Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri
Áttundi flokkur: Ævintýri
Af því sem áður er sagt í innganginum fyrir sjöunda flokki er auðráðið að ævintýrunum[1] er svo sem sjálfskipaður bás útilegumannasögunum til annarar handar sem þeim svipar víða til. Af því ævintýrin segja nálega öll frá „kóngi og drottningu í ríki sínu og karli og kerlingu í koti sínu (garðshorni)“ eða þá frá börnum þeirra kynni í fljótu bragði að virðast sem þetta væru eintómar útlendar sögur því aldrei hefði verið kóngur og drottning í ríki sínu á Íslandi. En þess er þó að gæta að þessar sögur eru engu síður skáldskapur þjóðarinnar en allar hinar, og engan veginn er þeim snúið úr útlendum ævintýrum á íslenzka tungu.[2] Mér liggur nærri við að segja að ævintýrin séu elzt allra munnmælasagna hér á landi, já, að þau séu jafngömul landnámi og byggð landsins. Ég ímynda mér sumsé að þeir sem fyrstir komu út hingað frá Noregi og námu hér land hafi verið því kunnugastir hvernig smákóngum, nesjakóngum og fylkiskóngum var þar varið af því landnámsmenn fóru einmitt úr Noregi um það bil sem Haraldur hárfagri var að brjóta slíka smáherra undir sig og að með þeim hafi þessar sagnir komið út hingað. Það er einkennilegt við þessar sagnir að þær eru svo auðveldar, barnalegar og óbrotnar þó að á hina hliðina komi fram í þeim nógur nornaskapur og álög, ýmiss konar illþýði og óþjóð, og svipar þeim í þessu mjög til eddusagnanna og annara fornsagna. Þó víst megi telja að ekki séu öllu færri ævintýri til á íslandi en útilegumannasögur verður að tjalda því sem til er af hinum fyrrnefndu, svo úr garði gerðum sem mér hafa borizt þau að höndum.
Eftirlætis- og olnbogabörn kónga og kotunga
breytaLaun dyggða og hegning ódyggða
breyta- ↑ Það getur verið að orðið ævintýri þyki hér tekið í of þröngri merkingu þar sem það grípi ekki yfir nema sögur af kóngi og drottningu, karli og kerlingu; því eftir uppruna sínum þýði það sérhverja skáldsögu sem að sögnum fer. Þetta getur verið, en mér finnst ævintýri samsvari bezt þýzka orðinu Märchen og að þessar sögur séu líkastar þeim sem Þjóðverjar kalla því nafni.
- ↑ Ég undantek Mjallhvít sem var íslenzkuð hérna um árið eftir dönsku þýðingunni úr Grimms Kinder- und Hausmärchen og prentuð í Kaupmannahöfn 1852.