naumast skilið. Þá tók Metternich spotta af nýju haldfæri, er þar hékk á veggnum, og gerði lykkju á; síðan sökkti hann lykkjunni á kaf í kok Hjörleifi, en Pútíphar hélt honum, svo hann mætti eigi brjótast um; en Gudda barði á bakið á honum, svo beinin skyldi hrökkva upp í lykkjuna. En Metternich sté báðum fótum á brjóst Hjörleifi og dró allkarlmannliga upp beinin, þótt hann væri gamall; hann tók svo mikið á, að hann datt aptr á bakið við hvert bein. Létti Metternich eigi fyrr en hann var búinn að ná upp úr Hjörleifi hverju einasta beini; voru þau að þessu alla nóttina.

Þá mælti Metternich viðr Hjörleif: "Nú hef ég bjargað lífi þínu, Hjörsi, og það þóttú værir þess ómakligr; get ég því nærri hvað þú munir hafa ætlað hingað að vilja; skaltu nú héðan í þetta sinn meðr lífi á braut komast, en það segi ég þér, að komir þú hingað í annað sinn, þá munum við öðruvísi við eigast".

Þá mælti Pútíphar: "Það hugða ég, Metternich, að þú mundir mig hafa hingað haft til annars en að halda beinadólgi þessum í brennivínskrampa og víst skal hann eigi héðan fara ómerktr"; rak Pútíphar þá Hjörleifi sinn undir hvort, svo af gengu eyrun bæði, rétt eins og bitin væri af sel; síðan gaf hann Hjörleifi brennivín og fór Hjörleifr þaðan fullr og eyrnalaus, en Pútíphar settist hjá flöskunni og drakk þar til hann sofnaði.

Eptir nokkra stund vaknaði Pútíphar, og fannst honum nótt; en heiðríkt var og sól á lopti í nónstað; Metternich og ráðskonan sváfu bæði og hrutu fast. Þóttist Pútíphar nú vera búinn að vera lengi; hann fann stafinn á gólfinu og gekk út; síðan steig hann á stafinn, en stafrinn flaug þegar upp í loptið meðr Pútíphar. En meðr því að Pútíphar kunni ekki að stýra stafnum, þá fór hann í ranga átt; og meðr því að Pútíphar var fullr, þá datt hann loksins ofan af stafnum, og kom niðr í Búlgaríu úr háa lopti, svo honum lá við óviti. En það er af Metternich að segja, að hann vaknaði viðr illan draum, er stafrinn var horfinn; hafði hann nú engi ráð til að komast aptr til Langbarðalands og sat því heima þaðan af; var Metternich nú staflaus og klútlaus, en Austrríkiskeisari Metternichslaus og og Pútípharslaus.


10. kapítuli

breyta

Nú er að víkja sögunni til Langbarðalands. Sólin rann upp fögr og logandi, og var kringd eldþrungnum skýjum; en hafsöldurnar veltust kolmórauðar fyrir stinnings austankalda upp eptir Padusánni andstreymis; reis áin mjög við það og drundi þungt á eyrunum frammi. Blika var í vestri, og þótti mönnum sem veðr mundi eigi tryggt; því að einhverr loptþungi grúfði yfir jörðinni. Svo kvað Gissurr gullrass:


Geyst fóru græðis rasta,
gunnr svall, rauðar unnir,
óðu fyrir ægis reiði
andstreymis fram með landi.
Drundi mót dimmum vindi
drangr, en svifu langir
mekkir dellings makka
móðigs þrungnir blóði.


Fylktu nú báðir liðinu og voru margir um einn Frakka, sem skiljanligt er af því, er áðr er frá sagt. Var allr viðrbúnaðr ógrligr. Viktoría hafði sett sitt lið fyrir utan vígvallarsviðið, og hélt það allt kyrru fyrir. Þá sté Napóleon á bak hestinum góða og hélt snjalla ræðu, svo að heyrðist um allan herinn; sú tala var þannig:

"Góðir riddarar og hraustir menn! Það er yðr öllum kunnigt, að Klóvis var fyrstr Frakklandsherra, og hófst þá það ríki meðr svo miklum veg og sóma, að þess jafnræði hefir aldri síðan fundist í norðrálfu heimsins. En eptir það voru margir konungar á Frakklandi, og hafði engi það af að segja, að hann réði yfir löðrmannligum lýð; enda hafa forfeðr yðrir aldri orðið fyrir því óorði, að heita mannskræfr, hafa þeir ætíð geymt heiðrs síns og verið frægir um heim allan; hefir það aldri spurst, að frakkneskr herr hafi hopað fyrir jöfnum liðsafla. En ef það er heiðr, að sigra jafnan her, þá er og meiri heiðr að sigra meiri her, og er þetta nú eigi í fyrsta sinni, að þér eigið viðr ofrefli að eiga. Berr öllum að gæta þess, að sá er hugsar um heiðrinn, hann hugsar síðr um liðsmuninn; en hér berjumst vér fyrir heiðri og frægð, en eigi fyrir löndum og fé. Er þaðf yðr öllum kunnigt, að vér erum hingað komnir til þess að stoða kúgaða þjóð, og mun henni það lítið gagn verða, ef vér létim hér kúga oss sjálfir sem ljón í lagsnöru. Enn vil ég yðr á það minna, að í Rómaborg voru fyrst konungar, en þá ræðismenn, og þá keisarar; en í Miklagarði voru aldri nema keisarar, á meðan sú borg var í austrhluta Rómaveldis. Nú meðr því að Rómaríki hlaut að eyðast fyrir spillingu lýðsins, þá var og úti um alla þess dýrð; en eins og allt fæðist á ný, og engi sá hlutr er til, er eigi rísi upp aptr á einhverjum tíma og í einhverri mynd, eins hafa og bæði þessi ríki upp aptr risið á öðrum stöðum og í annarri mynd, en þó meðr undarligri líking; því að eins og austræn tign Miklagarðkeisara er nú horfin til Austrríkis, eins er og vestræn tign Rómaborgar komin til Frakklands, og eru bæði þessi keisaradæmi framhald af fornum ljóma, og munu uppi vera um aldr og ævi, ef vér erum eigi heillum horfnir. Megið þér það muna, að fyrst voru konungar á Frakklandi, en þá þjóðríki, og nú seinast keisarastjórn, og það vitið þér og, að voru ríki er engi eyðing búin af spillingu manna, eins og Rómaríki, fyrir því að það er siðað og grundvallað fyrir krapt tímans og stjórnar vorrar. Enn skuluð þér vita, að vér erum eigi hingað komnir til þess að eyðileggja Austrríki, eðr í neinni ábatavon; höfum vér áðr á það drepið. En fyrir þá sök, að ríki vort er rómverskt og orpið rómverskum ljóma, þá ber yðr og þess að minnast, að Rómverjar gerðu aldri frið nema eptir unninn sigr; skuluð þér vita, að yðr er á hendr falið þeim heiðri uppi að halda, sem hans líki finnst eigi á jarðríki. Eru hér nú feikn mikil í óvinaflokki vorum, en þess skulum vér æ gæta, að vér berjumst sem góðir riddarar, en eigi svo sem fjölkynngismenn; því margir riddarar hafa meðr sæmd sigrað og meðr frægð til foldar hnigið; en hvenær hefir það heyrst, að galdramenn og blámenn hafi nokkra frægð fengið lifandi eðr dauðir? Opt hefir það orðið, að fjölmenni hefir sigrað fámenni, og opt hefir það orðið, að óhraustir menn hafa hraustan unnið; en opt hefir það einnig orðið, að fáir hafa fjölda manna sigrað, og hví skyldi það eigi opt hafa orðið, að hraustir hafa óhrausta unnið? Sigr og sæmd er eigi undir fjöldanum komið; en dáð og dugnaðr, þrek og þol, afl og ágæti, tryggð og drenglyndi, hreysti og hollusta - hyggið að, þar liggr heiðrinn falinn. Hyggið að, þér, sem mig kusuð til að lifa frjálsir und fólkungs hendi og öruggir undir arnarvæng, hvenær hafið þér viljað þrældóm þola? Þér hafið eigi viljað þola hann af mönnum úr yðar eigin þjóð; munduð þér það heldr vilja, að útlendir harðstjórar legði á yðr ánauðarok og þrælkuðu yðr með erlendum knefum? Hyggið að því, að ef þér verðið sigraðir hér, þá er yðr sú ánauð búin, sem hægra er í að komast en úr; en ef þér sigrið hér, þá fáið þér ekkert nýtt land, og engu fé mun ég yðr heita; en þér fáið heiðr og frama; en heiðr og frami er á frelsi grundvallað, og heiðr og frelsi verðr eigi keypt meðr fé og fögrum aurum, heldur með afli og ágæti, brandi oð blóði.

