Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ásný, Signý og Helga

Það var eitt sinn karl og kerling í koti; áttu þau þrjár dætur; hét ein Ásný, önnur Signý og þriðja Helga.

Eitt sinn réri karl; kemur þá hendi upp á borðstokkinn og er sagt að það skyldi drepa hann ef hann gæfi sér ekki Ásnýju. Karl kýs það heldur og lofar því. Þegar hann kemur heim um kvöldið þá er barið á dyr. Hann segir Ásnýju [að fara] til dyra. Hún fer. Sér hún þá að þar er karl kominn með meis. Hann spyr hana hvurt hún vili heldur að [hann] beri hana eða dragi, „því nú tek ég þig; faðir þinn gaf mér þig“. Hún segir: „Dragðu mig.“ Hann fer á stað, kemur að hellir einum. Þá spyr hann hvurt hún vili heldur sofa hjá sér eða liggja þarna í skotinu. Hún kýs heldur að vera í skotinu og kastar hann henni þangað. Annan og þriðja dag rær karl og fer allt á sömu leið og kemur þar að hann hefur lofað öllum dætrum sínum; og [sækir] karl þær að kvöldi og flytur þær allar til hins sama hellirs er hann flutti Ásnýju. Karl spyr Helgu hvurt hún vili eiga sig, en hún kvað vera nógan tíma eftir til að tala um það. Fer hún þá að sópa hellirinn því ekki er of þrifalegt. Finnur hún þá systur sínar þar í skotinu, tekur þær og veitir þeim beina.

Nokkuru seinna sendir hún karl á stað með poka sem hún lét þær í með mörgu öðru, gulli og gersemum. Hann spur: „Hvað er í pokanum?“ Hún kvað það vera roð og rustasneiðar sem hún ætli að senda foreldrum sínum. Hún segir að hann megi ekki skoða í pokann; hún muni sjá ef hann gjöri það. Fer nú karl á stað með pokann og finnst hann þungur. Segir hann þó:

„Aldrei skal ég í belginn bauka
þó brotni í mér hryggurinn.
Hýrt er augað í Helgu minni,
heima hún sér gegnum hellirinn,
holtin öll og steina.“

Þegar karl kemur að kotinu kastar hann niður pokanum á hellu og handbrýtur stúlkuna, en það var Ásný. Sömuleiðis daginn eftir þegar hann ber heim Signýju þá lærbrýtur hann hana. Fer hann þá heim til sín og Helga er hjá honum þrjú ár; á með honum þrjú börn.

Eitt sinn spyr hann hvurt hún vili ekki fara að giftast sér. Hún lætur það svo vera og segir honum hann skuli fara að bjóða fólki sínu; hún ætli ekki að bjóða foreldrum sínum. Karl fer nú á stað, hún að tilreiða allt á meðan. Ber hún þá allt fémætt út úr hellirnum, tekur tréstólpa og klæðir hann í fötin sín, setur á stól, breiðir á borð, gjörir sig að tröllkonu og fer á stað með börnin í poka. En þegar hún er komin nokkuð á leið mætir hún fyrsta hópnum. Það spyr: „Komstu að hellir karls?“ Hún segir mjög dimmt: „Kom ég þar.“ „Hvurnin var þar að koma?“ sagði það. „Gott,“ segir hún, „breitt var á bekki, brúður sat á stól.“ Mætir hún nú öðrum og þriðja og var karl í þeim síðasta. Hann spyr: „Komstu að hellir mínum?“ „Kom ég þar,“ segir hún. „Hvurnin var þar að koma?“ segir hann. „Gott,“ segir hún, „breitt var á bekki, brúður sat á stól.“ „Flýtum oss,“ segir karl, „falleg verður hún Helga mín núna.“ Kemur það nú að hellirnum og sér að brúður situr. Þegar karlinn skoðar betur sér hann hvað um er og segir: „Þessu mun olla tröllkona sú er við fundum,“ og hrópar: „Hrynji nú yfir oss hellir minn, Helga mín er orðin að tréstólpa!“ Og hellirinn hrundi og allt varð til þar undir. En Helga fór með börn sín heim til foreldra sinna; ólust þau þar upp og urðu mannvænleg. Svo sótti hún gersemarnar og flutti heim.