Stormur
Höfundur: Hannes Hafstein
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.
Þú þenur út seglin og byrðinginn ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.
Og þegar þú sigrandi´ um foldina fer,
þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.
Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.
Ég elska þig, elska þig, eilífa stríð,
með ólgandi blóði þér söng minn ég býð.
Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;
hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.