Hyggið að því, að sá, sem fellr, hann deyr eigi, ef hann berst með hreysti og fyrir heiðri sínum og sinna, en hann mun lifa meðr ókomnum öldum, og ófæddir ættmenn munu nefna þann, er hné til moldar á Heljarslóð. En þeir, er heilir komast úr orrustu, munu aptr heim snúa í friði, og friðr og fagnaðr mun þeirra heima bíða. Þá munu gullöldur góðrar sólar skína á skrúðbjörtum skjaldarhvelum, og geisli hverr, er frá Gimli tindrar, rista sæmdarrún Rögna niðjum. Þá munu mæðr mjúkhentar og meyjar munnfríðar móti þeim ganga, og blessa þann, er bjó börnum þeirra frægð fornmanna að Frekasteini".

En er Napóleon hafði þetta mælt, flugu tólf ernir gullfiðraðir úr landsuðri til landnorðrs; þeir flugu hlakkandi í þríhyrning eins og helsingjar og sökktu sér á fluginu niðr um leið og þá bar yfir Napóleon; en Napóleon tók hjálminn af höfði sér á meðan. Síðan reið Napóleon fram með fylkingunum; var lið hans svo frítt, að það var líkast sem gullmúr hvítgaddaðr fyrir heiðskærri þorrasól.

Sigu nú saman fylkingar meðr ógrligu herópi og geystum gný, og var sem kvæði viðr í himinskýjunum og skylfi hamrar og hafs bárur og hvað sem á jörðu var. Skutust menn fyrst á með gaflokum, flettiskeptum og spjótum; þá var gerð grjóthríð svo mikil, að eigi sá til sólar. En er það þraut, þá gengu menn saman í höggorrustu, og munum vér eigi telja nema fáein hreystiverk af þeirri framgöngu, er þar var sýnd; mátti þar sjá margan hjálm klofinn og margan hraustan riddara til moldar hníga. Gekk sá leikr til hádegis; þá varð nokkurt hlé á orrustunni; lágu valkestirnir svo þykkt, að tók meðalmanni í öxl. Þá gekk Marmier fram á völlinn með sína fylking og á móti honum Gúnibrandus með sitt lið, og var það margfalt fleira; gengust þeir að með svo hörðum atgangi og af svo mikilli heipt, að þeir óðu upp á spjótin og léttu eigi fyrr en eigi stóð eitt mannsbarn af hvorigum, nema Marmier og Gúnibrandus.

Þá mælti Marmier af mikilli reiði: "Heyr þú, hinn armi herjans son, er af þínum völdum eru margar þúsundir fimra manna og góðra drengja lagðar lík; skulum við nú báðir með okkr reyna, og er best að við fylgjum þeim nú til feigðar, sem hér hafa foldu kysst". Þá mælti Gúnibrandus: "Víst þori ég móti þér að ganga, Marmier; sýnist mér þú vera pappírsbúkr einn, og mun þér betr vera lagið að yrkja rímr og kveða fyrir konum en að berjast á vígvelli við hrausta menn". "Það furðar mig eigi", sagði Marmier, "þóttú kunnir eigi betr að sjá, því betr sjá augu en auga, en þú hefir eigi nema eina glyrnu og hana á armligum stað, og enga frægð skaltu hafa af þessari för".

Þá lagði Gúníbrandus til Marmiers meðr spjóti, en Marmier hafði atgeir mikinn og hjó spjótið af skaptinu. Þar lá steinn mikill á vellinum, svo að eigi mundu sex karlar hefja; þann stein tók Gúníbrandus og sveiflaði í kring eins og dúnfjöðr og einhenti á Marmier; sá Marmier sér dauðann vísan, ef hann yrði fyrir bjarginu; en meðr því, að hann var vitr maðr, þá vék hann sér undan, og flaug bjargið fram hjá honum rétt viðr gagnaugað hægra megin; sannaðist þar berliga, að sá lætr undan, sem vitið hefr meira. Þá hljóp Gúnibrandus að Marmier og náði í brókarskálmina hægra fótarins og þreif upp fótinn; hlupu þeir þannig lengi um völlinn, að Marmier hoppaði á vinstra fætinum, en Gúnibrandus hélt í brókina; en Marmier lamdi hausinn á Gúnibrandus með atgeirnum allt það er aftók, og dugði eigi, því að hausinn var ákafliga þykkr; en fyrir sakir þessarar barsmíðar kom Gúníbrandus því eigi við að fella Marmier, því að hann átti nóg með að snúa hausnum á ýmsa vegu á banakringlunni, til þess að forðast höggin eðr draga afl úr þeim, og fór loksins svo, að Gúnibrandus fékk höfuðsvima nokkurn af öllu þessu. Þá varð steinn fyrir fæti honum, og þá sleppti hann fætinum á Marmier og hafði eptir skóinn; en Marmier var í silkisokkum mjallahvítum, og reiddist nú ákaflega út af því að hljóta að stíga hreinum fætinum í blóðvaðalinn, sem á var vígvellinum. Þá hamaðist Marmier og rak atgeirinn í gegnum Gúníbrandus vinstra megin viðr naflann, svo að út gekk um mjóhrygginn, og hóf Gúníbrandus í loft upp og hljóp með hann um vígvöllinn. Þetta sér Vígvaða og veðr fram að Marmier og spýr eitri og fítonsanda, en brynjan Snudda hlífði Marmier, svo að hann sakaði eigi eitrblástrinn; en er Marmier sá, að hann hafði eigi frið til að hlaupa með Gúnibrandus, varð hann svo reiðr, að hann henti skrokknum á völlinn og hjó flykki mikið úr lærinu á Gúníbrandus og slengdi framan í Vígvöðu; kom það framan á nasir henni, en Vígvöðu varð svo bilt við, að hún flúði aptr í flokk sinn, og segja menn það verið hafi í fyrsta sinni að Vígvaða hopaði. Sneri Marmier aptr í lið Frakka með miklum frama.


11. kapítuli

breyta

Nú sem Eldjárn greifi sér þetta, þá gengr hann fram á vígvöllinn, og sýnist allr vera í ljósum loga, því að eldr brann úr augum hans og bál af brandi þeim, er hann hafði í hendi. Veðr hann nú þangað, sem Alexander Dumas er fyrir og manar hann meðr mörgum hæðiligum orðum. Hafði Eldjárn greifi eitt sinn orðið undir í orðakeppni við Alexander Dumas austr í Cirkassíu og lagði hann óþokka á hann síðan. Reiddist nú Alexander Dumas illyrðum Eldjárns, sem von var, og stikar móti honum.

Alexander Dumas var á þann hátt búinn, að hann hafði vafið sig allan í óbundnum bókum og reyrt að utan meðr svarðreipi; voru það allar þær bækr, er hann hafði ritað, og sem óseldar voru; var sá strangi svo þykkr, að Alexander Dumas sýndist eins og hvítr kirkjuturn. Gengr hann nú móti Eldjárn og rífr hvert pappírsarkið utan af sér eptir annað og hnoðar í kúlur allharðar; sendir hann bréf kúlurnar svo hart og títt, að Eldjárn hafði nóg með að slá þær á burtu með sverðinu, en kom aldri lagi á Alexander Dumas; hjó hann sí og æ í loptið og var það sjaldsén atganga. Lét Alexander Dumas þessa bréfkúlnahríð ganga þar til ekkert var eptir af bókunum, nema greifinn af Monte-Christo; hann var innst. Tekr Alexander Dumas nú greifann af Monte-Christo og hnoðar úr honum ógrligan bréfkökk og hrækir í, svo sú kúla var eins og stál að hörku; sendir hann þá af alefli greifann af Monte-Christo í höfuðið á Eldjárni greifa og keyrir kúluna meðr báðum höndum, svo hausinn molaðist í smátt; lét Eldjárn þar líf sitt fyrir Alexander Dumas. Þetta sér einn af bjargþursum og vill hefna Eldjárns og snýr móti Alexander Dumas; þeir voru þá báðir vopnlausir, því að bjargþursinn bar aldri vopn, en Alexander Dumas var búinn að rýja sig gjörsamliga. Alexander Dumas var ógrliga langr og þvengmjór; hleypr hann þá að þursanum og vindr sig utan um hann í sjöfaldan keng, en þursinn kom hvorki höndum né afli við, brýtr Alexander Dumas þar hvert bein í þursanum og lét hann þar líf sitt, en Alexander Dumas sneri aptr til sinna félaga við mikinn orðstír.

