Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Ólinpía og tíu bræður hennar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Ólinpía og tíu bræður hennar

Kóngur hét Agnar; hann átti drottning er Albína hét og með henni tíu sonu og var hún í ellefta sinn ólétt. Bar nú so við að Agnar var kallaður til að verja eitt land er hann átti. Sagði hann Albínu ef hún nú ætti ekki son skyldi hann drepa alla sonu þeirra. Yngsti þeirra bræðra var átta ára. Fór nú Agnar leiðar sinnar til stríðsins. Var nú Albína mikið hrygg í huga. Lét hún nú langt út á skógi búa djúpt og stórt jarðhús og lét þangað bera allt er þeir við þurftu langan tíma. Sagði hún þeim að hún léti svart flagg á borgina ef dóttir væri, en [flagg] föður þeirra ef sonur væri. Gengu þeir nú í jarðhúsið og á hvurjum degi skoðuðu þeir hvurt ekki væri flaggið komið, og Albína kveið fyrir meir en frá megi segja þeirrar tíðar er hún barnið skyldi eiga.

Kom nú að því að hún ól barnið sem var fögur mær og var nefnd Ólinpía. Sáu þeir nú svart flagg og hrópuðu allir: „Ó, þú vonda systir ollir okkur dauða!“ Grét nú Albína yfir óláni sínu og þeirra. Kom nú Agnar heim og frétti að dóttir væri. Fer hann nú til drottningar og vill nú láta vera sem hann heitið hafi og segist hún vera búin að afljúka því hroðaverki. Og er Ólinpía var ellefu ára var hún ætíð að spyrja móður sína hvurt hún ekki hefði átt fleiri barna en sig og sagði aumingja móðurin nei. En Ólinpía sá hana alltaf bregða litum er hún um það talaði og elti hana sí og æ á röndum þar til hún sagði henni allt það sanna, og varð barngreyið hissa á heitorði föður síns. Bað hún nú móður sína dag hvurn að lofa sér að finna bræður sína og fyrir beiðni hennar má hún nú til og láta það ettir henni. Og er hún þangað að kemur um miðjan dag þá hittir hún sinn yngsta bróður sem var þá nítján ára. Hann spur hana hvaðan hún sé hingað komin sem enginn komi; en hún segist vera hans einasta systir. Verður honum bilt við svar hennar og biður hana sem fljótast forða lífi sínu – „því verðir þú hér máttu viss vera að bræður þínir drepa þig því oft hafa þeir talað um það sín á milli að næðu þeir þér skyldu þeir hefna sín grimmilega á þér.“ Var Ólinpía so áköf við bróður sinn að hann hét henni að reyna að blíðka bræður hennar. Um kvöldið komu þeir heim og hvíldu þeir sig litla stund. Kom nú sá yngsti eins og vant var til þeirra með mat þeirra og fór hann að tala á víð og dreif og spurði þá að hvurt þeir mundi nú gefa systir þeirra líf; en sá elzti sagði að so framt hún kæmi skyldu þeir kvelja úr henni lífið; og jókst nú tal þeirra so lengi að þeir sögðust mundi gefa henni líf. Þá sagðist hann ætla að sækja hana og er nú samtal þeirra þar til að hún vildi gangast undir þeirra kosti sem voru að þjóna þeim, elda fyrir þá, búa um þá. Og er leið að sumardegi fyrsta gekk hún út á skóg og fékk sér indæl blómstur og ætlaði að gefa heim á sumardag fyrsta; og er hann kom gaf hún þeim blómstur sín, og er þeir voru búnir að taka við þeim flugu þeir allir upp og urðu að hröfnum. Varð hún nú frá sér numin af óláni sínu og bræðra sinna. Ráfaði hún nú þar til er hún kom að steini einum og settist hún þar niður, og kom þar ein gömul kona og spurði því so illa [lægi] á henni. En hún spurði hana nú ráða og bað hana nú ráðleggja sér hvur ráð hún skyldi hafa, og sagði konan henni að í þrjá mánuði mætti hún ekki orð segja fyrri en þeir liðnir væru. Gekk hún nú hingað og þangað.

Nú er að segja að kóngurinn ettir þann tíma kom heim og varð hann nú so reiður að Albína skyldi nú vera búin að drepa Ólinpíu dóttur þeirra. Nú lét hann búa til stórt bál og binda hana á stól. Kom nú Ólinpía þangað og allir hrafnarnir voru að garga yfir bálinu og gekk nú Ólinpía að stólnum og umfaðmaði hana og mælti: „Nú er tími kominn að ég tala megi og vona ég þögn mín megi snúast upp í gleði og gaman.“ Urðu nú bræður hennar lausir við hami sína og duttu þeir í bálið. Kom nú Agnar kóngur fram að bálinu og umfaðmaði hann nú börn sín og konu og bað það fyrirgefningar á öllu og ríkti það allt til ellidaga í lukku og ánægju.

Lýkur so þeirra sögu.