Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Þrír karlssynir

Það var einu sinni kall og kelling [sem] bjuggu í garðshorni og áttu þrjá syni; einn hét Vondur, annar Verri og þriðji Verstur. Þeir ólust nú allir upp þar í garðshorni og fóru engin orð af því hvörnin þeir voru lyndir nema þeir tömdu sér í ungdæmi að tala eftir hvörjum manni og líka talaði hvor eftir öðrum og gátu þeir svo orðið í málróm og orðatiltæki eins og hvör sem þeir hermdu eftir; svo brugðu þeir þessari kunst fyrir stundum þegar þeir voru orðnir stórir. Eftir að kall og kelling voru dáin þá fékk Vondur sér konu og varð nokkuð fjáður bóndi þar í garðshorni. En bræður hans lögðust út og byggðu skála þar á eyðifjalli nokkuð frá. Svo voru þeir að koma ofan í byggðina og smástela. Þá léku þeir helzt á Vond bróður sinn.

Eitt haust bar svo til að Vondur skar margt fé og einn uxa. Allir sauðarmagálarnir og lærin af uxanum var hengt upp í eldhús, en hitt var saltað niður. Bræður komust nú á snoður um þetta og hugsuðu gott til hreifis að fara heim og ná sér einhvorju úr eldhúsinu. Eina nótt fara þeir nú heim að garðshorni og Verri kemst þar inn um eldhúsgluggann og tekur alla magálana og annað uxalærið. Svo fóru þeir nú með þetta og hugsuðu sér að sækja hitt lærið aftur það fyrsta.

Um morguninn brá hjónunum illa við þegar þetta var allt burtu úr eldhúsinu. Vondur segir þetta hafi enginn gjört nema bræður; sér hefði raunar ekki komið það óvart því hann hefði gefið þeim gætur þegar þeir hefðu komið í eldhúsið á deginum; kvað þeim hefði þá verið starsýnt á það sem upp í því hefði verið. Vondur tók nú lærið sem eftir var og lét það í jarðhús sem hann bjó til undir rúminu þeirra hjónanna. Nóttina eftir fór nú Verstur heim og ætlaði að stela lærinu sem eftir var. En þegar hann finnur að það er burtu úr eldhúsinu þá fer hann í fjósið, leysir allar kýrnar og hnýtir þær saman á hölunum. Um nóttina vaknar Vondur við einhvör ólæti í fjósinu, fer fram og finnur hvörnin þar er komið. Honum gekk nú illa að leysa sundur kýrnar svo hann er nú lengi í fjósinu. En á meðan fór Verstur inn til konunnar og upp í hjá henni og gerði sig nú eins og Vondur í málinu og fer að segja henni frá athæfi bræðra sinna í fjósinu og segist vera orðinn frá sér numinn bæði af kulda og sulti og spyr hvört hún muni nú ekki eftir því, gæzkan sín, hvar hann hefði látið lærið sitt úr eldhúsinu. „Og manstu það ekki, gæzkan mín, sem lézt það í jarðhúsið undir rúminu okkar,“ segir konan. „Svo er nú þetta,“ segir hann; „það er ekki von ég muni það. En ég er nú allur hjá mér af þessum ærli. Ég ætla nú að taka mér fáeina munnbita af lauk.“ Svo fór hann nú í jarðhúsið og laumaðist þaðan burtu með lærið. En þegar hann var nýkominn út í náttmyrkrið þá kom Vondur inn og sagði nú konu sinni frá því hvað kýrnar hefðu sterklega verið fjatraðar saman á hölunum og hann hefði ekki ætlað að verða maður til að leysa þær sundur. „Þarf ég nú oft að heyra að tarna, gæzkan mín?“ segir hún; „varstu ekki búinn að segja mér frá því áðan?“ „Ég að segja þér frá því áðan? – sem ekki hef komið inn fyrr en núna,“ segir Vondur. „Ertu orðinn galinn, maður?“ segir hún, „þú sem komst inn áðan og sagðir með fleiru að þig langaði í bita af uxalærinu og spurðir mig eftir því hvar þú hefðir látið það og ég sagði þér til þess í jarðhúsinu.“ „Og nú gengur yfir mig,“ segir Vondur og fór að þreifa í jarðhúsið og finnur að lærið er horfið. „Þessi sem kom inn áðan hefur verið Verstur bróðir minn því burt er lærið; ekki þarf honum ráð að kenna.“ Nú svaf Vondur það sem eftir var af þessari nóttinni; en nóttina eftir fór hann á fund bræðra sinna og hugsaði nú að klekkja á þrjótunum. Það mátti komast tvívegis að skálanum frá garðshorni; annar vegurinn var langur og greiðfær, en hinn styttri mikið, en verri yfirferðar. Vondur fór nú samt skemmri leiðina og kemur til skálans á vökunni og sá að rauk hjá þeim bræðrum. Hann fer upp á eldhúsgluggann og sér hvar þeir sitja þar yfir fullu kjöttrogi, en soðpottur opinn er yfir eldinum. Hann hugsar nú að glettast dálítið til við þá og pissar inn um gluggann ofan í pottinn. Þeim verður hverft við þetta og segja: „Æ-æ, æ-æ! Nú er hún móður mín komin afturgengin og blaðrar nú tungunni.“ Og um leið þutu báðir á fætur og stukku eitthvað út í náttmyrkrið. Þegar Vondur sá þetta gekk hann á það lagið og hljóp á eftir þeim skrækjandi og með alla vega ljótum hljóðum svo þeir urðu vitlausir af hræðslu og drápu sig fram af björgum. En Vondur varð eigandi að öllu því sem var í skálanum og bjó ánægður í garðshorni sína lífstíð eftir þetta.