Meðan þetta gerðist, var komið að nóni; gerðist nú himinninn dimmr og ógrligr. En er Alexander Dumas hafði gert þetta hervirki, þá gekk Loðbertus fram á völlinn meðr sína fylking; þeir voru allir í eirbrynjum og höfðu bjartar skálmir; þeir voru berserkir og gengu grenjandi og froðufellandi og bitu í skjaldarrendr. Réðist á móti þeim Napóleon frændi meðr sína fylking, varð þar hörð atganga og löng; börðust Frakkar svo hreystiliga, að þeir létu fyrr líf sitt en þeir hopuðu, gekk það þar til er hundrað menn voru eptir af Loðbertusi, en tvö hundruð af Napóleoni. hafði mannfallið verið svo mikið, að blóð tók mönnum í mjaðmir, og gátu menn varla við snúist fyrir mannabúkum og höggnum limum, hausum og hervopnum, sem allt var á sundi í blóðinu og flæktist fyrir þeim, er uppi stóðu.

Nú sem Vígvaða sér að Napóleon ætlar að drepa Loðbertus og alla hans menn, þá gengr hún fram að þeim með alla syni sína og dætr, þau spjóu öll eitri, svo allir hörfuðu undan þeim og Loðbertus líka. Urðu þá margir atburðir í senn, er eigi má segja nema einn í einu. Er þar þá fyrst að segja, að himinninn tók allr til að bresta og braka meðr svo ógrligum þrumum, að eigi heyrðist neitt til vegendanna, er öskruðu og hljóðuðu á vígvellinum, og þar með fylgdu svo miklar eldingar, að allt var sem í loganda báli. Þeir Napóleon og Loðbertus áttust við frammi á árbakkanum, og leiptruðu himinblossarnir svo utan um þá, að þeir sýndust allir í eldi brennanda, stoðaði hamingjan Napóleon, en Loðbertusi var annarr dauði ætlaðr. Napóleon hafði sverð það, er Sigrhvini hét, vopna best, og neytti hann þess svo fimliga, að Loðbertus kom aldri á hann lagi meðr atgeirinum Undfara; enda hefði þá dauðinn verið vís Napóleoni. Þetta leiddist Loðbertusi, og hamaðist hann og hugðist að reka Napóleon í gegn og kasta honum út á ána, en Napóleon stökk hátt í lopt upp yfir lagið, en atgeirinn kom í jörðina og sökk upp að skapti, því af afli var eptir fylgt; þá hjó Napóleon höndina af Loðbertusi í ölnbogastað; varð Loðbertusi þá laus atgeirinn og fékk Napóleon þrifið hann. En meðr því að atgeirinn var þungr og Napóleon eigi hamrammr, því að hann var mennskr maðr, þá varð hann eigi svo skjótr sem skyldi til að leggja til Loðbertus, og fékk Loðbertus þá náð hryggspennutökum á Napóleoni og kreisti hann svo fast meðr stúfnum, að við sjálft lá að hryggrinn mundi sundr ganga; en hinni krummunni, þeirri er heil var, lagði hann svo óþyrmiliga að herðablöðum hans, að allt hold mundi af beinum gengið hafa, ef Páll Mússett hefði eigi komið hlaupandi og höggvið höndina af Loðbertusi í axlarlið. Var Loðbertus nú handalaus og óð grenjandi út á ána og gnísti tennum svo grimmdarliga, að þær slógu eld eins og tinna við stál; en Napóleon óð á eptir honum með atgeirinn, og þar lagði hann Loðbertus í gegn undir geirvörtu hinni vinstri og sveiflaði búknum í hring, svo að hann sendist af atgeirinum langa leið og kom niðr í dætraflokk Vígvöðu; urðu þar undir skrokknum Loðbertusar níu tröllskessur og gengu allar úr augnaköllunum og fengu bana. En Napóleon gekk til tjalds síns, því að hann var móðr og þreyttr af þessari viðreign.

Þá hamaðist Vígvaða, er hún sá skaða þann, er hún hafði fengið, og þá hömuðust synir hennar og dætr, þær er eptir voru, og óðu grenjandi í kringum Frakka, þá er eptir stóðu uppi, og jusu yfir þá blóði og spjóu eitri á alla vegu, en þeir hlífðu sér vel og drengiliga með skjöldum og máttu eigi annað að gera, þar sem við slíka fjandr var að eiga.

Maðr hét Garibaldi, hann var ítalskr að ætt og fyrir einni fylkingu fótgönguliðs með Frökkum; hleypr nú Páll til Garibalda sem skjótast og segir honum í hvert óefni komið var, látnir margir hraustir menn og dauðinn vís öllum þeim, er uppi stóðu. Ekr Garibaldi nú fimm þúsund fallbyssum fram á völlinn; þá drifu allir Svalfarar að Vígvöðu, er þeir sá þenna viðrbúnað. Hófst nú hin grimmasta hríð, sú, er kölluð er Vígvöðuhrollr; lét nú Garibaldi skjóta kúlum á Vígvöðu og flokk hennar, en þau tóku kúlurnar ýmist á lopti og hentu þeim aptr á Garibalda og hans menn, eðr þau glenntu sundr hvoptana og tóku kúlurnar á fluginu milli tannanna og hræktu þeim aptr framan í þá Garibalda; fengu þeir af því mikinn skaða, en mönnum Napóleons keisarafrænda varð borgið og komust þeir undan, því að Svalfarar snerust allir móti Garibalda. Stóð þetta uns nótt skildi með þeim; þá gengu menn til herbúðanna, en máninn reis upp af austrstraumum eldrauðr og ógnandi og sveif yfir valdreyra og vopnbitnum náum.

Var Napóleon keisari nú bæði hryggr og reiðr út af mannfallinu, og djúplega hugsandi um sinn hag. Lá hann nú vakandi í sæng sinni, og mátti eigi sofa, því hann var ýmisshugsi. Þá heyrði hann hark mikið úti, svo sem riðið væri á árbökkunum. Keisarinn hvíldi alvopnaðr; hann reis þegar upp og gekk út; hann mátti eigi æðrast, því hann hafði hrakið alla hræðslu úr sínu hjarta meðr hugsun og stöðuglyndi. Tunglskin var bjart og kastaði hvumleiðum geislum út yfir blóðvaðlana og skein á margan bleikan og barinn haus, er stóð upp úr blóðinu afmyndaðr og tannaber. Napóleoni varð litið ofan til árinnar og sá hvar tólf menn riðu á ljósum hestum meðr hvíta fána. Bar þá skjótt að þar sem keisarinn stóð; þeir voru allir dökkir á hörund og miklir vexti, og þó helst sá, er fyrir þeim var; hann kvaddi Napóleon virðuliga og stigu þeir allir af hestunum.

Þá mælti sá, er fyrir þeim var: "Það þykist ég sjá, að þú ert Frakkakeisari, erum vér til þín sendir af Blálandskeisara og flytjum vér yðr vináttu hans og virðuliga kveðju og gjöf nokkra; og þar með þann boðskap, að hann mun hið skjótasta koma til liðs við yðr; hefr hann heyrt yðvarn vanda". "Hver er gjöfin?" mælti Napóleon. Þá tóku þeir allir upp böggla smáa, og leystu upp; í þeim bögglum voru blæjur svo smágjörvar, að varla mátti augum leiða; þær urðu svo miklar, er úr þeim raktist, að undrun gegndi. Þá mælti legatus aptr: "Þessar blæjur sendir Blálandskeisari yðr, Napóleon, og vill að þér þekið tjöld yðar með blæjunum". "Eigi viljum vér neina gjörninga hafa", mælti Napóleon; "viljum vér sigra eðr falla sem menn, en eigi sem galdramenn". "Engir galdrar fylgja blæjunum", mælti legatus, "en þær eru gerðar af dvergum í Svartálfaheimi; er mikið undir því komið, að þér þiggið blæjurnar; skuluð þér treysta því, að Blálandskeisara gengr gott til alls þessa". "Eigi kann eg með þenna hlut að fara", mælti Napóleon. Þá gengu hinir tólf til og blésu á blæjurnar, en þær liðu þegar í lopt upp og sveifluðust bylgjandi um allar herbúðirnar, og var allt meðr ummerkjum. Riðu þeir á burt síðan, en Napóleon gekk inn og hugsaði um þenna hlut. Rann á hann svefnhöfgi undir morguninn; þá dreymdi hann, að honum þótti sem hann stæði fyrir utan tjaldið og væri liði Austrríkiskeisara fylkt undir hömrunum. Þá þóttist hann sjá bjarndýr þrjú koma úr útnorðri; þau voru hvít og hýr í bragði og höfðu krúnur af sæliljum, en á eptir þeim rann sveimr nokkurr iðandi; þau renndu augum til óvinahersins meðr reiðisvip, en þá var sem allr herinn hvyrfi. Þá gengu bjarndýrin að keisaranum og beygðu höfuðin, svo að krúnurnar féllu á jörð, en sá björninn, er mestr og fegrstr var, strauk keisaranum blíðliga meðr hramminum, og þá vaknaði Napóleon.


