Uppkastið
Þetta uppkast að nýjum lögum um samband Íslands og Danmerkur var sent með símskeyti til íslenskra dagblaða (blaðskeytasambandinu) 14. maí 1908. Sama dag var eftirfarandi íslensk þýðing birt í Lögréttu.
Uppkast


að lögum um ríkisrjettarsamband


Danmerkur og Íslands

1. gr. Ísland er frjálst og sjálfstætt land, er eigi verður af hendi látið. Það er í sambandi við Danmörku um einn og sama konung og þau mál, er báðir aðilar hafa orðið ásáttir um, að telja sameiginleg í lögum þessum. Danmörk og Ísland eru því í ríkjasambandi, er nefnist: Veldi Danakonungs. Í heiti konungs komi eftir orðið Danmerkur: og Íslands.

2. gr. Skipun sú er gildir í Danmörku um ríkiserfðir, rjett konungs til að hafa stjórn á hendi í öðrum löndum, trúarbrögð konungs, myndugleika hans og um ríkisstjórn, er konungur er ófullveðja, sjúkur, eða fjarstaddur, svo og um það, er konungdómurinn er laus og enginn ríkisarfi til, skal einnig gilda að því er til Íslands kemur.

3. gr. Þessi eru sameiginleg mál Danmerkur og Íslands:

I. Konungsmata, borðfje ættmanna konungs og önnur gjöld til konungsættarinnar.
II. Utanríkismálefni. Enginn þjóðasamningur, er snertir Ísland sjerstaklega, skal þó gildur fyrir Ísland, nema rjett stjórnvöld íslensk samþykki.
III. Hervarnir á sjó og landi ásamt gunnfána, sbr. þó 57. gr. stjórnarskrárinnar 5. jan. 1874.
IV. Gæsla fiskveiðarjettar þegnanna, að óskertum rétti Íslands til að auka eftirlit með fiskiveiðum við Ísland, eftir samkomulagi við Danmörku.
V. Fæðingarrjettur. Löggjafarvald hvors landsins um sig getur þó veitt fæðingarrjett með lögum og nær hann þá til beggja landa.
VI. Peningaslátta.
VII. Hæstirjettur. Þegar gerð verður breyting á dómaskipun landsins, getur löggjafarvald Íslands sett á stofn innanlands æðsta dóm í íslenskum málum. Meðan sú breyting er eigi gerð, skal þess gætt, er sæti losnar í hæstarjetti, að skipaður sje þar maður, er hafi sjerþekkingu á íslenskri löggjöf og kunnugur sje íslenskum högum.
VIII. Kaupfáninn út á við.

4. gr. Öðrum málefnum, sem taka bæði til Danmerkur og Íslands, svo sem póstsambandið og ritsímasambandið milli landanna, ráða dönsk og íslensk stjórnarvöld í sameiningu. Sje um löggjafarmál að ræða, þá gera löggjafarvöld beggja landa út um málið.

5. gr. Danir og Íslendingar á Íslandi og Íslendingar og Danir í Danmörku njóta fulls jafnrjettis. Þó skulu forrjettindi íslenskra námsmanna til hlunninda við Kaupmannahafnar háskóla óbreytt. Svo skulu og heimilisfastir Íslendingar á Íslandi hjer eftir sem hingað til vera undanþegnir herþjónustu á sjó og landi. Um fiskiveiðar í landhelgi við Danmörku og Ísland skulu Danir og Íslendingar jafn rjettháir meðan 4. atr. 3. gr. er í gildi.

6. gr. Þangað til öðru vísi verður ákveðið með lögum, er ríkisþing og alþingi setja og konungur staðfestir, fara dönsk stjórnarvöld einnig fyrir hönd Íslands með mál þau sem eru sameiginleg samkv. 3. gr. Að öðru leyti ræður hvort landið (um sig) að fullu öllum sínum málum.

7. gr. Meðan Ísland tekur engan þátt í meðferð hinna sameiginlegu mála, tekur það heldur ekki þátt í kostnaði við þau. Þó leggur Ísland fje á konungsborð og til borðfjár konungs-ættmenna hlutfallslega eftir tekjum Danmerkur og Íslands. Framlög þessi skulu ákveðin fyrir fram um 10 ár í senn með konungsúrskurði, er forsætisráðherra Dana og ráðherra Íslands undirskrifa. Ríkissjóður Danmerkur greiðir landssjóði Íslands í eitt skifti fyrir öll 1 miljón og 500 þús. kr., og eru þá jafnframt öll skuldaskifti, sem verið hafa að undanförnu milli Danmerkur og Íslands, fullkomlega á enda kljáð.

8. gr. Nú rís ágreiningur um það, hvort málefni sje sameiginleg eða eigi, og skulu þá stjórnir beggja landanna reyna að jafna hann með sjer. Takist það eigi, skal leggja málið í gerð til fullnaðarúrslita. Gerðardóminn skipa 4 menn, er konungur kveður til, 2 eftir tillögu ríkisþingsins (sinn úr hvorri þingdeild) og 2 eftir tillögu alþingis. Gerðarmennirnir velja sjálfir oddamann. Verði gerðarmenn ekki á eitt sáttir um kosningu oddamannsins, er dómsforseti hæstarjettar sjálfkjörinn oddamaður.

9. gr. Ríkisþing og alþingi geta hvort um sig krafist endurskoðunar á lögum þessum, þegar liðin eru 25 ár frá því er lögin gengu í gildi. Leiði endurskoðunin ekki til nýs sáttmála innan 3ja ára frá því að endurskoðunar var krafist, má heimta endurskoðun af nýju á sama hátt og áður, að 5 árum liðnum frá því er nefndur þriggja ára frestur er á enda. Nú tekst ekki að koma á samkomulagi meðal löggjafarvalda beggja landa innan tveggja ára frá því er endurskoðunar var krafist í annað sinn, og ákveður konungur þá með tveggja ára fyrirvara, eftir tillögu um það frá ríkisþingi eða alþingi, að sambandinu um sameiginleg mál, þau er ræðir um í 4., 5., 6. og 8. tölulið 3. gr., skuli vera slitið að nokkru eða öllu leyti.