Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/7

Það er sagt að Hákon jarl Grjótgarðsson kom til Haralds konungs utan af Yrjum og hafði lið mikið til fulltings við Harald konung. Eftir það fór Haraldur konungur inn í Gaulardal og átti þar orustu og felldi þar tvo konunga og eignaðist síðan ríki þeirra en það var Gauldælafylki og Strindafylki. Þá gaf hann Hákoni jarli yfirsókn um Strindafylki.

Eftir það fór Haraldur konungur inn í Stjóradal og átti þar hina þriðju orustu og hafði sigur og eignaðist það fylki. Eftir það söfnuðust saman Innþrændir og voru komnir saman fjórir konungar með her sinn, sá einn er réð Veradal, annar réð fyrir Skaun, þriðji Sparbyggjafylki, fjórði af Eynni innri. Sá átti Eynafylki. Þessir fjórir konungar fóru með her í mót Haraldi konungi en hann hélt orustu við þá og fékk sigur en þessir konungar féllu sumir en sumir flýðu.

Haraldur konungur átti alls í Þrándheimi átta orustur eða fleiri og að felldum átta konungum eignaðist hann allan Þrándheim.