12. kapítuli

breyta

Vígvaða reis á fætr undir morguninn, er allir voru í svefni og vakti upp alla þá, er látist höfðu af hennar liði. Hún óð fram eptir vöðlunum og skók skrokkana og limina, þá er höggnir voru, og reis allt upp af fítonskrapti Vígvöðu. Dætr sínar vakti hún og, og brugðust þær allar í finngálkn og ljón fljúgandi, og svo Vígvaða sjálf og synir hennar; settust þau öll upp á hamrabeltið.

Þá reis sól upp og var nú Svalförum og Tartaraliði fylkt undir hömrunum. En Frakkar fylktu sér fyrir utan herbúðirnar. Sló nú í bardaga, og var það skömm hríð, því að loptið fylltist allt af óvættum og illum lýð og varð allt kvikt; þar voru forynjur í öllum myndum, hálfir mannabúkar, armleggir, hendr, læri, fætr, rassar búklausir og fótalausir, hausar, augu og eyru; var allt þetta á flugi í loptinu og hafði leðrblökuvængi; þar voru og jötunuxar, flugdrekar og finngálkn, fiskar fljúgandi og vængjuð naut og nykrar, og fílar, og spjó allt slíku eitri og ólyfjani, að það var engum mennskum manni fært móti því að vega. Reiddist Austrríkiskeisari sjálfr, er hann sá þetta athæfi, en gat þó eigi að gert úr því sem komið var. Sneru Frakkar nú inn í herbúðirnar; en eigi vann eitrið á þeim, og hlífðu þá blæjurnar; en Frakkar sátu þar fram að hádegi og undu illa við sinn hag, þar sem yfir uppi var óvígr her af óvættum og ófreskjum, en undir niðri úði af allskonar illum lýð. En Vígvaða undi því illa, er hún sá að eigi vann á tjöldunum, því að hún hafði ætlað að vinna það dagsverk, að eyða öllu liði Frakka og sjálfum Napóleoni; skildi hún eigi hverju slíkt sætti, og flaug um allt meðr orgi og óhljóðum, en ófreskjurnar riðluðust til og frá í loptinu og börðust um og skelldu saman vængjum og hreistrslepjuðum sporðum og meinguðu blóðvaðlana eitri og ólyfjani; en sólin hvarf af himninum og gerðist náttmyrkr yfir Heljarslóð, utan fáeinar stjörnur tindruðu á loptboganum meðr ægiljóma.

Þá heyrðist lúðragangr mikill í útnorðri og sló upp eldbjarma niðr við fjallabrún; það voru norðrljós, og þustu upp á himininn meðr bragandi blossum, og í þeim norðrljósum riðu margar fylkingar vopnaðra manna, en eldbrim og ljósgráð freyddi undan hestabringunum eins og rjúkandi sjár; þær fylkingar voru alsvartar og höfðu allir grímur fyrir ásjónum; þar riðu þrír fremstir á svörtum hestum og í svörtum brynjum; þeir höfðu grímur fyrir andliti og sverð björt. Þeir riðu um loptbogann og fóru geyst, en himinbrimið svall löðrandi og skínandi undan þeim; þeir höfðu hjálma háfexta, kembdi stjörnurjúkandi ljósboðinn aptr af hverju faxi. Riðu þeir þegar á móti ófreskjunum og urðu þar skjót umskipti; barðist nú allt í loptinu og hurfu ófreskjurnar hver af annarri, og varð daunn illr í lopti, en engi féll á jörðu. Þá varð um síðir allt horfið nema Vígvaða; hún vildi forða sér og brást aptr í kvenlíkan og sé niðr á vígvöllinn; en fyrir því að hált var á líkunum og blóðið djúpt, missti hún fótanna og féll á kaf í blóðið. Þá reið einn hinna þriggja þangað sem Vígvaða svamlaði á náunum, og hjó þrívegis í blóðið; urðu þá þrír brestir ógrligir, og þar hvarf Vígvaða og hefir aldri sést síðan. Þá sneru fylkingarnar þangað að sem Svalfarar voru fyrir og sveifluðu hjálmföxunum; gerðist þá gneistaflug ógrligt, en í þeirri eimyrju hvurfu allir Svalfarar og sást ekki eptir af þeim nema aska ein. Þá hleyptu þeir þangað sem voru Tartarar og bjargþursar, og var þar eigi viðnám veitt, því að liðið flúði allt svo sem fætr toguðu, og er það úr sögunni. Var nú komið að nóni; þá varð aptr sólskin bjart og hvurfu eldblæjurnar. Þá liðu fylkingar grímumanna til jarðar og riðu til tjalds Napóleons og fylktu sér þar meðr reistum sverðum; þá sló einn hinna þriggja á tjaldknappinn, svo að söng við; þá gekk Napóleon út.

Þá mælti grímumaðr, en rödd hans var lík kvöldgusti í skógargreinum: "Það skaltu vita, Napóleon keisari, að þú ert eigi heillum horfinn að þessum leiki, því að nú er jafnara á með ykkr komið keisurunum en áðr, en slíkan her sem hér er að velli lagðr er engum mennskum manni unnt að sigra, á meðan hann nýtr líkamligrar náttúru; er þér það engi minnkun, þóttú eigi megir yfirstíga mannligt eðli; en eigi skaltu leggja óþokka á Austrríkismenn fyrir þenna hlut, því að eigi vissu þeir náttúru þessara þjóða. En fyrir því að þú hefir hafið ríki þitt til vegsemdar og veldis og til riddaraligrar dýrðar, þá höfum vér og til þín horfið og veitt þér að þessum leiki; máttu hér nú líta Duguesclín og Róbert Guiskarð og Bayarð, ef þú vilt. Þá lyptu þeir þrír upp hjálmgrímunum, og sást í svart hyldýpið, fyrir því að þeir voru meðr andligu lífi, en eigi líkamlegu holdi; en allar fylkingarnar hneigðu sverðin fyrir Napóleoni, eins og þegar brimsilfruð holskefla hneigir helþrunginn motrinn fyrir hádegissól, en ljómanum lýstr snöggliga niðr í djúpið, og dökknar brimslóðinn. Síðan liðu þeir í lopt upp og hvurfu út í himinblámann; en er þeir voru horfnir, þá heyrðust dunur miklar og dynkir; riðu margir menn úr suðrátt og yfir ána að Napóleoni; er þar eigi orð um að lengja, að þar var kominn Blálandskeisari meðr hundrað þúsundir blámanna; þeir riðu allir þeim dýrum, er elephanti heita, og voru að öllu líkari tröllum en mönnum, en þó stilltir vel. Tók Napóleon vel viðr Blálandskeisara og þakkaði honum sína vegsemd viðr sig með mörgum fögrum orðum; drukku menn vín þar í tjöldunum af gleði, en þótt margra góðra drengja væri að sakna.

En er þeir höfðu nokkra stund saman setið, þá heyrðist öskr svo mikið og læti, að allt lék á reiðiskjálfi; gengu allir út til að sjá hverju slíkt gegndi. Var þar þá kominn Pútíphar, og hafði farið gangandi frá Búlgaríu, en eigi hitt á Langbarðaland, heldr hafði hann farið utan hjá því fyrir framan Feneyjar, og villst suðr fyrir Róma og út í pontínsku flóana; var Pútíphar því allr moldugr og forugr af þessu ferðalagi. Sá hann nú hvergi neitt mannsbarn af sínu liði og óð um blóðvaðlana berjandisk og bölvandisk eins og graðungr; hann henti hverju líkinu á fætr öðru upp í háa lopt, og bjóst til að vaða á móti Frökkum og berja á þeim; vildi Garibaldi fara á móti Pútíphar, því hann var fullhugi mikill; fékk hann því eigi ráðið.

