1. Ort vegna tillögu um að taka upp þegnskylduvinnu á fyrri hluta 20. aldar. Sagt var, að vísa þessi hefði kæft hugmyndina í fæðingu.

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi landið heitt,
mætti hann vera í mánuð þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.
Páll J. Árdal

2.–3. Kveðskapur fyrr og nú.

Áður taldi íslenzk þjóð
óðsnilldina gæði,
samin voru og lesin ljóð
lærð og sungin kvæði.


Nú má kaupa þessi þjóð
þrykkt og gyllt í sniðum
í gerviskinni gerviljóð
af gerviljóðasmiðum.
Ingibjörg Sigfúsdóttir frá Forsæludal

4. Í fimmtugsafmæli nokkru las veizlustjóri heillaóskaskeyti eftir því, sem þau bárust. Hann komst gegnum fyrstu þrjár línurnar í þessu, en missti svo málið.

Einskis get ég óskað þér betra,
öðlingurinn fimmtíu vetra,
en frægðarsæti fengið þér verði
hjá frændum þínum, Júdasi og Merði.
N. N.

5.

Fallega spillir frillan skollans öllu,
frúin sú sem þú ert nú að snúa,
heiman laumast hrum með slæmu skrumi,
hrók óklókan krókótt tók úr flóka.
Riddari studdur reiddist lyddu hræddri,
réði vaða með ógeði að peði.
Biskupsháskinn blöskraði nískum húska,
í bekkinn gekk sá hvekkinn þekkir ekki.
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar, einnig í handriti hér.

6. Kveld-Úlfur, faðir Skalla-Gríms og afi Egils orti þetta eftir að hafa spurt fall Þórólfs, sonar síns. Áhugamönnum um málfræði má benda á, að hér kemur fyrir eitt fárra dæma um nafnhátt þátíðar.

Nú frák norðr í eyju,
norn erum grimm, til snimma
Þundr kaus þremja skyndi,
Þórólf und lok fóru;
létumk þung at þingi
Þórs fangvina at ganga,
skjótt munat hefnt, þótt hvettimk
hugr, malm-Gnáar brugðit.

7.-9. Vísur þessar eru allar eignaðar Skalla-Grími, en vegna háttarins hefir verið gizkað á, að Egill, sonur hans, hafi ort 7. vísu í orðastað föður síns. 7. vísa fjallar um hefnd eftir Þórólf, bróður Skalla-Gríms, 8. vísa lýtur að iðjusemi hans og hin 9. er ort, er hann skilaði gjöf Eiríks blóðöxar með hrakyrðum.

Nús hersis hefnd
við hilmi efnd;
gengr ulfr ok ǫrn
of ynglings bǫrn;
flugu hǫggvin hræ
Hallvarðs á sæ;
grár slítr undir
ari Snarfara.


Mjǫk verðr ár, sás aura,
ísarns meiðr at rísa,
váðir vidda bróður
veðrseygjar skal kveðja;
gjalla lætk á golli
geisla njóts, meðan þjóta,
heitu, hrœrikytjur
hreggs vindfrekar, sleggjur.


Liggja ýgs í eggju,
ák sveigar kǫr deiga,
fox es illt í øxi,
undvargs flǫsur margar;
arghyrnu lát árna
aptr með roknu skapti;
þǫrfgi væri þeirar,
þat vas inga gjǫf, hingat.