Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þorsteinn karlsson og hesturinn Gullskór

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Þorsteinn karlsson og hesturinn Gullskór

Karl og kerling buggu í afdal einum; þau áttu þrjá syni er hétu Sigurður, Sigmundur og Þorsteinn. Þorsteinn var eldseti og olnbogabarn foreldra sinna. Þegar hinir eldri synir þeirra voru þroskaðir beiddust þeir farareyris af foreldrum sínum því þeir ætluðu að fara til kóngsríkisins og afla sér frama. Fengu þeir það eftir efnum. Héldu þeir svo á stað. Þeir átu dagverð á völlum nokkrum. Komu þangað átta fuglar og létu mjög sultarlega. Þeir bræður gripu bein og steina og flæmdu þá í burtu. Eftir það komu þeir að steini einum. Þar úti stóð kona ein bláklædd. Sagðist hún ekki geta þakkað þeim fyrir drengina sína því þeir hefði limlest suma; – „því legg eg á ykkur að ykkur snúist allt til torlegðar það er þið eigið að starfa hjá konungi.“ Þeir bræður gerðu ekki annað en sköll að ummælum konunnar. Komu þeir að einu konungsríki. Konungur átti sér dóttur eina, fríða mær og væna. Föluðu þeir bræður hirðvist hjá konungi. Skamma stund höfðu þeir verið þar áður þeir hófu bónorð til konungsdóttur hvorn sem hún heldur vildi kjósa. Konungur tók því máli vel, en sagði þeir yrðu að leysa þrjár þrautir áður þeir fengju hennar. Þeir bræður létust þess albúnir. Fyrst skyldu þeir smíða höll handa konungi og taka til starfs að morgni, en hefði þeir ekki lokið hallarsmíðinni að næstkomandi morgni svo skyldu þeir verða afhöfðaðir. Þeir bræður gengu fúslega að öllu og tóku til starfa árla morguns og gekk þeim ágætlega. Um nóttina komu þangað átta menn og rifu allt jafnóðum niður svo að morgni stóð ekki steinn yfir steini og voru þeir bræður höggnir á næsta degi.

Nú víkur sögunni til Þorsteins karlssonar. Hann rís upp úr fleti sínu og dustar af sér öskuna; biður nú föður sinn fararefna, en karl tekur því þurrt. Fer hann þá til fundar við móður sína og biður hana búa sig á stað. Hún fær honum slíkt er fyrir hendi var. Hélt hann nú á stað. Kemur hann nú á áður umgetna velli og etur af nesti sínu. Komu þangað átta fuglar; hoppa þeir í kringum hann mjög sultarlegir. Hann molar þá niður af nesti sínu og kastar til þeirra. Urðu þeir mjög kátir og kroppuðu upp molana. Tekur hann saman nesti sitt. Eftir það kemur hann að steininum. Stendur hin bláklædda álfkona úti og þakkar honum fyrir drengina sína og lofar að styrkja hann eftir efnum. Heldur Þorsteinn áleiðis til hins sama konungsríkis, falar þar hirðvist og gengur það vel. Virðist hann hverjum manni því betur eftir því sem hann var þar lengur.

Eitt sinn um veturinn hefir Þorsteinn upp orð sín og biður konungsdóttur. Konungur tekur því vel, en segir hann verði fyrst að vinna þrjár þrautir: byggja sér höll og sækja hringinn góða og hestinn Gullskó sem frá sér hafi verið stolið um árið.

Þorsteinn tekur nú til hallarsmíðis. Koma þá til starfa með honum átta menn, synir álfkonunnar. Gengur hallarsmíðið vel og fljótt og þykir konungi vel vandað og kallar vel fallið að drekka þar í jólaveizlu. Þorsteinn spyr hann hvar hann eigi að leita hringsins. Það segist konungur ekki vita og verði hann að segja sér það sjálfum. Þorsteinn hittir nú álfkonuna og leitar ráða til hennar. Hún segir að skessur tvær hafi stolið honum og verði hann að sækja hann til þeirra. „Önnur þeirra á barn og skal ég svo um sjá að það huggist ekki þó þær beri til þess gull og gersemar allar, fyrr en hringurinn kemur; þá mun það þagna. En atgeir þinn skaltu festa um þverar hellisdyr.“ Þorsteinn heldur nú leiðar sinnar til hellisins. En er þær höfðu huggað barnið leggja þær sig fyrir, en á meðan grípur Þorsteinn gullið og skundar út. Vakna þær nú og sakna gullsins, hlaupa út og falla í tvennt um atgeirinn. Heldur Þorsteinn nú heim og færir konungi hringinn. Er nú eftir þriðja þrautin. Þorsteinn fer enn á fund álfkonunnar og biður hana eiga það sem fémætt sé í hellinum. Vísar hún honum til hestsins Gullskós. Segir hún hann sé stolinn af þremur jötnum og séu þeir í skála einum og koparhurð fyrir skálanum. Segir hún hann verði að sæta því lagi að koma þangað á Jónsmessunótt því þá sofi þeir; hesturinn standi með öllum búningi í hellinum og skuli hann hlaupa á bak honum og skella svo hart aftur skálahurðinni að þeir vakni; skuli hann svo hleypa á móðuna sem þar sé skammt frá, en það sé einkis hests yfir að synda nema Gullskós. Þorsteinn heldur nú leiðar sinnar og ferst allt að óskum. En er hann er kominn á bak keyrir hann Gullskó, skellir aftur koparhurðinni svo hún hrekkur í mola. Við það vakna risarnir og hlaupa út og á eftir honum, en drukkna allir í móðunni. Þorsteinn hittir nú álfkonuna og þakkar henni fyrir allt gamalt og gott eins og margir gera, vísar henni til skálans og bað hana eiga það sem fémætt væri. Finnur hann nú konung, færir honum hestinn. Er nú við brúðkaupi búizt og giftist Þorsteinn með sama og varð kóngur eftir tengdaföður sinn.