Þá mælti Blálandskeisari: "Látið mig fara í helvítið" - og girti sig upp og gekk í móti Pútíphar. Tóku þeir þegar saman og varð stutt um kveðjur; varð þar grimmdarligr atgangr. Blálandskeisari var í nýjum hjartarskinnsbrókum, og þar tók Pútíphar svo sterkliga í, að brækurnar héngu í dulum og slitrum utan um lærin á keisaranum; var Pútíphar sterkari og hafði Blálandskeisara einatt á lopti, en keisarinn var mjúkr og kom Pútíphar honum eigi af fótunum. Horfðu allir á þenna atgang og fannst mikið um. Pútíphar var allsber, og náði Blálandskeisari lengi engum tökum á honum; keisarinn hafði neglr langar, því hann nagaði eigi fingurna eins og sumir; hafði hann nú eigi önnur ráð en að hann rak hendrnar á kaf inn í lærin á Pútíphar, en Pútíphar æpti ógrliga; fóru þeir nú báðir út á ána, og þar kom Blálandskeisari klofbragði á Pútíphar svo miklu, að fætr hans áttu skammt til himins, en hann steyptist á höfuðið ofan í hylinn og sér enn í iljar honum. Bíðr Pútíphar þar Ragnarökkurs.

Nú sem Austrríkiskeisari sér alla þessa atburði, þá sér hann að eigi má svo búið standa; hyggr hann nú öllum sínum her dauðann vísan, þar sem Frakkar höfðu haft sigr yfir jötnum og illþýði; sá hann sem var, að þeir mundu þaðan af heldr hafa sigr yfir mennskum mönnum, og það því fremr, sem Blálandskeisari var kominn til liðs viðr Napóleon. Ríðr hann nú fram á völlinn, og mælti meðr hárri röddu til Napóleons:

"Nú hefir hér staðið sú orrusta, sem lengi mun í minnum höfð; hafið þér látið marga hrausta menn af yðrum her. Sjáum vér nú eigi annað fyrir en að engi muni uppi standa af hvorigum, ef þessu heldr fram, enda er og illt til þess að vita, ef svo mikið mannalát skal verða, að eyðist allt dugandisfólk í ríkjum vorum fyrir þessa styrjöld. Finnst oss og mikið um það, hversu vinsælir þér eruð, Napóleon keisari, þar sem ekki einungis tröllauknir riddarar úr fjarrum löndum ganga til lið við yðr, heldr koma einnig forfeðr yðrir og veita yðr, þótt þeir sé löngu til moldar gengnir, og má það meðr sanni segja, að þér hafið vini jafnt á himni sem jörðu; hafið þér og í enga liðsbón farið, en allir veita yðr sjálfkrafa. Viljum vér nú koma í veg fyrir það, að menn vorir hrynji hér niðr sem hálmr fyrir ljáum, og bjóðum vér yðr hólmgöngu á Heljarslóð, ef yðr svo vel líkar; skal sá kallast unninn, er fellr fyrir öðrum, og hlýða því er hinum líkar; en engi orrusta skal framar standa meðr mönnum vorum, heldr skulu allir í friði heim halda, þá er vér höfum barist. Vil ég nú heyra álit yðar um þenna hlut, eðr hvort þér kjósið þann, er oss virðist verri".

Þá mælti Napóleon: "Þetta er vitrliga mælt, Austrríkiskeisari, og viljum vér víst af yðr hólmgöngu þiggja að morgni komanda, ef yðr svo vel líkar; skal allt standa, sem þér hafið þar um sagt; þykjumst vér nóg látið hafa af mönnum vorum, og þykir oss það engi hefnd, þótt vér mættum drepa niðr allan her yðvarn, því að dauðr er dauðr". En Austrríkiskeisari stakk upp á þessu fyrir þá sök, að hann sá sitt óvænna; en hann var mikill vexti og rammr að afli, og þóttist hann eiga sigrinn vísan, ef hann ætti við Napóleon einan; en Napóleon var eigi eins mikill vexti, en vel vaxinn og hnellinn; kunni engi vopnfimi á við hann, þótt um allan heim væri leitað, en það vissi Jóseppr eigi, því Napóleon lét lítið yfir sér sjálfr, og var þó hinn mesti riddari.

Var nú hreinsaðr valrinn og blóðinu veitt út í Padusá, en hún bar það allt til sævar svo roðnaði allr Hadríaflói; þá ráku valhrannirnar þar um sæinn svo þykkt, að engi skip komust innar í flóann en á móts viðr Ragúsa og Manfredónía. En er lokið var að ryðja valinn, þá var keisurunum haslaðr völlr á Heljarslóð, og breiddr silkidúkr á grundina. Var allt búið til hólmgöngunnar um miðnætti; þá gengu menn til hvíldar og tóku á sig náðir.


13. kapítuli

breyta

Um morguninn snemma var allt liðið vakið; var mönnum skipað í þrefaldan hring utan um hólmgöngusviðið. En utanvert í hringnum voru settir þrír stólar úr rauðagulli, sat Viktoría á einum, Napóleon keisarafrændi á öðrum og Blálandskeisari á hinum þriðja. Þar á bak við stóðu stólar úr hvítagulli; þar sátu þeir Garibaldi, Marmier, Alexander Dumas, Páll Mússett og margir aðrir hershöfðingjar og kappar úr beggja liði. Síðan riðu keisararnir fram; þeir riðu hvítum hestum gullbrynjuðum og í gullsöðlum. Beislin voru úr demantatölum, sem dregnar voru á rauðagullsbönd; þær tölur voru allar austan af Indíalandi, og vissi enginn hvernig þær höfðu verið boraðar. Hleyptu nú keisararnir hvor að öðrum og lögðu burtstengunum í skildina svo söng við hátt; gekk það langa hríð að hvorigr gat bifað öðrum í söðlinum. Loksins rak Austrríkiskeisari sína burtstöng að Napóleoni, en lagið kom í bringu hestsins og dalaði brynjuna; þá fældist hestrinn og hljóp með Napóleon um völlinn. Þá mælti Austrríkiskeisari: "Nú flýr þú, Napóleon, og kalla ég þig unninn að þessum leik". "Eigi er svo", mælti Napóleon, "eigi er fullreynt nema á fæti sé", og stökk af baki og kom standandi niðr á völlinn. Þá sté Austrríkiskeisari líka af baki; og nú brugðu þeir sverðum og gengust að af miklum ákafa. Gekk svo langa hríð, að hvorigr varð sárr; lagði Napóleon sig og lítið fram; en Austrríkiskeisari var stórhöggr, en fékk þó aldri komið fram sínum vilja.

Tóku þeir nú hvíld um hríð, er þeir voru báðir móðir orðnir; og að stundu liðinni mælti Austrríkiskeisari: "Nú munum við láta til skarar skríða, og það sé ég, Napóleon, að þú kannt eigi að berjast". Þá glotti Napóleon. Gerðu þeir nú atlögu, og þá beitti Napóleon sér; hann hafði Dreyrvaðil, og nam það sverð aldri í höggi staðar, ef rétt var á haldið; þá kastaði Napóleon skildinum og hjó skjöld Austrríkiskeisara í tveim höggum, svo eigi voru eptir nema fetlarnir; þá hjó hann hjálminn, en málmpláturnar flugu víðs vegar út um allan völlinn; Napóleon hjó svo hart og títt, að sverðin sýndust sex á lopti í hendi hans og aldri mátti auga á festa, hvar hann hjó, hlífði brynjan nú og eigi lengr Austrríkiskeisara, því að Dreyrvaðill skapaði henni aldr; lauk svo, að Austrríkiskeisari hné niðr á völlinn og flakti allr í sárum. Bar hann sig vel og drengilega og mælti þá við Napóleon:

"Nú hefir þín hamingja sigrað, Napóleon, og sagði mér það löngum hugr um, að hún mundi mikil og fögr vera. Hefir þú nú haft fram þinn vilja, menn þínir unnið sér frægð og frama; en þú styrkt ríki þitt meðr þeim hlutum, er lengi munu standa. Munu fáar sögur hafa af ógrligri bardaga að segja en hér hefir háðr verið, og eigi af frækiligri framgöngu en þessi var, er sýnd hefir verið á Heljarslóð; því að það skaltu vita, að þessi orrusta er miklu meiri en Brávallabardagi og Rúnsívalsbardagi, er mestir hafa verið í manna minnum, að því er Metternich hefir sagt mér frá. En ég mun hér nú deyja, og hetjur þínar og menn mínir munu verpa haug minn og drekka erfi mitt með sæmd og gleði. Vonar mig, að þú munir sjá til þess af visku þinni, að þessi styrjöld eigi rísi upp aptr, heldr fari allir heim í friði. Er mér eigi hatr í brjósti til þín né þíns veldis, þótt við höfum grátt silfr elt; enda veldr sjaldan einn þegar tveir deila".

