Stökur
- 1.
- Ást er föstum áþekk tind,
- ást er veik sem bóla,
- ást er fædd og alin blind,
- ást sér gegnum hóla.
- 2.
- Orður og titlar, úrelt þing, —
- eins og dæmin sanna, —
- notast oft sem uppfylling
- í eyður verðleikanna.
- 3.
- Lastaranum líkar ei neitt,
- lætur hann ganga róginn.
- Finni hann laufblað fölnað eitt,
- þá fordæmir hann skóginn.
- 4.
- Með oflofi teygður á eyrum var hann,
- svo öll við það sannindi rengdust.
- En ekki um einn þumlung hann vaxa samt vann,
- — það voru aðeins eyrun, sem lengdust.
- 5.
- Grammatíkus greitt um völl
- gekk með tínukerin;
- hann hirti spörðin, eg held öll,
- en eftir skildi berin.