Sorg (Matthías Jochumsson)

Sorg
höfundur Matthías Jochumsson
Heim til að bjarga þér hleypti ég skeið,
og hirti ekki um storminn né æginn;
skein þá öll Esjan svo skínandi, breið,
nema skugginn stóð rétt yfir bæinn;
frá skipinu samt ég grunlaus gekk
- en glugginn stóð opinn og nálín hékk -
og glaumnum ég gleymdi þann daginn.
Gekk ég að sænginni: sofandi lá
hinn sólfagri kvennanna blómi;
ómaði rödd mér í eyrunum þá
frá eilífum heimslaga dómi:
Ó, maður, þú brýtur ei dauðans dyr,
dauðinn ei svarar þér, hvers sem þú spyr,
nema með helklukkuhljómi.
Gekk ég að sænginni, signdi þitt lík,
mitt sætasta, ljómandi yndi!
Ljós mitt var dáið, og lífsvonin rík
liðin sem fokstrá í vindi. -
Trú þú ei, maður, á hamingjuhjól,
heiðríka daga né skínandi sól,
þótt leiki þér gjörvallt í lyndi.
Gekk ég að sænginni stóð þar um stund
og starði út í eilífan geiminn;
ó, hve mig langaði að fljúga á þinn fund
og fá þá að skilja við heiminn!
En dauðaþögnin sem þruma kvað:
Er þetta ekki vegurinn? Skilurðu ei það,
auminginn, gálaus og gleyminn?
Ég ráfaði burt, og ég bað, og ég bað,
að sá bikarinn hjá mætti líða,
að vísu var burt liðin vonin um það,
en ég vissi engin tök á að stríða;
mér fannst sem ég stæði á eyðiey,
einmana ráðlaus með brotið fley,
og ætti svo andláts að bíða.
Mér sýndist Guðs himinn svo hátignarhár, -
ég hugsaði hann áður svo nærri. -
„Er hann að meta, hve sorg mín er sár,
eða sér hann ei duftið svo fjærri?“
Svo spurði ég aumur og útaf hné,
með augun þurr en skjálfandi kné,
og dæmdi mig duftinu smærri.
Og síðan er hálfliðið annað ár,
og alltaf er ég sem í draumi,
ýmist hljóður með brennandi brár
eða borinn af hégómaglaumi.
Ó, ljúfasta snót! Ó, stóra stund,
er stóð ég eftir með blóðuga und
og sólin var sigin að straumi!