Veislan á Grund
Höfundur: Jón Trausti
9. kafli

Mildur, hreinn og hlýr streymdi blærinn sunnan af auðum heiðunum, tær eins og ljósvakinn, eftir að hafa skilið öll skýin eftir á jöklunum í suðrinu, blíður eins og barnsandi, eftir að hafa drukkið í sig sólskinið allan sumarlangan daginn. Sjálfur fór hann hljótt, svo að hvergi heyrðist skóhljóð, en hann bar með sér fossaniðinn framan úr dalnum, blandaði saman kliðnum úr hverju gili beggja megin dalsins í sætan, mjúkan, hjalandi hreim, og lét Eyjafjarðará leika undir, hægt og þungt.

Blikurnar teygðu sig langt upp á loft yfir heiðarbrúnunum í suðrinu og austrinu, mildar eins og bláfjallaðir blævængir. Í norðrinu og vestrinu var allur himinninn skrýddur pelli og gulli - nei, brennandi eldi. Hvassar fjallahyrnurnar bar dimmbláar í slíkan meginloga. Sólin var gengin undir, en skin hennar breiddi sig um hálfan himininn. Hvergi var skin á jörðu og hvergi heldur skuggi. Fjöllin og heiðarnar stóðu í þýðum húmkuflum og bar við kvöldbjartan himininn, dalurinn lá í blíðu, bláleitu húmi, nokkru dimmri en heiðarnar. Öll litabrigði runnu saman, svo að hvergi sá skör né skil. Allur Eyjafjörður var sveipaður einhverri yndislegri, draumkenndri værðarblæju, með miðnæturskinið hátt uppi á norðurloftinu, miðnæturhúmið djúpt niðri í dýpstu gljúfrum og öllum blæbrigðum þar á milli jöfnuðum mjúklega yfir allt héraðið.

Heilaga Seljumannavaka -!

Með slíkum hátignar- og helgiblæ eru næturnar í fyrstu vikum júlímánaðar hvergi á jörðunni nema í Eyjafirði.

- Þessa Seljumannanótt var óvenjulega hljótt í dalnum, svo hljótt, að hljóðara hefði ekki getað verið, þótt Svarti- dauði hefði verið búinn að eyða héraðið. Hvergi heyrðust smalar hóa í hlíðunum, því að það var komið langt fram yfir mjaltamál og ærnar búnar að bæla sig fyrir löngu út í nátthögunum. Hvergi heyrðist hundgá, því að hundarnir lágu fram á lappir sínar uppi á bæjarhúsunum og sváfu; enginn var á ferð, sem ástæða væri til að gelta að. Hvergi heyrðist hnegg í hesti, því að óvíða voru hestar heima. Hanarnir gólu ekki, því að ekki var enn komin ótta. Kýrnar lágu á básunum sínum og jórtruðu. Og manneskjurnar -? Þær lágu auðvitað inni í bólum sínum og sváfu.

Nei, ónei -! Þessa Seljumannanótt svaf engin mamneskja í Eyjafirði. - Engin einasta.

Þó að lítið bæri á, var allt héraðið vel vakandi, glaðvakandi, og stóð á öndinni af ótta og eftirvæntingu.

Allir vissu, hvílíkir vogestir voru komnir í héraðið. En það mátti ekki hafa hátt, svo að ekki yrði vargurinn vakinn í ótíma. Af leitum og húsaþökum skimuðu menn heim til Grundar, - hvort þeir væru þar enn, - hvort þeir væru þar enn, - hvort nokkuð gerðist þar sögulegt, - hvort bærinn væri farinn að brenna - eða hvort þeir væru ekki farnir að smala saman hestum sínum og búa sig til brottferðar. Ef þeir skyldu nú sleppa! - Ef þá skyldi nú fara að gruna eitthvað - - . Ótal augu hvíldu á Grund í öllum áttum úti í næturhúminu, ótal augu full af ótta og óró.

