Veislan á Grund/2. kafli
Hurðinni var lokið upp að baki hans, og Helga húsfreyja stóð í dyrunum.
„Góðan daginn, pater,“ mælti hún. „Trufla ég þig í helgiiðkan þinni?“
„Ekki vitund,“ sagði munkurinn og stóð á fætur.
Hann leit á húsfreyjuna og sá, að hún var eitthvað dálítið öðru vísi en hún var vön að vera. Hún andaði þungt, og það var sem væri henni órótt í skapi, þó að hún stillti sig. Honum datt í hug, hvort hún mundi vera komin til að skrifta. Það gat varla verið. Hún skriftaði ekki nema einu sinni í mánuði, og það oftast nær aðeins til málamynda. Þetta voru engar skriftir. Hún sagði honum undan og ofan af, lét hann renna grun í ýmislegt og hló að honum á meðan. Að krefja hana sagna í fullri alvöru, - nei, það gerði enginn maður á Íslandi. Þó að erkibiskupinn kæmi sjálfur, mundi hann ekki fá fleiri syndir að vita en henni þóknaðist að láta uppi. Hún var vönust því að skammta allt úr hnefa, syndajátningarnar ekki síður en matinn.
Helga var fríð kona og fönguleg, og enn þá var henni ekki aldur að meini. Hún var full að vöngum og hörundsbjört. Svipurinn var mikill og augun hörð eins og tinna. Samt var þar eitthvað eggjandi og ástríðufullt, eitthvað, sem logaði og laðaði um leið og það drottnaði og skipaði. Þeir, sem vísastir þóttust vera, sögðu, að það væri Oddaverjaarfurinn: vísdómsþrá og fjöllyndi Sæmundar fróða, rausn og ríkilæti Jóns Loftssonar og tign Þóru dóttur Magnúsar konungs berfætta. Helga var stórættuð og konunglunduð. Engin kona var talin göfugri á Íslandi.
„Hvað ber til þess, að mér hlotnast sá heiður - -,“ stamaði munkurinn með mikilli undirgefni.
„Hefir þú engin tíðindi spurt, pater?“
Munkurinn hristi höfuðið.
„Hvaðan ættu mér að koma tíðindi? Á þessum tíma árs sé ég engan mann daglega, nema griðkonu þá, sem færir mér matinn, og Steina gamla, heyrnarlausan, við fiskasteininn. Hvorugt þeirra ber tíðindi.“
Helga brosti.
„Nei, það er rétt. Það ætlar húsmóðirin sjálfri sér að gera. Ég vona, að þú verðir ánægður með það. - Og erindi mitt til þín að þessu sinni er að færa þér tíðindi.“
„Þau mundu gleðja mig, ef góð eru,“ mælti munkurinn. En af svip og óró húsfreyjunnar þóttist hann geta lesið, að þau væru ekki góð.
„Góð eru þau auðvitað, - einkum þeim, sem litlum venjast dagamun, eins og segja má um okkur hér í fásinninu,“ mælti húsfreyjan með hæðniskeim. - „Hér stendur til veisla í kvöld.“
„Veisla -?“
„Höfðingjaheimsókn. - Von sjaldgæfra gesta. - Ég er að láta brugga og baka. - Finnurðu ekki ilminn? Hann leggur um öll húsin.“
Munkurinn hafði lengi fundið steikarþef og vínilm, en engan gaum gefið því. Það var engin nýlunda á Grund, þótt góðan matarþef legði um húsin. Oft komu þangað heldri gestir, og ætíð var tekið á móti þeim með rausn og prýði.
„Veisla -? - - Og hverjir eru þessir höfðingjar?“
Húsfreyjan leit niður fyrir sig, eins og henni væri ekki um að gefa greið svör. Síðan mælti hún:
„Smiður Andrésson hirðstjóri, - - Jón Guttormsson lögmaður. - - Hverjir eru í fylgd með þeim, læt ég ósagt.“
Munkurinn starði á hana eins og glópur.
