Stóridómur (1564)
Stóridómur var samþykkt um refsingar við siðferðisbrotum sem var samþykkt á Alþingi árið 1564. Textinn hér er fenginn af skólavef Þjóðskjalasafns Íslands.

Alþingisdómur um frændsemis- og sifjaspell, hórdóma og frillulífissakir

Vér - Árni Gíslason, Þorlákur Einarsson, Gunnar Gíslason, Halldór Einarsson, Björn Þorleifsson, Jón Ólafsson, Brandur Einarsson, Þórður Guðmundsson, Gísli Sveinsson, Hallur Ólafsson, Þorvarður Björnsson, Þórir Sveinsson, Þorsteinn Oddsson, Guðmundur Jónsson, Einar Gíslason, Einar Pálsson, Jón Sigurðsson, Magnús Ketilsson, Pétur Þorleifsson, Magnús Jónsson, Árni Jónsson, Magnús Jónsson, Oddur Tumason og Magnús Jónsson - gjörum öllum og sérhverjum kunnigt þeim sem þetta bréf birtist, lesa eður heyra lesið, að árum eftir guðs burð 1564, föstudaginn næstan fyrir visitatíu Marie, þann 30. dag júní, á fimmta ári ríkis þess högbornasta, stórmektugasta, víðfrægasta första og herra konung, Friðriks annar þess nafns, með guðs náð kóngi til Danmerkur og Noregis, vorum allra kærasta og náðugasta herra, á almennilegu Öxarárþingi vorum vér tilnefndir af ærlegum og velburðugum mönnum, Páli Vigfússyni lögmanni fyrir sunnan og austan, Eggert Hannesson fyrir norðan og vestan á Íslandi, fulla grein á að gjöra sem standa skyldi um aldur og æfi fyrir allt fólk á Íslandi, alna og óborna, karlmenn og konur frá þessum degi hversu miklar fésektir og hár refsingar að vera skyldu á frændsemis mægða spjöllum, hórdómum og frillulífi, sem að í vorum íslenskum lögum eigi var svo fullulega né skilmerkilega ámálgað eður tileinkað meður því sem heiðarlegi, velburðugi og háttaktaði höfuðsmann Páll Stígsson kóngleg majestets bífalningsmann yfir allt Ísland, hafði hér dóms á beðist af lögmönnunum, og þótti hér svo stórleg þörf og nauðsyn á vera sakir þeirrar óhæfu og fordæðuskapar fordæðuskapar sem svo margan hendir oft og ósjaldan, ár eftir ár, mest sökum hegningarleysis sem guð forbetri. Þá höfum vér þessa grein á gjört að þær seytján persónur karlmanna og kvenna að frændsemi og mægðum, sem til eru greindar í þeim gömlu kirkjulögum sem verið hafa hér í landi að fornu, skulu falla til óbótamála og hafa fyrirgjört lífinu, karlmenn höggvist en konur drekkist, þeirra fé fast og laust standi til vors náðugasta herra kóngsins náða, hverja vægð og miskunn sem hans háleit náð vill þar á gjöra fyrir guðs skuld og vorn fátækan bænastað sakir fátæktar landsins, svo hálfir þeirra peningar mættu falla undir hans náð og krúnuna en hálfir til fátækra nánustu erfingja, eftir því sem vottar réttarbót virðuglegs herra Magnúsar kóngs Hákonarsonar um öll óbótamál utan landráð og drottins svik við kóng.

Þær persónur sem firnari eru að mægðum en fyrr eru taldar í greindum lögum og þar stóðu ekki tilgreinar sem eru: Kona móðurbróðurs og föðurbróðurs, bróðurdóttir konu manns og systurdóttir konu manns, og aðrar persónur jafnskyldar og mægðar, svo í karllegg sem kvenna. Þá setjum vér þar á níu marka sekt hvert um sig og í refsing níu vandarhögg hvert um sig sem brotlegt verður og sýslumenn skylda heima í sveitum þá refsing á að láta leggja. En kunni þessir menn í annað sinn brotlegir að verða og falla í sömu sök sín á millum eður öðrum persónum jafn nánum þá séu þau sek þrettán mörkum hvert um sig og missi húðina fyrir valdsmanni. Kunni þessir menn í þriðja sinn brotlegir að verða og í sama misferli hafi fyrirgjört fé og friði eftir slíkri miskunn sem kóngur vill gjört hafa sem fyrr segir.

Hvervetna þar sem systkinabörn kunna sín á millum brotleg að verða þá séu þau sek hálfri fimmtu mörk refsingarlaust sem fyrr hefur verið og skiljist að upp þaðan. En ef þau verða brotleg í annað sinn gjaldi níu merkur kóngi, hvort sem hún eður hann verða brotleg sín á milli eður við aðra jafnskylda. Verði þau brotleg í þriðja sinn með sama hætti fari bæði útlæg sams árs sem þau fyrst við komast til kóngsins náða án nokkra fégjalda.