Hestar voru þandir á harðaspretti fram og aftur um héraðið, en ætíð var farið í langan sveig fram hjá Grund, - höfuðbólinu mikla í miðju héraðinu. Leiðirnar fram með fjöllunum voru þræddar, því að þar var skuggasælast. Grjóteyrarnar voru ekki riðnar, því að ekki einu sinni hófadynur mátti heyrast heim að Grund þessa nótt. - Gangandi menn læddust að bænum frá fjallinu, skriðu og iðuðu áfram eins og sniglar, sátu um hann eins og pestarbæli, sem enginn þorði þó að koma nálægt, - allt í von um það að hafa þaðan einhverjar njósnir og geta gefið fólkinu þar einhverjar bendingar. Þetta tókst að lokum með lagi. Einhver komst alla leið heim að bakdyrunum, án þess að vera séður af þeim, sem ekki áttu að sjá hann. Gráskeggjaður karl, lotinn og hrumur, lagði frá sér fiskasleggjuna, skreið fram í dyrnar og talaði nokkur orð í hljóði við komumanninn, sem undireins þaut eins og kólfi væri skotið á bak við útihúsin og síðan eitthvað út í buskann.

Langmerkilegustu tíðindin, sem bárust út frá Grund þessa merkilegu Seljumannanótt, voru þau, að „Skreiðar- Steinn“ væri búinn að fá fulla heyrn aftur!

Gamla Grund! Margs átti hún að minnast frá fyrri dögum. En aðra eins nótt og þessa hafði hún aldrei lifað. Miklar og ríkmannlegar höfðu veislur þeirra Sturlunga venið, en nú tók þó út yfir. Veisluglaumurinn ómaði langt út frá skálanum í allar áttir, og sjötíu gráðugir langferðahestar dreifðu sér um túnin og engjarnar, sem stóðu í fullum blóma og biðu þess að verða slegin. Það var veisla á Grund, - einnig fyrir hestana.

Kirkjan stóð opin upp á gátt. Kertaljósin fyrir framan dýrlingamyndirnar blöktu og ruku í nætursúgnum. Þar inni í hálfdimmunni sást eitthvað í mannslíki. Þaðan heyrðist líka ámátlegt gaul, eins og sofandi maður væri að öngla.

- Inni í skálanum sátu karlmenn og konur á víxl og drukku tvímenning. Í öndveginu sat húsfreyjan við hlið hirðstjórans og drakk honum til hverja skálina eftir aðra. Hún var orðin heit og rjóð af vínblöndunni og hitanum; hún var orðin ung í annað sinn, og hirðstjórinn var svo gagntekinn af fegurð hennar og fjöri, að hann mátti einskis annars gæta.

Jón skráveifa glampaði í framan eins og nýfágað látún. Dísa litla lét ekki á sér standa að skenkja á skálarnar fyrir hann. Hann hélt hendinni utan um mittið á henni og hallaði henni fast upp að sér við og við. Hún leyfði honum það. En ef hann ætlaði að kyssa hana, færðist hún ætíð undan.

Sami leikurinn endurtók sig með ýmsum breytingum fram með öllu borðinu. Alls staðar var glettni og glaðværð og ástarumleitanir.

Einn maður drakk lítið, sat löngum hugsi og gaf gætur að öllu. Það var Ormur Snorrason. - Enginn gaf honum gaum, og hann skipti sér heldur ekki af neinum.

- En frammi í afhýsinu sat Snjólfur kanúki í gervi Skreiðar-Steins og barði fiskinn. Hann hafði gert sér allt far um að líkjast Steini gamla nógu nákvæmlega, ekki einungis í útliti, heldur einnig í vinnulagi og öllu látbragði, og tekist þetta svo vel, að engin manneskja á heimilinu, að undantekinni húsmóðurinni sjálfri, hafði hugmynd um hamskiptin. Það var ekki vandi heimafólksins á Grund að skeggræða við Stein gamla. Heyrninni hans var svo farið, að fáir kærðu sig um að segja meira við hann en það allra nauðsynlegasta. Hvort sem hann lá í bólinu sínu, sem stóð þarna rétt við gangveginn, eða sat og nuddaði við fiskasteininn, gengu menn venjulega fram hjá honum eins og rakka. Hann skipti sér ekki af neinum, og enginn skipti sér heldur af honum. Hann var eins og utan við veröldina, þó að hann væri enn þá í henni að nafninu, - lifandi lík, sem át mat og barði fisk, en hafði ekkert annað samneyti við aðra menn. Hann var sinn eiginn húsbóndi, barði fiskinn, þegar honum þóknaðist, hvort sem var á nóttu eða degi, og hvíldi sig, þegar honum þóknaðist. Var ævinlega vís, - fór aldrei annað en út í skreiðarskemmuna til að sækja fiskinn og inn í búrið til að leggja hann frá sér. Hvað sem á gekk á Grund og hvernig sem allt breyttist þar og byltist, var Skreiðar-Steinn ætíð hinn sami.

