Heimskringla/Haraldar saga hárfagra/8

Heimskringla - Haraldar saga hárfagra
Höfundur: Snorri Sturluson
8. Haraldur vann Naumdælafylki

Norður í Naumudal voru bræður tveir konungar, Herlaugur og Hrollaugur. Þeir höfðu verið að þrjú sumur að gera haug einn. Sá haugur var hlaðinn með grjóti og lími og viðum ger. En er haugurinn var alger þá spurðu þeir bræður þau tíðindi að Haraldur konungur fór á hendur þeim með her. Þá lét Herlaugur konungur aka til haugsins vist mikla og drykk. Eftir það gekk Herlaugur konungur í hauginn með tólfta mann. Síðan lét hann kasta aftur hauginn.

Hrollaugur konungur fór upp á haug þann er konungar voru vanir að sitja á og lét þar búa hásæti konungs og settist þar í. Hann lét leggja dýnur á fótpallinn er jarlar voru vanir að sitja. Þá veltist Hrollaugur konungur úr konungshásætinu og í jarlssæti og gaf sér sjálfur jarlsnafn. Eftir það fór hann móti Haraldi konungi og gaf honum allt ríki sitt og bauð að gerast hans maður og sagði konungi alla sína meðferð. Þá tók Haraldur konungur sverð og festi á linda honum og hann hengdi skjöld á háls honum og gerði hann jarl sinn og leiddi hann í hásæti. Með því gaf hann honum Naumdælafylki að yfirsókn og setti hann þar jarl yfir.

Haraldur konungur fór þá aftur til Þrándheims og dvaldist þar um veturinn. Jafnan síðan kallaði hann heimili sitt í Þrándheimi. Þar setti hann hinn mesta höfuðbæ sinn sem Hlaðir heita.