Napóleon viknaði og mælti: "Sjaldan hefir mér ætlan mín brugðist, og er sú ætlan mín, að yðr muni það eigi henda að láta hér líf yðvart snemma í frægð og fögrum blóma; hyggjum vér, að þér munið enn stjórna ríki yðru meðr sæmd og speki um langan aldr".

Og er Napóleon hafði þetta mælt, þá sást jóreykir miklir og heyrðist hljómr og söngniðr yfir Mundíafjöll; urðu þá undarleg tíðindi, því fyrst komu í loptinu tólf ernir fljúgandi; þeir voru allir svo, að önnur hver fjöðr var gyllt, en önnur hvít; þá komu tólf svanir alhvítir með blágullnum bjarma og teygðu hálsana meðr löngum hljómdrögum svo kvað við í himinskýjunum, en þá kom nokkuð sem eldslogi rjúkandi; það var páavagninn og Evgenía í; henni fylgdu fimm hundruð heiðrsmeyjar á gullkerrum, en strútsfuglar drógu kerrurnar og veifuðu vængjunum; þá komu fimm þúsundir riddara og fjórir fremstir; það voru þeir Albert, maðrinn Viktoríu, og Lord Cowley og Lord Dufferin og vinr hans sá, er Nikander hét; þeir voru allir á grænum brynjum með hvíta skildi og gyllta hjálma; gengu þeir allir fyrir Viktoríu og kvöddu hana virðuliga. En Evgenía sté þegar af vagninum og sá hvað um var að vera; tók hún þá úr vagnsætinu lífstein; sá steinn var hvítr og læknaði öll sár mjög skjótliga; gekk hún síðan að Austrríkiskeisara og skóf lífsteininn ofan í sárin, og dró þegar úr allan sviða, en Austrríkiskeisari leið í dá.

Nú urðu miklir fagnaðarfundir meðr Evgeníu og Napóleoni; varð Evgeníu svo starsýnt á keisarann sinn, eins og hún hefði aldri séð hann áðr, sem von var, þar sem hann hafði unnið slík hervirki og íklæðst nýjum skrúða frægðar og frama ofan á alla þá vegsemd, er áðr hafði hann. Sátu þau nú hjá Viktoríu og þótti ljúft eptir liðna þraut. Og eptir nokkra stund raknaði Austrríkiskeisari við úr dáinu; þá stód Evgenía upp og fór höndum um keisarann, en hún var svo mjúkhent, að hendr hennar voru sem svanadúnn blævakinn; og svo mikill kraptr fylgdi þeim höndum, að þær læknuðu öll sár; stóð Austrríkiskeisari þá upp alheill og þakkaði Evgeníu lækninguna meðr mörgum fögrum orðum.

Þá mælti Napóleon: "Nú vil ég upp á því stinga, að vér haldim hér veislu að skilnaði, Austrríkiskeisari, svo að vér skiljum með gleði og gleymum þeim raunum, er vér höfum þolað af þessari styrjöld". "Það vil ég gjarna", mælti Austrríkiskeisari, "og skulum við báðir kosta veisluna, meðr því að við höfum penninga eins og sand".

Þá stóð Blálandskeisari upp og mælti: "Meðr því að menn eru hér sáttir orðnir og friðr er á kominn, þá viljum vér leggja til veislu þessarar tólf þúsund skippund af nautaketi og fimm hundruð ámur af ákavíti handa herinum". Líkaði öllum vel þessi ræða Blálandskeisara, og þótti hann hafa talað af mikilli andagipt.

Þá stóð Viktoría upp og mælti til Napóleons: "Nú vil ég minna yðr á heit yðvart, Napóleon keisari, er þér hétuð að gefa meyjum mínum festarmenn; þykir oss þér hafa langt fram séð, og hafið þér mikinn frama hér fengið".

Þá mælti Napóleon: "Það skal standa, sem ég hefi heitið, Viktoría, og skulu nú meyjarnar kjósa sér menn þegar í stað, ef þær vilja; skulum vér þá gera þessa veislu að tólf-hundraðföldu festaröli og skal ekkert það skorta, það er þér hafa vilið".

Þá gengu meyjarnar fram með herfylkingunum, og kaus hver sér þann mann, er henni leist á; síðan var slegið upp tólf hundruð hjónarúmum úr gulli og gimsteinum og tjaldað yfir meðr gagnsæju kristallsgliti; þær sængr voru allar settar á völlinn í sólsetrsstað, og þar gengu meyjarnar til hvílu meðr festarmönnum sínum, því óþarfi þótti lengr að slá þeim hlutum á frest; þá gengu og allir aðrir til svefns, því að kvöld var komið, nema þeir, er búa skyldu til veislunnar, þeir vöktu um nóttina; en veislan skyldi standa að morgni.


14. kapítuli

breyta

Nú reis sól í heiði um morguninn, og var allt búið til veislunnar, og samboðið þeim höfðingjum, er hennar skyldu njóta. Kom nú allt liðið og settist niðr, en að því búnu gengu höfðingjar og drottningar í þeirri röð sem hér segir. Fyrst gengu Viktoría og Evgenía, og Napóleon í miðjunni. Þá komu Albert og Napóleon keisarafrændi og Austrríkiskeisari og Blálandskeisari; þá Lord Cowley, Lord Dufferin, Nikander og Marmier; þá öll hjónin, tólf hundruð; þá Alexander Dumas og Páll Mússett og Garibaldi og hinir aðrir hershöfðingjar.

Evgenía var þann veg búin, að hún var í hvítum silkikjól meðr gullrauðum krúnum; hún hafði festi um hálsinn af þeim tölum, er margarítes heita, og pellglit á herðum með gullarnarfiðri; en kórónu á höfði úr safírsteini himinblám meðr eldligum knappi efst. Tuttugu meyjar gengu á eptir drottningunni og héldu upp kjólslóðanum. Napóleon var á rauðri purpurakápu, er Cæsar hafði áðr borið; hún var öll lögð meðr gullborðum og demöntum; hann hafði kórónu úr hvítagulli eins og múrtinda, og efst uppi sat örn kórónaðr úr rauðagulli. Tuttugu og fjórir riddarar gengu á eptir keisaranum og báru kápulöfin. Viktoría var í silkikjól sægrænum meðr blám öldurákum og sló á gullrauðum blæ; hún hafði hálsmen úr kóralli þeim, er Ísis heitir; hann er blóðrauðr og vex í Indíahöfum; hún hafði kórónu úr smaragðsteini grasgrænum og sælilju efst úr flogagulli; það gull unir hvergi nema hjá sækonungum. Tuttugu og fjórar meyjar báru kjólfald Viktoríu. Austrríkiskeisari var í blárri keisarakápu meðr stungnum silfrkrúnum; hann hafði kórónu úr marsilfri og dvergasmíði; tuttugu riddarar báru kápulöfin keisarans. Blálandskeisari var í hvítri kápu úr marðarskinnum meðr silfrbjöllum, og hringdi við, er hann gekk; hann hafði kórónu greypta úr gresjárnum sunnan frá Timbúktú; hún var furðuverk mikið og spegilfögr. Tólf svartir riddarar báru á kviktrjám kápuslóðann eptir keisaranum. Albert var í rauðri skarlatsskikkju gullsaumaðri; hann hafði gullhlað um enni. Napóleon keisarafrændi var í hvítri brynju og rauðum silkibuxum; hann hafði hjálm gylltan á höfði og fjaðrir á af fuglinum Fenix. Þá höfum vér og heyrt þess getið, að Lord Dufferin og Nikander voru báðir eins klæddir og leiddust; þeir voru í brynjum úr stjörnugulli meðr silfrrifjum; og höfðu hjálma úr blástáli glerskæru meðr toppandarskúfum; þeir voru gyrðir sverðum og gullrekin hjöltun öll, en umgerðin vafin meðr gullþræði og sett geirfuglafjöðrum. Lord Cowley var í hringabrynju úr snúðstáli, hún var þreföld; hann hafði stálhúfu á höfði og brynhosur úr engelsku tini frá Cornwallis. Marmier var á flöjelsbuxum pilsvíðum og sefgrænum, og á bláum klæðiskjól meðr gylltum knöppum; hann hafði hjálm á höfði úr fílsbeini og fjaðraskúfr mikill efst á hjálminum úr fjöðrum af fuglinum Dúdú; sá fogl er nú dauðr. Brúðhjónin voru öll hvítklædd.