„Smiður -? Smiður Andrésson? Hvaða maður - -? Ó, það mun vera hirðstjórinn okkar nýi.“
„Sendur af konunginum til að leysa „fjórmenningana“ frá starfi sínu og jafna sakir þeirra.“
„Fjórmenningarnir“ voru fjórir menn íslenskir, sem höfðu haft hirðstjóravald næstu árin undanfarin og skipt landinu á milli sín. Nú var vald þeirra allra fjögra lagt aftur í eins manns hendur, eins og áður hafði verið.
„Smiður Andrésson -,“ tautaði munkurinn fyrir munni sér. Hann skildi enn ekki til fulls, hvað um var að vera. „Smiður - og - Jón Guttormsson - - Jón skráveifa. - - - Nú fer ég að skilja. - Nú fer ég að skilja.“
„Hefirðu frétt, hvað búið er að gera við Árna bónda Þórðarson, frænda minn?“
Hann hafði verið einn af „fjórmenningunum“.
„Nei, ég hefi ekkert frétt - alls ekkert.“
„Það er búið að taka af honum höfuðið.“
Húsfreyjan andvarpaði þungt, er hún sagði þetta. Munkurinn starði á hana, yfirkominn af ofboði.
„Einn af göfugustu mönnum landsins - - einn af bestu mönnum landsins - - - lagður á höggstokkinn! - Er þetta satt?“
„Lögréttumennirnir eru nýkomnir að sunnan með þessar fréttir. - Frjádaginn næstan fyrir Jónsmessu baptista var Árni Þórðarson höggvinn í Lambey, að fyrirlagi Smiðs hirðstjóra og Jóns skráveifu. - Líkið var flutt í Skálholt til greftrunar.“
Þau þögðu bæði stundarkorn, eins og þau gætu engin orð fundið tilfinningum sínum.
„Og nú - -?“ mælti munkurinn. „Hvað tekur nú við?“
Helga leit harðlega framan í hann.
„Nú kemur röðin að oss Norðlingum og höfðingja okkar. Næst mun eiga að ganga milli bols og höfuðs á Þorsteini Eyjólfssyni. - Hver verður svo næstur? - Og hver þar næstur - og þar næstur? Hvar verður staðar numið? - Hvort mun ekki „skráveifan“ hyggja á grimmilegar hefndir fyrir skráveifu þá, er honum var gerð að Þverá í Vesturhópi fyrir ári síðan? - Ekki mun hann viljann vanta. - Þrjú hundruð Norðlendingar eiga nú höfuð sín undir öxi þeirra félaga.“
„Og Norðlendingar - -? - - Fljóta sofandi - -?“
Húsfreyjan kinkaði kolli íbyggilega.
„Nei, Norðlendingar eru vakandi. Í þetta skipti eru Norðlendingar vakandi. - Síðan þingmenn komu að sunnan og fyrirætlanir þeirra kóngsmanna urðu kunnar, hafa verið njósnarmenn á öllum heiðum. Og nú hefir spurst til þeirra Smiðs sunnan af Vatnahjallavegi.“
„Og þú býst við þeim hingað í kvöld?“
Húsfreyjan brosti gremjulega.
„Hvar skyldu þeir fremur húsa leita en á höfuðbólinu? Mundi þeim ekki þörf á góðri hressingu eftir öræfareiðina?“
„Og Einar bóndi ekki heima -!“
„Einar bóndi að búum sínum vestur á landshorni. Það er ekki í fyrsta skipti, pater, að húsfreyjan á Grund hefir fríar hendur. - Gott og vel. Grund á ég sjálf, og þar vil ég ráða, hvort sem bóndi minn er heima eða ekki. - Hingað til hefir það ekki borið okkur til missættis.“
„Og hvað hefirðu í hyggju að gera, húsfreyja?“
„Búa til veislu. - Gera Grundar-gestrisnina orðstírs síns maklega.“
„Eitur - -? - - eða eldur?“
Húsfreyjan brosti og hristi höfuðið.
