Sorg (Jóhann Sigurjónsson)
Sorg
Höfundur: Jóhann Sigurjónsson
Höfundur: Jóhann Sigurjónsson
- Vei, vei, yfir hinni föllnu borg!
- Hvar eru þín stræti,
- þínir turnar,
- og ljóshafið, yndi næturinnar?
- Eins og kórall í djúpum sjó
- varst þú undir bláum himninum,
- eins og sylgja úr drifnu silfri
- hvíldir þú á brjóstum jarðarinnar.
- Vei, vei!
- Í dimmum brunnum vaka eitursnákar,
- og nóttin aumkvast yfir þínum rústum.
- Jóreykur lífsins þyrlast til himna,
- menn í aktygjum,
- vitstola konur í gylltum kerrum.
- - Gefið mér salt að eta, svo tungan skorpni í
- mínum munni
- og minn harmur þagni.
- Á hvítum hestum hleyptum við upp á bláan
- himinbogann
- og lékum að gylltum knöttum;
- við héngum í faxi myrkursins,
- þegar það steyptist í gegnum undirdjúpin;
- eins og tunglsgeislar sváfum við á bylgjum
- hafsins.
- Hvar eru þau fjöll, sem hrynja yfir mína sorg,
- hálsar, sem skýla minni nekt með dufti?
- Í svartnætti eilífðarinnar flýgur rauður dreki
- og spýr eitri.
- Sól eftir sól hrynja í dropatali
- og fæða nýtt líf og nýja sorg.