Settust menn nú til borðs, og er þar um eigi að orðlengja, að þar var haldin friðarveisla og drukkin tólf hundruð brullaup; segja menn að slík hjónaveisla hafi aldri haldin verið hvorki fyrr né síðar. Og er veislan hafði staðið í þrjár vikur, þá stóð Napóleon keisari upp og mælti fyrir minni á þessa leið: "Nú munum vér snúa hugum manna um hríð frá glaumi og gleði til alvarligra hugsana; því að þó menn nú sé værir í veisluhljómi, þá hefir samt það orðið á þessum stað, er fremr mun minna á daprar stundir en daga ljósa. Því að mannligt líf er breytiligt og undirorpið umskiptum sólbjartra daga og svipligra nátta; enda hefir hér mátt sjá byltingar lífs og dauða, og svo fagnað og friðarhót. En lífi þjóðanna er eins varið og lífi náttúrunnar; því eins og engin ársæld getr átt sér stað í sífelldum umhleypingum og stormum, eins getr heimslífið þjóðanna heldr eigi staðist né dafnað, ef friðrinn er alltaf rofinn hvað eptir annað; hef ég það fyrri sagt, að keisaradæmið er friðr; en nú segi ég, að mannlífið sé friðr. Það er víst, að frægð grær á fallins blóði; en maðrinn lifir eigi á frægðinni einni saman; er og annarr meiri heiðr til en herfrægð; en sá heiðr er heiðr friðar og frelsis. Eins og stríð og styrjöld leiðir af sér ánauð og ýmsan þrældóm, meðr því að herstjórnarharka og undirokan manna hljóta þar með að fylgja, eins þróast og eflist frelsið einungis með vináttu manna; en vináttan getr eigi átt sér stað nema í friði. Hef ég það æ fyrir augum haft, að láta þegna mína njóta friðarins, eins og unnt er, þótt nú hafi út af brugðið; því að í friðinum er frelsið og farsældin falin; og þar er afl og ágæti geymt meðr fegra og varanlegra blóma en þeim, er fæst meðr leiðangri og hervaldi, þótt í augun gangi. Nauðugr fór ég í þetta stríð, en viljugr fer ég aptr heim; hryggr gekk ég til hjörva, en feginn geng ég til friðar. Vil ég nú mæla fyrir minni friðarins, og æskja þess öllum lýð, að haldast megi friðsæl og farsæl hamingja um láð og lög, og samlyndi og vinátta meðr öldum og óbornum, svo langt sem sær svellr, fugl flýgr og aldin á eikum grær".

Og er Napóleon hafði lokið þessari tölu, þá stóðu allir upp og drukku þetta minni af hreinu hjarta. Þá mælti Albert fyrir minni Napóleons keisara af mikilli snilld og orðgnótt; var það minni drukkið meðr svo miklu fagnaðiarópi, að það þótti sem það mundi aldri enda taka.

Þá stóð Nikander upp og mælti fyrir minni Viktoríu á þessa leið: "Nú hefir oss veist sá fögnuðr, að líta hér saman komna hina veldisríkustu stjórnara heimsins; segir mér svo hugr um, að nokkrar aldir muni líða, og margir muni til moldar ganga, áðr slíkt verði aptr. Hafa þessir hlutir hér orðið í varma suðrænnar sólar, og fyrir því er eigi ólíklegt, að mönnum kunni að vera orðið heitt nokkuð; vil ég því kæla yðr um hríð meðr svalari blæ en hér er; og snúa huga yðrum í norðrátt til þess ríkis, er nyrst liggr allra þeirra, er þátt eiga í þessari gleði. Er yðr öllum kunnigt, hversu mikið ríki Engladrottning á fyrir vestan haf, og er það meginríki; en þó er engi sá hluti heimsins, er hún eigi ekki nokkuð af; kveða menn fyrir þá sök sól eigi setjast í Englaveldi, svo sem fyrrum var sagt um ríki Filips konungs hins annars. En þótt að þetta ríki sé svo geysiligt og tvístrað í heiminum, þá er þó vegr Viktoríu svo mikill, og svo trúa herra hefir hún í sinni þjónustu, að hún heldr saman öllum þessum löndum svo að hvergi svífr, enda þótt að náttúra þeirra sé ólík í alla staði. Má af slíku marka, að hún og hennar ríki hefir þá auðnu, sem keisarinn mælti að væri undirrót allrar farsældar, en það er friðrinn og það afl, er friðinum fylgir. Hefir hennar ríki á Englandi aldri truflast fyrir neinum ófriði eða ósamþykki um hennar daga. Vil ég nú skora á yðr alla að drekka minni Viktoríu Engladrottningar, henni til vegsemdar, farsældar, yndis og gleði, að ríki hennar megi standa um aldr og ævi og hún sjálf lifa mörg heilladrjúg og friðsamleg ríkisár".

Var þá þetta minni drukkið af engu minna fagnaði en minni Napóleons; gerðu menn góðan róm að ræðu Nikanders, sem von var, því að hann bar fram snjallt og skörugliga.

Þá stóð upp Napóleon keisarafrændi og mælti fyrir minni Austrríkiskeisara, og þá mælti Garibaldi fyrir minni Alberts og Evgeníu, en Austrríkiskeisari mælti fyrir minni Napóleons frænda. Voru öll þau minni drukkin af mikilli gleði, og var nú suma farið að syfja, því að fullin gengu óðum hvort á annað ofan.

Þá stóð upp Lord Cowley og mælti þannig fyrir minni Blálandskeisara: "Víst er það mikill fagnaðr, að vita af svo mörgum höfðingjum og frúm saman komnum, en þó furðum vér oss eigi á náttúrligu eðli þeirra, þar sem öll eru hvít á hörund, og mætti kalla alla Norðrálfuna Hvítramannaland eðr jafnvel Albíon, og bæta þar enn við Norðrameríku, Persíu, Kína og Síbiríu; en hitt þykir oss nýjung, að hér sitr með oss einn kolsvartr keisari frá Blálandi, og allr hans her svartr sem bik. En hann hefir gert meira fyrir oss en það, að sýna oss sig og blámenn og berserki, því að hann hefir veitt hér til veislunnar þá beufsteik, sem vér höfum aldrei slíka smakkað í sjálfri Lundúnaborg, og vita þó allir, að vér erum nautamenn miklir og kunnum bæði að matreiða nautin og éta þau; en þessi beufsteik yfirstígr allt, sem mér nú dettr í hug, því að hún er bæði ágætliga brúnuð og þar að auki svo blóðrauð og meyr innan, að hún er mýkri undir tönn en flyðrufylla og líkari guðafæðu en mannligum mat.

Mun ég það lengst upp kveða, að ég hef aldri á minni lífsfæddri ævi smakkað annan eins mat, og vil ég ráða löndum mínum til að drepa öll naut sín, en fá nýjan graðungastofn aptr frá Blálandi, en kaupa nautaket af Blálandskeisara á meðan nautin eru að vaxa; án efa þyrftum vér þá að fá kýr líka, því án þeirra mun nautunum varla verða komið upp. Enn fremr hefr Blálandskeisari af gjafmildi sinni lagt til veislunnar það brennivín, hvers líka ég hygg hvergi í heiminum finnast muni, og má sjá hinar furðuligu verkanir þess, því að þeir, sem ófullir eru, hafa alla skynsemi; en hinir, sem drukknir eru, gleyma sorgum og sút og verða sem vitlausir. Er ég nú staðráðinn í því, þegar ég kem aptr til Englafoldar, að hætta hreint að drekka Porter og Ale, heldr mun ég panta hverja brennivínsámuna á fætr annarri frá Blálandskeisara, og mun víst eigi of dýrt, þótt menn gefi eitt pund fyrir pottinn af slíkum dýrindis metalli. Virðist mér því sjálfsagt, að einhverr verði til að frambera minnismál Blálandskeisara af veislufólksins hálfu fyrir allt þetta af góðum hug í té látið, að hann megi komast aptr heill á hófi heim til sín og lifa vel og lengi og éta skyr og rengi".