„Nei, pater. Eitri hafa Norðlendingar aldrei beitt við óvini sína. - Og brennurnar á Lönguhlíð og Flugmýri eru svo svartir blettir, að ekki mega fleiri slíkir vansæma Norðurland. Á Grund skal hver maður fá að njóta hreysti sinnar.“
Þau þögðu bæði um stund, og munkurinn horfði á hana undrandi og spyrjandi, eins og hann reyndi að lesa út úr henni, yfir hverju hún byggi.
Loks mælti Helga:
„Sveininn Björn hefi ég sent yfir að Munkaþverá bræðrunum til varðveislu. - Hvað sem í skerst, vil ég vita hann öruggan. Og klausturníðingar gerast þeir kóngsmenn ekki, hverjar sem tiltektir þeirra annars verða.“
„Það var vel ráðið.“
„Húskarlar mínir hafa lagt frá sér orfin og eru farnir að smala -.“
„Mönnum -?“
„Nei. - Það gera Eyfirðingar sjálfir. - - Konum.“
„Konum -?“
„Ég hefi ekki nægan kvenafla heima til að þjóna í slíkri veislu.“
„Konum -!“
„Lána þær eldri burtu í skiptum fyrir aðrar yngri,“ mælti húsfreyja íbyggilega. „Ég þekki fyrstu og æðstu kröfur þessara pilta. - Vín á ég nóg, og varla mun heldur mjöð og mungát skorta. - - Hér er um að gera, að veislugleðin endist nógu lengi.“
„Nú skil ég. - - Nú skil ég!“
„Erindi mitt til þín, pater, var að biðja þig að hafa opna kirkjuna - hvað sem fyrir kann að koma.“
„Það skal ég gera.“
„ - og vera þar sjálfur meðan gestirnir eru hér. Ég hefi þig að láni frá klausturbræðrum þínum og vil ekki vita þig í neinni hættu.“
Munkurinn beit á vörina og þagði.
„Gerðu eins og ég legg fyrir þig, pater. Það er þér hollast. Vertu í kirkjunni og taktu alla í vernd þína og grið, sem þangað kunna að leita, hvort sem eru Sunnlendingar eða Norðlendingar, kóngsmenn eða bændur. Veittu öllum prestsþjónustu og fyrirgefning synda sinna, sem þess óska. - Mundu það, að því aðeins er klausturfriður heilagur, að klaustramenn séu hlutlausir í deilum manna.“
Munkurinn var myrkur á svipinn og þagði enn. Húsfreyjan bætti við og brosti:
„Já. - Það er sárt að verða þannig af öllum veislukostinum, pater. En hjá því verður ekki komist. Munkalífið er ekki helgað veislugleðinni, heldur bindindi og afneitun. Hlýddu ráðum mínum og flekkaðu ekki hendur þínar á neinu af því, sem hér fer fram. - Settu svo húsmóður þinni vægar skriftir, - ef hún lifir þessa nótt af. En skrifaðu sögu hennar, ef hún fellur.“
„En, húsfreyja góð - -!“
Hann langaði til að segja eitthvað meira, en húsfreyjan greip fram í fyrir honum um leið og hún var að fara:
„Ég lít eftir því, hvort þú verður í kirkjunni, pater!“
- Munkurinn fór ekki aftur að lesa Seljumannasögu. Hann gekk um gólf með samanbitnar varir og þrútinn í framan. Blóðið svall í æðum hans.
Enn þá heyrði hann höggin til Steins gamla, hæg og þung. En milli þeirra heyrði hann höggin til slagæðanna í höfðinu á sjálfum sér.
Eftir litla stund hafði hann unnið fullan sigur á sjálfum sér og klausturhelgi sinni. Hann reif bænafesti, með viðfestum róðukrossi, af hálsi sér og grýtti henni út í horn, sópaði skinnblöðunum á borðinu saman í hrúgu, gömlu og nýju, hverju innan um annað, og mælti hálfhátt við sjálfan sig:
„Í dag er ég hvorki munkur né preláti. Í dag er ég karlmaður!“