Nú kom þetta allt saman munkinum að góðu haldi. Heimilisfólkið virti hann ekki viðlits, fremur en það var vant. Það heyrði á höggunum - þó lin væru -, að hann var enn þá með lífsmarki, og á meðan var ætíð von á börðum - meira að segja afbragðsvel börðum - fiski. Áður en gengið var til borðs, var stöðugur pilsaþytur fram hjá honum. Menn þeirra Smiðs voru þá á reiki fram og aftur um skálann og komu hver eftir annan fram í dyrnar til að virða fyrir sér þetta viðundur og henda gaman að því. Þeir spurðu stúlkurnar, sem um gengu, hvaða skepna þetta væri, og fengu það svar, að það væri hálfheyrnarlaus karlvesalingur, sem húsfreyjan hefði í gustukaskyni og léti vinna þetta verk, - sem eiginlega þótti ekki sérlega virðulegt. Þetta létu þeir sér nægja, og enginn lagði illt til gamalmennisins við fiskasteininn.

En Snjólfur hafði bæði augun og eyrun hjá sér. Inn um dyrnar, sem ætíð stóðu opnar, sá hann yfir væna skák af innri hluta skálans og sá og heyrði allt, sem þar gerðist. Hann sá húsmóður sína í svip, hvað eftir annað, er hún gekk á milli gestanna, prúðbúin, hýr og brosandi. Aldrei á ævi sinni hafði hann séð hana fegri. Aldrei á ævi sinni hafði hann séð neina konu, sem eins hafði gagntekið huga hans. Hann sá einnig Smið hirðstjóra, þennan glæsilega ræningjahöfðingja, með ofstopa og óskammfeilni í hverjum drætti í svipnum, sá hann gera sig blíðan við hana og aldrei líta af henni. - Þegar allir settust að borðinu, missti hann sjónar af þeim báðum og öllum öðrum, en heyrði masið, hnífakliðinn og skálaskvaldrið.

En hann sá þau bæði fyrir því. Húsfreyjan vék aldrei frá innri augum hans, og Smiður var alltaf einhvers staðar í nánd við hana. Þessi kona var orðin honum ímynd allra kvenlegra kosta og allrar kvenlegrar prýði. Aldrei hafði hann fundið það fyrri, hve innilega vænt honum þótti um hana. Aldrei hafði honum verið það eins kært og nú að mega vera auðvirðilegasti þjónn hennar. Hann langaði til að tilbiðja hana eins og dýrling, - kasta sér fram fyrir fætur hennar og segja: Vertu mér náðug. - Blóðið sauð og svall í æðum hans, er hann hugsaði um hana. Hann tvíhenti sleggjuskaftið, og það lá við, að hann gleymdi því, að hann væri Skreiðar-Steinn. Hann réð sér ekki fyrir óró, fyrir einhverri kitlandi þrá eftir því að mega leggja lífið í sölurnar fyrir þessa konu, sem hann vissi nú í hættu stadda, og sýna henni það, hve hjartanlega dýrmæt hún væri honum. - Honum fannst afbrýðin ætla að gera sig örvita. Hann hataði þennan glæsilega hirðslána, sem var að gera sig stimamjúkan við hana. - Ó, að helvískur hausinn á honum væri kominn þar á milli steinsins og sleggjunnar.