Ef þeir verða brotlegir sem eru systrungar að frændsemi eður mægðum gjaldi kóngi hálfa fjórðu mörk í fyrsta sinn. Verði þau brotleg í annað sinn gjaldi kóngi sjö merkur. En ef þau hafa ekki fé til hafi refsing tvö vandarhögg fyrir hverja mörk sem ógoldin er að næstum fardögum utan þau fái borgunarmann fyrir sig. Kunni þau í þriðja sinn brotleg að verða sín á milli eður við aðra jafnskylda þá fari strax útlæg út af fjórðunginum í næstu þrjú ár utan sá vilji meiri miskunn á gjöra er kóngsvald hefur í hendi eftir atvikum.

Verði þrímenningur brotlegur sín á millum, hvort heldur sem er að frændsemi eður mægðum, veri sekur þrem mörkum í fyrsta sinn og skilji eftir löglega áminning. Kunni þau í annað sinn brotleg að verða eftir sitt hið fyrra bætt brot þá sekist hvort um sig sex mörkum og fari annað hvort úr héraðinu. En ef þau verða fundin í þessu misferli í þriðja sinn gjaldi níu merkur hvert sem svo hefur brotið og fari annað úr fjórðunginum, hvort sem sýslumanni með dandimanna ráði virðist hentugra að fara skuli. En kunni þau að falla í fjórða sinni hvort um sig verði þá sek þrettán merkur við kóngdóm og missi húðina. En ef fyrrskrifaðir menn hafa ekki fé til þá fái refsing eftir markatali af vandarhöggum sem fyrr er sagt.

Þær persónur sem brotlegar verða í þriðja og fjórða lið, hvort sem er að frændsemi eður mægðum, þá skulu þau skilja og gjaldi kóngi tólf aura hvort fyrir sig og fyrirbjóða saman að giftast utan með kóngsins leyfi. Verði þau brotleg í annað sinn gjaldi kóngi þrjár merkur hvort um sig. Ef þau brjóta í þriðja sinn í sama misferli gjaldi kóngi sex merkur hvort um sig. Ef þau brjóta í fjórða sinn missi húðina hvortveggja og gjaldi öngvar fésektir.

Þær persónur sem löglega eru eigingiftar og kunna í einföldum hórdómi brotleg að verða gjaldi kóngi sex merkur í fyrsta sinn hvort um sig. En ef giftur maður tekur gifta konu eða gift kona giftan mann sekist hvort um sig tólf mörkum. Ef þau falla í annað sinn í sama sakfelli sín á millum eður við aðra, annað hvort í einföldum hórdómi eður tvöföldum, svari slíkum fésektum hálfum auknum hvort um sig og missi húðina. En hvort sem eigi hefur fé til missi húðina og hafi að auki aðra líkamlega refsing sem tólf menn dæma. En ef annað hvort þessara manna kunna brotleg með sama hætti að verða í þriðja sinn, hvort heldur það er í einföldum hórdómi eður tveföldum, og sannprófist með opinberum merkjum eður löglegum skilríkjum og vitnum, eður þeirra sjálfra viljanlegri og lostuglegri óneyddri meðkenningu og viðgöngu, þá skulu karlmenn missa sitt höfuð en konurnar drekkjast eftir kóngleg majestatis recess ávísan, utan sjálfur kóngur vilji meiri miskunn á gjöra. En allt góss og eignir hins sakaða falli til löglegra erfingja fyrir sakir fátæktar landsins.

Þeir menn sem geta börn í frillulífi gjaldi átján álnir hvort um sig að fyrstu barneign. En sex aura að annarri barneign. Að þriðja barni tólf aura hvort um sig. Að fjórðu barneign þrjár merkur hvort um sig og fari af fjórðunginum. Kunni þau í fimmta sinn brotleg að verða sín á millum að fimmta barni missi húðina eður eigist. Skal presturinn til skyldur uppá síns embættis vegna og svo sýslumaðurinn uppá síns valds vegna, slíka menn harðlega að áminna, að þau af láti þvílíkum óheyrilegum lifnaði og lifi með öngu móti í slíkum opinberlegum hneykslunum. Þeir menn sem sig leggja í opinberlegan lifnað og eigi vilja af láta eftir síns sóknarprests þrjár kristilegar áminningar þá séu þeir sekir á hverju ári slíkri sekt sem fyrr segir um hvert barn. Vilji hann eður hún á fimmta ári eigi af láta þá missi húðina og séu áminnt þrisvar af prestinum á hverju ári eftir því sem ordinantian á vísar.

Dæmdum vér með fullu dóms atkvæði alla þessa vora skikkan og setninga í forsjón og umbót vors náðuga herra kóngsins og Danmerkur ríkisráðs það af að taka og við að auka sem hans högmektugri náð með ráðinu þætti oss, hans náðar undirsátum, innbyggjurum og almúgafólki best henta í þessu fátæka landi, treystandi að hans kóngleg náð muni sig við oss miskunnsamlega auðsýna í öllum vorum þrengjandi og áliggjandi nauðsynjum.

Samþykkti þennan vorn dóm með oss áður greindur bífalningsmann Páll Stígsson og báðir lögmennirnir og settu sín innsigli.