Þessi ræða hins dýra lávarðar líkaði vel, og var þetta minni og drukkið; en að því búnu þakkaði Blálandskeisari Lord Cowley fyrir sig með svofelldum orðum: "Mesta ánægja væri mér, ef þér kæmuð til Affríku, að þér rækjuð við hjá mér, og þæðuð ket og brennivín. Ég er ekki skáld, Cowley minn, en yðar sérdeilislega mælska færir mig á lopt, eins og ég færði Pútíphar, þegar ég lagði hamramman hrímþursann á svo smellnu klofbragði, að ég var rétt farinn úr augnaköllunum sjálfr; og við yðar öflugu orðsnilld vakna allar mínar fegurðartilfinningar, svo að ég verð verulegt skáld og tala með himneskum orðum, eins og heyra mátti á þeim undanganganda kviðlingi, sem mér varð á munni. En nú er ég glaðr á góðri stund sem á mér sér, og hlakka ég nú til að komast heim til mín, því mér leiðist hér, og konunni minni er líka sjálfsagt farið að leiðast eptir mér; ég hef nú ekkert barn átt í fimm ár; hún sat á rúmstokknum og var að gera við upphlutinn sinn; það var farin af honum ein millan, en hún hefir kannske verið undir rúminu, þó hún væri ekki fundin þegar ég fór, en ég er óvanr að mæla fyrir skálum, því á Blálandi er lítið um ræður, eins og allir vita, og þess vegna skal nú þetta vera Lord Cowleys skál". Þetta sagði Blálandskeisari og ýtti upp öxlunum og gaut augunum og skældi munninn og brosti í kampinn eins og klerkr, sem hefir sagt nokkuð ljótt á stólnum. Minni Lord Cowleys var drukkið, því hann var maðr vinsæll.

Þá stóð Marmier upp og mælti: "Nú mun ég leyfa mér að mæla fyrir minni tveggja heiðursmanna, sem hér fylla flokk vorn með dugnaði og sóma; en það er öllum kunnigt, að fóstbræðralag hefr tíðkast frá alda öðli; því að vér höfum heyrt getið um Jósep og byrlarann, er hverr stoðaði annan til mikils frama meðr því að byrlarinn átti hlut að því, að Jósep varð mestr maðr í Egiptó, en Jósep barg byrlaranum frá háðungarligum dauða; þá þekkjum vér og Otus og Ephíaltes, sem ætluðu að brjóta himininn, þótt þeim yrði þess eigi auðið; þá munum vér Theseus og Pírithóus, þótt nú sé báðir í helvíti, að því er Virgilíus kveðr; þá munum vér og Órestes og Pýlades, sem voru svo frægir, að þeir eru fyrirmynd allra vina; þá munum vér Alexander og Hefestion, sem hvorr mátti eigi af öðrum sjá; þá voru og Akkilles og Patróklus, sem þeirra vinátta var einn hinn frægasti hlutr í einu hinu frægasta stríði; munum vér og Nisus og Evrýalus, er voru vinir órjúfandi; enn eru Damon og Pythias, ef nokkurr hefr lesið Vinagleði af þeim, sem hér eru inni; þá teljum vér Magnús og Halldór, sem lögðust báðir á eitt til að sjóða saman eitt dálítið stafrofskver; má af því marka, að þeir hefðu hjálpast að til meiri afreksverka, ef örlögin hefði svo viljað. Nú sem vér höfum þessi hin fögru og frægu dæmi fóstbræðralagsins frá fornöld, þá má oss mikil ánægja að því vera, að geta sagt, að meðal vor sé einnig fóstbræðr, því að vinátta Lord Dufferins og Nikanders er nú orðin svo fræg, að hennar er getið í öllum blöðum um heim allan, sem makligt er, og ég hef sjálfr ritað um þá í Revue Britannique; og það er þeim að þakka, að ég er ekki dauðr fyrir löngu, því að úr þessum blöðum saumaði ég brynjuna mína, sem hlífði mér þegar Vígvaða ætlaði að drepa mig, og það er því að þakka, sem á blöðunum stóð. Er og öllum kunnigt, hversu víðfræg ferð Nikanders og Dufferins er orðin, þar sem þeir hafa siglt innan um ísjaka og rauðkembinga og allskonar illhveli efst uppi viðr heimskautið, þar sem jörðin stendr kyrr, eins og mig minnir að Arago hafi einu sinni sagt mér; og vitið þér það allir, að Lord Dufferin hefr um þetta saman sett eina fræga ferðabiblíu, fulla af ferðasögum og ferðavísum. Er það hin frægasta og besta bók, og helmingi betri en gamla Vaisenhúsbiblían og engelsku gjafabiblíurnar, sem allir þekkja. Vil ég nú loks óska Lord Dufferin og Nikander langrar og heilladrjúgrar ævi, og að þeir megi blómgast og þróast líka sem tvær pálmaviðargreinir á lífsins landi, ilmandi af allskonar sætleik og ágæti, heiminum til uppbyggingar, guði til ánægju, en andskotanum til óþokka og ergelsis. Lengi lifi Lord Dufferin og Nikander!"

Þetta minni var drukkið með svo miklu fjöri, að flest glerílát gengu í sundr, er á borðinu voru, en að því búnu stóð Páll Mússett upp og mælti: "Nú veit ég ekki, hvort menn hafa gott af að drekka fleiri minni, því af öllu má of mikið gera; en samt virðist mér það hreint ófært, að drekka ekki brúðhjónaminnið; það er skrýtið, að það skuli eigi vera búið að drekka það fyrir löngu. En með því að hér úir og grúir af hjónum, þá álít ég ófært að drekka minni hverra einstakra hjóna út af fyrir sig, því það mundi verða tólf hundruð glös á mann, og langt of mikið, eins og allir sjá, því menn mundu allir liggja á bakinu af öðru eins fylliríi, og enda óvíst, hvurt nokkurs manns magi rúmar svo mikið af vatni, hvað þá heldr víni. Sting ég því upp á því, að vér drekkum minni brúðhjónanna allra í einu, upp á það að þau megi aukast og margfaldast og uppfylla jörðina og njótast í gleði og samlyndi til ellidaga. En til þess að gera þetta minni enn hátíðligra, þá vil ég upp á því stinga, að allir kyssist, sem hér eru að veislunni. Er það gamall og góðr siðr og ástarmerki".

Líkaði öllum vel ræða Páls skálda, og var minnið fyrst drukkið, en síðan gengu menn og kysstust; var svo reiknað, að því er oss hefr frá sagt verið, að þar færi manna á milli fimm hundruð milljónir og fimm hundrud þúsund legíónir kossa, en hver legíón var sex þúsund, sex hundruð og sextigir og sex kossar. Er það miklu fleira en stjörnur himins; enda höfðu margir viðvaningar munnkrampa síðan og afsögðu hreint að drekka meira.

Að því búnu mælti Napóleon: "Nú munum vér eigi drekka fleiri minni, og munum vér nú slíta þessari gleði. En svo skiljum vér nú við þenna stað, að hann er merkastr orðinn allra staða jarðarinnar á þessari öld, og mun um langan aldr eigi eignast sinn líka. Kveðjum vér yðr nú, virðulig drottning Viktoría, og allar frúr, keisarar, meyjar, hershöfðingjar og vinir, felandi oss alla guði á vald, að hann megi stoða oss til að efla frið og farsæld þegna vorra, en þá til að njóta fagnaðar og gæfu undir ægiskildi vorum og skjóli".

Þá stóðu allir upp og kvöddust meðr kossi og handabandi, og hélt hverr heim til sín. Sat Napóleon í ríki sínu meðr sinni frú um langan aldr í friði og farsæld, og þykir hann einna mestr keisari, þeirra er vér höfum sögur af. En þessa sögu höfum vér saman sett eptir því sem vér höfum numið af gangi þessara hluta, og þótt þessir atburðir kunni sumum ótrúligir að þykja, þá höfum vér frá öllu sagt eins og oss hefr fyrir sjónir borið og í hug dottið; eru og margir þeir hlutir í veröldinni, er ótrúligir þykja þeim, er eigi skilja, en trúligir þeim, er vitið hafa meira.

Viljum vér nú kveðja alla góða menn, bæði karlmenn og kvenmenn, óskandi að þessi riddarasaga megi þeim til ánægju og skemmtanar verða og til dægrastyttingar, þó eigi væri nema eina kvöldstund, og lúkum vér þar að segja frá styrjöldinni miklu.

Heimild

breyta

Texti þessarar síðu er fenginn stafréttur af Netútgáfunni. Aðeins uppsetningunni hefur verið breytt. http://www.snerpa.is/net/sma/helj.htm